Fréttir

Leiðbeiningarit fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

Ferðamálastofa hefur gefið út ritið "Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit fyrir starfsfólk". Um er að ræða 12. útgáfu í endurbættri mynd. Ritinu er ætlað að gera þeim sem reka upplýsingamiðstöðvar og starfsfólki þeirra auðveldara að skipuleggja starfið og bæta á ýmsa lund. Þótt aðstæður á hverjum stað séu mismunandi þá er áríðandi að allar upplýsingamiðstöðvar starfi eftir sömu grundvallarreglum. Það gerir þær trúverðugri og eykur tiltrú ferðamannsins og hagsmunaaðilanna á þeim. Hlutverk upplýsingamiðstöðva er að auka gæði þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn og veita þeim þær upplýsingar sem þeir þarfnast til að auðvelda sér ferðalagið. Upplýsingamiðstöðvar eru mikilvægar fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu um allan heim. Með betri upplýsingum er líklegra að ferðamaðurinn veiti sér eitthvað sem hann hefði annars farið á mis við og er því oft um beinan fjárhagslegan ávinning að ræða. Hlutverk upplýsingamiðstöðva er einnig að auðvelda hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu að koma vöru sinni og þjónustu á framfæri. Með auknum upplýsingum til ferðamanna aukast líkurnar á vel heppnuðu fríi en kannanir sýna að ánægður ferðamaður er okkur mikilvæg auglýsing. Upplýsingamiðstöðvar gegna mikilvægu hlutverki varðandi öryggi ferðamanna. Einnig er mikilvægt að stuðla að aukinni dreifingu þeirra um landið. Þannig njóta fleiri tekna af ferðamönnum og álagið á viðkvæma náttúru landsins dreifist. Með aukinni kynningu á upplýsingamiðstöðvum fjölgar þeim sem notfæra sér stöðvarnar á sínum heimaslóðum. Fólk getur þannig skipulagt ferðir sínar betur áður en lagt er af stað. Ritið í heild má nálgast hér að neðan. Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit (Vefútgáfa) Upplýsingamiðstöðvar - Leiðbeiningarit (PDF)  
Lesa meira

Könnunarleiðangur - hjólreiðaferðamennska

Íslandsstofa kannar áhuga fyrirtækja í ferðaþjónustu á að kynnast Coast to Coast (C2C) hjólaleiðinni sem er ein vinsælasta hjólaleið Bretlands. Áætlað er að fara í október 2012 Hjólaleiðin C2C er þekkt um allan heim og hefur unnið til fjölda verðlauna. Árlega hjóla 12 til 15 þúsund manns þessa 230 km leið og áætlað er að C2C skili fyrirtækjum á því svæði sem hjólað er um árlegum tekjum upp á um 2,5 milljarða íslenskra króna. Ferðin tekur að jafnaði um fimm daga. Leiðin er sniðin að þörfum allra aldurshópa og ekki er nauðsynlegt að þátttakendur séu í góðu líkamlegu formi til að njóta ferðarinnar. Könnunarleiðangurinn í október er ætlaður þeim sem hafa hug á að bjóða upp á hjólreiðaferðir sem afþreyingu og vilja kynnast því hvernig slík þjónusta er uppbyggð. Þátttakendur í leiðangrinum munu hjóla C2C og kynnast af eigin raun uppbyggingu og þjónustu á leiðinni. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður. Áhugasamir hafi samband við Björn H Reynisson og Hermann Ottósson hjá Íslandsstofu fyrir 7. september, bjorn@islandsstofa.is  og hermann@islandsstofa.is  eða í síma 511 4000. Nánari upplýsingar um C2C
Lesa meira

Fyrsta flug á vegum WOW air

Í dag var fyrsta flug á vegum WOW air og var ferðinni heitið til Parísar. Næstkomandi sunnudag, 3. júní, mun formlegt áætlunarflug hefjast til 13 áfangastaða í Evrópu. WOW air hefur yfir að ráða tveimur 168 sæta Airbus A320-flugvélum. Vélarnar eru leigðar frá félaginu Avion Express og eru merktar WOW Force One og WOW Force Two. Í dag starfa um 80 manns hjá félaginu en ráðningar á fleiri standa nú yfir. Félagið starfrækir einnig ferðaskrifstofuna WOW ferðir sem sérhæfir sig í ferðum á helstu áfangastaði móðurfélagsins. Vefur WOW air
Lesa meira

