Fréttir

Umsóknir í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða

Í  liðinni viku rann út umsóknarfrestur fyrir styrki í næstu úthlutun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Alls bárust um 90 umsóknir frá tæplega 60 aðilum en eftir er að fara yfir og taka afstöðu til þess hvort allar umsóknir uppfylli sett skilyrði. Heildarupphæð sem sótt er um er vel á fjórða hundrað milljónir króna en í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að hlutur sjóðsins af gistináttagjaldi er áætlaður um 75 milljónir króna. Að sögn Sveins Rúnars Traustasonar, umhverfisstjóra Ferðamálastofu og starfsmanns sjóðsins, er enn of snemmt að spá fyrir um hvenær niðurstaða stjórnar sjóðsins varðandi úthlutun liggur fyrir en framundan er mikil vinna við yfirferð umsókna. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða er vistaður hjá Ferðamálastofu. Samkvæmt lögum nr. 75/2011 um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða í opinberri eigu eða umsjón um land allt. Þá skal með fjármagni úr sjóðnum leitast við að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði. Stjórn sjóðsins skipa Albína Thordarson arkitekt, formaður Sævar Skaptason, fulltrúi SAF Anna G. Sverrisd, fulltrúi SAF Guðjón Bragason, Samb. Íslenskra Sveitarfélaga Nánari upplýsingar veitir Sveinn Rúnar Traustason umhverfisstjóri Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða með tölvupósti sveinn@ferdamalastofa.is  Nánar um Framkvæmdasjóð ferðamananstaða Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com
Lesa meira

VAKINN á Vestnorden ? afsláttur framlengdur

VAKINN verður kynntur á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Hörpu  2. og 3. október næstkomandi. Af því tilefni hefur verið ákveðið að framlengja afsláttinn á umsóknargjaldinu til 1 nóvember næstkomandi. Sem sagt 40% afsláttur, það munar um það. Gæða- og umhverfisverkefnið VAKINN er sem kunnugt er unnið í náinni samvinnu Ferðamálastofu, Nýsköpunarmiðstöðvar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Ferðamálasamtaka Íslands, enda mikilvægt að breið samstaða skapist um þennan málaflokk. Ákveðið var að byggja á kerfi því sem unnið er eftir á Nýja Sjálandi og kallast Qualmark. Meginmarkmið kerfisins er að auka og efla gæði í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja hér á landi. Sjá nánar á www.vakinn.is Um VestnordenVestnorden ferðakaupstefnan er haldin árlega af Ferðamálasamtökum Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðamála. Vestnorden haldin til skiptis af löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Á Vestnorden koma saman ferðaþjónustuaðilar á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum og kaupendur ferðaþjónustu, eða ferðaheildsalar, víðs vegar að úr heiminum. Þá koma einnig til kaupstefnunnar blaðamenn og boðsgestir. Í tengslum við Vestnorden gefst ferðaheildsölunum einnig kostur á að fara í  kynnisferðir til landanna þriggja.  
Lesa meira

Hvað á landið að heita?

Tekið verður við hugmyndum að öðru nafni fyrir Ísland sem lið í markaðsherferðinni Ísland – allt árið, eftir að umræður spunnust um það á samfélagsmiðlum verkefnisins hvort nafnið „Ísland“ væri nægilega lýsandi nafn á eyjunni. Besta uppástungan verður verðlaunuð í lok vetrar. Í ágúst spunnust miklar umræður um það á samfélagsmiðlum Inspired by Iceland hvort nafnið Ísland væri réttnefni, miðað við íslenska náttúru og veðurfar. Um 10.000 manns tóku þátt í þessum umræðum með einu eða öðru móti, og nokkur hundruð uppástungur bárust að meira lýsandi nafni fyrir landið. Í ljósi þess mikla áhuga sem þetta vakti var ákveðið að bregða á leik með ferðamönnum og efna til samkeppni um besta valkostinn fyrir meira lýsandi nafn á eyjunni. „Fólk sem kemur hingað er iðulega tilbúið að segja frá landinu og deila reynslu sinni. Þegar umræður spunnust um nafnið var augljóst að fólk hafði óþrjótandi hugmyndir að nöfnum sem lýstu ekki bara landinu, heldur líka tilfinningum fólks til landsins. Í stað þess að reyna að útskýra hvernig nafnið væri tilkomið, ákváðum við að hafa gaman af þessu og fagna þessum mikla áhuga á landinu og efna til samkeppni um hugmynd að nafni sem væri lýsandi fyrir land og þjóð. Við munum svo nota bestu hugmyndirnar í kynningarstarfi í markaðsátakinu Ísland – allt árið í vetur,“ segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðumaður markaðssóknar Íslandsstofu. Hægt verður að setja fram tillögur og skoða þær á vef Inspired by Iceland. Þá verður komið upp bás í Leifsstöð þar sem fólk getur skilað inn hugmyndum. Við lok samkeppninnar verður blásið til hátíðarhalda þar sem vinningstillagan verður kynnt og vinningshafinn mun hljóta veglegan sess í tengslum við hið nýja nafn. Nánar er hægt að kynna sér þennan skemmtilega leik á vef Inspired by Iceland
Lesa meira

