Fréttir

Fjölgun gistinátta í öllum landshlutum

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta á hótelum í júlí og sýna þær að gistinóttum í mánuðinum fjölgaði um 6% á milli ára. Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 189300 en voru 177800 í sama mánuði árið 2006. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum. Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinóttum fjölgaði um tæp 12%, úr 19.400 í 21.700 milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin tæpum 6%, en gistinætur þar fóru úr 104.900 í 111.100 milli ára. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fjölgaði gistinóttum einnig um 6%, úr 18.100 í 19.200. Fjöldi gistinátta á Suðurlandi jókst um rúm 5%, úr 24.200 í 25.500 milli ára. Á Austurlandi fór gistináttafjöldinn úr 11.300 í 11.800 og fjölgaði þar með um rúm 4%. Fjölgun gistinátta á hótelum í júlí má bæði rekja til Íslendinga (23%) og útlendinga (4%). Gistirými á hótelum í júlímánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 4.076 í 4.444, sem er 9% aukning, og fjöldi rúma úr 8.210 í 9.015, sem er 10% aukning. Hótel sem opin voru í júlí síðastliðnum voru 77 en 76 í sama mánuði árið 2006. Sjá nánar á vef Hafstofunnar.
Lesa meira

Veruleg fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll það sem af er árinu

Í ágústmánuði síðastliðnum fóru 293.790 farþegar um Keflavíkurflugvöll og fjölgar þeim um 9% á milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá flugvellinum. Veruleg fjölgun farþega hefur átt sér stað á þessu ári og nemur tæpum 9% frá áramótum. Farþegar fyrstu átta mánuði þessa árs voru rúmlega 1,5 milljónir samanborið við 1,4 milljónir frá janúar til ágúst 2006. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.     Ágúst 07. YTD Ágúst 06. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 126.484 658.084 120.244 610.229 5,19% 7,84% Hingað: 124.408 671.446 115.085 613.258 8,10% 9,49% Áfram: 5.586 28.511 2.426 11.867 130,26% 140,25% Skipti. 37.312 187.953 31.806 184.755 17,31% 1,73%   293.790 1.545.994 269.561 1.420.109 8,99% 8,86%
Lesa meira

Íslenska sendiráðið í Peking hefur útgáfu vegabréfsáritana samkvæmt ADS samningi

Samkomulag milli Íslands og Kína um vegabréfsáritanir og tengd málefni er varða ferðamannahópa frá Kína (ADS) var undirritað þann 12. apríl 2004. Með samkomulaginu voru sett ströng og ítarleg skilyrði fyrir því hvaða aðilar í ferðaþjónustu í Kína geta haft umsjón með og fengið vegabréfsáritanir fyrir hópa kínverskra ferðamanna til Íslands og þar með inn á Schengen-svæðið. Það er hins vegar ekki fyrr en nú sem reynir á samninginn því fram til þessa hafa engar ADS áritanir verið gefnar út af íslenskum stjórnvöldum, eða fyrir Íslands hönd. Nú hefur íslenska sendiráðið í Peking hafið útgáfu vegabréfsáritana í samræmi við ADS samninginn Leyfishöfum Ferðamálastofu gefst nú kostur á að skrá sig á lista yfir íslenskar ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur sem óska eftir því að vera í samstarfi við kínverskar ferðaskrifstofur. Hér á vefnum er að finna skráningarblað og nánari upplýsingar varðandi samstarfið. Skráningu lýkur þann 21. september nk. Skráningarblað (skráningarfrestur er útrunninn) Nánari upplýsingar í bréfi til leyfishafa (PDF) Nánari upplýsingar á vef utanríkisráðuneytisins
Lesa meira

