Fréttir

Vel sótt námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva

Rétt um 30 manns sátu í dag árlegt námskeið sem Ferðamálastofa heldur fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva. Að þessu sinni var fjarfundabúnaður notaður og fólki þannig gefinn kostur á að sitja námskeiðið sem næst heimabyggð. Fyrirlesarar á námskeiðinu voru Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu; Claudia Lobindzus,  f.v. starfsmaður upplýsingamiðstöðvarinnar á Akureyri; Elín Svava Ingvarsdóttir, verkefnastjóri Ferðamálastofu og Erla Björg Guðmundsdóttir, rekstrar- og viðskiptafræðingur. Á meðfylgjandi mynd er Claudina einmitt að flytja erindi sitt en það fjallaði um daglegt starf á upplýsingamiðstöð. 
Lesa meira

Ný skýrsla um menningartengda ferðaþjónustu í Eyjafirði

Út er komin skýrsla frá Ferðamálasetri Íslands um Menningartengda ferðaþjónustu í Eyjafirði. Skýrslan er nokkru á eftir áætlun en er engu að síður hluti af viðamiklu rannsóknarverkefni til næstu 10 ára um menningartengda ferðaþjónustu á Íslandi. Þar eru m.a. áræðnaleiki, framsetning, ímyndasköpun og markaðsetning menningar í ferðaþjónustu tekin til skoðunar. Rannsóknir í menningartengdri ferðaþjónustu eru ein af þremur megin rannsóknarstoðum Ferðamálaseturs, en hinar tvær snúast um ferðaþjónustu og umhverfismál og hagræn áhrif ferðaþjónustu. Skýrsluna er hægt að nálgast á vef setursins www.fmsi.is og jafnframt í nýjum gagnabanka Ferðamálastofu um útgefið efni í ferðaþjónustu.  
Lesa meira

Hugmyndafræði All Senses hlaut Frumkvöðlaverðlaun Vesturlands

Frumkvöðlaverðlaun Vesturlands voru afhent í annað sinn á dögunum. Í ár var það hugmyndafræði All Senses hópsins á Vesturlandi sem hlaut þau. Það eru Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi sem veita verðlaunin. Frá þessu er greint á fréttavef Skessuhorns. All Senses er svokallaður klasahópur ferðaþjónustuaðila sem byggir á þeirri hugmyndifræði að samvinna sé vel framkvæmanleg í samkeppni. Það var Sigríður Finsen, stjórnarformaður Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem tilkynnti um úrslitin. Hún sagði í ræðu sinni að hugmyndafræði All Senses Group væri merki um samvinnu grasrótarinnar sem með góðu skipulagi og stýringu virkaði vel. Sérstök dómnefnd fór yfir þær tilnefningar sem bárust, en að þessu sinni voru þær 20 eða helmingi fleiri en á síðasta ári. Það sem einkum er horft til þegar valið fer fram er nýnæmi í framkvæmdum, atvinnulífi eða félagslífi. Hversu mikið framfaraskref verkefnið er fyrir landshlutann og hversu mikið áræði og fyrirhyggju þurfi til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd.  Mynd: All Senses hópurinn.
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 17% á fyrsta ársþriðjungi

