Fréttir

Opnunartímar um jól og áramót

Ferðafólki sem dvelur hérlendis um jól og áramót fjölgar stöðugt. Áður voru nokkur brögð að því að erfitt væri fyrir ferðalanga að finna afþreyingu og opna veitingastaði en slíkt hefur mjög breyst til batnaðar. Höfuðborgarstofa hefur í mörg ár tekið saman lista yfir staði sem hafa opið um jól og áramót og sama hafa fleiri gert. Hér að neðan eru tenglar á þrjár slíkar síður með upplýsingum, hjá Höfuðborgarstofu, Akureyrarstofu og Ferðaþjónustu bænda. Höfuðborgarstofa (PDF) Akureyrarstofa  Ferðaþjónusta bænda  
Lesa meira

Úrslit í hugmyndasamkeppni um umhverfi Gullfoss

Tilkynnt hefur verið um úrslit í opinni hugmyndasamkeppni um umhverfi Gullfoss. Samkeppnin var haldin á vegum Umhverfisstofnunar í samvinnu við Arkitektafélag Íslands en verkefnið hlaut 5 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Markmið með samkeppninni var að fá fram heildarsýn á allar samgöngur og móttökusvæði innan samkeppnissvæðisins og taldi stofnunin mikilvægt að hugmyndir þátttakenda væru í anda sjálfbærrar þróunar. Aldir rennaVerlaunatillagan nefnist “Aldir renna” en höfundar hennar eru Eyrún Margrét Stefánsdóttir arkitekt og María Björk Gunnarsdóttir arkitekt. Í áliti dómnefndar segir að keppendur hafi greinilega sett sig vel inn í staðhætti. “Heildarsýn er ágæt og rökstudd með nákvæmri staðháttargreiningu. Keppendur sýna í tillögunni nákvæman og blæbrigðaríkan skilning á umhverfinu,” segir orðrétt. Nánar á vef Umhverfisstofnunar
Lesa meira

Eldhestar fá VAKANN

Enn fjölgar í VAKANUM, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar og nýjasti meðlimurinn er Hestaleigan Eldhestar í Ölfusi. Fyrirtækið er það sjöunda sem lýkur úttekt en að auki eru hátt í 50 fyrirtæki í umsóknar- og úttektarferli. Um EldhestaHestaleigan Eldhestar var stofnuð árið 1986 og er í dag meðal stærstu og öflugustu fyrirtækja landsins á sínu sviði. Markmiðið með stofnun þess var að bjóða bæði innlendum og erlendum ferðamönnum hestaferðir um svæði sem ekki voru aðgengileg á annan hátt. Fyrirtækið er staðsett að Völlum í Ölfusi og býður bæði lengri og styttri hestaferðir, allt frá 1 klukkustund upp í 7 daga. Í júní árið 2002 tóku Eldhestar í notkun lítið sveitahótel,  Hótel Eldhesta. Það er búið 26 tveggja manna herbergjum og matsal sem tekur um 70-80 manns. Hótel Eldhestar var fyrsta hótelið á Íslandi til að fá norræna umhverfismerkið Svaninn og hótelið hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálastofu í fyrra. Á myndinni eru Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands og þau Sigurjón Bjarnason, Hróðmar Bjarnason og Fríða Rut Stefánsdóttir frá Eldhestum. (Ljósmyndari: Magnús Hlynur Hreiðarsson) www.eldhestar.is    
Lesa meira

Laxnes til liðs við VAKANN

Laxnes hestaleiga bættist í gær í þátttakandahóp í gæðakerfis VAKANS, gæða- og umhverfiskerfis ferðaþjónustunnar. Fjölskyldufyrirtæki með langa söguLaxnes er fyrsta hestaleigan í VAKANUM en fyrirtækið á langa sögu í ferðaþjónustu hérlendis og hefur þjónað þúsundum erlendra sem innlendra ferðamanna í gegnum árin. Hjónin Þórarinn Jónasson og Ragnheiður Gíslason stofnuðu hana árið 1968 og hefur fyrirtækið frá upphafi verið rekið af þeim og fjölskyldu þeirra. Á meðfylgjandi mynd eru þeir feðgar, Þórarinn Jónasson og Haukur Þórarinsson, er þeir veittu viðurkenningu VAKANS viðtöku í gær. Fleiri á lokametrunumÁ næstunni mun halda áfram að fjölga í hópi VAKA-fyrrtækja þar sem nokkrir aðilar eru að ljúka úttektarferli sínu.
Lesa meira

