Fara í efni

Ferðaábyrgðasjóður

Markmið Ferðaábyrgðasjóðs er að draga úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda. Með tilkomu sjóðsins gefst ferðaskrifstofum kostur á að sækja um lán sem ætlað er að standa undir lögbundnum endurgreiðslum til neytenda vegna vegna pakkaferða sem annað hvort var aflýst eða voru afbókaðar en koma áttu til framkvæmda á tímabilinu frá 12. mars til og með 30. september 2020.

Um ferðaábyrgðasjóð gildir bráðabirgðaákvæði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 150/2018 sbr. lög 78/2020 sbr. reglugerð nr. 720/2020 um skilyrði fyrir tímabundnum lánveitingum Ferðaábyrgðasjóðs vegna COVID-19.

Aðeins er veitt lán fyrir endurgreiðslum vegna pakkaferða. Ekki er veitt lán vegna endurgreiðslu annarra ferða s.s. dagsferða.

Sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu sem einnig tekur ákvarðanir um greiðslur úr sjóðnum. Landsbankinn mun sjá um greiðslumiðlun lána.

Umsóknarfrestur er til 1. nóvember 2020. 

Skilyrði lánveitinga

Skilyrði lánveitingar er að pakkaferð hafi verið aflýst eða afpöntuð vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og að ferð hafi átt að koma til framkvæmda á tímabilinu 12. mars til og með 30. september 2020.

Afpöntun ferðar

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 á ferðamaður rétt á að afpanta pakkaferð vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar án þess að greiða fyrir það þóknun til seljanda pakkaferðarinnar.

Aflýsing ferðar

Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. sömu laga getur seljandi pakkaferðar aflýst pakkaferð gegn fullri endurgreiðslu til ferðamanns ef hann getur ekki efnt samninginn vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.

Endurgreiðsla ferðar

Samkvæmt 5. mgr. 15. gr. og 2. mgr. 16. gr. skal endurgreiða ferðamanni greiðslur sem honum ber skv. innan 14 daga frá afpöntun eða aflýsingu.

Óvenjulegar og óviðráðanlegar ástæður

Um hvað teljist til óvenjulegra og óviðráðanlegra ástæðna sem hafa veruleg áhrif á framkvæmd pakkaferðar eða flutning farþega til ákvörðunarstaðar vísast til leiðbeininga Neytendastofu um endurgreiðslur pakkaferðar vegna COVID-19.

Lánsfjárhæðin - ráðstöfun láns

Lánsfjárhæðin tekur mið af þeim greiðslum sem á að endurgreiða til ferðamanna þá þegar. Ekki er veitt lán til hugsanlegrar endurgreiðslu sem kann að koma til síðar. Ekki er veitt lán fyrir inneignum vegna pakkaferða sem ekki stendur til að endurgreiða að svo stöddu. Hægt er að sækja um viðbótarlán fyrir 1. september 2020 komi til þess að inneignir vegna pakkaferða verði endurgreiddar.

Lánsfjárhæðinni skal einvörðungu ráðstafað til að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann á rétt til endurgreiðslu á.

Aðeins er veitt lán fyrir endurgreiðslum vegna pakkaferða, sjá hér. Ekki er veitt lán vegna endurgreiðslu annarra ferða s.s. dagsferða.

Endurgreiðsla til viðskiptavina skulu eiga sér stað innan 10 daga drá því að lánið er greitt út til lántakanda.

Umsýslugjald Ferðamálastofu og þjónustugjald Landsbankans koma til viðbótar lánsfjárhæðinni.

Hverjir geta sótt um lán úr sjóðnum

Seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar, þ.e. skipuleggjendur og smásalar, sem eru með ferðaskrifstofuleyfi geta sótt um lán í sjóðinn.

Lánveitingar vegna pakkaferða sem koma áttu til framkvæmda frá 12. mars til og með 30. september

Skilyrði lánveitinga er að pakkaferð hafi verið aflýst eða afpöntuð vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og að ferð hafi átt að koma til framkvæmda á tímabilinu 12. mars til og með 30. september 2020.

Lán vegna ógreiddra endurgreiðslna

Seljandi pakkaferðar sem ekki hefur endurgreitt aflýstar eða afpantaðar pakkaferðir getur sótt um lán úr sjóðnum sem nemur ógreiddum endurgreiðslukröfum.

Skilyrði er að lánsfjárhæðinni skuli einvörðungu ráðstafað til að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur vegna pakkaferðar sem hann á rétt til endurgreiðslu á.

