Fréttir

Tími til að tengja? Af stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi

Nú er aðgengileg á vefnum nýjasta tölublað vefritsins Stjórnmál og stjórnsýsla. Sérstaklega er vert að benda á grein Gunnars Þórs Jóhannessonar „Tími til að tengja? Af stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi.“ Gunnar Þór Jóhannesson er verkefnisstjóri við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og lektor í ferðamálafræði, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Í útdrætti greinarinnar segir meðal annars:„Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið mjög að umfangi síðustu þrjá áratugi og er nú svo komið að atvinnugreinin skaffar umtalsverðan hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Ferðaþjónustu hefur löngum verið lýst sem atvinnugrein með mikla framtíðarmöguleika og eftir bankahrunið 2008 hefur hún verið talin gegna mikilvægu hlutverki í endurreisn efnahagslífsins. Í þssari grein er fjallað um hvernig stjórnvöld hafa leitast við að móta stefnu í ferðaþjónustu. Megindráttum í sögu stefnumótunar í ferðaþjónustu er lýst og gripið sér staklega niður í tvö tímabil sem varpa ljósi á tilurð hennar og mótun. Gerendanets - kenningunni (Actor-network theory) er beitt til að draga fram margleitni og dýnamík í gerð stefnumótunar. Því er haldið fram að stefnumótun í ferðaþjónustu sé afurð flókinna tengsla og á tíðum óvæntra samtenginga og tilviljana auk þess að markast af meintu tengslaleysi stjórnvalda við atvinnu greinina.“ Greinin í heild Um vefritið Stjórnmál og stjórnsýslaÍ ritinu eru 13 greinar, þar af ellefu ritrýndar greinar og tvær greinar almenns eðlis auk bókadóms. Greinarnar eru eftir fræðimenn við Háskóla Íslands og aðila úr stjórnsýslunni. Athygli er vakin á að hægt er að gerast áskrifandi að prentaðri útgáfu af Tímaritinu stjórnmál og stjórnsýsla sem kemur út einu sinni á ári með ritrýndum greinum. www.stjornmalogstjornsysla.is/ Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / www.arctic-images.com  
Lesa meira

Snjallleiðsagnir á Austurlandi

Nýjar ferðir á Austurlandi með snjalllleiðsögnum eru fáanlegar í forritinu SmartGuide North Atlantic í vefverslunum Apple og Google. Alls eru sex ferðir í boði þar sem þaulkunnir sögumenn leiða íslenska og erlenda ferðamenn um slóðir sínar. Um er að ræða nýtt smáforrit (app) í snjallsíma og spjaldtölvur sem gefið út af Locatify í samstarfi við Félag áhugamanna um söguslóðir Hrafnkelssögu, Gunnarsstofnun og fleiri aðila, og styrkt af AVS (Rannsóknarsjóði í sjávarútvegi) og Vaxtarsamningi Austurlands. Ný leið til að ferðastForritinu er hlaðið niður í iPhone og Android snjallsíma eða iPads spjaldtölvur áður en haldið er af stað. Forritið notar GPS tækni og fer sjálfkrafa í gang á réttum stöðum og segir frá því sem er í umhverfinu þannig að notandinn nýtur persónulegrar leiðsagnar líkt og sögumaður væri með í för. Einnig er hægt að njóta þess sem gagnvirkrar ferðabókar með því að fletta myndum og hlusta á frásagnir heima í stofu.  Með snjallleiðsögn er boðið uppá nýja þjónustu við ferðamenn sem eykur þekkingu og skilning á sérstöðu hvers svæðis.  Menningar-og náttúruarfleifð er kynnt af sagnaþulum og leiðsögumönnum á íslensku sem Neil Machon þýddi síðan og staðfærði fyrir enskumælandi ferðamenn. Litli FljótsdalshringurinnSkúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, leiðir ferðamenn Litla Fljótsdalshringinn. Ferðamaðurinn getur notið þess að keyra um Fljótsdalinn á meðan hann hlustar á sögur af staðháttum, fólki, álfum, trjám og fornköppum á Fljótsdalshéraði. Stóri FljótsdalshringurinnArndís Þorvaldsdóttir skjalavörður er leiðsögumaður sem segir á lifandi hátt sögur af fólki og umhverfi Lagarfljóts. Arndís veitir innsýn í hugarheim fólks í fortíð og nútíð,  tvinnar saman þjóðsögur og sögur úr nútímanum og tengir þær þeim stöðum sem eru heimsóttir. JökuldalurBaldur Pálsson, slökkviliðsstjóri, sagnaþulur og Austfirðingagoði segir frá upplifunum sínum og kynlegum kvistum á Jökuldal. Hlýtt er á frásagnir um skólagöngu, landsfrægar persónur og heiðna staðhætti um leið og sögustaðir eru heimsóttir. HrafnkelsdalurBræðurnir Baldur og Páll Pálssynir frá Aðalbóli segja frá Hrafnkelssögu og uppvextinum í Hrafnkelsdal. Með þeim er einn afskekktasti dalur landsins kannaður þar sem frægasta Íslendingasaga Austfirðinga gerðist. EskifjörðurÞórhallur Þorvaldsson, sagnamaður og kennari á Eskifirði, er margfróður um fæðingarstað sinn. Gengið er um plássið með Þórhalli og húsin og fólkið sem byggði Eskifjörð lifna við í hugskotum hlustenda. FjarðahringurinnHulda Guðnadóttir er kennari á Reyðarfirði á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Í  hringferð um Austfirði og Hérað segir hún frá fólki, fyrirbærum og náttúru Austurlands. Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, steinunn@locatify.com   sími: 699-4320Skúli Björn Gunnarsson, skuli@skriðuklaustur.is   sími: 860-2985 eða  471-2990
Lesa meira