Sólrún Anna Jónsdóttir ráðin rekstrarstjóri Ferðamálastofu

Sólrún Anna Jónsdóttir hefur verið ráðin rekstrarstjóri hjá Ferðamálastofu. Starfið var auglýst laust til umsóknar í október síðastliðnum og var Sólrún Anna ráðin úr hópi margra hæfra umsækjanda. Sólrún Anna Jónsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt og hefur jafnframt lokið námskeiðum á meistarastigi frá Háskóla Íslands, m.a. í mannauðsstjórnun.  Hún hefur m.a. starfað sem fjármálaráðgjafi hjá Landspítala Háskólasjúkrahúsi og sem deildarstjóri fjármála hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Undanfarin ár hefur hún sinnt rekstri, fjármálum og starfsmannamálum hjá Íslensku Ölpunum. Starfsfólk Ferðamálastofu býður Sólrúnu Önnu velkomna!  
Lesa meira

Upptaka frá "Er komið nóg af gestum?"

Nú er aðgengileg upptaka frá örráðstefnunni "Er komið nóg af gestum? Þolmörk, fjöldatakmörk og gjaldheimta" sem haldin var í hátíðarsal Háskóla Íslands, mánudaginn 10 desember. Samhliða fjölgun ferðamanna hefur tekið að bera á áhyggjum ferðaþjónustuaðila, sem og annarra, að of geyst sé farið. Landeigendur loka aðgengi, gjaldheimta er rædd, furðufréttir berast af ferðafólki, skattheimta er aukin og pirrings farið að gæta í garð gesta á ýmsum áfangastöðum. Á þessari örráðstefnu verður lagt mat á þessi einkenni óþols gagnvart greininni og hvort hafa beri af þeim áhyggjur, og ef svo; hvað er þá hægt að gera. Fundurinn hefst á örfáum aðfararorðum um tilefni og tilurð fundarins. Þar á eftir mun fræðafólk stíga á stokk og í stuttum 5 mínútna glærulausum erindum fjalla um eftirfarandi dæmi. Að því loknu verður opnað fyrir umræður og spurningar og eru aðilar úr greininni sem og fjölmiðlafólk sérstaklega hvatt til að mæta í þágu hreinskiptinnar og opinnar umræðu.   Stofnun Dæmi Dr. Edward H. Huijbens  Rannsóknamiðstöð ferðamála Furðufréttir af ferðafólki Dr. Þorvarður Árnason Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði DisnEY eða Ísland öðru nafni Dr. Katrín Anna Lund og Dr. Gunnar Þór Jóhannesson Land- og ferðamálafræði við Háskóla Íslands Gestalistinn Guðrún Þóra Gunnarsdóttir Ferðamáladeild Háskólans á Hólum  Allir velkomnir meðan húsrúm leyfir! Dr. Ólafur Rastrick Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands Útlendingar og arfurinn      Ef einhverjar spurningar vakna hafið samband við Edward H. Huijbens, Rannsóknamiðstöð ferðamála, edward@unak.is.
Lesa meira

Þróunarsjóður Landsbankans og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins úthlutar 31,1 milljón króna