Þráðlaust net í vélum Icelandair

Í dag undirritar Icelandair samning við bandaríska tæknifyrirtækið Row 44 um uppsetningu þráðlauss internets í flugflota Icelandair. Með því munu farþegar Icelandair geta notað eigin tölvubúnað til að tengjast internetinu. Gert er ráð fyrir að vinna við innleiðingu hefjist á fjórða ársfjórðungi þessa árs og að henni ljúki haustið 2013. „Icelandair einbeitir sér að því að veita viðskiptavinum sínum einstaka þjónustu. Í vélum Icelandair er til staðar fullkomið afþreyingarkerfi og samningurinn við Row 44 er viðbót sem gerir okkur kleift að auka enn frekar þjónustu og upplifun farþegans um borð,“ er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group, í tilkynningu. Frederick St. Amour, aðstoðarforstjóri Row 44 og Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair munu undirrita samninginn.
Lesa meira

VAKINN - fleiri fjarfundir um fræðslu og innleiðingu

Mjög góð viðbrögð hafa verið við fjarfundum fyrir ferðaþjónustuaðila um innleiðingu á VAKANUM, hinu nýja gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, búið er að bæta við fundum og skráning stendur yfir á næsta fund sem haldinn verður 4 júní klukkan 15-16. Skráning til miðnættis 3. júníNýsköpunarmiðstöð Íslands stendur fyrir fundunum. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að þátttakendur skrá sig á netfangið erla.sig@nmi.is. Gefa skal upp nafn, netfang, heiti fyrirtækis og símanúmer. Þátttakendur fá senda til baka slóð í tölvupósti sem þeir nota til að skrá sig inn á fundinn. Skráningarfrestur er til miðnættis 3. júní. Fræðslan er hugsuð jafnt fyrir þá sem þegar hafa sótt um þátttöku í VAKANUM og eru að huga að innleiðingu og þá sem hyggja á umsókn. Hámarks fjöldi þátttakenda á hverjum fundi eru 15 manns, bætt verður við fundum eftir þörfum. Nánari upplýsingarAllar nánari upplýsingar veitir Erla Sigurðardóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, erla.sig@nmi, sími 522 9491. Nánar um VAKANN á www.vakinn.is
Lesa meira

Krásir - Matur úr héraði

Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ferðamálastofa óska eftir umsóknum í samstarfsverkefnið Krásir - Matur úr héraði en umsóknarfrestur er til og með 11 júní 2012. Ekki er veittur styrkur til fjárfestinga og geta styrkir að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnisins. Verkefnið er samstarfsverkefni Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ferðamálastofu Þróunarverkefni á sviði svæðisbundinnar matargerðarTilgangur verkefnisins er að styrkja þróun í svæðisbundinni matargerð og matartengdri ferðaþjónustu. Styrkt verða verkefni sem miða að því að framleiða og markaðssetja  matvörur sem byggja á hráefni, sögu og þekkingu frá viðkomandi svæðum. Ennfremur er markmiðið að auka samstarf milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og lítilla fyrirtækja sem framleiða matvörur og auðvelda þeim sameiginlega markaðssetningu á svæðinu. Þeir, sem taka þátt í verkefninu taka þátt í fræðslu um í þróun, vinnslu og meðferð matvæla og fá auk þess fjárhagslegan og faglegan stuðning við þróun á nýjum afurðum. Með verkefninu er verið að auka þekkingu á gæðum og faglegri vinnu við þróun nýjum matvörum. Einstök fyrirtæki og hópar fyrirtækja, geta sótt um þátttöku í verkefninu. Ítarlegri upplýsingar um verkefnið og umsóknarform (á vef Nýsköpunarmiðstöðvar) Nánari upplýsingar veita:     Tinna Björk Arnardóttir í síma 522-9450 / tinnabjork@nmi.is    Sigurður Steingrímsson í síma 522-9435 / sigurdurs@nmi.is Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / arctic-images.com
Lesa meira

Dagur ferðaþjónustu á Vesturlandi -Bragð af því besta

Fimmtudaginn 31. maí verður boðið til veislu að Háskólanum á Bifröst þar sem ferðaþjónustan er sýnd og kynnt frá ýmsum hliðum. Gestum er boðið að upplifa, hlusta, sjá, smakka og ræða það sem verið er að vinna með og tengist atvinnusköpun og vellíðan heima í héraði. Allan daginn verða opnar kynningar þar sem ferðaþjónustuaðilar og aðrir geta kynnt starfsemi sína. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sitt fyrirtæki láti vita í netfangið vilborg@vesturland.is. Þátttaka er öllum opin og að kostnaðarlausu. Áhugasamir skrái sig á www.vesturland.is  Sjá dagskrá í PDF-skjali
Lesa meira

