Fréttir

Viltu hjálpa okkur að bæta vefinn? - Notendakönnun

Stöðugt er leitað leiða til að bæta þjónustu á vef Ferðamálastofu. Þess vegna viljum við gjarnan heyra frá notendum hvað þeim finnst um vefinn og hvað mætti gera betur. Við höfum nú sett upp einfalda könnun hér á vefnum þar sem við biðjum fólk að svara nokkrum spurningum. Aðeins tekur örfáar mínútur að svara könnunni en hún er nafnlaus og fyllsta trúnaðar heitið. Svara könnun um vef Ferðamálastofu
Lesa meira

Rannveig hlaut viðurkenningu FKA

Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri og einn stofnenda hvalaskoðunarfyrirtækisins Hvalaskoðun Reykjavík (Elding) hlaut í gær viðurkenningu Félags kvenna í atvinnurekstri (FKA). Rannveig Grétarsdóttir stofnaði og stýrir Eldingu. Í ræðu formanns FKA, Hafdísar Jónsdóttur, kom fram að velgengni fyrirtækisins væri ekki heppni. Gott gengi Eldingar fælist kannski frekar í  „ótta hennar við stöðnun sem hefur í gegnum tíðina fengið hana til að henda sér út í djúpu laugina með krosslagða fingur ... en hvorki kút né kork. Það voru hinsvegar ótal sundtök;  ótrúleg þrautseigja og elja sem komu henni upp á bakkann hinumegin“ sagði Hafdís um leið og hún veitti Rannveigu Grétarsdóttur FKA viðurkenninguna 2012.
Lesa meira

Nýtt merki og útlit á kynningarefni Ferðamálastofu

Ferðamálastofa hefur tekið í notkun nýtt merki fyrir stofnunina og jafnframt endurnýjað útlit á öllu kynningarefni sínu. Það er Port hönnun sem á heiðurinn af hinu nýja útliti. Gluggi sem má horfa í gegnum á land og náttúru Unnið var út frá traustum grunni því nýtt merki og útlit byggir áfram á hinu sígilda merki Ferðamálastofu sem upphaflega var hannað á Auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar um 1975. „Hugmynd okkar er að nota merkið sem einskonar glugga sem má horfa í gegnum á land og náttúru. Nafninu er skipt í þrjár línur til að myndefnið fái notið sín. Til að skapa fjölbreytileika og spegla íslenska náttúru eru aðallega notaðar þrjár ljósmyndir eftir Ragnar Th. Sigurdsson sem tákna gróður, ís og vatn og jarðhita," segir Edda V. Sigurðardóttir, hönnunar- og framkvæmdastjóri Port hönnunar. www.porthonnun.is Hér að neðan má síðan sjá nokkur dæmi um nýtt útlit.
Lesa meira

Könnun meðal erlendra ferðamanna - ensk útgáfa

Nú er komin hér á vefinn ensk útgáfa af könnun sem Ferðamálastofa lét gera meðal erlendra ferðamanna síðastliðið sumar. Niðurstöður könnunarinnar, sem kynntar voru á dögunum, hafa vakið verðskuldaða athygli.
Lesa meira