Lán vegna þegar greiddra endurgreiðslna

Seljandi pakkaferðar sem þegar hefur endurgreitt ferðamanni vegna pakkaferðar sem fellur að öðru leyti fellur undir aflýstar og afpantaðar ferðir getur einnig með sömu skilmálum sótt um lán úr sjóðnum sem samsvarar heildarfjárhæð þeirra endurgreiðslna.

Lánshæfi

Óheimilt er að veita lán til fyrirtækja sem voru í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019.

Fyrirtæki telst hafa verið í rekstrarerfiðleikum ef a.m.k. eitt af eftirfarandi skilyrðum telst uppfyllt:

  1. Um er að ræða félag með takmarkaðri ábyrgð og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
  2. Um er að ræða félag þar sem a.m.k. einn aðili ber ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins og bókfært eigið fé þess, samkvæmt viðurkenndum reikningsskilaaðferðum, er orðið lægra en nemur helmingi innborgaðs hlutafjár að meðtöldum yfirverðsreikningi. Þessi töluliður á ekki við um fyrirtæki sem er lítið eða meðalstórt og starfsemi þess hefur staðið yfir í þrjú ár eða skemur.
  3. Um er að ræða fyrirtæki sem sætir gjaldþrotameðferð eða hefur óskað heimildar til að leita nauðasamninga.
  4. Um er að ræða fyrirtæki sem hefur fengið björgunaraðstoð í skilningi leiðbeinandi reglna ESA um björgun og endurskipulagningu fyrirtækja, og hefur enn ekki endurgreitt lánið eða aflétt ábyrgðinni eða hefur fengið aðstoð til endurskipulagningar og er því enn bundið af samþykktri áætlun um endurskipulagningu.
  5. Um er að ræða fyrirtæki sem hvorki er lítið né meðalstórt og hefur uppfyllt eftirtalin skilyrði síðustu tvö reikningsár:
    1. Hlutfall milli bókfærðra skulda fyrirtækisins og eigin fjár hefur verið hærra en 7,5
    2. Hagnaður fyrir afskriftir og vexti (EBITDA) nemur lægri fjárhæð en nettófjármagnskostnaður ársins.

Þrátt fyrir að lítil fyrirtæki hafi átt í rekstrarerfiðleikum er heimilt að veita lán til lítilla fyrirtækja sem eitthvert ofangreindra skilyrða á við um, þó ekki skilyrði 3. tölul.

Heimilt að veita lán til fyrirtækja sem voru í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 sem nemi að hámarki 20 m.kr. Upphæðin er samtala minniháttaraðstoðar sem umsækjandi hefur þegið á þriggja ára tímabili.

Lítil fyrirtæki

Fyrirtæki sem er með færri en 50 starfsmenn og er með árlega veltu undir 10 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 10 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014 frá 17. júní 2014. 

Meðalstór fyrirtæki

Fyrirtæki sem er með á bilinu 50–250 starfsmenn og er með árlega veltu undir 50 milljónum evra og/eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014.

Stór fyrirtæki

Fyrirtæki sem er með fleiri en 250 starfsmenn, sbr. I. viðauka við reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) nr. 651/2014.

Lánstími

Lánstíminn getur verið allt að 6 ár. Umsækjandi ræður sjálfur lánstímanum og þarf hann að geta um hann í lánsumsókn. Heimilt er að endurgreiða höfuðstól að fullu hvenær sem er á lánstímanum.

Vaxtakjör

Lítil og meðalstór fyrirtæki

Höfuðstóll kröfu sjóðsins skal bera árlega vexti (360 dagar) sem miðast við grunnvexti 2,65% að viðbættu 0,5% álagi, eða samtals 3,15% ársvexti, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Á hverjum gjalddaga afborgunar skal einnig greiða áfallna vexti.

Stór fyrirtæki

Höfuðstóll kröfu sjóðsins skal bera árlega vexti (360 dagar) sem miðast við grunnvexti 2,65% að viðbættu  1,0% álagi, eða samtals 3,65% ársvexti fyrir stór fyrirtæki.

Á hverjum gjalddaga afborgunar skal einnig greiða áfallna vexti.

Lánsumsókn og fylgigögn

Með umsókn skulu fylgja gögn sem sýna fram á lagalega skyldu til endurgreiðslu til ferðamanna vegna pakkaferðar og að umbeðin lánsfjárhæð sé í samræmi við þá lagaskyldu. 

Með umsókn skal fylgja:

Ferðamálastofa getur krafið seljanda um upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að sannreyna hvort skilyrði fyrir lánveitingu úr Ferðaábyrgðasjóði hafi verið uppfyllt og hvort lánsfjárhæð hafi verið réttilega varið.