Heilsulindin Ísland - möguleikar á sviði lífsgæðatengdrar ferðaþjónustu

Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður öllum áhugasömum á fyrirlestur um gæði þeirra tækifæra sem Ísland hefur upp á að bjóða hvað varðar heilsutengda ferðaþjónustu miðvikudaginn 27. júní frá kl. 14-16 í sal Arion banka, Borgartúni 19. Fyrirlesari á fundi er Dr. Janka Zalesakova,  læknir frá Slóvakíu. Bakgrunnur og reynsla fyrirlesara Læknir að mennt Sérfræðingur í meðhöndlun lífstílssjúkdóma Hefur skrifað fjölda greina um lífstílssjúkdóma Hefur haldið fyrirlestra víða um heim um endurhæfingu og forvarnir á sviðinu Hefur starfað sem háskólakennari, yfirlæknir og sem ráðgjafi stofnana og ráðuneyta í Evrópu og í Kanada um forvarnir, endurhæfingu og nauðsyn breyttra lífshátta ef útgjöld til heilbrigðismála eiga ekki að hækka talsvert á komandi árum Hefur margoft komið til Íslands og þekki því vel til aðstæðna hér á landi  Skráning þátttöku Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta! Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / www.arctic-images.com
Lesa meira

Vegahandbókin komin út

Ný og endurbætt  útgáfa af Vegahandbókinni er komin út og þýsk útgáfa væntanleg. Í bókunum er nýjung sem er ítarleg 24 síðna kortabók með ítarlegum yfirlitskortum sem veitir góða yfirsýn yfir landsvæðið sem ferðast er um og auðveldar notkun bókanna, segir í tilkynningu. Kortin eru í mæikvarðanum 1:500 000. Áhersla er lögð á vegakerfið, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.  Á  kortin eru merktir þeir staðir sem bjóða upp á gistingu, tjaldsvæði, sund, golf, söfn, sýningar, upplýsingamisðtöðvar og margt fleira. Eyjafjallajökull hvað??Samhliða hefur verið opnuð ný heimasíða, www.vegahandbokin.is  þar sem er að finna margvíslegan fróðleik um land og þjóð. Vefurinn er á íslensku, ensku og þýsku.  Í ítarupplýsingum er fjallað um 3000 staði á Íslandi.  Meðal annars er hægt að hlusta á hvernig þeir eru bornir fram svo nú á ekki að vefjast fyrir neinum að segja Eyjafjallajökull.
Lesa meira