SAF heldur dag menntunar í ferðaþjónustu

Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir ráðstefnunni "Dagur menntunar í ferðaþjónustu" þann 16. febrúar nk. Ráðstefnan verður að þessu sinni haldin að morgni dags (kl. 08:30 - 12:00) á Hilton Reykjavík Nordica. Árni Gunnarsson, formaður SAF mun ftytja ávarp, írskur fyrirlesari Tony Donahoe frá Samtökum atvinnulífsins þar í landi mun greina nýrri hugsun í fræðslumálum og gagnsemi hennar fyrir fyrirtækin, Hrund Gunnsteinsdóttir, Krád Consulting, mun fjalla um mikilvægi skapandi og gagnrýninnar hugsunar í menningu fyrirtækja, María Guðmundsdóttir, upplýsinga- og fræðslufulltrúi SAF mun greina frá frá því helsta í fræðslustarfi SAF á árinu. Austurrískur fyrirlesari, Helmut Kronika, framkvæmdastjóri Best, mun greina frá framgangi verkefnisins "Mobile learning" eða rafrænu farnámi hér á landi, Guðmunda Kristinsdóttir, verkefnastjóri hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins gerir grein fyrir tilraunaverkefni SAF og SGS um heildstætt nám í ferðaþjónustu, Atli Lýðsson, fræðslustjóri Eflingar, mun segja frá nýju dyravarðanámi og Áslaug Briem, ferða- og markaðsfræðingur mun fjalla um misimunandi menningarheima og mismunandi þjónustu. Í lok ráðstefnunnar mun Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra síðan afhenda starfsmenntaviðurkenningu því fyrirtæki innan SAF sem þykir standa vel að símenntun starfsfólks. Starfsmenntasjóðirnir Starfsafl, Landsmennt og Starfsmenntasjóður verslunar- og skrifstofufólks eru samstarfsaðilar SAF um verkefnið og hafa veitt styrki til framkvæmdar dagsins en þeir munu jafnframt  kynna fundarmönnum starfsemi sjóðanna. Þá munu allir helstu fræðsluaðilar kynna starfsemi sína fyrir framan fundarsalinn í kaffihléi. Dagur ferðaþjónustu - dagskrá á heimasíðu SAF (word) Vinsanlega tilkynnið þátttöku á netfangið info@saf.is eða í síma 511 8000. 
Lesa meira

Nýr starfsmaður Ferðamálastofu

Áslaug Briem hefur verið ráðin í starf gæðafulltrúa í tengslum við nýja gæða og umhverfiskerfið Vakann. Umsóknarfrestur um starfið rann út í lok desmeber og bárust rúmlega 40 umsóknir. Áslaug Briem hefur MS-gráðu í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum. MS-ritgerð hennar nefndist "Þjónustugæði í íslenskri ferðaþjónustu og áhrif mismunandi menningar í þjónustu". Ritgerðin hlaut lokaverkefnisverðlaun SAF og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála 2011. Áður hafði Áslaug lokið BA-prófi í frönsku og þýsku og B.Sc í ferðamálafræði. Hún hefur undanfarið haldið námskeið fyrir ferðaþjónustuaðila um mismunandi menningarheima og þjónustu. Starfsfólk Ferðamálastofu býður Áslaugu velkomna!
Lesa meira

115 umsóknir bárust í þróunarsjóðinn Ísland allt árið

Umsóknarfrestur í þróunarsjóðinn Ísland allt árið rann út miðvikudaginn 11. janúar og alls bárust 115 umsóknir um styrki úr sjóðnum. Heildarupphæð umbeðinna styrkja var um það bil 300 milljónir króna. Ætlunin er að úthluta tvisvar sinnum úr sjóðnum en heildarframlag stofnenda sjóðsins er 70 milljónir króna og til úthlutunar að þessu sinni eru 35 milljónir króna. Stefnt er að úthlutun úr sjóðnum í lok febrúar og verður öllum umsóknum svarað um mánaðarmótin febrúar/mars. Allar nánari upplýsingar veitir Sigríður Kristjánsdóttir í síma 522 9462 / netfang: sirry@nmi.is
Lesa meira

Málþing um markaðssetningu innanlands - Ísland allt árið, fyrir Íslendinga líka?

Þriðjudaginn 14. febrúar kl. 8:30-10 gengst Ferðamálastofa fyrir málþingi á Grandhótel í Reykjavík undir yfirskriftinni Ísland allt árið, fyrir Íslendinga líka? Fyrirlesarar eru Friðrik Rafn Larsen, lektor við Háskólann í Reykjavík og Ingvi Jökull Logason, markaðssamskiptafræðingur hjá H:N Markaðssamskiptum. Nánari dagskrá kemur síðar en endilega takið daginn frá.  
Lesa meira

Niðurstöður könnunar Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna sumarið 2011

Erlendir ferðamenn dvöldu að jafnaði 10,2 nætur á Íslandi sumarið 2011 og ferðuðust langflestir (79,6%) á eigin vegum. Tveir af hverjum þremur höfðu bókað ferðina innan fjögurra mánuða fyrir brottför og við ákvarðanatökuna höfðu langflestir (75,4%) aflað sér upplýsinga um Ísland á netinu.
Lesa meira