Við skil umsóknar skal umsækjandi um lán staðfesta að sú lánsfjárhæð sem sótt er um feli í sér lausafjárþörf umsækjanda til næstu 12 eða 18 mánaða, svo honum sé kleift að standa við lagaskyldu til endurgreiðslu vegna pakkaferða.

Umsóknir lán úr Ferðaábyrgðasjóði skulu berast Ferðamálastofu fyrir 1. september 2020. Ferðamálastofa skal taka afstöðu til umsókna eigi síðar en 31. desember 2020.

Meðferð umsókna

Ferðamálastofa afgreiðir lánsumsóknir fyrir hönd Ferðaábyrgðasjóðs í samræmi við umsókn og framlögð gögn.

Ákvörðun Ferðamálastofu er kæranleg til atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. Um málsmeðferð fer skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993

Endurgreiðsla lána

Við lánveitingu úr Ferðaábyrgðasjóði stofnast krafa sjóðsins á hendur viðkomandi seljanda sem nemur þeirri fjárhæð sem sjóðurinn hefur lánað honum.

Lánsfjárhæðina skal endurgreiða á allt að 6 árum. Endurgreiðslur skulu skiptast í jafnar afborganir sem skulu vera fjórar á ári. Fyrsta afborgun skal vera með gjalddaga 1. mars 2021 og síðan á þriggja mánaða fresti eftir það þar til höfuðstóll kröfu er að fullu greiddur.

Heimilt er að endurgreiða höfuðstól að fullu hvenær sem er á lánstímanum.

Höfuðstóll kröfu sjóðsins skal bera árlega vexti (360 dagar) sem miðast við grunnvexti 2,65% að viðbættu 0,5% álagi, eða samtals 3,15% ársvexti, fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki en að viðbættu 1,0% álagi, eða samtals 3,65% ársvexti fyrir stór fyrirtæki. Á hverjum gjalddaga skal einnig greiða áfallna vexti.

Sé afborgun kröfunnar ekki greidd á viðkomandi gjalddaga skal greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga, nr. 38/2001, frá gjalddaga til greiðsludags.