Ný tegund afþreyingarferðaþjónustu

Ferðaskrifstofan Ísafold mun í vetur bjóða upp á nýja tegund afþreyingar sem er leiga á jeppum sem breytt hefur verið fyrir jöklaferðir og akstur í snjó. Bílarnir verða leigðir út í skipulagðar ferðir undir eftirliti og leiðsögn starfsmanna ferðaskrifstofunnar. Í frétt frá Ísafold kemur fram að allir þátttakendur fá ítarlegar leiðbeiningar um hvað þarf að aðgæta í sambandi við akstur breyttra bíla áður en lagt er af stað en einnig standa í boði stutt námskeið í bíltækni, aksturstækni og ferðamennsku í upphafi ferðar. ?Forsvarsmenn Ísafoldar vilja með þessari nýjung fjölga afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustunni en renna um leið frekari stoðum undir heimsóknir erlendra ferðamanna til Íslands, einkum að vetri til,? segir í fréttinni. Aukin umhverfisvitundÞá kemur fram að sem mótvægisaðgerð við þá losum koltvísýrings sem notkun bíla veldur hefur verið ákveðið að vinna að kolefnisjöfnun ökutækja Ísafoldar. Samið hefur verið við Kolvið um gróðursetningu trjáa í þessum tilgangi, ásamt því að ferðamönnum á vegum Ísafoldar mun í auknu mæli verða gefinn kostur á gróðursetningu að sumarlagi. Einnig mun ferðaskrifstofan styrkja rannsóknir á nýtingu vetnis sem orkubera fyrir íslensk farartæki.
Lesa meira

Samstarf Iceland Excursions og Reykjavík International Film Festival

Iceland Excursions og Reykjavík International Film Festival hafa gert mér sér samning til næstu þriggja ára.Mun Iceland Excursions m.a. leggja til hópferðabíla og leiðsögumenn í sérstakar ferðir fyrir boðsgesti og blaðamenn hátíðarinnar. "Það er okkur mikil ánægja að koma að svona verkefni og við höfum undanfarin ár styrkt hátíðina með sambærilegum hætti. Markmið okkar er að sýna þessum aðilum íslenskt landslag og vonandi vekja með því áhuga kvikmyndaiðnaðarins á að taka kvikmyndir og eða auglýsingar á Íslandi. Það er frábær landkynning sem lifir vel og lengi" segir Þórir Garðarsson sölu- og markaðstjóri Iceland Excursions. Að  sögn Hrannar Marinósdóttur kvikmyndahátíðarstjóra skiptir samtarf  við ferðaþjónustufyrirtæki á borð við Iceland Excursions einnig miklu máli fyrir hátíðina. Meðfylgjandi mynd var tekin við undirritun samningsins.
Lesa meira

Tillögum skilað að endurskoðaðri ferðamálaáætlun

Eins og áður hefur komið fram skipaði þáverandi samgönguráðherra í febrúar síðastliðnum stýrihóp til að endurskoða ferðamálaáætlun 2006-2015. Stýrihópurinn skilaði tillögum sínum til samgönguráðherra síðastliðinn föstudag. Í stýrihópnum voru sömu aðilar og í þeim hópi sem stýrði vinnu við gerð áætlunarinnar upphaflega; Magnús Oddson formaður, Erna Hauksdóttir og Helga Haraldsdóttir. Hópurinn réði síðan Sunnu Þórðardóttur sem verkefnisstjóra. Í skipunarbréfi hópsins sagði að þar sem gengið hefði betur en áætlað var aða vinn að markmiðum áætlunarinnar væri eðlilegt að flýta endurskoðun hennar. Stýrihópnum var gefinn frestur til loka ágúst til að ljúka verkinu. Á heimasíðum Ferðamálastofu, samgönguráðuneytis og SAF gafst tækifæri til að koma á framfæri ábendingum og gera athugasemdir eftir því sem verkefnið þróaðist. Til marks um grósku innan greinarinnar?Við skiluðum frá okkur tillögum að breyttri ferðamálaáætlun fyrir árin 2008-2015 og það kom í ljós að þótt gildandi ferðamálaáætlun hafi aðeins verið í gildi í 20 mánuði þá voru fjölmörg atriði sem hafa breyst, bæði innan greinarinnar og í umhverfi hennar, sem kalla að okkar mati á breytingar í áætluninni?, segir Magnús Oddsson ferðamálstjóri og formaður stýrihóps. ?Það sýnir bara enn og aftur það líf sem er í þessari atvinnugrein og hve allar breytingar eru þar örar. Því er nauðsynlegt að bregðast fljótt við síbreytilegu umhverfi og tryggja samkennishæfni til næstu ára,? bætir Magnús við.
Lesa meira