Aurum hlaut Njarðarskjöldinn

Njarðarskjöldurinn, hvatningarverðlaun Reykjavíkurborgar og samstarfsaðila til ferðamananverslunar ársins, var veittur í sextánda sinn í liðinni viku. hann kom að þessu sinni í hlut verslunarinnar Aurum, Bankastræti 4. Markmið verðlaunanna er að hvetja til bættrar og aukinnar verslunarþjónustu við ferðamenn í Reykjavík. Að afhendingu  Njarðarskjaldarins ár hvert standa Reykjavíkurborg, Miðborgin okkar, Félag atvinnurekenda,  Kaupmannasamtökin, Samtök verslunar og þjónustu,  Global Blue á Íslandi og Taxfree Worldwide – Ísland. Við tilnefningu ferðamannaverslunar ársins er leitast við að verðlauna þá verslun sem hefur náð hvað bestum söluárangri til erlendra ferðamanna milli ára. Horft er  til markaðs- og kynningarmála, svo sem auglýsinga, vefs og útlits almennt. Aðrir þættir eru einnig skoðaðir sérstaklega svo sem þjónustulund, opnunartími, merkingar um endurgreiðslu virðisauka, lýsing,  tungumálakunnátta starfsfólks og þekking á söluvörunum. Verslunin Aurum Bankastræti 4 sem hlýtur Njarðarskjöldinn að þessu sinni var sett á laggirnar árið 1999 að Laugavegi 27 í Reykjavík. Eigandi verslunarinnar, Guðbjörg Ingvarsdóttir, hafði þá nýlokið gullsmíða- og hönnunarnámi í Kaupmannahöfn. Fyrst um sinn var helsta markmið Guðbjargar að bjóða uppá einstaka íslenska skartgripi, smíðaða og hannaða hérlendis af henni sjálfri. Hún sá strax tækifæri á íslenskum markaði þar sem að skartgripirnir sem hún smíðaði voru frábrugðnir því sem höfðu verið í boði í borginni. Fljótlega eftir að Aurum opnaði vakti verslunin athygli hjá ferðamönnum vegna sérstöðu sinnar í skartgripahönnun. Skartið þótti og þykir enn vera bæði sérstakt og séríslenskt, þrívíðu formin og skýr en um leið abstrakt vísunin í íslenska náttúru þótti frumleg og fersk. Árið 2008 hlaut Guðbjörg Íslensku sjónlistaverðlaunin. Dómnefnd verðlaunanna lét m.a.svo ummælt  að hönnuðurinn hafi „sprungið út“ í listsköpun sinni. „Hver skartgripalína er einstök og viðfangsefnin breytileg, en persónuleg og listræn efnistök Guðbjargar eru sterk í þeim öllum. Að baki hverri skartgripalínu er afmörkuð og markviss hugmynd þar sem hönnuðurinn leitar fanga í náttúrunni, í geometríska formhugsun miðalda og sjöunda áratugarins. Einnig má sjá handverksarfleið okkar Íslendinga bregða fyrir í gripunum,“ sagði í umsögn dómnefndar.  Árið 2009 stækkaði Aurum verslun sína um meira en helming og bætti við hönnunar- og gjafavöru deild. Erlendir ferðamenn hafa orð á því að verslunin bjóði uppá gott úrval af gjafavöru sem þeir hafi ekki rekist á áður á ferðum sínum. Hönnunar- og gjafavaran sem Aurum býður upp á kemur víða að, bókstaflega frá öllum heimshornum og lögð er rík áhersla á fjölbreytni í vöruúrvali. Breitt úrval skartgripa vekur sömuleiðis athygli; ekki síst fjöldi skartgripalína eftir sama hönnuð. Einnig meta gestir og viðskiptavinir Aurum upplifunina mikils. Erlendum ferðamönnum sem og íbúum borgarinnar finnst gaman að heimsækja verslunina án þess endilega að vera í verslunarhug. Þannig virkar verslunin sumpart einsog gallerí þar sem augað rekst á eitthvað forvitnilegt og fallegt í hverju horni. Mynd: Guðbjörg Ingvarsdóttir með Jóni Gnarr borgarstjóra (af reykjavik.is)
Lesa meira