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta í apríl og þar með liggur einnig fyrir fyrsti ársþriðjungur 2007. Tölurnar sýna að gistinóttum í apríl síðastliðnum fjölgaði um rúm 12% á milli ára og á fyrstu fjórum mánuðum ársins um 17%. Gistinætur á hótelum í apríl síðastliðnum voru 89.900 en voru 80.100 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 9.800 nætur eða rúm 12%, sem fyrr segir.  Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum.  Aukningin var hlutfallslega mest á Norðurlandi þar sem gistinóttum fjölgaði um rúmlega helming, fóru úr 4.600 í 6.900 milli ára (51% aukning).  Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um rúm 43%, úr 2.100 í 3.100.  Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fór gistináttafjöldinn úr 6.100 í 7.400 milli ára, sem er 20% aukning.  Gistinæturnar á höfuðborgarsvæðinu í apríl síðastliðnum voru 63.100 en voru 58.200 í sama mánuði árið 2006 sem er aukning um rúm 8%. Á Suðurlandi nam aukning gistinátta rúmum 5% en þær fóru úr 9.000 í 9.500 milli ára. Fjölgun gistinátta á hótelum í apríl má bæði rekja til útlendinga (13%) og Íslendinga (11%). Gistirými á hótelum í aprílmánuði jókst milli ára.  Fjöldi herbergja fór úr 3.710 í 4.125, 11% aukning og fjöldi rúma úr 7.501 í 8.348, 11% aukning.  Hótel sem opin voru í apríl síðastliðnum voru 73 en 74 í sama mánuði árið 2006. Fyrsti ársþriðjungurGistinætur á hótelum í janúar, febrúar, mars og apríl samanlögðum voru 293.200 en voru 250.000 fyrir sama tímabil árið 2006, sem er 17% fjölgun.  Fjölgun varð á öllum landsvæðum.  Mest var hún þó á Austurlandi þar sem gistináttafjöldinn jókst um tæp 73%, úr 5.500 í 9.500.  Aukningin nam 24% á Norðurlandi, 17% á höfuðborgarsvæðinu, 15% á Suðurlandi og 6% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, en þessar tölur eru birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir eru fáir. Fjölgun gistinátta fyrstu þrjá mánuði ársins skiptist þannig að gistinóttum útlendinga fjölgaði um 22% og Íslendinga um 8%.  Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið.  Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir 2007 eru bráðabirgðatölur.
Lesa meira

Farþegar um Keflavíkurflugvöll í maí

Í nýliðnum maímánuði fóru 181 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll sem er tæplega 10% fjölgun á milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá flugvellinum. Það sem af er árinu, eða til loka maí, hafa tæplega 700 þúsund farþegar farið um völlinn. Er þetta rúmlega 9% fjölgun á milli ára. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu. Farþegar um Keflavíkurflugvöll   Maí.07. YTD Maí.06. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 77.432 299.185 70.773 272.464 9,41% 9,81% Hingað: 78.369 300.337 69.676 269.924 12,48% 11,27% Áfram: 2.776 12.300 1.573 5.433 76,48% 126,39% Skipti. 22.790 74.162 23.076 81.368 -1,24% -8,86%   181.367 685.984 165.098 629.189 9,85% 9,03%
Lesa meira

Húnvetnsk ferðaþjónusta á fullan snúning

?Sumarið er heldur betur að fara í gang hér í Húnavatnssýslunni, hitastigið orðið gott og sumarilmur í lofti,"segir Haukur Suska-Garðarsson, ferðamálafulltrúi og starfsmaður atvinnuþróunar Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. "Ég tek eftir því að erfiðara verður að fá sætið sitt í Essóskálanum á Blönduósi í hádeginu,? bætir hann við í léttum tón.  Menningarferðaþjónusta eflist stöðugtAð sögn Hauks eru rúturnar farnar að koma fyrr en var og að sjálfsögðu bílaleigubílarnir sem alltaf er að fjölga. ?Ferðaþjónustan fer hér á fullan snúning einmitt þessa daga. Mér finnst verulega gaman að nefna hvað menningarferðaþjónustan er að festa vel rætur hér í héraði. Ferðamenn sýna menningunni meiri áhuga en áður, kannski af því að nú er líka mun meira í boði. Við eigum t.d. hér eina perluna í safnaflóru Íslendinga, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi sem margir þekkja. Þar er einmitt opnunarhátíð á sýningu Hildar Bjarnadóttur myndlistarkonu 2. júní kl. 14 og allir velkomnir. Hún er mjög áhugaverð listakona,  er m.a. handhafi sjónlistarorðunnar 2006. Við hlökkum mikið til að sjá sýningar safnsins í sumar, en það er opið daglega frá 1. júní til 31. ágúst frá kl. 10 til 17, segir Haukur. Annar menningarstaður héraðsins, Þingeyrakirkja, hefur eignast gestastofu. Nefnist hún Klausturstofa og hefur breytt allri mótttöku gesta við Þingeyrakirkju til hins betra. Þar er boðið upp á fría leiðsögn um kirkjuna í allt sumar. ?Hafíssetrið á Blönduósi verður opnað núna 1. júní líkt og staðirnir sem ég nefndi áðan. Setrið var sett á laggirnar á síðasta ári. Mjög faglegt og vel upp sett sýning um allt sem lýtur að hinum landsins forna fjanda en það var Þór Jakobsson verðurfræðingur sem vann faglega efnisvinnu fyrir sýninguna. Hafíssetrið er jú líka í einu sögufrægasta húsi héraðsins, Hillebrandtshúsi, sem er pakkhús frá árinu 1733. Nýr veitingastaðurStaðsetning Blönduós við þjóðveginn gerir það að verkum mikil umferð er í gegn allt árið og stundum hefur verið haft á orði að lítið sé hægt að borða á leið sinni um þjóðveginn á Íslandi annað en hamborgara. Slíkt á þó ekki við um Blönduós og á næstu dögum eykst fjölbreytnin enn frekar þegar opnaður verður veitingastaðurinn Potturinn og pannan í húsinu við hliðina á Essóskálanum. "Þar er stefnt að opnun 16. júní og eru ekki síst við heimamenn farnir að hlakka mikið til,? segir Haukur.
Lesa meira