Lánaskilmálar, lítil og meðalstór fyrirtæki

  1. Skuldari viðurkennir með undirskrift sinni á skuldabréf að skulda Ferðaábyrgðasjóði, kt. 560720-0760, tilgreinda fjárhæð og skuldbindur sig til þess að endurgreiða hana eins og tilgreint er í skilmálum bréfsins, með þeim fjölda afborgana og á þeim gjalddaga eða gjalddögum eins og tilgreint er. 
  2. Af höfuðstól skuldarinnar ber skuldara að greiða fasta ársvexti, sem skulu vera 3,15% af höfuðstól skuldarinnar á hverjum tíma. Vexti ber að greiða eftir á, á sama tíma og afborganir. Vextir reiknast frá útborgunardegi til skuldara.
  3. Skuldari greiðir af höfuðstól skuldar umsýslugjald til Ferðamálastofu skv. gjaldskrá. Kostnað af innheimtu hverrar greiðslu skuldbindur skuldari sig til að greiða samkvæmt verðskrá innheimtuaðila á greiðsludegi.
  4. Skuldari skuldbindur sig að ráðstafa andvirði skuldabréfsins til samræmis við ákvæði til bráðabirgða við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, sbr. lög nr. 78/2020 og reglur sem settar kunnar að verða á grundvelli þeirra laga.
  5. Skuldara er ávallt heimilt að greiða upp skuldina í heild eða að hluta, án umframgreiðslugjalds. Slíkri greiðslu skuldara er fyrst ráðstafað til greiðslu áfallinna dráttarvaxta, kostnaðar, gjaldfallinna afborgana og áfallinna vaxta, í þeirri röð sem tilgreind er, áður en hún nýtist til greiðslu af höfuðstól skuldarinnar.
  6. Skuldaraskipti fara aðeins fram með samþykki handhafa bréfsins.
  7. Verði vanskil á greiðslu afborgana og/eða vaxta af skuldabréfinuog vanskil hafa staðið í meira en 6 mánuði, er heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og krefja skuldara um greiðslu þess. Það sama gildir ef skuldari leitar nauðasamninga eða bú hans verður tekið til gjaldþrotaskipta eða ef andvirði skuldabréfsins er ekki ráðstafað til samræmis við 4. tl. Skuldara er heimilt að leita og njóta heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar á fjárhag sínum, á grundvelli laga nr. 57/2020, án þess að slíkt leiði til gjaldfellingarheimildar á skuld skv. skuldabréfiinu. Komi til nauðasamningsumleitana í kjölfar heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar raknar við gjaldfellingarheimild til samræmis við framangreint.
  8. Vanefni skuldari skuldbindingu samkvæmt skuldabréfinu ber honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá og með hverjum gjalddaga afborgunar og/eða vaxta til greiðsludags. Hafi skuldabréfið verið gjaldfellt vegna vanefnda skuldara á greiðslum afborgana og/eða vaxta sbr. 7. tl., miðast upphafsdagur dráttarvaxta við elsta ógreidda gjalddaga afborgunar og/eða vaxta. Hafi skuldabréfið verið gjaldfellt vegna annarra vanefnda skuldara, svo sem vegna þess að bú skuldara verður tekið til gjaldþrotaskipta, eða skuldari leitar nauðasamnings, andvirði skuldabréfsins hefur ekki verið ráðstafað til samræmis við 4. tl., eða önnur atvik koma til sem valda skuldaraskiptum á láninu án samþykkis kröfuhafa skuldabréfsins, skal skuldari greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá og með þeim degi sem eftirstöðvar voru gjaldfelldar („gjaldfellingardagur“) til greiðsludags. Skuldara ber að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefnda álags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Jafnframt ber skuldara að greiða allan kostnað sem kann að koma til vegna vanskila, t.d. vegna innheimtubréfa, málsóknar eða annarra réttargjalda, lögmannsþóknunar, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna innheimtu skuldarinnar.
  9. Komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skuldara, skal fara með kröfu á grundvelli skuldabréfsins eftir ákvæði til bráðabirgða við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, sbr. lög nr. 78/2020, sbr. 112 gr. og  önnur viðeigandi ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991.
  10. Þegar skuldin er öll fallin í gjalddaga samkvæmt framansögðu, má gera aðför hjá skuldara til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Auk þess að ná til höfuðstóls skuldarinnar, nær aðfararheimildin til vaxta, dráttarvaxta og vanskilaálaga, kostnaðar af kröfu, málskostnaðar eða innheimtukostnaðar, endurgjaldkostnaðar af gerðinni sjálfri og væntanlegs kostnaðar af frekari fullnustugerðum.
  11. Með undirskrift sinni á skuldabréfið heimilar skuldari Ferðaábyrgðasjóði að tilkynna vanskil til Creditinfo Lánstrausts hf., eða annars/annarra sambærilegra aðila, til skráningar á skrá yfir vanskil.
  12. Mál út af skuldinni má reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt 17. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
  13. Greiðslustaður er reikningur Ferðaábyrgðarsjóðs í Landsbankanum eða annar sá greiðslustaður sem sjóðurinn tilgreinir.
  14. Til staðfestu er skuldabréfið undirritað f.h. skuldara í votta viðurvist.

