Fréttir

Gistinætur heilsárshótela í maí

Hagstofan hefur birt tölur um gistinættur á hótelum í maí síðastliðnum. Sem fyrr vekur Hagstofan athygli á að tölurnar ná eingöngu til hótela sem opin eru allt árið þannig að til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 15% í maíGistinætur á hótelum í maí voru um 139.700 samanborið við 120.500 í maí í fyrra. Gistinætur erlendra gesta voru um 82% af heildarfjölda gistinátta en gistinóttum þeirra fjölgaði um 17% miðað við maí í fyrra. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði einnig um 8% á sama tímabili. Gistinætur á hótelum á höfuðborgarsvæðinu voru um 102.500 í maí, en það er fjölgun um tæp 20% frá fyrra ári. Á Norðurlandi voru um 9.400 gistinætur á hótelum í maí sem er um 18,5% aukning miðað við maí í fyrra. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 18,5%, voru 5000 en 4.200 í maí í fyrra. Gistinætur á Suðurlandi voru tæplega 13.100 sem er 4,5% aukning milli ára. Í öðrum landshlutum fækkaði gistinóttum milli ára. Á Suðurnesjum voru 4.800 gistinætur sem jafngildir 11% fækkun milli ára. Á samanlögðu svæði Vesturlands og Vestfjarða voru 4.400 gistinætur sem jafngildir 7,5% fækkun milli ára. Nánar á vef Hagstofunnar
Lesa meira

Fyrstu fyrirtækin fá VAKANN

Í dag var því fagnað að fyrstu íslensku fyrirtækin hafa lokið innleiðingu á VAKANUM, nýju gæða- og umhverfiskerfi fyrir aðila í ferðaþjónustu. Fyrirtækin eru öll umsvifamikil á sviði íslenskrar ferðaþjónustu en þau eru: Elding hvalaskoðun, Bílaleiga Akureyrar – Höldur, Ferðaskrifstofan Atlantik og Iceland Excursions Allrahanda. Auka öryggi og efla gæði  VAKINN felur í sér viðameiri úttekt á starfsemi íslenskra fyrirtækja í ferðaþjónustu en áður hefur þekkst hér á landi. Kerfinu er ætlað að auka öryggi og efla gæði  og fagmennsku á sviði ferðaþjónustu.  Þau fyrirtæki sem óska eftir þátttöku í VAKANUM þurfa að uppfylla auknar kröfur um gæði og öryggi, jafnt fyrir starfsfólk sem og viðskiptavini. Auk þess tekur VAKINN m.a. til aðbúnaðar, þjónustu við ferðamenn, þjálfun starfsfólks og umgengni við náttúruna svo fátt eitt sé nefnt. Að nýsjálenskri fyrirmynd„Vinna við undirbúning VAKANS hófst fyrir alvöru árið 2008 þegar Iðnaðarráðuneytið fól Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands að vinna að gerð gæðakerfis. Óháð ráðgjafafyrirtæki var fengið til þess að taka út gæðakerfi víðs vegar um heim og niðurstaðan varð sú að byggja á nýsjálenska kerfinu Qualmark. Það hefur nú verið staðfært og aðlagað að íslenskum aðstæðum og fengið nafnið VAKINN“, segir Ólöf  Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri. Skýrari stefna og aukin færniMeð innleiðingu VAKANS munu aðilar í ferðaþjónustu geta markað sér skýrari stefnu og aukið færni sína við reksturinn. Þeir munu bæta öryggi og velferð gesta sinna sem og starfsmanna, auk þess sem þeir taka þátt í því að auka trúverðugleika íslenskrar ferðaþjónustu í heild. Verkefnið hefur verið unnið í náinni samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálasamtök Íslands og Nýsköpunarmiðstöð. Þannig hefur skapast breið samstaða innan ferðaþjónustunnar um þennan mikilvæga málaflokk. Tvíþætt gæðakerfi og umhverfisviðmið í kaupbætiGæðakerfi VAKANS er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða gæðaúttekt fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu og hins vegar stjörnuflokkun fyrir gististaði, svo sem hótel, gistiheimili, orlofshús, tjaldsvæði og fleira. Sá hluti verður innleiddur á næsta ári. Umhverfiskerfi VAKANS stendur öllum þátttakendum til boða endurgjaldslaust. Elding hvalaskoðun, Bílaleiga Akureyrar – Höldur, og Iceland Excursions Allrahanda sem eru þátttakendur í  gæða- og umhverfiskerfi VAKANS og Ferðaskrifstofan Atlantik er þátttakandi í gæðakerfi VAKANS.    Frá afhendingu viðurkenninganna í dag. Talið frá vinstri: Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar – Höldur; Ólafía Sveinsdóttir, Ferðaskrifstofan Atlantik; Rannveig Grétarsdóttir, Elding hvalaskoðun; Rúnar Garðarsson, Iceland Excursions Allrahanda og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.  Allar upplýsingar má finna á www.vakinn.is Nánari upplýsingar veitir Áslaug Briem, gæðafulltrúi Vakans, sími: 535 5500 aslaug@vakinn.is
Lesa meira