Fjölda ferðatengdra verðlauna í myndaleik Ísland er með´etta!

Í vikunni hófst myndaleikur á vefsíðunni islandermedetta.is þar sem almenningur getur sent inn myndir af upplifun sinni af landinu og unnið fjölda skemmtilegra ferðatengdra vinninga. Í sumar hófst átak í sameiginlegri kynningu innlendrar ferðaþjónustu og vefsvæðið islandermedetta.is var opnað. Þar geta landsmenn fundið allra handa ævintýri og upplifanir sem eru í boði um allt land. Öllum býðst að deila reynslu sinni af landi og þjóð með skemmtilegum myndum og nú hafa allir sem eiga skemmtilega myndir í fórum sínum fengið enn betri ástæðu til þess að deila myndum á vefinn: Tækifærið á að vinna skemmtilega ferðatengda upplifun og vinningar eru fjölmargir. Nú þegar hefur fjölda skemmtilegra mynda verið hlaðið inn á vefinn og allir geta skoðað herlegheitin. í næstu viku verður tilkynnt um sigurvegara, en alls eru átta stórir ferðavinningar í pottinum auk fjölda aukavinninga. Það eina sem þarf til að taka þátt er að hlaða inn mynd úr sumarfríinu, skemmtilegri vetraferð, nýlegri berjatínslu, eða hverju sem lýsir upplifun af landinu og þeim endalausu skemmtilegu möguleikum sem það hefur upp á að bjóða.  Keppendur þurfa að skýra innsendar myndir með lýsandi stikkorðum eða setningum. Þær myndir sem lýsa best, að mati dómnefndar, skemmtilegum augnablikum af innlendum upplifunum eru sigurstranglegastar. Myndirnar þurfa alls ekki að vera bundnar við frí eða sumarleyfi. Sáraeinfalt að taka þátt í gegnum vef,  snjallsíma eða tölvupóstAllir geta hlaðið inn myndum á vefsíðuna. Innskráðir notendur á Facebook geta hlaðið inn myndum en einnig er hægt að sækja myndaleiks síma-app fyrir Android og iPhone sem gera notendum kleift að setja inn myndir á vefinn. Instagram og twitter-notendur geta sent inn myndir sjálfkrafa með því að merkja þær #islandermedetta. Fyrir þá sem hafa ekki aðgang að framangreindu er einfalt að senda tölvupóst á netfangið leikur@islandermetta.is með mynd sem viðhengi og þá birtist hún sjálkfkrafa á vefnum. Nánar um vinninga og myndaleikinn á islandermedetta.is. Vefurinn islandermedetta.is hittir í mark hjá ævintýraþyrstum ÍslendingumLandsmenn hafa þegar tekið vel við sér og heimsóknir á vefinn skipta tugþúsundum nú þegar. Athygli vekur að mælingar sína að notendur verja drjúgum tíma til þess að skoða vefinn og ljóst að það er einfalt að gleyma sér við að skoða þá fjölbreytilegu möguleika sem þar eru kynntir. Allir skráðir aðilar í ferðaþjónustu hafa aðgang að bakenda vefsins og geta hlaðið inn fjölda upplýsinga um þjónustu sína. Nánari upplýsingar veitir:Sigrún Hlín SigurðardóttirÞróunarstjóri markaðsmála Ferðamálastofusigrun@ferdamalastofa.is sími: 892 0675 www.islandermedetta.is
Lesa meira