Lánaskilmálar, stór fyrirtæki 

  1. Skuldari viðurkennir með undirskrift sinni á skuldabréfið að skulda Ferðaábyrgðasjóði, kt. 560720-0760, tilgreinda fjárhæð og skuldbindur sig til þess að endurgreiða hana eins og tilgreint er í skilmálum bréfsins, með þeim fjölda afborgana og á þeim gjalddaga eða gjalddögum eins og tilgreint er. 
  2. Af höfuðstól skuldarinnar ber skuldara að greiða fasta ársvexti, sem skulu vera 3,65% af höfuðstól skuldarinnar á hverjum tíma. Vexti ber að greiða eftir á, á sama tíma og afborganir. Vextir reiknast frá útborgunardegi til skuldara.
  3. Skuldari greiðir af höfuðstól skuldar umsýslugjald til Ferðamálastofu skv. gjaldskrá. Kostnað af innheimtu hverrar greiðslu skuldbindur skuldari sig til að greiða samkvæmt verðskrá innheimtuaðila á greiðsludegi.
  4. Skuldari skuldbindur sig að ráðstafa andvirði skuldabréfsins til samræmis við ákvæði til bráðabirgða við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, sbr. lög nr. 78/2020 og reglur sem settar kunnar að verða á grundvelli þeirra laga.
  5. Skuldara er ávallt heimilt að greiða upp skuldina í heild eða að hluta, án umframgreiðslugjalds. Slíkri greiðslu skuldara er fyrst ráðstafað til greiðslu áfallinna dráttarvaxta, kostnaðar, gjaldfallinna afborgana og áfallinna vaxta, í þeirri röð sem tilgreind er, áður en hún nýtist til greiðslu af höfuðstól skuldarinnar.
  6. Skuldaraskipti fara aðeins fram með samþykki handhafa bréfsins.
  7. Verði vanskil á greiðslu afborgana og/eða vaxta af skuldabréfinu og vanskil hafa staðið meira en sex mánuði, er heimilt að fella skuldina í gjalddaga fyrirvaralaust og án uppsagnar og krefja skuldara um greiðslu þess. Það sama gildir ef skuldari leitar nauðasamninga eða bú hans verður tekið til gjaldþrotaskipta eða ef andvirði skuldabréfsins er ekki ráðstafað til samræmis við 4. tl. Skuldara er heimilt að leita og njóta heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar á fjárhag sínum, á grundvelli laga nr. 57/2020, án þess að slíkt leiði til gjaldfellingarheimildar á skuld skv. skuldabréfinu. Komi til nauðasamningsumleitana í kjölfar heimildar til fjárhagslegrar endurskipulagningar raknar við gjaldfellingarheimild til samræmis við framangreint.
  8. Vanefni skuldari skuldbindingu samkvæmt skuldabréfinu ber honum að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá og með hverjum gjalddaga afborgunar og/eða vaxta til greiðsludags. Hafi skuldabréfið verið gjaldfellt vegna vanefnda skuldara á greiðslum afborgana og/eða vaxta sbr. 7. tl., miðast upphafsdagur dráttarvaxta við elsta ógreidda gjalddaga afborgunar og/eða vaxta. Hafi skuldabréfið verið gjaldfellt vegna annarra vanefnda skuldara, svo sem vegna þess að bú skuldara verður tekið til gjaldþrotaskipta, eða skuldari leitar nauðasamnings, andvirði skuldabréfsins hefur ekki verið ráðstafað til samræmis við 4. tl., eða önnur atvik koma til sem valda skuldaraskiptum á láninu án samþykkis kröfuhafa skuldabréfsins, skal skuldari greiða dráttarvexti af gjaldfallinni fjárhæð frá og með þeim degi sem eftirstöðvar voru gjaldfelldar („gjaldfellingardagur“) til greiðsludags. Skuldara ber að greiða dráttarvexti samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefnda álags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Jafnframt ber skuldara að greiða allan kostnað sem kann að koma til vegna vanskila, t.d. vegna innheimtubréfa, málsóknar eða annarra réttargjalda, lögmannsþóknunar, svo og annan lögfræðilegan kostnað vegna innheimtu skuldarinnar.
  9. Komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar skuldara, skal fara með kröfu á grundvelli skuldabréfsins eftir ákvæði til bráðabirgða við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun, nr. 95/2018, sbr. lög nr. 78/2020, sbr. 112. gr og önnur viðeigandi ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991.
  10. Þegar skuldin er öll fallin í gjalddaga samkvæmt framansögðu, má gera aðför hjá skuldara til fullnustu skuldinni án undangengins dóms eða réttarsáttar skv. 7. tl. 1. mgr. 1. gr. laga um aðför, nr. 90/1989. Auk þess að ná til höfuðstóls skuldarinnar, nær aðfararheimildin til vaxta, dráttarvaxta og vanskilaálaga, kostnaðar af kröfu, málskostnaðar eða innheimtukostnaðar, endurgjaldkostnaðar af gerðinni sjálfri og væntanlegs kostnaðar af frekari fullnustugerðum.
  11. Með undirskrift sinni á skuldabréf þetta heimilar skuldari Ferðaábyrgðasjóði að tilkynna vanskil til Creditinfo Lánstrausts hf., eða annars/annarra sambærilegra aðila, til skráningar á skrá yfir vanskil.
  12. Mál út af skuldinni má reka fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt 17. kafla laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
  13. Greiðslustaður er reikningur Ferðaábyrgðarsjóðs í Landsbankanum eða annar sá greiðslustaður sem sjóðurinn tilgreinir.
  14. Til staðfestu er skuldabréfið undirritað f.h. skuldara í votta viðurvist.

Viðurlög

Dagsektir

Ferðamálastofu er heimilt að beita dagsektum verði ekki orðið við kröfu um nauðsynlegar upplýsingar.

Sektir eða fangelsi

Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur af ásetningi eða stórfelldu gáleysi gegn bráðabirgðaákvæði laganna, svo sem með því að veita rangar eða ófullnægjandi upplýsingar í umsókn um lánafyrirgreiðslu eða með því að nýta lánsfjárhæð á ólögmætan hátt, skal sæta sektum eða fangelsi allt að sex árum nema brot teljist minniháttar.

Gjaldfelling láns

Ef skipuleggjandi eða smásali ráðstafar því láni sem hann hefur fengið úr sjóðnum á annan hátt en til endurgreiðslu pakkaferða er heimilt að gjaldfella höfuðstól kröfu sjóðsins og krefjast fullrar endurgreiðslu þá þegar.