Tólf styrkir voru veittir úr Þróunarsjóði ferðamála í gær, 10. desember, samtals 31,1 milljón króna, en að sjóðnum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið og Landsbankinn . Þetta var önnur úthlutun úr sjóðnum og bárust honum 56 umsóknir að þessu sinni. Í fyrri úthlutun voru veittar 38,9 milljónir króna til 20 verkefna. Þróunarsjóðurinn var stofnaður í tengslum við verkefnið Ísland allt árið. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímann á Íslandi, með því að efla starfsemi fyrirtækja í ferðaþjónustu utan háannatíma og auka á þann hátt arðsemi þeirra. Stofnendur sjóðsins lögðu fram 70 milljónir í upphafi, 40 milljónir komu frá Landsbankanum og 30 milljónir frá atvinnuvegaráðuneyti sem úthlutað skyldi í tveimur úthlutunum. Ákveðið hefur verið að framlengja starfsemi Þróunarsjóðsins og verða á næsta ári veittar 35 milljónir króna úr honum. Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri segir:„Samhliða markaðsátakinu Ísland allt árið hefur skilningur aukist á nauðsyn þess að mæta auknum kröfum um afþreyingu fyrir ferðamenn utan háannatíma og á landinu öllu. Stuðningur Landsbankans og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins til nýrra verkefna á þessu sviði er ferðaþjónustunni mjög mikilvægur. Hann gerir kleift að byggja upp þjónustu sem laðar að gesti á öllum árstímum og það fyrirkomulag er grundvöllur undir framtíðarrekstur öflugrar atvinnugreinar.“ Steinþór Pálsson bankastjóri segir:„Landsbankinn hefur lagt sérstaka áherslu á að styðja við uppbyggingu í ferðaþjónustu á undangengnum árum og fjármagnað verkefni á því sviði um allt land. Samstarf bankans við forsvarsmenn verkefnisins Ísland allt árið hefur verið árangursríkt og það er trú okkar að styrkir sem þessir efli ferðaþjónustu enn frekar. Við óskum styrkþegum til hamingju og vonum að hugmyndir þeirra nái fram að ganga.“ Í úthlutunarnefnd voru Davíð Björnsson, Finnur Sveinsson og Guðný Erla Guðnadóttir starfsmenn Landsbankans, Ásborg Arnþórsdóttir sem skipuð var af atvinnuvegaráðherra, Einar Karl Haraldsson, stjórnarformaður verkefnisins Ísland allt árið, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri. Formaður dómnefndar var Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð hjá Landsbankanum. Þróunarsjóðnum er ætlað að styðja við samstarfsverkefni fyrirtækja sem lengt geta ferðamannatíma á tilteknum svæðum eða afbragðsverkefni stakra fyrirtækja undir sömu formerkjum. Hvatt er til samstarfs skapandi greina við fyrirtæki í ferðaþjónustu. Sjóðurinn styrkir einkum verkefnisstjórn, greiningarvinnu, undirbúning verkefna, kaup á ráðgjöf og þróun hugmynda en einnig önnur verkefni sem stuðlað geta að lengingu ferðamannatímans. Styrkir sjóðsins geta að hámarki numið 50% af heildarkostnaði verkefnis. Eftirtaldir hlutu styrki úr Þróunarsjóði að þessu sinni: Norðurhjari – Uppbygging ferðaþjónustu frá Kelduhverfi að Bakkafirði – 5.000.000 kr.Til að vinna að gerð áætlunar um uppbyggingu á völdum ferðamannastöðum á svæðinu frá Kelduhverfi að Bakkafirði, skipulagi þeirra og merkingum. Greind verða tækifæri í ferðaþjónustu á haustin og vorin, m.a. í veiðiferðamennsku og menntatengdri ferðaþjónustu. South Iceland Adventure – Miðgarður – 4.000.000 kr.Til að efla ferðamennsku á Suðurlandi vetrarmánuði ársins með verkefninu Miðgarður - eða Project Midgard – en markmið þess er að nýta  ferðamannasvæði sem býður upp á íslenska vetrarupplifun með ævintýraferðum. Heklan, atvinnuþróunarfélag Suðurnesja – Jarðvarmavangur á Reykjanesi – 3.450.000 kr.Til að vinna að uppbyggingu jarðvarmavangs á Reykjanesi með það að markmiði að auka vöruframboð fyrir ferðamenn á svæðinu á jaðartímum. Með því móti má auka framlegð atvinnugreinarinnar í samvinnu fyrirtækja, menntastofnana og opinberra aðila í samstarfi við Geo Camp Iceland. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða – Vatnavinir Vestfjarða – 3.000.000 kr.Til að finna leiðir til að nýta haf, vatn, jarðvarma og náttúru svæðisins til atvinnusköpunar í ferðamennsku á umhverfisvænan hátt. Markmiðið er að lengja ferðatímabil á svæðinu og dvalartíma ferðamanna. Fisherman ehf. – Matarferð í sjávarþorp – 3.000.000 kr.Til að undirbúa/skipuleggja matarferðir til Suðureyrar þar sem farið er í tveggja tíma söguferð um vistvænt sjávarþorp, þar sem stoppað er á mismunandi stöðum í þorpinu til að smakka á framleiðsluafurðum heimamanna. Harald Jóhannesson – Fuglaskoðunarferðir á Norðausturlandi – 3.000.000 kr.Til að skipuleggja fugla- og náttúruskoðunarferða fyrir erlenda ferðamenn og þróa markaðsefni fyrir þær hérlendis og erlendis. Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar – Ísland, áfangastaður listamanna – 3.000.000 kr.Til að gera Ísland að áfangastað alþjóðlegra listamanna og listaverkasafnara á þeim tíma þegar mest er um að vera í myndlistarlífi landsins frá september til maí á ári hverju. Westfjords Adventures – Þróun ævintýraferða á Vestfjörðum – 1.900.000 kr.Til að stofna afþreyingarfyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum og bjóða upp á ævintýraferðir á svæðinu. Fyrirtækið mun starfa allt árið og vera leiðandi í þróun svæðisins sem vetraráfangastaðar. Mývatnsstofa ehf. – Orka vetrarins – 1.800.000 kr.Mývatnsstofa og Húsavíkurstofa er samstarfsvettvangur aðila í verslun og ferðaþjónustu á Norðausturlandi. Félögin koma að ýmsum viðburðum en þeirra á meðal er Orkugangan, "Hestar á ís"  og  "Mývatnsmaraþon". Magnús Freyr Ólafsson – Vitinn lýsir leið – 1.000.000 kr.Til að vinna að skipulagningu heimsókna ferðamanna í stóra vitann á Breið á Akranesi sem býður upp á einstakt útsýni og tækifæri til ljósmyndunar. Skjaldarvík ferðaþjónusta – Jólaævintýri – 1.000.000 kr.Til að skipuleggja námskeið og kvöldverði þar sem íslenskar jólahefðir eru kynntar fyrir ferðamönnum og þá sér í lagi laufabrauðsgerð og matarhefð á jólum. Snæland Grímsson – Heilsueflandi ferðir – 950.000 kr.Til að finna leiðir til að markaðssetja eiginleika íslenska vatnsins og nýta fjárfestingu betur í heilsueflandi ferðir yfir vetrarmánuðina, svokallaða wellness-ferðamennsku. Styrkþegar úr Þróunarsjóði Landsbankans og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis við úthlutun í Iðnó í gær. Með þeim á myndinni eru Steingrímur J. Sigfússon atvinnuvegaráðherra, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Steinþór Pálsson bankastjóri.
Lesa meira