Styrkir til skipulags og hönnunar áfangastaða fyrir ferðamenn

Ferðamálastofa auglýsir eftir umsóknum um styrki til skipulags á áfangastöðum fyrir ferðamenn sem ekki eru í eigu eða umsjón ríkisins.  Um er að ræða 3 - 4 styrki að upphæð allt að kr. 3 milljónir.  Um getur verið að ræða þarfagreiningu, stefnumótunar-, skipulags- og hönnunarvinnu. Athugið ekki er um framkvæmdastyrk að ræða.  Lögð er áhersla á heildaryfirbragð áfangastaðar þar sem staðarvitund og vistvæn nálgun eru sett í öndvegi.  Umsóknarfrestur:Umsóknarfrestur er til og með 31. október 2012. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar. Styrkþegar verða kynntir á Ferðamálaþingi 22. nóvember 2012. Við undirbúning umsóknar skal hafa eftirfarandi í huga: Afurð verkefnisins skal vera heildarskipulag, hönnun og framtíðarsýn fyrir áfangastaðinn.  Skilyrt er að um sé að ræða áfangastaði sem eru opnir almenningi og að aðgengi allra verði tryggt sem frekast er kostur. Að jafnaði getur styrkur ekki numið hærri upphæð en 75% heildarkostnaðar.  Við yfirferð umsókna er tekið mið af markmiðum ferðamálaáætlunar 2011-2020, sjálfbærnisjónarmiðum, nýnæmi o.fl.  Við hönnunina skal horft til áherslna Ferðamálastofu er varða skipulag og hönnun, útlit og gæði mannvirkja og merkinga sem koma m.a. fram í "Ferðamálaáætlun 2011-2020", “Menningarstefnu í mannvirkjagerð”, leiðbeiningarritinu „Góðir staðir“ og „Handbók um merkingar á ferðamannastöðum og friðlöndum”. Við mat á umsóknum er horft til gæða og trúverðugleika umsóknar. Umsókn og fylgiskjölUmsókn skal senda inn á sérstöku umsóknareyðublaði, sjá hér að neðan, og henni þurfa að fylgja tiltekin gögn.  Í umsókn og fylgigögnum er kallað eftir eftirfarfarandi upplýsingum: Verkefnislýsingu og framtíðarsýn sem lýsir hugmyndinni með rökstuddum og skýrum hætti. Kostnaðar- og verkáætlun.  Skriflegu samþykki allra landeigenda og/eða umsjónaraðila. Afriti af gildandi aðalskipulagi og deiliskipulagi ef við á frá viðkomandi sveitarfélagi.  Afstöðumynd sem sýnir hvernig verkefnið fellur að gildandi aðalskipulagi ef það er til staðar.   Öðrum gögnum sem styrkt geta umsókn. Hverjir geta sótt um:Einstaklingar, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög að uppfylltum ofangreindum skilyrðum. Hvar ber að sækja um:Umsóknareyðublað er að finna hér fyrir neðan. Eyðublaðið er á word-formi og er best að byrja á að vista það á eigin tölvu áður en útfylling hefst.  Skipulag og hönnun áfangastaða fyrir ferðamenn - umsókn (Word) Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna Áður en ráðist er í gerð styrkumsókna er vert að kynna sér neðangreint efni: Menningarstefna í Mannvirkjagerð Ný Skipulagslög nr. 123/2010 „Góðir staðir“ - leiðbeiningarrit um uppbyggingu ferðamannastaða (PDF) Aðgengi fyrir alla bæklingurinn Handbók um merkingar (PDF 8,6 MB) Ferðamálaáætlun 2011-2020 Nánari upplýsingar veitir Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður AkureyriNetfang: elias@ferdamalastofa.is - Sími: 535-5510
Lesa meira