Bæklingurinn Upp í sveit 2012 er kominn út

Bæklingur Ferðaþjónustu bænda Upp í sveit 2012 er kominn út, 25. árið í röð. Í bæklingnum eru upplýsingar um 180 ferðaþjónustubæi innan vébanda Ferðaþjónustu bænda um land allt sem bjóða upp á  fjölbreytta gistingu, afþreyingu við allra hæfi og máltíðir að hætti heimamanna. Gistingin er fjölbreytt og má þar nefna gistihús bænda, sveitahótel, heimagistingu og sumarhús. Þá eru afþreyingarmöguleikar aldrei langt undan og má t.d. nefna merktar gönguleiðir, hestaferðir / hestasýningar, golf, veiði, fjórhjólaferðir, kynningu á sveitastörfum og afslöppun í heitum potti, segir í tilkynningu. Í bæklingnum er einnig að finna upplýsingar fyrir þá sem vilja bragða á heimatilbúnum afurðum Beint frá býli eða kynnast sveitastörfum í gegnum verkefnið Opinn landbúnaður. Þetta er nýbreytni í bæklingnum en vorið 2009 tók Ferðaþjónusta bænda höndum saman við félagsskapinn Beint frá býli og verkefnið Opinn landbúnað sem er í umsjón Bændasamtaka Íslands. Markmiðið er að koma á framfæri því besta sem sveitin hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn. Bæklingurinn er prentaður í 25.000 eintökum. Hægt er að nálgast hann á skrifstofu Ferðaþjónustu bænda að Síðumúla 2 - 108 Reykjavík, á upplýsingamiðstöðvum,  samgöngumiðstöðvum, sölustöðum ferða og á fjölsóttum ferðamannastöðumm um land allt og aðra hverja viku í verslunum Krónunnar á Granda, Reykjavíkurvegi, Bíldshöfða, í Lindum, Mosfellsbæ og Jafnaseli. Einnig er hægt að skoða bæklinginn rafrænt á vefnum sveit.is eða panta á vefnum og fá hann sendan í pósti.   
Lesa meira

"Hostel" - íslenskt nafn óskast

Við hjá Ferðamálastofu leitum að góðu íslensku heiti á orðinu „Hostel“. Hingað til hefur orðið yfirleitt hlotið þýðinguna farfuglaheimili en þar sem það er lögverndað heiti þá verðum við að finna annað gott orð fyrir þessa tegund gistingar. Sem dæmi má nefna að Ástralir og Nýsjálendingar hafa t.d. notað orðið „Backpackers“  en það orð er einnig farið að sjást hér á landi fyrir þessa ákveðnu tegund gististaða. Ástæðan fyrir því að við erum að leita eftir góðum tillögum  tengist vinnu sem er nú í fullum gangi varðandi staðfærslu á nýjum viðmiðum fyrir mismunandi tegundir gistingar hér á landi innan nýja gæða- og umhverfiskerfis VAKANS en þessi nýju viðmið verða einmitt innleidd á næsta ári.Tillögur og ábendingar er hægt að senda á elias@ferdamalastofa.is
Lesa meira

Norrænar vinnustofur í Suður-Evrópu í haust

Líkt og undanfarin ár mun Íslandsstofa, í samstarfi við önnur Norðurlönd, bjóða upp á vinnustofur í þremur borgum á Spáni og Ítalíu. Á vinnusmiðjurnar verður boðið áhugaverðum viðskiptaaðilum úr sameiginlegum tenglagagnabanka Norðurlandanna svo og aðkeyptum tenglum. Tímasetningin er hagstæð öllum þeim söluaðilum sem vilja kynna nýjungar fyrir komandi ár og stofna til nýrra viðskiptasambanda á þessum mörkuðum. 26. september 2012 í Madríd - ásamt Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi27. september 2012 í Barcelóna - ásamt Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi09. október 2012 í Mílanó - ásamt Danmörku, Svíþjóð og Noregi  Að jafnaði er gert ráð fyrir 80-100 þátttakendum úr röðum ferðaskipuleggjenda orlofsferða og MICE, auk sérvalinna blaðamanna. Gerð verður handbók um seljendur sem dreift verður til gesta. Seljendur fá handbók með upplýsingum um skráða kaupendur sem verða úr hópi yfir aðila sem boðið verður. Að auki er gert ráð fyrir kynningu um áfangastaðina fyrir kaupendur og kynningu um markaðina fyrir seljendur. Frestur til að tilkynna þátttöku er 1. júlí 2012. Nánari upplýsingar og skráning - Vinnustour í Suður-Evrópu  
Lesa meira

Gull í Cannes!

Markaðsátakið Inspired by Iceland hlýtur Ljónið, hin eftirsóttu gullverðlaun auglýsingahátíðarinnar í Cannes, fyrir besta notkun almenningstengsla í auglýsingaherferð á síðasta ári. Tilkynnt var um verðlaunin í dag. Á vef Íslandsstofu  kemur fram að verðlaunin eru veitt fyrir heimboð Íslendinga, sem voru liður í haustátaki Inspired by Iceland. Íslendingar voru hvattir til þess að mynda persónuleg kynni við ferðamenn. Fjölmargir Íslendingar tóku þátt í verkefninu með því að bjóða erlendum ferðamönnum að sækja sig heim, eða taka þátt í daglegu lífi Íslendinga með öðrum hætti. „Þetta er í fyrsta skipti sem íslensk auglýsingastofa vinnur til verðlauna á hátíðinni og er þetta einn stærsti heiður sem auglýsingastofa getur fengið fyrir sína vinnu.“ segir Kristján Schram hjá Íslensku auglýsingastofunni sem sá um framleiðslu efnis fyrir haustátakið. Auglýsingahátíðin í Cannes er stærsta fagverðlaunahátíð auglýsingabransans, en hátíðin hefur verið haldin árlega síðan 1954. Um 30.000 auglýsingar og herferðir taka þátt í  hátíðinni. Nánar á  vef Íslandsstofu  
Lesa meira