Nýr formaður Iceland Naturally í N.-Ameríku

Samgönguráðherra hefur skipað Skúla Helgason, framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar, formann Iceland Naturally í Norður-Ameríku. Hann tekur við af Ingimundi Sigurpálssyni, forstjóra Íslandspósts. Ákveðið hefur verið að samgönguráðherra, forsætisráðherra og utanríkisráðherra fækki fulltrúum sínum í stjórninni úr tveimur í einn hver og verða Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður forsætisráðherra, og Guðmundur Steingrímsson, tónlistarmaður og pistlahöfundur, fulltrúar forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis, samkvæmt vef stjórnarráðsins. Fyrirtækin sem aðild eiga að samkomulaginu eru Icelandair, Icelandic USA, Glitnir, Flugstöð Leifs Eiríkssonar, Egill Skallagrímsson, 66° Norður, Bláa lónið og Reyka Vodka auk Bændasamtaka Íslands. Fleiri fyrirtæki eru að kanna aðild, samkvæmt vef stjórnarráðsins. 52 milljónir úr ríkissjóði á áriRíkissjóður leggur árlega fram 700.000 bandaríkjadali eða 52 milljónir króna í ár af fjárlagalið samgönguráðuneytis. Verkefninu er stýrt frá skrifstofu Ferðamálastofu í New York í samstarfi við viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins í sömu borg.
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnunni frestað

Tekin hefur verið ákvörðun um að fresta Ferðamálaráðstefnunni sem ákveðið var snemma í vor að halda 15. nóvember n.k. Eins og kunnugt er munu málefni ferðaþjónustunnar færast á milli ráðuneyta um áramót.Eðlilegra er því að ferðamálaráðstefnan verði færð um nokkrar vikur og haldin sem næst þeim tíma þegar yfirfærsla málaflokksins á sér formlega stað, frekar en í því ferli miðju. Ný dagsetning verður tilkynnt fljótlega en ráðstefnan verður í Reykjavík. Mynd: Frá ferðamálaráðstefnunni 2006.
Lesa meira

Nýr formaður NATA

Sérstakur samningur stjórnvalda í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi um samstarf á sviði ferðamála hefur nú verið í gildi frá síðustu áramótum. Samstarfið ber heitið NATA og tók við að áralöngu samstarfi landanna undir heitinu Vestnorden. Formennska í NATA er í höndum Grænlendinga og nú um mánaðarmótin tekur við nýr formaður af þeirra hálfu, þar sem þeir hafa tilnefnt Bjarne Ecklund sem formann. Af hálfu Íslands sitja í stjórninni Áslaug Alfreðsdóttir, Gunnar Sigurðsson og Magnús Oddsson. ?Ég þekki vel til Bjarne og við höfum unnið saman áður að ferðamálum,? segir Magnús. ?Bjarne var ferðamálastjóri Danmerkur og þar áttum við mikið og gott samstarf í Nordisk Turistraad og einnig síðar þegar hann varð formaður Ferðamálaráðs Danmerkur um skeið. Nú hafa Grænlendingar tilnefnt hann sem formann í NATA og hlakka ég til samstarfs við Bjarne enn á ný á nýjum vettvangi,? segir Magnús.
Lesa meira

Mystery Shopping á Íslandi

Þann 7. september næstkomandi verður í fyrsta skipti hérlendis haldin kynning á aðferðafræði Mystery Shopping. Markmið Mystery Shopping  er að hjálpa fyrirtækjum að bæta sölu og þjónustu við viðskiptavini sína. Að viðburðinum stendur fyrirtækið Better Business. Daksráin hefst kl. 14 á Nordica Hotel og áætlað að henni ljúki um kl. 17:15. ?Mörg fyrirtæki leggja mikinn pening í markaðssetningu í þeim tilgangi að fá viðskiptavininn til sín í búðina, veitingastaðinn, hótelið, bankann o.s.frv. Þegar því markmiði hefur verið náð er mikilvægt að vel takist til við að sinna viðskiptavininum þegar hann mætir á staðinn,? segir m.a. í frétt frá Better Business. Nánari upplýsingar
Lesa meira