Fjölgun brautskráninga frá Hólaskóla

Síðastliðinn föstudag fór fram brautskráning frá Háskólanum á Hólum. Aldrei fyrr hafa jafn margir ferðamálafræðingar og viðburðarstjórnendur útskrifast frá ferðamáladeild og nú - samtals 34. Nemendafjöldi við skólann hefur farið ört vaxandi undanfarin ár, og nú er komið að því að aukinn fjöldi innritaðra nemenda skili sér til brautskráningar. Brautskráningarathöfn hefur gjarna farið fram í Hóladómkirkju, en nú er svo komið að hún rúmar engan veginn þann fjölda nemenda, starfsmanna og gesta sem gera verður ráð fyrir. Því voru góð ráð dýr, en niðurstaðan var sú að leita í Menningarhúsið Miðgarð. Þar er reyndar alls ekki í kot vísað, þar sem því sem áður var þekkt sem Félagsheimilið og sveitaballastaðurinn Miðgarður hefur nú verið breytt í Menningarhús Skagfirðinga. Meðfylgjandi mynd af hópnum tók Gunnar Óskarsson en fleiri myndir frá athöfninni eru á Facebook-síðu Hólaskóla.
Lesa meira

Á ferð um Ísland komin út

Á ferð um Ísland er nú komin út 22. árið í röð. Ferðahandbókin kemur út hjá Útgáfufélaginu Heimi og er gefin út á þremur tungumálum, íslensku, ensku og þýsku. Í frétt frá útgefanda segir að enska útgáfan Around Iceland hafi komið út samfellt í 37 ár en þýska útgáfan Rund um Island komi nú út í 15. sinn.  Ritunum er dreift í 100.000 eintökum á alla helstu ferðamannastaði landsins eða um 500 staði. Bækurnar eru í upplagseftirliti Samtaka ferðaþjónustunnar. Í bókinni er umfjöllun um hvern landshluta, þjónustulistar sem eru uppfærðir árlega í samstarfi við heimamenn, ásamt kortum þar sem gististaðir, tjaldsvæði og sundlaugar eru númeraðar á svæðum utan þéttbýlis.  Sambærileg kort eru einnig frá helstu þéttbýlisstöðum landsins. Þá er einnig að finna hálendiskafla með hálendiskorti og þjónustulistum í bókinni. Fremst í bókinni er síðan að finna ýmsan fróðleik um land og þjóð, það helsta sem er á döfinni í sumar, afþreyingu og margt fleira. Miklar vinsældir Íslandsbóka Heims hafa fyrir löngu sannað gildi þeirra, segir í fréttinni.  Sumarið 2008 var gerð könnun meðal erlendra ferðamanna á notkun bókanna og kom í ljós, að meira en þriðjungur þeirra  notaði bækurnar og 48% þýskumælandi ferðamanna notaði Rund um Island.   Fjöldi fallegra ljósmynda, m.a. eftir Pál Stefánsson ljósmyndara Heims,  skreyta bækurnar og er hægt að kaupa myndirnar á www.heimur.is   Auglýsingasala gerir kleift að dreifa bókunum ókeypis en í ár prýðir fjöldi nýrra auglýsingasíðna bækurnar. Margar af nýju auglýsingasíðunum hafa verið hannaðar hjá Heimi. Bækurnar eru birtar í vefútgáfu á www.heimur.is/world en einnig er QR-kóði á forsíðu þeirra, sem gerir eigendum snjallsíma kleift að hlaða efni þeirra niður af netinu. Ritstjóri bókanna er Ottó Schopka.
Lesa meira

Varist skráningar frá "Expo Guide"

Vert er að vara ferðaþjónustuaðila við sendingum frá fyrirtækinu „Expo Guide“, sem mörgum hafa borist síðustu vikur og mánuði. Þar eru viðkomandi beðnir að staðfesta að upplýsingar um fyrirtækið séu réttar þannig að hægt sé að birta þær í sýningarskrá vegna Vestnorden ferðakaupstefnunnar. Skýrt skal tekið fram að umræddar sendingar eru ekki á neinn hátt í tengslum við Ferðamálastofu eða NATA, sem sér um Vestnorden, sem þó mætti ráða af uppsetningu bréfsins. Með því að staðfesta upplýsingarnar og svara bréfinu eru viðkomandi að skuldbinda sig til að greiða gjald upp á 1.271 evru, eða jafngildi þess í mexíkönskum pesóum, en umrætt fyrirtæki virðist staðsett í Mexíkó. Til nánari útskýringar er hér birt afrit af einu bréfinu sem stílað var á vel þekkt hótel í Reykjavík. Sýninshorn af bréfi frá Expo Guide (PDF) Eitt bragðið sem Expo Guide sagt nota er að senda skráningarblað þar sem nafn viðkomandi er vísvitandi rangt safsett en með því að senda inn leiðréttingu er viðkomandi jafnframt að skrá sig á umræddan lista, með tilheyrandi kostnaði. Á vefslóðinni hér að neðan eru svo nánari upplýsingar um vafasama starfsemi Expo Guide. http://www.energygrid.com/watchdog/2008/11-expoguide.html
Lesa meira