Kæra til lögreglu

Telji Ferðamálastofa að háttsemi skipuleggjanda eða smásala eða forsvarsmanns þeirra geti varðað sektum eða fangelsi skal kæra málið til lögreglu.

Vanefndir á endurgreiðslu láns

Komi til vanefnda viðkomandi seljanda á afborgunum og vanskil hafa staðið í meira en 6 mánuði er heimilt að gjaldfella höfuðstól kröfunnar og gera fjárnám án undangengins dóms eða sáttar fyrir kröfu sjóðsins, ásamt vöxtum, dráttarvöxtum og kostnaði.

Gjaldtaka - Gjaldskrá

Ferðamálastofu er heimilt að taka gjald fyrir meðferð umsókna sem greitt skal af viðkomandi seljanda pakkaferða. Gjaldið skal standa undir kostnaði við meðferð lánsumsóknarinnar og skal kveðið á um það í gjaldskrá sem birt er af Ferðamálastofu.

Gjöld vegna lánveitinga koma til viðbótar við lánsfjárhæð. 

Umsýslugjald Ferðamálastofu               1% af lánsfjárhæð
Þjónustugjald Landsbankans vegna greiðslumiðlunar láns        Kr. 15.000.-

 

Gjaldþrot/rekstrarstöðvun

Forgangskrafa í þrotabú

Komi til gjaldþrots skipuleggjanda eða smásala nýtur krafa sjóðsins sama forgangs við gjaldþrotaskiptin og þær kröfur sem fjallað er um í 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991.

Tryggingar vegna sölu pakkaferða

Sjóðurinn öðlast einnig kröfu í tryggingu viðkomandi seljanda pakkaferðar komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar hans, þó með þeim hætti að við uppgjör trygginga skulu kröfulýsingar vegna pakkaferða eftir 30. júlí 2020 ganga framar kröfum sjóðsins.

Kröfu sjóðsins gagnvart skipuleggjanda eða smásala skal ekki meta inn í fjárhæð tryggingar. Trygging viðkomandi lækkar ekki sjálfkrafa við endurgreiðslu heldur getur hann að óskað endurmats á tryggingarfjárhæðinni eftir að endurgreiðslur hafa átt sér stað. Sýna þarf fram á að endurgreiðslur hafi átt sér stað. 

Eftirlit

Ferðamálastofa hefur eftirlit með að láni hafi verið ráðstafað eins og áskilið er í bráðabirgðaákvæði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2019 sbr. l. 78/2020.

Ferðamálastofa getur krafið umsækjanda um nauðsynlegar upplýsingar til að sannreyna hvort skilyrði fyrir lánveitingu hafi verið uppfyllt og hvort lánsfjárhæð hafi verið réttilega varið. 

Spurningar og svör

Smellið á plúsinn fyrir framan spurningu til að sjá svar við henni.

1. Er heimilt að bæta við blaðsíðum (sheetum/flipum) í fylgiskjalinu (excel skjalinu) þegar um hópa er að ræða þannig að hver blaðsíða nái yfir sundurliðun farþega í hverjum hópi?

Svar:

  • Það er heimilt að bæta við blaðsíðum (sheetum/flipum) þegar um hópa er að ræða þannig að ein blaðsíða nái yfir hvern hóp.
  • Passa verður upp á að setja staðfestingu forsvarsmanns (undirskrift) um réttar upplýsingar inn á hverja blaðsíðu (sheet/flipa).

2. Er nóg að tilgreina eitt nafn fyrir hverja hópabókun ef nafnalisti hóps liggur ekki fyrir. Aðeins er búið að greiða staðfestingargjöld fyrir hópinn (sem ber að endurgreiða) og öll endurgreiðslan (heildargreiðslan) greiðist inn á þann aðila sem tilgreindur er?

Svar:

  • Aðeins í þeim tilvikum þegar nafnalisti farþega liggur ekki fyrir er heimilt að tilgreina í fylgiskjalinu og setja inn upplýsingar um netfang hans og símanúmer. Endurgreiðslan er svo greidd inn á reikning forsvarsmanns hópsins/tilgreinds aðila.
  • Ef endurgreiðslan er greidd inn á hvern farþega fyrir sig þá þurfa nöfn farþeganna að vera tilgreind sérstaklega, netföng þeirra og símanúmer.

3. Eiga farþegar, sem fara áttu í pakkaferð fyrstu viku í júní og til baka fyrir júnílok, rétt á fullri endurgreiðslu núna þótt þeir hafi ákveðið að reyna að seinka sinni ferð til ársins 2021 en hafa núna ákveðið að fara ekki og fara fram á endurgreiðslu?