Ferðamennska á miðhálendi Íslands: Staða og spá um framtíðarhorfur

Í vor kom út skýrsla sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, dósent við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, skrifaði að beiðni Skipulagsstofnunar. Skýrslan nefnist „Ferðamennska á miðhálendi Íslands: Staða og spá um framtíðarhorfur“ Byggir á rannsóknum síðustu tíu árÍ inngangi kemur fram að Skipulagsstofnun óskaði eftir stuttri samantekt á þeim rannsóknum sem skýrsluhöfundur hefur gert á ferðamennsku á miðhálendi Íslands undanfarin áratug og með hliðsjón af þeim og þeim fræðum sem til eru um efnið, vangaveltum um framtíðarþróunina á miðhálendinu. Í umfjölluninni er stuðst við gögn sem höfundur hefur safnað á 11 stöðum á hálendinu í tengslum við rannsóknir á viðhorfum ferðamanna. Kannanirnar eru frá mismunandi tímum, frá árinu 2000 til ársins 2011. Einnig er notast við tölulegar upplýsingar úr könnunum sem gerðar hafa verið af, eða fyrir, Ferðamálastofu sem og frá Hagstofu Íslands. Viðkvæm auðlind sem hratt hefur gengið áÍ niðurstöðum segir Anna Dóra meðal annars: „Af þessari umfjöllun má sjá að hálendið og þeir víðerniseiginleikar sem gefa svæðinu mikið upplifunargildi er mjög viðkvæm auðlind sem verður að fara mjög varlega í að nýta frekar fyrir ferðamennsku og útivist. Á þessa auðlind hefur verið gengið mjög hratt undanfarin sextíu til sjötíu ár og svo mun væntanlega óhjákvæmilega verða áfram um næstu framtíð. Mikilvægt er þó að hægja á og grípa inn í þróunina áður en auðlindin er gengin til þurrðar.“ Skýrt og vel útfært skipulag lykilatriði Þá segir að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir áhrifum ferðamennsku áður en svæðum er umbreytt á þann hátt sem gert hefur verið í Landmannalaugum. „Vegur, brú, fjallaskáli, gönguleiðir, auglýsing í formi fræðsluþáttar í sjónvarpi, geta þýtt að svæði verða aðgengileg og þekkt og ferðamenn taki að sækja þangað. Því er mikilvægt að huga að afleiðingum allra framkvæmda áður en ráðist er í þær, en ekki láta tilviljun eina, handahófskenndar fjárveitingar, eða ákveðna þrýstihópa ráða því hvar og hvernig ferðamannastaðir byggjast upp. Skýrt og vel útfært skipulag þar sem sjálfbær þróun er höfð að leiðarljósi er lykilatriði fyrir nýtingu þeirrar viðkvæmu auðlindar sem hálendið er,“ segir í skýrslunni en hún er aðgengileg í heild hér að neðan. Ferðamennska á miðhálendi Íslands: Staða og spá um framtíðarhorfur (PDF)  
Lesa meira

