Fara í efni

Stafræn ferðaþjónusta á Norðurlöndum

Ísland gegndi formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Í formennskuáætlun Íslands er sjónum beint að málefnum ungs fólks, hafinu og sjálfbærri ferðamennsku. Ferðamálastofa leiddi eitt þriggja verkefna, sem varða sjálfbæra ferðamennsku í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Verkefnið ber heitið Stafræn þróun ferðaþjónustu og þátttökulöndin voru Grænland, Færeyjar og Finnland, auk Íslands.

Vefsíða opnuð 2021

Heimasíðan er hugsuð fyrst og fremst fyrir lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki og tengda aðila og er markmiðað að kynna þar stafræn tækifæri og kenna notkun ýmissa stafrænna tóla sem nýtast greininni í daglegum rekstri og styrkja sjálfbærni og samkeppnisforskot. Þar er að finna gott safn greina og aðgengilegs kennsluefnis um þætti á borð við leitarvélabestun, bókunarkerfi, stafræna vöruþróun, heimasíðugerð, samstarf við áhrifavalda og margt fleira.

Á síðunni má einnig finna spjallborð sem ferðaþjónustuaðilar og aðrir sem áhuga kunna að hafa eru hvattir eindregið til að nýta sér og auka þannig samtal og jafningjafræðslu í greininni.

Vefsíða DT nordics

Ráðstefna um efnisframleiðslu

Þann 9. desember 2021 var haldin ráðstefna um efnisframleiðslu/markaðssetningu í ferðaþjónustu og áhrif hennar á leitarvélabestun. Fjallað var bæði um möguleika áfangastaða, sem og fyrirtækja í ferðaþjónustu til að ná til markhópa sinna og hvernig samstarf við áhrifavalda nýtist í því samhengi. Ráðstefnan var hluti af Digital Tourism in the Nordics sem var samstarfsverkefni Ferðamálastofu, Visit Finland, Visit Faroe Islands og Visit Greenland. Meðal fyrirlesara voru Olivia Fríðfinsdóttir frá Visit Faroe Islands, Janicke Hansen frá Noregi sem starfað hefur með ferðaþjónustufyrirtækjum og áhrifavöldum að efnismarkaðssetningu um árabil og Kira Dalhus frá Danmörku en hún fjallaði um samspil markaðsefnis og leitarvélabestunar (SEO).

Upptökur frá ráðstefnu

Almennt um verkefnið

Markmið verkefnisins var að stuðla að aukinni samkeppnishæfni ferðaþjónustu með stafræna þróun í greininni að leiðarljósi. Var því horft til þess með hvaða hætti verkefnið gæti leitt til aukinnar notkunar stafrænnar tækni meðal ferðaþjónustuaðila við daglegan rekstur, markaðssetningu og þróun þjónustu fyrir ferðamenn.

Vekja athygli á tækifærum opinberra aðila/stoðkerfis ferðaþjónustunnar

Jafnframt er verkefninu ætlað að vekja athygli á tækifærum opinberra aðila innan stoðkerfis ferðaþjónustunnar til að nýta stafræna tækni m.a. við miðlun hvers kyns upplýsinga. T.d. á sviði öryggis- og umhverfismála, og við framkvæmd eftirlits og styðja þannig við sjálfbæran framgang greinarinnar.

Nýtist við stefnumótun

Horft var til þess að niðurstöður kannana, gerðar í tengslum við verkefnið, nýtist við stefnumótun Ferðamálastofu og sambærilegra stofnanna á norðurlöndum og forgangsröðunar áhersluverkefna.

Leggi grunn að vakningu ferðaþjónustuaðila

Þá er verkefninu einnig ætlað að leggja grunn að vakningu ferðaþjónustuaðila um tækifæri stafrænna lausna til að auka skilvirkni og bæta upplifun ferðamanna