Fara í efni

Ferðasali dagsferða - Upplýsingar og umsóknir

Samkvæmt III kafla laga um Ferðamálastofu nr. 96/2018 skal hver sá sem hyggst starfa sem ferðasali dagsferða hafa til þess leyfi Ferðamálastofu. Útgefið leyfi er ótímabundið. Sækja ber um leyfi til Ferðamálastofu a.m.k. tveimur mánuðum áður en fyrirhuguð starfsemi á að hefjast.

Ferðasali dagsferða er aðili sem, hvort sem er að eigin frumkvæði eða eftir beiðni viðskiptavinar, setur saman, býður fram eða selur í atvinnuskyni til almennings skipulagðar ferðir sem falla ekki undir lög nr. 95/2018 um pakkaferðir of samtengda ferðatilhögun.

 Leyfisbréf og auðkenni

ferðasali dagsferðaLeyfisbréf ferðasala dagsferða eru einungis gefin út rafrænt.

Ferðasali dagsferða skal í hvers kyns auglýsingum um starfsemi sína og á vef sínum nota myndrænt númerað auðkenni sem Ferðamálastofa útvegar.

Ferðamálastofu er heimilt að veita undanþágu frá þessu, í sérstökum tilfellum, að fenginni umsókn leyfishafa.

Heiti og hjáheiti (markaðsheiti)

Óheimilt er að reka eða kynna starfsemi ferðasala dagsferða undir öðrum heitum en þeim sem fram koma á leyfisbréfi. Í umsókn um leyfi skal koma fram heiti leyfishafa ásamt öllum hjáheitum (markaðsheitum) sem fyrirhugað er að nota í starfseminni. Hægt er að bæta hjáheitum á leyfi hvenær sem er, er það gert með umsókn til Ferðamálastofu sem gefur út nýtt leyfisbréf án endurgjalds.

Hjáheiti geta, auk nafna eða heita, verið auðkenni eða lén.

Vakin er athygli á að Ferðamálastofa ber ekki ábyrgð á hjáheitum sem skráð eru á leyfisbréf leyfishafa. Vilji leyfishafar tryggja að aðrir aðilar noti ekki þau hjáheiti eða auðkenni sem skráð eru á leyfi þeirra verða þeir að skrá hjáheitin hjá fyrirtækja- eða firmaskrá og auðkenni hjá Hugverkastofunni.

 

Starfsstöð

Starfsemi ferðasala dagsferða skal rekin á fastri starfsstöð.
Ef þjónustan er einungis starfrækt á rafrænan hátt skal leyfishafi uppfylla skilyrði 6. gr. laga um rafræn viðskipti og aðra rafræna þjónustu, nr. 30/2002, um það sem koma skal fram á vef hans.
Þjónustuveitandi skal veita greiðan og samfelldan aðgang að eftirfarandi upplýsingum um sig:

  1. nafni,
  2. heimilisfangi þar sem hann hefur staðfestu,
  3. kennitölu,
  4. póstfangi, netfangi og öðrum þeim upplýsingum sem gera mögulegt að hafa samband við hann á greiðan hátt,
  5. virðisaukaskattsnúmeri þjónustuveitanda,
  6. þeirri opinberu skrá sem hann er skráður hjá, svo sem hlutafélagaskrá, samvinnufélagaskrá eða firmaskrá, og
  7. leyfi og eftirlitsaðila ef starfsemi hans er háð leyfum.

Sjá einnig vef Neytendastofu.  

Ábyrgðartrygging / frjáls ábyrgðartrygging atvinnurekstrar frá vátryggingafélagi

Ábyrgðartryggingunni er ætlað að tryggja viðskiptavini leyfishafa, á meðan á ferð stendur, verði þeir fyrir líkamstjóni eða tjóni á eigum sem rekja má til sakar leyfishafa.

Tryggingin þarf að vera í gildi á gildistíma leyfisins. Staðfestingu á tryggingu þarf að leggja fram með umsókn.

Öryggisáætlanir

Öllum sem framkvæma eða hyggjast framkvæma skipulagðar ferðir innan íslensks yfirráðasvæðis er, frá 1. janúar 2019, skylt að hafa skriflegar öryggisáætlanir, á íslensku og ensku, fyrir hverja tegund ferðar.

Skylda til gerðar öryggisáætlana nær jafnt til innlendra sem erlendra ferðaþjónustuaðila.

Óheimilt er að bjóða ferð til sölu eða kynna á nokkurn hátt ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir. Ferðasölum dagsferða, sem selja eða kynna ferðir fyrir aðra, ber að ganga úr skugga um að öryggisáætlanir séu til staðar áður en ferðir eru teknar til sölu.