Tími til að tengja? Af stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi

Nú er aðgengileg á vefnum nýjasta tölublað vefritsins Stjórnmál og stjórnsýsla. Sérstaklega er vert að benda á grein Gunnars Þórs Jóhannessonar „Tími til að tengja? Af stefnumótun í ferðaþjónustu á Íslandi.“ Gunnar Þór Jóhannesson er verkefnisstjóri við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og lektor í ferðamálafræði, Líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Í útdrætti greinarinnar segir meðal annars:„Ferðaþjónusta á Íslandi hefur vaxið mjög að umfangi síðustu þrjá áratugi og er nú svo komið að atvinnugreinin skaffar umtalsverðan hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins. Ferðaþjónustu hefur löngum verið lýst sem atvinnugrein með mikla framtíðarmöguleika og eftir bankahrunið 2008 hefur hún verið talin gegna mikilvægu hlutverki í endurreisn efnahagslífsins. Í þssari grein er fjallað um hvernig stjórnvöld hafa leitast við að móta stefnu í ferðaþjónustu. Megindráttum í sögu stefnumótunar í ferðaþjónustu er lýst og gripið sér staklega niður í tvö tímabil sem varpa ljósi á tilurð hennar og mótun. Gerendanets - kenningunni (Actor-network theory) er beitt til að draga fram margleitni og dýnamík í gerð stefnumótunar. Því er haldið fram að stefnumótun í ferðaþjónustu sé afurð flókinna tengsla og á tíðum óvæntra samtenginga og tilviljana auk þess að markast af meintu tengslaleysi stjórnvalda við atvinnu greinina.“ Greinin í heild Um vefritið Stjórnmál og stjórnsýslaÍ ritinu eru 13 greinar, þar af ellefu ritrýndar greinar og tvær greinar almenns eðlis auk bókadóms. Greinarnar eru eftir fræðimenn við Háskóla Íslands og aðila úr stjórnsýslunni. Athygli er vakin á að hægt er að gerast áskrifandi að prentaðri útgáfu af Tímaritinu stjórnmál og stjórnsýsla sem kemur út einu sinni á ári með ritrýndum greinum. www.stjornmalogstjornsysla.is/ Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / www.arctic-images.com  
Lesa meira

Snjallleiðsagnir á Austurlandi

Nýjar ferðir á Austurlandi með snjalllleiðsögnum eru fáanlegar í forritinu SmartGuide North Atlantic í vefverslunum Apple og Google. Alls eru sex ferðir í boði þar sem þaulkunnir sögumenn leiða íslenska og erlenda ferðamenn um slóðir sínar. Um er að ræða nýtt smáforrit (app) í snjallsíma og spjaldtölvur sem gefið út af Locatify í samstarfi við Félag áhugamanna um söguslóðir Hrafnkelssögu, Gunnarsstofnun og fleiri aðila, og styrkt af AVS (Rannsóknarsjóði í sjávarútvegi) og Vaxtarsamningi Austurlands. Ný leið til að ferðastForritinu er hlaðið niður í iPhone og Android snjallsíma eða iPads spjaldtölvur áður en haldið er af stað. Forritið notar GPS tækni og fer sjálfkrafa í gang á réttum stöðum og segir frá því sem er í umhverfinu þannig að notandinn nýtur persónulegrar leiðsagnar líkt og sögumaður væri með í för. Einnig er hægt að njóta þess sem gagnvirkrar ferðabókar með því að fletta myndum og hlusta á frásagnir heima í stofu.  Með snjallleiðsögn er boðið uppá nýja þjónustu við ferðamenn sem eykur þekkingu og skilning á sérstöðu hvers svæðis.  Menningar-og náttúruarfleifð er kynnt af sagnaþulum og leiðsögumönnum á íslensku sem Neil Machon þýddi síðan og staðfærði fyrir enskumælandi ferðamenn. Litli FljótsdalshringurinnSkúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, leiðir ferðamenn Litla Fljótsdalshringinn. Ferðamaðurinn getur notið þess að keyra um Fljótsdalinn á meðan hann hlustar á sögur af staðháttum, fólki, álfum, trjám og fornköppum á Fljótsdalshéraði. Stóri FljótsdalshringurinnArndís Þorvaldsdóttir skjalavörður er leiðsögumaður sem segir á lifandi hátt sögur af fólki og umhverfi Lagarfljóts. Arndís veitir innsýn í hugarheim fólks í fortíð og nútíð,  tvinnar saman þjóðsögur og sögur úr nútímanum og tengir þær þeim stöðum sem eru heimsóttir. JökuldalurBaldur Pálsson, slökkviliðsstjóri, sagnaþulur og Austfirðingagoði segir frá upplifunum sínum og kynlegum kvistum á Jökuldal. Hlýtt er á frásagnir um skólagöngu, landsfrægar persónur og heiðna staðhætti um leið og sögustaðir eru heimsóttir. HrafnkelsdalurBræðurnir Baldur og Páll Pálssynir frá Aðalbóli segja frá Hrafnkelssögu og uppvextinum í Hrafnkelsdal. Með þeim er einn afskekktasti dalur landsins kannaður þar sem frægasta Íslendingasaga Austfirðinga gerðist. EskifjörðurÞórhallur Þorvaldsson, sagnamaður og kennari á Eskifirði, er margfróður um fæðingarstað sinn. Gengið er um plássið með Þórhalli og húsin og fólkið sem byggði Eskifjörð lifna við í hugskotum hlustenda. FjarðahringurinnHulda Guðnadóttir er kennari á Reyðarfirði á veturna og leiðsögumaður á sumrin. Í  hringferð um Austfirði og Hérað segir hún frá fólki, fyrirbærum og náttúru Austurlands. Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir, steinunn@locatify.com   sími: 699-4320Skúli Björn Gunnarsson, skuli@skriðuklaustur.is   sími: 860-2985 eða  471-2990
Lesa meira

