Fara í efni

Seigla og þrautseigja í ferðaþjónustu

Vitinn á HúsavíkReynslan sýnir að ferðaþjónusta getur verið sveiflukenndur atvinnuvegur. Það er ekki aðeins að grunneftirspurnin geti verið breytileg heldur geta náttúruhamfarir eins og eldgos, innlendar efnahagsaðstæður eins og gengi krónunnar, kjarasamningar og verkföll og heimsfaraldrar eins og Covid-19 valdið verulegum sveiflum í bæði umsvifum í greininni og afkomu. 

Rannsóknarverkefnið snýr að því að meta aðlögunarhæfni og seiglu (e. „resilience“) í ferðaþjónustu, hvernig á að mæta áföllum og hvernig unnt er að efla þrautseigju í greininni. 

Áfangaskipting

Með því að verkefnið er nokkuð viðamikið er því skipt í áfanga. Var samið við Rannsóknamiðstöð ferðamála um fyrsta áfanga þess, að gera rannsókn á áhrifum COVID-19 á ferðaþjónustuna hér á landi. Verkefni RMF var skipt í tvo verkþætti. Sá fyrri snéri að því að gefa greinargóða yfirsýn yfir þá atburðarás sem fylgt hefur COVID-19 heimsfaraldrinum allt frá lokum febrúar og út desember 2020. Sömuleiðis var lagt mat á stöðu ferðaþjónustunnar við upphaf faraldursins. Þessi verkþáttur byggði fyrst og fremst á greiningu fyrirliggjandi gagna.

Í síðari áfanga rannsóknarinnar var sjónum beint enn frekar að því hvernig fyrirtæki og aðrir hagaðilar greinarinnar upplifðu þá krísu sem fylgdi Covid-faraldrinum og afleiðingar hennar. Reynt var að fá góða innsýn í stöðu fyrirtækjanna og áskoranir, hvernig
ferðaþjónustuaðilar upplifðu aðgerðir stjórnvalda og til hvaða
aðgerða þeir gripu rekstri sínum til varnar.

Fyrsta áfanga verkefnisins, í umsjón RMF, lauk í maí 2022 með birtingu miðstöðvarinnar á niðurstöðum eigindlegrar rannsóknar hennar á meðal ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagaðila greinarinnar. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hjá Ferðamálastofu um framhaldið.

Hér að neðan er hægt að nálgast skýrslur og kynningar sem tengjast verkefninu: