Fréttir

VAKINN - fleiri fjarnámskeið um fræðslu og innleiðingu

Mjög góð viðbrögð hafa verið við fjarnámskeiðum fyrir ferðaþjónustuaðila um innleiðingu á VAKANUM, hinu nýja gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar. Skráning stendur yfir á næstu námskeið sem haldin verða 11. október. Um er að ræða tvenns konar námskeið: Almenn fræðsla um innleiðingu VAKANS kl. 11-12  Fræðsla um öryggisáætlanir kl. 14-15:30. Skráning til miðnættis 10. októberNýsköpunarmiðstöð Íslands stendur fyrir námskeiðunum. Fyrirkomulagið er með þeim hætti að þátttakendur skrá sig á netfangið erla.sig@nmi.is. Gefa skal upp nafn, netfang, heiti fyrirtækis og símanúmer. Þátttakendur fá senda til baka slóð í tölvupósti sem þeir nota til að skrá sig inn á fundinn. Skráningarfrestur er til miðnættis 10. október. Mikilvægt að fólk taki fram á hvort námskeiðið það er að skrá sig. Fræðslan er hugsuð jafnt fyrir þá sem þegar hafa sótt um þátttöku í VAKANUM og eru að huga að innleiðingu og þá sem hyggja á umsókn. Hámarks fjöldi þátttakenda á hverjum fundi eru 15 manns, bætt verður við fundum eftir þörfum. Nánari upplýsingarAllar nánari upplýsingar veitir Erla Sigurðardóttir, verkefnisstjóri hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands, erla.sig@nmi, sími 522 9491. Fólki er velkomið að hafa samband við Erlu vegna aðstoðar við aðra þætti í VAKANUM og eins ef umræddir tímar henta ekki viðkomandi og verður þá unnið í að setja upp fleiri námskeið. Nánar um VAKANN á www.vakinn.is
Lesa meira

VAKINN á ensku

Ensk útgáfa af vef VAKANS er nú komin í loftið. Vefurinn er að flestu leyti sambærilegur þeim íslenska. Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um VAKANN fyrir ferðamenn, erlendar ferðaskrifstofur og fleiri. Því er tilvalið fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að kynna ensku síðuna fyrir viðskiptavinum sínum, t.d. núna á Vestnorden. Enska síðan er aðgengileg af forsíðu VAKANS www.vakinn.is en bein slóð er einnig http://en.vakinn.is Eins og fram hefur komð var ákveðið að framlengja afsláttinn á umsóknargjaldinu í VAKANN til 1. nóvember næstkomandi. Sem sagt 40% afsláttur, það munar um það.
Lesa meira

Ísland enn á ný á toppnum hjá lesendum Guardian

Ísland hefur verið valið land ársins í Evrópu 2012 í árlegu vali lesenda breska dagblaðsins The Guardian áhugaverðustu áfangastöðum heims, hinum svokölluðu Guardian Readers‘ Travel Awards. Þetta er í þriðja sinn sem Ísland nær toppsætinu en það gerist einnig árin 2003 og 2005. Alls eru veitt verðlaun í um 20 flokkum. Í umfjöllun um verðlaunin segir að Ísland hljóti sæmdarheitið besta Evrópulandið í ár, en áhrifamiklar myndir af landinu í mótun í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli 2010 hafi vafalítið laðað að gesti. Þá segir jafnframt í umfjöllun blaðsins að lág glæpatíðni og vinsamlegt viðmót heimamanna geri landið að ákjósanlegum áfangastað.Fulltrúi Íslandsstofu, sem annast erlent markaðsstarf til ferðamanna undir formerkjum Visit Iceland, tók við verðlaunum við hátíðlega athöfn í London um helgina. Umfjöllun Guardian
Lesa meira

Alþjóðleg ráðstefna um tölfræði í ferðaþjónustu - skráning stendur yfir

Alþjóðleg ráðstefna um tölfræði í ferðaþjónustu (Global Forum on Tourism Statistics) verður haldin í Hörpu dagana 14-16 nóvember næstkomandi og stendur skráning á hana nú yfir. Ráðstefnan sem er haldin annað hvert ár af EUROSTAT (Hagstofu Evrópusambandsins) og ferðamálanefnd OECD. Ráðstefnan er ætluð þeim sem áhuga hafa á rannsóknum og hagnýtingu talna í ferðaþjónustu.  Ráðstefnunni verður skipt í fimm málstofur:   1. Áhrif áfalla á ferðaþjónustu og töluleg gögn ferðaþjónustunnar2. Árstíðasveiflur í ferðaþjónustu3. Tölfræði ferðaþjónustu á tuttugustu og fyrstu öldinni4. Hvernig hægt er að nota tölfræði við ákvarðanatöku og stefnumótun5. Samhengi og samanburðarhæfni talna í ferðaþjónustu Ráðstefnan er haldin í Hörpu og þátttöku þarf að skrá á vef ráðstefnunnar: http://www.11thtourismstatisticsforum.is/  Þar er einnig að finna dagskrá ráðstefnunnar og frekari upplýsingar.  
Lesa meira

Von á 600 manns á Vestnorden

Von er á um 600 manns á vegum 400 ferðaþjónustuaðila í Hörpu á morgun, 2. október, þegar hin árlega ferðakaupstefna Vestnorden hefst. Kaupstefnunni lýkur miðvikudaginn 3. október. Haldin af NATAAð kaupstefnunni standa Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem er samstarfsvettvangur Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði ferðaþjónustu. Á Vestnorden mætast ferðaþjónustuaðilar frá löndunum þremur og kaupendur ferðaþjónustu frá öllum heimshornum. Til kaupstefnunnar kemur einnig fjöldi blaðamanna sem fjalla um ferðamál auk boðsgesta. Mikilvægur vettvangurVestnorden er haldin á hverju ári, þar af annað hvert ár á Íslandi. Í ár kynna rúmlega 200 ferðaþjónustufyrirtæki þjónustu sína í Hörpu fyrir þeim ríflega 160 ferðaheildsölum sem boðað hafa komu sína. Hver og einn sýningaraðili getur bókað 36 tuttugu mínútna viðskiptafundi meðan á kaupstefnunni stendur. Vestnorden hefur um langt árabil verið mikilvægasti vettvangur þjóðanna þriggja í Norður-Atlanstshafi til að kynna löndin sem áhugaverða áfangastaði fyrir ferðamenn. Sjálfbær ferðaþjónusta eyríkja Gestafyrirlesari á ferðakaupstefnunni í ár verður Helene Møgelhøj. Hún mun fjalla um sjálfbæra ferðaþjónustu eyríkja en yfirskrift erindis hennar er „Towards a Sustainable Tourism Model in Island Destinations – The Case of Iceland, Greenland and the Faroe Islands“. Helene Møgelhøj er sjálfstætt starfandi ráðgjafi á sviði ferðamála, en hún sérhæfir sig í sjálfbærri ferðaþjónustu og efnahagsþróun. Hún hefur víðtæka þekkingu og áralanga reynslu af ferðamálum á alþjóðlegum vettvangi. Kaupstefnan fer nú fram í 27. sinn. Hún hefst kl. 9 í fyrramálið, þriðjudaginn 2. október. Dagskrá ferðakaupstefnunnar og allar nánari upplýsingar um hana má kynna sér á vefsíðu Vestnorden: www.vestnorden.com Mynd: Ragnar Th. Sigurðsson, arctic-images.com
Lesa meira

Greinargerð um möguleg áhrif á flutningi innanlandsflugs

Í gær var kynnt greinargerð sem KPMG hefur unnið fyrir nokkur sveitarfélög um möguleg áhrif ef miðstöð innanlandsflugs væri flutt frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að flugferðum innanlands fækki um fjörtíu prósent, flugferðum á leiðum sem í boði verða fækkar úr 37 í átján og innanlandsflug til Ísafjarðar, Hornafjarðar og Vestmannaeyja leggst af. Þá segir einnig í skýrslunni að samgöngur innanlands verði dýrari og óhagkvæmari og að ferðakostnaður íbúa landsbyggðarinnar aukist um sex til sjö milljarða króna. Niðurstaðan er einnig að atvinnulíf verði einhæfara, kostnaður við sjúkraflug aukist og öryggi sjúklinga minnki. Hægt er að lesa skýrsluna hér að neðan en sveitarfélögin sex sem létu vinna skýrsluna eru Vesturbyggð, Ísafjarðarbær, Akureyrarbær, Fljótsdalshérað, Fjarðabyggð, Hornafjörður og Vestmannaeyjabær. Áhrif ef miðstöð innanlandsflugs flyst til Keflavíkur (PDF 1,5 MB)  
Lesa meira

Aukin umsvif Icelandair

Flugáætlun Icelandair fyrir árið 2013 verður sú stærsta í sögu félagsins og um 15% umfangsmeiri en á þessu ári. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að flug verður hafið til þriggja nýrra áfangastaða og ferðum er fjölgað til ýmissa borga í Bandaríkjunum og Evrópu. Alls verða áfangastaðirnir 35 á næsta ári, 10 í Norður-Ameríku og 25 í Evrópu. Hátt í 2,3 milljónir farþegaGert er ráð fyrir að farþegar félagsins verði hátt í 2,3 milljónir á árinu 2013, en samkvæmt áætlunum verða þeir rétt yfir 2 milljónum á árinu 2012. Alls verða 18 Boeing-757 flugvélar nýttar til áætlunarflugsins næsta sumar, tveimur fleiri en á þessu ári. Samkvæmt áætluninni verður vöxturinn meiri yfir vetrarmánuðina en yfir sumarið og er það í takt við stefnu félagsins að draga úr árstíðasveiflum í rekstrinum. Ef umfangsmikil breyting verður á skattaumhverfi ferðaþjónustunnar á næsta ári mun félagið þurfa að breyta áherslum með því að gera ráð fyrir færri ferðamönnum til Íslands en nú er áætlað en hlutfallslega fleiri tengifarþegum milli Evrópu og Norður-Ameríku, segir í fréttinni.   -HA
Lesa meira

Veðurstofan þróar íslenska norðurljósaspá

Í fyrra hluta október mun Veðurstofa Íslands byrja að birta norðurljósaspár. Ferðir til að skoða þetta sérstæða fyrirbæri njóta sem kunnugt er vinsælda hjá ferðamönnum og nú verður í fyrsta sinn reynt að spá fyrir um hvar á landinu og hvenær er líklegast að til norðurljósanna sjáist. Einstakt á heimsvísuÁ kynningarfundi um verkefnið kom fram að norðurljósaspár með þeim hætti sem Veðurstofan hefur verið að þróa eru nýlunda í heiminum. Einkum er tekið mið af þremur þáttum, þ.e. birtustigi, virkni sólgosa á tilteknum tímum og skýjahulu, en síðasttaldi þátturinn er sá sem sýnu erfiðast er að spá fyrir um. Spárnar verða birtar með myndrænum hætti þannig að auðvelt á að vera að nýta sér þær. Unnið í góðu samstarfiVerkefnið hefur  Veðurstofan unnið að undirlagi iðnaðarráðuneytisins og með stuðningi þess, umhverfisráðuneytis, Ferðmálastofu og Íslandsstofu. Bakgrunnur málsins er sá áhugi sem fram kom á ráðstefnu Íslandsstofu sl. haust um norðurljósin í ferðaþjónustu og þær ábendingar sem fram komu í úttekt á hugmyndinni um íslenska norðurljósaspá, sem Einar Sveinbjörnsson veðufræðingur, gerði fyrir Ísland allt árið.  Fyrstu spár í októberGert er ráð fyrir að byrjað verði að birta spár fyrri hluta októbermánaðar næstkomandi, gangi allt að óskum, og þær verði síðan þróaðar í ljósi reynslunnar í vetur. Spárnar birtast að sjálfsögðu á vef Veðurstofunnar www.vedur.is, bæði á íslensku og ensku.   -HA Mynd:Útlit og viðmót á norðurljósaspánni verður áþekkt því sem margir þekkja af spánni um skýjahulu.
Lesa meira

Ný sérsniðin námskeið fyrir ferðaþjónustuna á vegum SAF og Opna háskólans í Reykjavík