Hjólað á köldum svæðum er leikur einn

Ráðstefnan "Hjólum til framtíðar 2012 - rannsóknir og reynsla" verður haldin í Iðnó 21. september kl. 9 - 16. Í ár er áherslan á það sem efst ber á baugi í heimi hjólavísindanna og reynslu þeirra sem hafa eflt hjólreiðar í sínu nærumhverfi. Hjólreiðar á köldum svæðum Rannsókn um Hjólreiðar á köldum svæðum er eitt lykilerinda ráðstefnunnar. Þar kemur fram að öflugasti hópur hjólreiðamanna borgarinnar Oulu er á aldrinum 15 – 25 árs og um 30% þeirra hjóla árið um kring allra sinna ferða í allt að -30°frosti. Til samanburðar hefur þessi hópur hjólandi verið nánast ósýnilegur á Íslandi.  Til landsins koma virtir vísindamenn með fyrirlestra, m.a. frá Bretlandi og Finnlandi. Einnig verða innlendar hjólatengdar rannsóknarniðurstöður og rannsóknir kynntar auk þess sem farið verður yfir reynslu einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga af eflingu hjólreiða. Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra, Jón Gnarr borgarstjóri og Dr. Ari Kristinn Jónsson rektor HR munu ávarpa ráðstefnuna. Þorsteinn Hermannsson samgönguverkfræðingur, verður fundarstjóri dagsins. Árleg ráðstefnaÞetta er önnur ráðstefna Hjólafærni á Íslandi og Landssamtaka hjólreiðamanna sem haldin er í Evrópsku samgönguvikunni. Á síðasta ári bar hún nafnið Hjólum til framtíðar og nú er það Hjólum til framtíðar 2012- rannsóknir og reynsla. Á næsta ári, 20. sept. 2013, verður það Hjólum til framtíðar 2013; réttur barna til hjólreiða. Samvinnuverkefni margra aðilaHjólum til framtíðar 2012; rannsóknir og reynsla, er samvinnu verkefni fjölmargra aðila. Hjólafærni á Íslandi og Landssamtök hjólreiðamanna skipuleggja ráðstefnuna í góðri samvinnu við Reykjavíkurborg, Vegagerðina, Landlæknisembættið, Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Ferðamálastofu og fleiri góða aðila. Skráning til 19. septemberSkráning á ráðstefnuna er hér: Hjólum til framtíðar 2012; skráning Skráningu lýkur á miðnætti 19. sept. Aðgangur að ráðstefnunni er 4.500 kr. og 2.000 kr. fyrir námsmenn. Erindin hennar verða aðgengileg á vef www.lhm.is eftir ráðstefnuna. Ráðstefnan verður einnig í beinni útsendingu á netinu þannig að hún á að vera aðgengileg áhugasömum um víða veröld. Sent út á netinuÞeir sem eiga lengra að sækja geta fylgst með ráðstefnunni í beinni útsendingu á Netinu. Leiðbeiningar til að tengjast eru hér að neðan. Uppsetning á nýjustu útgáfu Java:Til að byrja með er nauðsynlegt að tryggja að tölvan sé með nýjustu útgáfu af Java forritinu (er á öllum tölvum en ekki víst að þið séuð með það nýjasta). Þannig að best er að byrja á að fara inn á www.java.com, hlaða þar niður nýjustu útgáfu (áberandi hnappur á miðjum skjánum) og setja upp. Þetta getur tekið nokkrar mínútur.  Tengjast fundinum:Til að tengjast fundinum er farið inn á þessa vefslóð sem verður virk skömmu áður en ráðstefnan hefst:https://fundur.thekking.is/startcenter/Join.xhtml?sinr=257111354&sipw=nv64Athugið að samþykkja þau skilaboð sem upp koma en í flestum tilfellum kemur tvívegis upp gluggi þar sem smellt er á „run“. Eftir það á fundur að hefjast. Allar nánari upplýsingar veitir Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastýra Hjólafærni á Íslandi í s. 864 2776 hjolafaerni@hjolafaerni.is Dagskrá Hjólum til framtíðar 2012 – rannsóknir og reynsla: 9.00 - 9.05 Setning borgarstjóra, Jóns Gnarr.   Hjólaskálin afhent; viðurkenning fyrir framúrskarandi hjólaeflingu. 9.05 – 9.50 Where have we come from? Where are we going to? Academic  Cycling Research.   Peter Cox, Senior Lecturer in Sociology at the University of Chester, Great Britain 9.50 - 10.10 Kaffihlé  10.10 – 10.30 Mat á gæðum hjólaleiða   Davíð Arnar Stefánsson, meistaranemi í landafræði við Háskóla Íslands 10.30 – 10.50 Hjólað til og frá vinnu: Vísindaleg reynslusaga með ögn af tilfinningasemi   Björn H. Barkarson, umhverfisfræðingur hjá VSÓ ráðgjöf    10.50 - 11.10 Hjólað í vinnuna, rannsókn á meðal liðsstjóra keppninnar   Jóna Hildur Bjarnadóttir, sviðsstjóri almenningsíþróttasviðs Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, 11.10 - 11.30 Hjólað í skólann – rannsókn á reiðhjólanotkun framhaldsskólanema og viðhorfi þeirra til hjólreiða.  Bjarney Gunnarsdóttir, íþrótta- og hjólafærnikennari, B.S. í íþrótta- og heilsufræði. 11.30 - 11.50 Áhrif umhverfisupplifunar á samgönguhjólreiðarfólk  Harpa Stefánsdóttir, arkitekt FAÍ, doktorsnemi i skipulagsfrædi vid Norwegian University of Life Sciences  11.50 – 12.50 Hádegismatur  12.50 – 13.00 Ávarp menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur  13.00 – 13.40 Winter cycling is an option   Jaakko Ylinampa, Director, Lapland´s Centre for Economic Development, Transport and the Environment 13.40 - 14.00 Allt á hreyfingu: Hjólreiðar og borgarrými   Karl Benediktsson, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands    14.00 - 14.20 Hjólastígar Reykjavíkurborgar – samstarf við Vegagerðina  Ólafur Bjarnason, samgöngustjóri Reykjavíkurborgar 14.20 - 14.35 Samgöngusamningar – er þess virði að láta fjármuni í þetta? Reynslan hjá Matís  Steinar B. Aðalbjörnsson, markaðsstjóri Matís 14.35 - 14.50 Kaffihlé  14.50 – 15.30 Pallborðsumræður: Hvernig eflum við hjólarannsóknir? Hreinn Haraldsson Vegamálastjóri, Peter Cox dósent í félagsvísindum við háskólann í Chester, Ásdís Hlökk Theodórsdóttir skipulagsfræðingur og aðjúnkt við HR, Jaakko Ylinampa forstjóri við Lapland´s Centre for Economic Development, Transport and the Environment og Harpa Stefánsdóttir, arkitekt FAÍ, doktorsnemi i skipulagsfræði.  15:30 - 15:40 Samantekt; Þorsteinn Hermannsson  15:40 – 15:50 Réttur barna til að hjóla:  Sesselja Traustadóttir og Morten Lange kynna ályktun Velo-City Global 2012 og Hjólum til framtíðar 2013 - virðum rétt barna til hjólreiða; á öllum aldri.    15:50 - 16:00 Ráðstefnuslit, Dr. Ari Kristinn Jónsson, rektor HR  16:00 - 17:00 Móttaka í Ráðhúsinu Fundarstjóri verður Þorsteinn Hermannsson, samgönguverkfræðingur hjá Mannviti. Þorsteinn stýrir einnig pallborðsumræðunum.   
Lesa meira