Ný nálgun við greiningu á dreifingu gistinátta

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur kynnt áhugaverða nálgun við samanburð á þróun gistinátta í því skyni að átta sig betur á þróun árstíðasveiflunnar. Til þessa hefur einkum verið horft til einfaldra hlutfallsreikninga en Rannsóknamiðstöðin hefur nú reiknað út svokallaðan GINI-stuðul. Þróaðri tölfræðileg greiningAlgeng notkun GINI-stuðulsins er við greiningu á jöfnuði tekna í samfélaginu og hefur Stefán Ólafsson, prófessor gjarna nýtt stuðulinn í því samhengi, segir í minnisblaði Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Með sama hætti er hægt að skoða dreifingu gistinátta yfir mánuði ársins eftir mismunandi svæðum. Ef allar gistinætur ársins skila sér alveg jafnt í hverjum mánuði inn á svæðið tekur GINI stuðulinn gildið núll. Hann hækkar eftir því sem gistináttadreifingin er ójafnari. Við gildið 1 er hefur einn mánuður allar gistinæturnar.Við samanburðinn er skoðað árabilið 1998-2011 og landinu skipt eftir svæðum sem endurspegla kjördæmaskiptingu 1959. Höfuðborgarsvæðið með besta dreifinguEins og við er að búast er dreifingin lang best á höfuðborgarsvæðinu þar sem stuðullinn var 0,32 árið 1998 en hafði lækkað í 0,26 í fyrra. Lægstur var hann á þessu árabili 0,24, árið 2008. Mest árstíðasveifla á Norðurlandi vestra og VestfjörðumEf litið er til ársins í fyrra, þ.e. 2011, þá var stuðullinn hæstur á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum, 0,71, en hins vegar hefur hann lækkað meira á Norðurlandi vestra á umræddu tímabili. Ef meðaltal áranna 1998-2011 er skoðað má sjá að stuðullinn er um og yfir 0.7 á öllum svæðum utan höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, og raunar sker höfuðborgarsvæðið sig nokkuð úr. Þokast í rétta áttÍ meðfylgjandi PDF-skjali er samanburðurinn settur upp í tvær töflur og má sjá að jöfnun árstíðasveiflunnar þokast í rétta átt. „Vandi íslenskrar ferðaþjónustu er engu að síður enn um sinn hin mikla árstíðarsveifla gistinátta, sem sérstaklega einkennir svæði utan höfuðborgarsvæðis,“ segir í minnisblaði Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Þróun árstíðasveiflu í gistingu  - GINI-stuðull (PDF) Mynd: Vetur í Reykjavík©Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com
Lesa meira

