Fara í efni

Rekstrarstöðvun flugfélaga

Hér eru rakin helstu atriði varðandi stöðu farþega og seljenda pakkaferða vegna rekstrarstöðvunar flugfélaga, annars vegar þegar flug er hluti pakkaferðar og hins vegar þegar keyptur hefur verið stakur flugmiði.

Lykilatriði:

Réttarstaða flugfarþega er ólík eftir því hvort flugið er hluti af pakkaferð eða hvort keyptur hefur verið stakur flugmiði. 

  • Sé flug hluti af pakkaferð ber seljandi pakkaferðar ábyrgð á að koma farþegum sínum á áfangastað og til baka aftur. 
  • Þeim sem keypt hafa pakkaferð eða eru nú þegar í pakkaferð, og flughluti ferðarinnar er með flugfélagi sem stöðvar rekstur, ber að snúa sér til seljanda pakkaferðarinnar varðandi frekari upplýsingar. 
  • Þeir sem keypt hafa pakkaferð beint af flugfélagi sem stöðvar rekstur, eða eru nú þegar í pakkaferð sem keypt er af félaginu, geta haft samband við Ferðamálastofu í gegnum netfangið krofur@ferdamalastofa.is eða netspjall stofnunarinnar hér á vefnum. 
  • Hafi farþegi keypt stakan flugmiða, og er staddur erlendis þegar flugfélag stöðvar rekstur, verður hann sjálfur að koma sér heim og á eigin kostnað. 
  • Þeim sem keypta hafa staka flugmiða flugfélagi sem stöðvar rekstur er bent á að hafa samband við kreditkortafyrirtæki sitt, hafi flugmiði verið greiddur með kreditkorti. Einnig geta þeir gert kröfu í þrotabú viðkomandi flugfélags.
  • Nánari upplýsingar um réttindi flugfarþega sem keypt hafa stakan miða má sjá á vef Samgöngustofu sem hefur eftirlit með flugrekstri.

Um sölu pakkaferða gilda lög um um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018. Sala pakkaferða er leyfisskyld starfsemi skv. lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018. Þeim einum er heimilt að selja pakkaferðir sem hefur til þess útgefið leyfi frá Ferðamálastofu.

Ábyrgð þess sem selur pakkaferðir

Seljandi pakkaferðar, ber ábyrgð á að farþegi fái það sem hann greiðir fyrir, þ.e. ber ábyrgð á réttri framkvæmd ferðarinnar. Það þýðir m.a. að hann ber ábyrgð á að koma farþegum sínum á áfangastað og til baka aftur. Verði flugfélag, sem aðeins sér um flughluta pakkaferðar, gjaldþrota ber seljandanum skylda til að útvega farþegum sínum annað flug til að koma þeim á áfangastað eða til baka sé ferð hafin. Um önnur úrræði fer skv. lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun.

Seljandi pakkaferðar, sem útvega þarf farþegum sínum annað flug til að uppfylla skyldur sínar getur átt almenna kröfu í þrotabú flugfélags komi til gjaldþrots þess. Hafi seljandi pakkaferðar keypt flughluta ferðarinnar með greiðslukorti getur hann kannað rétt sinn hjá sínu greiðslukortafyrirtæki.

Varðandi frekari upplýsingar um framkvæmd pakkaferða er hægt að leita til Neytendastofu. Hægt er að hafa samband í síma 510 1100 eða senda póst á netfangið postur@neytendastofa.is

Tryggingavernd vegna pakkaferða

Sala pakkaferða er tryggingarskyld. Seljanda pakkaferða ber að vera aðili að Ferðatryggingasjóði, leggja fram tryggingu og greiða iðgjald og stofngjald til sjóðsins. Nánari upplýsingar um hvað felst í tryggingavernd vegna sölu pakkaferða er að finna hér.  

Viðbragðsáætlun 

Ferðamálastofa hefur sett sér áætlun um viðbrögð og málsmeðferð í þeim tilfellum þegar reynir á tryggingavernd.