Umhverfisverðlaun 2012 - óskað eftir tilnefningum

Ferðamálastofa auglýsir eftir tilnefningum til Umhverfisverðlauna fyrir árið 2012. Verðlaunin hefur stofnunin veitt árlega frá árinu 1995 og er tilgangur þeirra að beina athyglinni að þeim ferðamannastöðum eða fyrirtækjum í ferðaþjónustu sem sinna umhverfismálum í starfi sínu og framtíðarskipulagi. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálastofu að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra að huga betur að umhverfi og náttúru og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hverjir koma til greina sem verðlaunahafar?Allir þeir sem tengjast ferðamálum og láta sig umhverfismál varða og vinna markvisst að því að viðhalda jafnvægi milli efnahagslegra, náttúrlegra og félagslegra þátta. Það geta verið einstaklingar, fyrirtæki eða félagasamtök. Tilnefningar sendist á skrifstofu Ferðamálastofu, Geirsgötu 9, 101 Reykjavík, merktar Umhverfisverðlaun eða með tölvupósti á umhverfisstjóra stofnunarinnar, Svein Rúnar Traustason, á netfangið sveinn@ferdamalastofa.is fyrir 15. október næstkomandi. Skjal til útfyllingarHér að neðan er skjal með spurningum og atriðum sem þurfa að vera í lagi þegar ferðaþjónustuaðilar eru tilnefndir. Skjal til útfyllingar vegna umhverfisverðlauna (Word-skjal) Nánari upplýsingar og listi yfir fyrri verðlaunahafa Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson - arctic-images.com    
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í júlí