Icelandair semur um nýjar flugvélar

Icelandair Group og Boeing hafa undirritað viljayfirlýsingu um pöntun á 12 737 MAX8 og 737 MAX9 flugvélum með kauprétti á 12 flugvélum til viðbótar. Um er að ræða nýjar gerðir flugvéla og er áætlað að fyrstu vélarnar komi í rekstur flugfélaga árið 2017. Icelandair mun taka við fyrstu vélunum af þessum gerðum á fyrri hluta árs 2018, eða eftir rúmlega 5 ár. Pantaðar eru átta 737 MAX 8 vélar sem taka 153 farþega og fjórar 737 MAX 9 vélar sem taka 172 farþega miðað við sætafjölda Icelandair.  Til samanburðar taka Boeing 757-200 flugvélar Icelandair 183 farþega. Heildarverðmæti flugvélanna 12 samkvæmt listaverði Boeing er um 1,2 milljarðar bandaríkjadala, en kaupverð er trúnaðarmál. Fyrirhugað er að fjármagna kaupin með sjóðstreymi frá rekstri og hefðbundinni flugvélafjármögnun þegar þar að kemur. Viðræður hafa átt sér stað við Export-Import Bank of the United States varðandi stuðning bankans við fjármögnun vélanna. Samkvæmt áætlunum félagsins hafa kaupin ekki áhrif á núverandi arðgreiðslustefnu. Boeing 737 MAX vélarnar eru ný og endurbætt langdrægari útgáfa af núverandi Boeing 737 vélum. Á þeim verða nýir og sparneytnari hreyflar sem lækka eldsneytisnotkun um 13% á sæti frá því sem nú er.  Eldsneytissparnaður samanborið við Boeing 757 vélarnar sem eru notaðar í flota Icelandair nemur meira en 20% á sæti. Icelandair mun áfram nota Boeing 757 flugvélar í áætlunarflugi sínu með nýju flugvélunum enda henta þær einstaklega vel fyrir leiðakerfi félagsins sem nær til Evrópu og Norður-Ameríku. Nýju flugvélarnar munu bætast við og stækka flotann og auka sveigjanleika félagsins og möguleika á frekari vexti. Þær hafa flugdrægni til áfangastaða í Norður-Ameríku og Evrópu og gefa Icelandair nýja möguleika til aukinnar tíðni og fjölgunar áfangastaða og þá sérstaklega yfir vetrartímann sem minnkar árstíðasveiflu í rekstri félagsins. „Icelandair Group hefur að undanförnu kannað rækilega alla þá fjölmörgu kosti sem flugvélaframleiðendur bjóða til þess að styrkja og þróa áætlunarflug Icelandair til framtíðar. Sú niðurstaða sem hér er kynnt er afrakstur þeirrar vinnu og er okkur mikið ánægjuefni. Félagið hefur átt farsælt samstarf við Boeing um áratugaskeið og ljóst að framhald verður á því“, segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group.
Lesa meira

Gistinætur heilsárshótela í október

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í október síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum á hótelum í október fjölgar um 20% Gistinætur á hótelum í október voru 140.500 samanborið við 117.200 í október  2011. Gistinætur erlendra gesta voru um 79% af heildarfjölda gistinátta í október en gistinóttum þeirra fjölgaði um 23% samanborið við október 2011. Á sama tíma voru gistinætur Íslendinga 10% fleiri en árið áður. Gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum. Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinætur 105.200 eða um 17% fleiri en í október 2011. Á Norðurlandi fjölgaði gistinóttum um 62%, voru 9.600 samanborið við 5.900 í október 2011. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum um 40% en þar var fjöldi gistinátta október ríflega 3.000. Gistinætur á Austurlandi voru 3.300 í október og fjölgaði um 31%. Á Suðurlandi voru 13.700 gistinætur á hótelum í október  sem er um 16% aukning samanborið við fyrra ár. Gistinóttum á Suðurnesjum fjölgaði milli ára um 11%, voru 5.700 samanborið við 5.200 í október 2011. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 17% fyrstu tíu mánuði ársinsGistinætur á hótelum fyrstu tíu mánuði ársins voru 1.563.200 til samanburðar við 1.339.100 á sama tímabili árið 2011. Gistinóttum erlendra gesta hefur fjölgað um 18% á meðan gistinóttum Íslendinga hefur fjölgað um 10%. Nánar á vef Hagstofunnar  
Lesa meira