Á síðustu árum hefur straumur erlendra ferðamanna til Íslands aukist talsvert. Margir hafa gripið tækifærið og hafið rekstur sem miðar að þessum aukna áhuga á landi og þjóð. Til að halda velli á sístækkandi markaði er mikilvægt að byggja á traustum fjárhagslegum grunni, velja markað, vera sýnilegur og koma skilaboðum skýrt á framfæri við væntanlega viðskiptavini.  Opni háskólinn í HR, í samstarfi við SAF, kynnir þrjú sérsniðin námskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki í ferðaþjónustu á haustönn 2012. Reynslumiklir aðilar úr ferðaþjónustu verða leiðbeinendur á námskeiðunum:  • Árangursrík viðskipti á netinu fyrir ferðaþjónustuaðila - 9. október• Fjármál og áætlanagerð í ferðaþjónustu - 30. október• Markvisst markaðsstarf í ferðaþjónustu – 27. nóvember Kennsla fer fram í Opna háskólanum í HR að Menntavegi 1, við Nauthólsvík. Hvert námskeið er samtals átta klukkustundir og er kennt frá kl. 9:00 – 17:00. Hvert námskeið kostar 45.000 krónur en sértilboð til félagsmanna SAF er 39.000 krónur. Hægt er að smella á hlekkina hér að ofan til að skrá sig og nálgast nánari upplýsingar um námskeiðin.    
Lesa meira

Nýtt nám á Bifröst - Stjórnun og samvinna í ferðaþjónustu

Háskólinn á Bifröst býður nú í fyrsta sinn nám í stjórnun og rekstri í ferðaþjónustu. Um er að ræða 9 vikna fjarnám sem telur þrjú námskeið sem sérsniðin eru fyrir rekstraraðila í ferðaþjónustu. Námskeiðin þrú eru: ·                Markaðssetning og sala·                Mannauðs- og þjónustustjórnun·                Stefnumótun og gæðastjórnun Námið hentar vel fyrir stjórnendur og rekstraraðila eftirfarandi ferðaþjónustufyrirtækja og stofnana: ·                Hótel og gistihús, s.s. ferðaþjónustubændur·                Veitinga- og kaffihús·                Bílaleigur og hópbílar, bensínstöðvar·                Afþreyingarþjónusta, s.s. hestaleigur, bátaleigur o.s.frv.·                Frumkvöðlar í ferðaþjónustu·                Söfn og sundlaugar Markmiðin með náminu eru að auka þekkingu, hæfni og leikni stjórnenda og rekstraraðila ferðaþjónustufyrirtækja til þess að takast á við krefjandi starfsumhverfi og auka samvinnu þeirra í milli. Að námstíma loknum ættu nemendur að: Hafa þekkingu á ýmsum sviðum stjórnunar, geta skilgreint hlutverk stjórnenda og tekist á við flókin viðfangsefni mannauðsstjórnunar. Vera í stakk búnir til þess að takast á við og stjórna breytingum í starfsumhverfi sínu og móta framtíðarsýn. Geta skilgreint og metið fjárhagslegan árangur sinna fyrirtækja og borið hann saman við önnur ferðaþjónustufyrirtæki. Vera færir um að gera framtíðaráætlanir út frá mismunandi forsendum. Hafa eflt samstarfsnet sitt og færni í að þróa hugmyndir með öðrum stjórnendum innan ferðaþjónustugeirans.  Fyrirkomulag náms:Námið er kennt í blönduðu námi; þ.e. fjarnám og vinnulotur á Bifröst sem eru í upphafi og lok námstímans. Ein námsgrein er kennd í einu og spannar hver lota 3 vikur.  Fyrirlestrar eru 5-6 í hverju námskeiði og eru birtir á fjarnámsvef skólans samkvæmt kennsluáætlun hvers námskeiðs. Þar að auki eru kennslustundir á vinnulotum þar sem lögð verður áhersla á hópavinnu nemenda. Gert er ráð fyrir að fyrirlestrar komi inn tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum. Námsmat er í formi verkefnaskila og lokaverkefna eftir atvikum. Fjöldi verkefna ræðst af umfangi þeirra og efnistökum. Leitast er við að hafa verkefni hagnýt þannig að þau nýtist þátttakendum sem best í þeirra störfum. Námið hefst með vinnulotu á Bifröst dagana 9.-10. október. Seinni vinnulotan og útskrift verður á Bifröst dagana 4.-5. desember 2012. Námið kostar kr. 125.000 og innifalið í þeirri upphæð er gisting og fæði á vinnuhelgum. Upplýsingar og skráning Nánari upplýsinga veita Brynjar Þór Þorsteinsson, brynjar@bifrost.is og Geirlaug Jóhannsdóttir, geirlaug@bifrost.is.
Lesa meira