Svar:

  • Fyrirspurnir varðandi rétt til endurgreiðslu pakkaferð, aflýsingu og afpantanir ferða heyra undir Neytendastofu.
  • Beina ber fyrirspurnum til Neytendastofu á netfangið postur@neytendastofa.is.
  • Til að hægt sé að taka fyrirspurnir til afgreiðslu þurfa ítarlegar upplýsingar að fylgja með um ferðina, fyrirkomulag hennar o.s.frv.

4. Eiga farþegar rétt á fullri endurgreiðslu, sem bókaðir voru í pakkaferð í lok apríl og byrjun maí mánaðar 2020 og vilja nú vilja fá sitt staðfestingargjald endurgreitt?

Svar:

  • Fyrirspurnir varðandi rétt til endurgreiðslu pakkaferð, aflýsingu og afpantanir ferða heyra undir Neytendastofu.
  • Beina ber fyrirspurnum til Neytendastofu á netfangið postur@neytendastofa.is.
  • Til að hægt sé að taka fyrirspurnir til afgreiðslu þurfa ítarlegar upplýsingar að fylgja með um ferðina, fyrirkomulag hennar o.s.frv.

5. Á að sundurliða sérstaklega nöfn þeirra farþega sem ferðaskrifstofan hefur sjálf endurgreitt vegna ferða á tímabilinu 15. mars til loka júní 2020 þannig að ferðaskrifstofan geti fengið þá fjárhæð lánaða úr Ferðaábyrgðasjóði?

 Svar:

  • Já það á að sundurliða nöfn farþeganna.

6. Er hægt að sækja um lán fyrir dráttarvöxtum eða vegna lögfræðikostnaðar farþega sem bætist við endurgreiðslufjárhæðina ef farþegar eru með sín mál í lögfræðiinnheimtu og krefjast dráttarvaxta?

Svar:

  • Skv. 2. mgr. brb.ákvæðis laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018 sbr. l. 78/2020 getur lán aðeins numið ógreiddum endurgreiðslukröfum eða þeirri fjárhæð sem samsvarar þeirri fjárhæð sem nú þegar hefur verið endurgreidd skv. 4. mgr.
  • Lánsfjárhæðinni skal einvörðungu ráðstafað til að endurgreiða ferðamanni þær endurgreiðslur sem hann á rétt til endurgreiðslu á skv. 15. og 16. gr. laganna.
  • Þetta þýðir að aðeins er hægt að veita lán fyrir þeim greiðslum sem ferðamaðurinn greiddi ferðaskrifstofunni fyrir pakkaferð sem ekki var farin.
  • Því er ekki veitt lán fyrir dráttarvöxtum, lögfræðikostnaði eða öðrum kostnaði.

7. Á líka að endurgreiða forfallatryggingu?

Svar:

  • Já ef forfallatryggingin var greidd til seljandans og hún var hluti af heildarverði pakkaferðarinnar skv. pakkaferðarsamningi.

8. Má fella forfallatryggingargjald inn í lánsumsóknina?

Svar:

  • Já ef forfallatryggingin var greidd til seljandans og hún var hluti af heildarverði pakkaferðarinnar skv. pakkaferðarsamningi þá er veitt lán fyrir forfallatryggingunni.
  • Hafi forfallagjald verið greitt síðar og er ekki hluti af pakkaferðarsamningi þá er ekki veitt lán fyrir tryggingunni þar sem hún er þá ekki hluti af verði pakkaferðarinnar.

9. Má draga útlagðan kostnað af endurgreiðsluupphæðinni eins og kortagjöld og þegar greidd gjöld vegna sölukerfis og fást ekki endurgreidd?

Svar:

  • Nei það er ekki heimilt að draga kortagjöld, gjöld vegna sölukerfis o.s.frv. af endurgreiðslufjárhæðinni.
  • Ferðaskrifstofan á að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann á rétt til endurgreiðslu á skv. 15. og 16. gr. laganna.•
  • Lán er því veitt til að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann greiddi seljandanum fyrir pakkaferð sem ekki var farin skv. 15. og 16. gr. laganna.
  • Sjá einnig svar við spurningu 6.

10. Má rukka farþega um bókunargjald, breytingagjald eða tilboðsgjald?

Svar:

  • Nei það er ekki heimilt að rukka farþega um sérstakt bókunargjald, breytingargjald eða tilboðsgjald.
  • Ferðaskrifstofan á að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann á rétt til endurgreiðslu á skv. 15. og 16. gr. laganna.
  • Lán er því veitt til að endurgreiða ferðamanni þær greiðslur sem hann greiddi seljandanum fyrir pakkaferð sem ekki var farin skv. 15. og 16. gr. laganna.