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í júlí síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum á hótelum í júlí fjölgar um 12% Gistinætur á hótelum í júlí voru 254.900 samanborið við 227.500 í júlí 2011. Gistinætur erlendra gesta voru um 90% af heildarfjölda gistinátta í júlí en gistinóttum þeirra fjölgaði um 13% samanborið við júlí 2011. Á sama tíma fjölgaði gistinóttum Íslendinga um 8%. Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu voru 154.100 gistinætur eða um 14% fleiri en í júlí 2011. Á Suðurlandi voru 37.900 gistinætur á hótelum í júlí sem er rúmlega 10% aukning samanborið við fyrra ár. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 10%, voru 28.300 samanborið við 25.800 í júlí 2011. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig um 10% en þar var fjöldi gistinátta 11.700. Gistinætur á Austurlandi voru 12.700 og fjölgaði um rúm 7%. Gistinætur á Suðurnesjum voru 10.200 eða um 6% fleiri en í júlí 2011. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um rúm 18% fyrstu sjö mánuði ársinsGistinætur á hótelum fyrstu sjö mánuði ársins 2012 voru 1.026.100 en voru 866.900 fyrir sama tímabil árið 2011. Á þessu tímabili hefur gistinóttum erlendra gesta fjölgað um 20% á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 11%.  
Lesa meira

Nauðsynlegt að vita hverjir sækja þig heim

„Ég vil endilega hvetja ferðaþjónustuaðila almennt til að vera duglegri að halda saman upplýsingum um samsetningu gestahópsins því slíkt getur verið afar gagnlegt og er í raun nauðsynlegt að mínu mati,“ segir Sigurður Atlason, forstöðumaður Galdrasafnsins á Hólmavík. Sigurður hefur í mörg ár skráð niður þjóðerni þeirra sem koma á safnið og getur þannig fylgst með þróuninni. Frakkar að taka toppsætið?Svo dæmi sé tekið af ágúst þá voru gestir hátt í 5 þúsund og þar af voru Frakkar fjölmennastir af erlendum gestum eða 21,2%, Þjóðverjar 18,8% og Ítalir 11,4%. „Þjóðverjar hafa verið stærsti hópurinn undanfarin sumur en mér sýnist jafnvel stefna í að Frakkar gætu velt þeim úr efsta sætinu, sem væru þá nokkrar fréttir. En það kemur betur í ljós þegar ég tek saman tölur fyrir sumarið í heild. Þá hefur verið áhugavert að sjá nýjar þjóðir koma inn í verulegu mæli, t.d. Tékka og Ísraelsmenn,“ segir Sigurður. Að hans sögn eru Íslendingar sem fyrr fjölmennastir eða um fjórðungur þeirra sem koma í safnið. En hvað hag telur Sigurður sig hafa af því að halda utan um þessar upplýsingar. „Það skiptir þig auðvitað öllu máli að vita hverjir eru að heimsækja þig, bæði upp á markaðsstarf, hvaða tungumál er best að leggja áherslu á og fleira.“ Rangri ímynd viðhaldið af stöðunni á landsbyggðinni Góð umferð hefur verið í Galdrasafnið í sumar en það verður opið í allan vetur, líkt og verið hefur undanfarin sjö ár. „Það kom mér satt best að segja á óvart fyrsta veturinn hvað umferðin var mikil og hún hefur síðan aukist jafnt og þétt. Akkilesarhællinn er sú ímynd sem ég vil meina að ferðaskrifstofur og ferðaþjónustuaðilar á höfuðborgarsvæðinu viðhaldi af landsbyggðinni, að þar sé allt lokað á veturna. Það gengur afar illa að koma því inn hjá fólki að þannig er það ekki í dag. Það er mjög víða opið og fjölmargt hægt að gera. Þessu verður að fara að linna og ég skil satt best að segja ekki hvaða hag menn telja sig hafa af því að viðhalda þessari ímynd,“ segir Sigurður. Mynd: Uppvakningurinn á Galdrasafninu vekur jafnan óskipta athygli.  
Lesa meira

Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um hækkun viðisaukaskatts á gistingu

Eins og fram hefur komið hafa stjórnvöld nú kynnt hugmyndir um að hækka virðisaukaskatt í 25,5% um mitt árið 2013. Í ágúst 2012 fól fjármálaráðuneytið Hagfræðistofnun að vinna greinargerð um áhrif fyrirhugaðrar hækkunar virðisaukaskatts á komur ferðamanna og ríkissjóð. Skýrslun má nálgast hér að neðan hana unnu Kári S Friðriksson, MSc og Dr. Sveinn Agnarsson. Áhrif þess að hækka virðisaukaskatt á gistiþjónustu (PDF)
Lesa meira