Tvær stöður við ferðamáladeild Háskólans á Hólum

Tvær stöður við ferðamáladeild Háskólans á Hólum er lausar til umsóknar. Við deildina er í boði háskólanám í ferðamálafræðum og viðburðastjórnun og lögð stund á rannsóknir og fræðastarf. Aðsókn nemenda og umsvif deildarinnar hafa farið ört vaxandi undanfarin ár. Starfsaðstaða deildarinnar í háskólaþorpinu á Hólum er góð, þar er fjölskylduvænt samfélag með grunnskóla og leikskóla. Nánari upplýsingar um skólann og staðinn er að finna hér á Hólavefnum. Staða deildarstjóra ferðamáladeildar Í starfinu felst:• Fagleg ábyrgð á kennslu og rannsóknum innan deildarinnar sem og samstarfi við atvinnulíf, stoðkerfi og fræðasvið ferðamála • Dagleg stjórnun ferðamáladeildar og starfsmanna hennar • Þátttaka í stefnumótun, stjórnun og rekstri Háskólans á Hólum, seta í framkvæmdaráði • Rannsóknir og kennsla Við leitum að einstaklingi með:• Doktorspróf á sviði ferðamálafræða eða tengdum fræðasviðum• Reynslu af stjórnun, rannsóknum, kennslu og þróunarstarfi • Leiðtogahæfileika, frumkvæði, framúrskarandi færni í mannlegum samskiptum og getu til að stýra samstarfi innan deildar sem utan• Mikla skipulagshæfileika og yfirsýn Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. sept. 2012 eða eins fljótt og hægt er.Umsóknir berist fyrir 1. júlí 2012. Umsóknir ásamt ferilskrá og persónulegu bréfi, sendist til Sigurbjargar B. Ólafsdóttur mannauðsstjóra, Háskólanum á Hólum, 551 Sauðárkróki, eða á netfangið sigurbjorg@holar.is . Nánari upplýsingar veita Erla B. Örnólfsdóttir rektor s. 455 6300 / erlabjork@holar.iseða Kristina Tryselius deildarstjóri s. 863 2938 / kristina@holar.is . Staða háskólakennara við ferðamáladeild Í starfinu felst:• Kennsla á sviði menningar og ferðamála • Kennsla á sviði hátíða og viðburða• Leiðbeining nema í lokaverkefnum • Þátttaka í stefnumótun ferðamáladeildar• Mótun eigin rannsókna á sviðum deildarinnar Menntunar og hæfniskröfur:• Framhaldsmenntun á sviði ferðamálafræða, menningar og viðburða eða tengdra fræða, hæfi sem háskólakennari, doktorspróf æskilegt• Reynsla af kennslu og rannsóknum • Frumkvæði, sjálfstæði í vinnu og færni í mannlegum samskiptum Um fullt starf er að ræða. Umsækjandi þarf að geta hafið störf 1. sept. 2012 eða eins fljótt og hægt er. Umsóknir berist fyrir 1. júlí 2012. Umsóknir ásamt ferilskrá og persónulegu bréfi, sendist til Sigurbjargar B. Ólafsdóttur mannauðsstjóra, Háskólanum á Hólum, 551 Sauðárkróki, eða á netfangið sigurbjorg@holar.is Nánari upplýsingar veitir Kristina Tryselius deildarstjóri s. 863 2938 / kristina@holar.is
Lesa meira

Skrifa bók um ferðamál

Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í ferðamálafræði HÍ, undirrituðu í gær samning við Forlagið um útgáfu bókar um ferðamál á Íslandi, sem þeir munu skrifa. Bókin verður í þremur hlutum og tekur á hagrænum áhrifum gestakoma, umhverfisáhrifum og samspili ferðaþjónustu og samfélags. Bókin er ætluð almennum lesendum jafnt sem nemendum í ferðamálafræðum og er skrifuð sem aðgengilegt inngangsrit. Bókin kemur út sumarið 2013 og verður kynnt um allt land af höfundum, segir í frett frá Rannsóknamiðstöð ferðamála.
Lesa meira