11. Er hægt að sækja um lán fyrir endurgreiðslu þegar kortafyrirtæki hefur þegar endurgreitt ferðamanni?

Svar:

  • Já hafi pakkaferð verið endurgreidd af kortafyrirtæki getur umsækjandi/seljandi pakkaferðarinnar sótt um lán vegna endurgreiðslunnar.
  • Skilyrði fyrir slíkri lánveitingu er að seljandanum er gert skylt að endurgreiða kortafyrirtækinu þær endurgreiðslur sem kortafyrirtækið hefur endurgreitt til farþega.

12. Hvers vegna þarf að gefa upp hvort ferð hafi verið greidd með greiðslukorti og hvort kortafyrirtækin hafi nú þegar endurgreitt pakkaferð?

Svar:

  • Seljandi getur sótt um lán vegna endurgreiðslu pakkaferðar sem kortafyrirtæki hefur þegar endurgreitt ferðamanni. Skilyrði fyrir lánveitingunni er að seljandanum er gert skylt að endurgreiða kortafyrirtækinu þær endurgreiðslur sem kortafyrirtækið hefur greitt til farþega.
  • Ferðamálastofa hefur lögbundið eftirlit með að ráðstöfun láns sé í samræmi við tilgang þess og þarf þ.a.l. að geta sannreynt hvort skilyrði fyrir lánveitingu séu uppfyllt og hvort lánsfjárhæð hafi verið réttilega varið.
  • Þess vegna er mikilvægt að Ferðamálastofa fái upplýsingar um aðkomu kortafyrirtækjanna að endurgreiðslum seljenda pakkaferða.

13. Er hægt að sækja um lán vegna endurgreiðslu dagsferða?

Svar:

  • Nei lán er ekki veitt til að endurgreiða dagsferðir.
  • Aðeins er lánað fyrir endurgreiðslum til farþega sem keypt hafa pakkaferðir sem áttu að koma til framkvæmda á tímabilinu 12. mars til og með 31. júlí 2020 en var aflýst eða frestað vegna óvinráðanlegra og óvenjulegra ástæðna sbr. 15. og 16. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018.

14. Í sumum tilvikum eru endurgreiðslukröfur í mismunandi gjaldmiðlum, t.d. ISK, EUR og GBP. Er heimilt að búa til töflu fyrir hvern gjaldmiðil í  fylgiskjalinu?

Svar:

  • Nei, umsókn um lán úr Ferðaábyrgðasjóði þarf að vera sett fram í íslenskum krónum.
  • Umsækjandi þarf að umreikna kröfur í erlendum gjaldmiðlum í íslenskar krónur um leið og gengið er frá umsókn.

15. Er hægt að senda inn fleiri en eina umsókn?

Svar:

  • Já það er heimilt að senda inn fleiri en eina umsókn ef endurgreiðslur liggja ekki fyrir.
  • Gæta þarf að umsóknarfrestinum, sem er til 1. sept. nk.

16. Í sumum tilvikum höfum við reynt að breyta dagsetningu ferðar þar til síðar á árinu eða til næsta árs. Nú hafa sumir, sem frestuðu ferðum, óskað eftir endurgreiðslum. Dæmi er um erlenda ferðaskrifstofu sem samþykkti að færa ferð yfir á næsta ár en upphaflega átti ferðin að vera í júní á þessu ári. Er heimilt að halda fyrri dagsetningu og þar með fá lán til að endurgreiða viðkomandi aðilum?

Svar:

  • Ef pakkaferðarsamningi hefur verið breytt og komin er ný dagsetning ferðarinnar þá er litið svo á að um breytingu á pakkaferðarsamningi sé að ræða. Lán úr Ferðaábyrgðasjóði tekur ekki til þess þegar pakkaferðarsamningi hefur verið breytt heldur er lánveiting bundin við endurgreiðslur vegna pakkaferðar sem hefur verið aflýst eða afpöntuð vegna óvenjulegra eða óviðráðanlegra aðstæðna skv. 15. gr. laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018.
  • Lán er ekki veitt til endurgreiðslu þegar erlend ferðaskrifstofa kaupir aðeins ferðatengda þjónustuþætti af innlenda ferðaþjónustuaðilanum og samningsambandið telst vera milli tveggja ferðaþjónustuaðila (business to business).
  • Umsækjandi láns þarf að vera seljandi pakkaferðar til ferðamanns og endurgreiðslan greidd til ferðamanns.