Heilsulindin Ísland - möguleikar á sviði lífsgæðatengdrar ferðaþjónustu

Nýsköpunarmiðstöð Íslands býður öllum áhugasömum á fyrirlestur um gæði þeirra tækifæra sem Ísland hefur upp á að bjóða hvað varðar heilsutengda ferðaþjónustu miðvikudaginn 27. júní frá kl. 14-16 í sal Arion banka, Borgartúni 19. Fyrirlesari á fundi er Dr. Janka Zalesakova,  læknir frá Slóvakíu. Bakgrunnur og reynsla fyrirlesara Læknir að mennt Sérfræðingur í meðhöndlun lífstílssjúkdóma Hefur skrifað fjölda greina um lífstílssjúkdóma Hefur haldið fyrirlestra víða um heim um endurhæfingu og forvarnir á sviðinu Hefur starfað sem háskólakennari, yfirlæknir og sem ráðgjafi stofnana og ráðuneyta í Evrópu og í Kanada um forvarnir, endurhæfingu og nauðsyn breyttra lífshátta ef útgjöld til heilbrigðismála eiga ekki að hækka talsvert á komandi árum Hefur margoft komið til Íslands og þekki því vel til aðstæðna hér á landi  Skráning þátttöku Allir áhugasamir eru hvattir til að mæta! Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson / www.arctic-images.com
Lesa meira

Vegahandbókin komin út

Ný og endurbætt  útgáfa af Vegahandbókinni er komin út og þýsk útgáfa væntanleg. Í bókunum er nýjung sem er ítarleg 24 síðna kortabók með ítarlegum yfirlitskortum sem veitir góða yfirsýn yfir landsvæðið sem ferðast er um og auðveldar notkun bókanna, segir í tilkynningu. Kortin eru í mæikvarðanum 1:500 000. Áhersla er lögð á vegakerfið, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.  Á  kortin eru merktir þeir staðir sem bjóða upp á gistingu, tjaldsvæði, sund, golf, söfn, sýningar, upplýsingamisðtöðvar og margt fleira. Eyjafjallajökull hvað??Samhliða hefur verið opnuð ný heimasíða, www.vegahandbokin.is  þar sem er að finna margvíslegan fróðleik um land og þjóð. Vefurinn er á íslensku, ensku og þýsku.  Í ítarupplýsingum er fjallað um 3000 staði á Íslandi.  Meðal annars er hægt að hlusta á hvernig þeir eru bornir fram svo nú á ekki að vefjast fyrir neinum að segja Eyjafjallajökull.
Lesa meira