Öryggisáætlanir eru ekki sendar inn með umsókn en Ferðamaálstofa getur hvenær sem er kallað eftir þeim.

Nánari upplýsingar um öryggisáætlanir og gerð þeirra er að finna hér.

Leyfisskilyrði

Skilyrði leyfis er að umsækjandi eða forsvarsmaður umsækjanda, ef hann er lögaðili, uppfylli eftirfarandi skilyrði:

  1. hafi búsetu innan aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum,
  2. sé lögráða, hafi forræði á búi sínu og hafi ekki á síðustu fjórum árum í tengslum við atvinnurekstur hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt lögum um Ferðamálastofu, almennum hegningarlögum eða lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, bókhald, ársreikninga, gjaldþrotaskipti o.fl. eða staðgreiðslu opinberra gjalda,
  3. hafi skráð starfsemi sína hjá ríkisskattstjóra,
  4. leggi fram staðfestingu um ábyrgðartryggingu frá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu.
  5. Ferðamálastofu er heimilt að óska frekari gagna í tengslum við leyfisveitingu sem nauðsynleg eru til að taka afstöðu til umsóknar. (Sjá lög 96/2018 um Ferðamálastofu).

Fylgigögn með umsókn

Nauðsynlegt er að fara vel yfir að öll vottorð, staðfestingar og önnur gögn sem fylgja eiga umsókn séu til staðar áður en umsókn er fyllt út. Þau fylgigögn sem umsækjandi þarf sjálfur að afla eða útbúa og hengja við umsókn eru:

Einstaklingar

  • Staðfesting á skráningu á launagreiðendaskrá RSK
  • Staðfesting á ábyrgðartryggingu vátryggingafélags
  • Ef einstaklingur rekur starfsemi undir öðru nafni en sínu eigin þarf að skrá heitið hjá firmaskrá RSK og láta staðfestingu þess efnis fylgja umsókn
  • Debet eða kreditkort fyrir greiðslu

Lögaðilar

  • Staðfest vottorð úr fyrirtækjaskrá
  • Staðfesting á skráningu á launagreiðendaskrá RSK
  • Staðfesting á ábyrgðartryggingu vátryggingafélags
  • Athugið, að einungis skráður prókúruhafi hjá Skattinum getur sótt um fyrir hönd lögaðila
  • Debet eða kreditkort fyrir greiðslu

Önnur vottorð

Annarra vottorða sem lög kveða á um að fylgi umsókn er aflað sjálfkrafa. 

Umsóknarferill

Einstaklingur eða lögaðili?

Leyfishafinn er sá sem tilgreindur er sem umsækjandi í umsókninni og getur annað hvort verið einstaklingur eða lögaðili. 

Til þess að hægt sé að fylla út leyfisumsókn fyrir lögaðila þarf forsvarsmaður fyrirtækis (prókúruhafi) að skrá sig inn á sínum skilríkjum og velja félagið sem sótt er um leyfi fyrir. 

Ekkert umboð þarf til að sækja um leyfi einstaklinga

Að fylla út leyfisumsókn

Umsækjandi eða forsvarsmaður lögaðila skráir sig inn á sínum persónulegu rafrænum skilríkjum.  Athugið að ekki er hægt að skrá sig inn á íslylki lögaðila.

Leyfisgjald:

Greiðsla fyrir leyfi er hluti af umsóknarferlinu. Gjald fyrir leyfi ferðasala dagsferða er 20.000 kr.

Opna umsókn:

Ferðasali dagsferða, einstaklingar    Ferðasali dagsferða, lögaðilar

Þarf önnur leyfi?

Umsækjanda ber að kanna hvort önnur leyfi eru nauðsynleg í tengslum við starfsemina.

    • Samgöngustofa sér um útgáfu leyfa varðandi fólksflutninga hvort sem er á landi, í lofti eða á sjó, ám og vötnum.
    • Sýslumenn sjá um útgáfu leyfa fyrir veitingastaði og gististaði.
    • Heilbrigðiseftirlit gefa út rekstrarleyfi fyrir hestaferðir og ber að tilkynna slíka starfsemi til Matvælastofnunar (MAST), sjá www.mast.is Einnig veita heilbrigðiseftirlit starfsleyfi fyrir gististaði, veitingastaði og almenningssalerni.
    • Umhverfisstofnun veitir leyfi vegna aksturs utan vega,  framkvæmda innan friðlanda, ljósmynda- og kvikmyndatöku á svæðum sem heyra undir UST, hreindýraveiða og fuglaveiða
    • Lögreglustjórar veita m.a. skotvopnaleyfi og leyfi fyrir fallhlífastökki
    • Fiskistofa veitir leyfi vegna frístundaveiða