Fara í efni

Leiðbeiningar til ferðamanna um kröfur í Ferðatryggingasjóð

Hverjir geta sótt um endurgreiðslu?

Þeir sem telja sig eiga kröfu á Ferðatryggingasjóð vegna kaupa á pakkaferð eða samtengdri ferðatilhögun, sem ekki er framkvæmd í samræmi við samning, skulu leggja fram kröfu til Ferðatryggingasjóðs. Ferðamálastofa sér um uppgjör á kröfum fyrir hönd Ferðatryggingasjóðs.
Ferðaskrifstofum er skylt að vera aðilar að Ferðatryggingasjóði.

Hvað fæst endurgreitt?

Ferðatryggingasjóður endurgreiðir það fé sem farþegar hafa greitt vegna kaupa á pakkaferð eða samtengdri ferðatilhögun, sem ekki er framkvæmd að hluta eða fullu, vegna gjaldþrots eða ógjaldfærni ferðaskrifstofu eða niðurfellingar leyfis að frumkvæði Ferðamálastofu. Ferðatryggingasjóður stendur einnig straum af kostnaði vegna heimflutnigs farþega þegar flutningur ferðamanna er hluti af pakkaferðasamningi.

Gildir ekki um staka ferðatengda þjónustu

Ferðatryggingasjóður tryggir aðeins endurgreiðslu vegna pakkaferða eða samtengdrar ferðatilhögunar en ekki vegna kaupa á stakri ferðatengdri þjónustu svo sem stökum flugmiða eða stakri hótelgistingu. Í slíkum tilfellum verður kröfuhafi að gera kröfu í þrotabú viðkomandi eða beina kröfum að fyrirtækinu.

Hvernig er sótt um endurgreiðslu?

Þegar Ferðamálastofa fellir niður ferðaskrifstofuleyfi að eigin frumkvæði eða vegna gjaldþrots eða ógjaldfærni er birt áskorun til ferðamanna um að gera kröfu í Ferðatryggingasjóð innan tiltekins frests. Kröfur eru sendar inn rafrænt í gegnum island.is. Nauðsynlegt er að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum. 
Með kröfulýsingum skulu fylgja nauðsynleg sönnunargögn um kröfuna s.s. farseðlar, ferðalýsingar, kvittanir o.s.frv. Ferðamálastofa ákveður hvaða gögn eru fullnægjandi sem sönnun kröfu.

Athugði að í kröfulýsingarformi þarf að gefa upp kennitölu þeirrar ferðaskrifstofu sem krafa beininst að. Áríðandi er að gefa upp rétta kennitölu, finna má kennitölur ferðaskrifstofa með virkar áskoranir um kröfulýsingar hér áskoranir um kröfulýsingar. Einungis er tekið við kröfum vegna ferðaskrifstofa sem birtar eru á þessum lista.

Krafa í Ferðatryggingasjóð eyðublað

Skilafrestur, uppgjör o.fl.

Ferðamenn þurfa að leggja fram skriflega kröfu, sjá eyðublað, innan tveggja mánaða frá birtingu áskorunar í Lögbirtingablaðinu. Kröfur sem berast eftir þann tíma eru ekki teknar til greina. Kröfuhafar eru hvattir til að kynna sér kröfulýsingarfrestinn vel.

Hvenær fást kröfur greiddar?

Ferðamálastofa sér um uppgjör krafna og greiðir út samþykktar kröfur fyrir hönd Ferðatryggingasjóðs. Við uppgjör krafna eru ekki greiddir vextir eða annar kostnaður vegna kröfugerðar.

Kröfuhöfum er tilkynnt skriflega um ákvörðun Ferðamálastofu. Úrvinnsla tekur mislangan tíma eftir umfangi og fjölda krafna.

Niðurstöður Ferðamálastofu eru kæranlegar til ráðherra. Kærufrestur er 4 vikur frá dagsetningu ákvörðunar.

Kröfuhafar eru einnig hvattir til að kanna rétt sinn til endurgreiðslu hjá sínu kortafyrirtæki eða tryggingarfélagi.