Bæklingurinn Upp í sveit 2012 er kominn út

Bæklingur Ferðaþjónustu bænda Upp í sveit 2012 er kominn út, 25. árið í röð. Í bæklingnum eru upplýsingar um 180 ferðaþjónustubæi innan vébanda Ferðaþjónustu bænda um land allt sem bjóða upp á  fjölbreytta gistingu, afþreyingu við allra hæfi og máltíðir að hætti heimamanna. Gistingin er fjölbreytt og má þar nefna gistihús bænda, sveitahótel, heimagistingu og sumarhús. Þá eru afþreyingarmöguleikar aldrei langt undan og má t.d. nefna merktar gönguleiðir, hestaferðir / hestasýningar, golf, veiði, fjórhjólaferðir, kynningu á sveitastörfum og afslöppun í heitum potti, segir í tilkynningu. Í bæklingnum er einnig að finna upplýsingar fyrir þá sem vilja bragða á heimatilbúnum afurðum Beint frá býli eða kynnast sveitastörfum í gegnum verkefnið Opinn landbúnaður. Þetta er nýbreytni í bæklingnum en vorið 2009 tók Ferðaþjónusta bænda höndum saman við félagsskapinn Beint frá býli og verkefnið Opinn landbúnað sem er í umsjón Bændasamtaka Íslands. Markmiðið er að koma á framfæri því besta sem sveitin hefur upp á að bjóða fyrir ferðamenn. Bæklingurinn er prentaður í 25.000 eintökum. Hægt er að nálgast hann á skrifstofu Ferðaþjónustu bænda að Síðumúla 2 - 108 Reykjavík, á upplýsingamiðstöðvum,  samgöngumiðstöðvum, sölustöðum ferða og á fjölsóttum ferðamannastöðumm um land allt og aðra hverja viku í verslunum Krónunnar á Granda, Reykjavíkurvegi, Bíldshöfða, í Lindum, Mosfellsbæ og Jafnaseli. Einnig er hægt að skoða bæklinginn rafrænt á vefnum sveit.is eða panta á vefnum og fá hann sendan í pósti.   
Lesa meira

"Hostel" - íslenskt nafn óskast

Við hjá Ferðamálastofu leitum að góðu íslensku heiti á orðinu „Hostel“. Hingað til hefur orðið yfirleitt hlotið þýðinguna farfuglaheimili en þar sem það er lögverndað heiti þá verðum við að finna annað gott orð fyrir þessa tegund gistingar. Sem dæmi má nefna að Ástralir og Nýsjálendingar hafa t.d. notað orðið „Backpackers“  en það orð er einnig farið að sjást hér á landi fyrir þessa ákveðnu tegund gististaða. Ástæðan fyrir því að við erum að leita eftir góðum tillögum  tengist vinnu sem er nú í fullum gangi varðandi staðfærslu á nýjum viðmiðum fyrir mismunandi tegundir gistingar hér á landi innan nýja gæða- og umhverfiskerfis VAKANS en þessi nýju viðmið verða einmitt innleidd á næsta ári.Tillögur og ábendingar er hægt að senda á elias@ferdamalastofa.is
Lesa meira

Norrænar vinnustofur í Suður-Evrópu í haust

Líkt og undanfarin ár mun Íslandsstofa, í samstarfi við önnur Norðurlönd, bjóða upp á vinnustofur í þremur borgum á Spáni og Ítalíu. Á vinnusmiðjurnar verður boðið áhugaverðum viðskiptaaðilum úr sameiginlegum tenglagagnabanka Norðurlandanna svo og aðkeyptum tenglum. Tímasetningin er hagstæð öllum þeim söluaðilum sem vilja kynna nýjungar fyrir komandi ár og stofna til nýrra viðskiptasambanda á þessum mörkuðum. 26. september 2012 í Madríd - ásamt Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi27. september 2012 í Barcelóna - ásamt Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi09. október 2012 í Mílanó - ásamt Danmörku, Svíþjóð og Noregi  Að jafnaði er gert ráð fyrir 80-100 þátttakendum úr röðum ferðaskipuleggjenda orlofsferða og MICE, auk sérvalinna blaðamanna. Gerð verður handbók um seljendur sem dreift verður til gesta. Seljendur fá handbók með upplýsingum um skráða kaupendur sem verða úr hópi yfir aðila sem boðið verður. Að auki er gert ráð fyrir kynningu um áfangastaðina fyrir kaupendur og kynningu um markaðina fyrir seljendur. Frestur til að tilkynna þátttöku er 1. júlí 2012. Nánari upplýsingar og skráning - Vinnustour í Suður-Evrópu  
Lesa meira