Fara í efni

Vakinn

Vakinn gæða og umhverfiskerfiVAKINN

Vakinn er  gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu. Verkefninu er stýrt af Ferðamálastofu. Þau fyrirtæki sem taka þátt fá óháðan þriðja aðila til að skoða og taka út starfsemi og þjónustu fyrirtækisins, fá staðfestingu á því sem vel er gert og tækifæri til að bæta það sem betur má fara.

Samstarf greinarinnar

Ferðamálstofa stýrir Vakanum en það var upphaflega unnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálasamtök Íslands og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Byggt á reynslu annara

VAKINN er að grunni til byggður á kerfi sem unnið er eftir í ferðaþjónustu á Nýja-Sjálandi og kallast Qualmark. Mikil vinna hefur verið lögð í að staðfæra kerfið og aðlaga að íslenskum aðstæðum og hefur fjöldi aðila úr ferðaþjónustu og sérfræðinga á ýmsum sviðum komið að þeirri vinnu. Þá eru gæðaviðmið VAKANS fyrir hótel unnin samkvæmt stöðlum frá evrópska Hotelstars kerfinu sem leitt er af Hotrec

Efla gæði, öryggi og umhverfisvitund

Markmiðið með Vakanum er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Vakinn er verkfæri þátttakenda til að auka gæði og öryggi, veitir þeim leiðsögn og leggur til margvísleg hjálpargögn og gátlista sem má nýta til að bæta reksturinn og starfshætti í fyrirtækinu.

Gæðakerfið skiptist í tvo flokka:

  1. Gæðavottun fyrir sex tegundir gistingar sem skiptist þannig að stjörnuflokkun er í boði fyrir hótel, með superior möguleika í flokki þriggja til fimm stjörnu. Aðrir gistiflokkar fá gæðavottun, sbr. gæðavottað gistiheimili, gæðavottað hostel o.s.frv.
  2. Gæðavottun fyrir ferðaþjónustu – aðra en gistingu.

Umhverfishlutinn

Öll fyrirtæki í Vakanum taka þátt í umhverfishluta og þurfa að uppfylla að lágmarki umhverfisviðmið sem eiga við bronsmerki og fá sérstaka vottun fyrir það.
Hægt er síðan að sækja um silfur eða gullmerki Vakans.

Gæði og umhverfismál eru lykillinn

Kannanir meðal ferðamanna hafa árum saman fært okkur heim sanninn um að meginaðdráttarafl Íslands er hin stórfenglega náttúra. Hún er gulleggið okkar sem við þurfum að varðveita og skila áfram ósködduðu til komandi kynslóða. Því er mikilvægt að tengja saman umhverfis- og gæðamál, líkt og gert er í Vakanum. Auk þess gera viðskiptavinir vaxandi kröfur til fyrirtækja um að þau sýni ábyrgð og leggi af mörkum til samfélags- og umhverfismála og beina viðskiptum sínum frekar til fyrirtækja sem standa sig vel í þessum efnum.

Umsóknir og nánari upplýsingar

Vefsíða Vakans er www.vakinn.is. Þar er að finna allar nánari upplýsingar, umsóknareyðublað og ýmis önnur hjálpargögn.