Skráning hafin á Vest Norden

Nú er hafin skráning á Vest Norden kaupstefnuna. Hún fer að þessu sinni fram dagana 10.-12. september næstkomandi í Þórshöfn í Færeyjum. Verður þetta  í 22 sinn sem kaupstefnan er haldin. Skráning fer fram á netinu www.vestnorden.com Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálastofu verður fyrirkomulagið svipað og verið hefur undanfarin ár. Sýnendur frá Íslandi bera ábyrgð á því að skrá sig sjálfir á vefnum og einnig að hafa samband við Atlantic Airways símleiðis og panta flug á sérverði vegna Vest Norden. Sjá nánar www.atlantic.fo Kostnaður vegna þátttöku er frá DKK 8.500 og síðasti dagur skráningar er 16. júlí. Mögulegt verður að óska eftir fundum við kaupendur í byrjun ágúst.
Lesa meira

Endurskoðun ferðamálaáætlunar - Óskað eftir athugasemdum

Um þessar mundir stendur yfir endurskoðun á ferðamálaáætlun 2006-2015. Sami stýrihópur og vann áætlunina upphaflega vinnur að endurskoðuninni en í honum sitja Magnús Oddsson ferðamálastjóri, formaður hópsins; Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri SAF og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í samgönguráðuneytinu. Sunna Þórðardóttir er starfsmaður verkefnisins. Samkvæmt skipunarbréfi ráðherra skal opnuð gátt á heimasíðum ráðuneytis, Ferðamálastofu og SAF, þar sem hagsmunaaðilar geta sett inn athugasemdir. Stýrihópur hefur tekið þá ákvörðun að óska eftir viðbrögðum við afmörkuðum þáttum verkefnisins eftir því sem fram vindur. Stýrihópurinn hefur þá skoðun að í endurskoðaðri áætlun skulu vera sömu meginmarkmið og í fyrirliggjandi áætlun. Þau eru; Náttúra Íslands, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála. Tryggð verði samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar sem stuðli að hámarksafrakstri í greininni. Álag vegna ferðaþjónustu verði jafnað á landið og íbúa þess og verði innan þolmarka í samræmi við niðurstöður rannsókna. Ímynd Íslands sem ferðamannastaðar verði byggð upp og varin. Í ferðamálaáætlun 2006-2015 voru níu flokkar sem lutu að megin markmiðum áætlunarinnar. Þeir eru; Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar. Kynningarmál. Nýsköpun og þróun. Menntun. Rannsóknir. Grunngerð. Fjölþjóðasamstarf. Gæða- og öryggismál. Umhverfismál. Hr með er óskað eftir ábendingum og athugasemdum varðandi markmiðin, s.s. hvort hagsmunaaðilum þyki þörf á að breyta þeim. Einnig er óskað eftir viðbrögðum varðandi málaflokkana níu s.s. hvort þeir eigi að standa, hvort þörf sé á nýjum eða hvort skuli sameina þá og/eða fækka þeim. Tekið er á móti ábendingum varðandi þetta til sunnudagsins 10. júní. Allar ábendingar eru vel þegnar og munu verða teknar til umfjöllunar og skoðunar hjá stýrihóp. Ábendingar sendist til: sunna@icetourist.is Skoða Ferðamálaáætlun 2006-2015 PDF 1,5 MB
Lesa meira

Nýr ráðherra ferðamála í heimsókn

Í dag kom nýr ráðherra ferðamála, Kristján L. Möller samgönguráðherra, í heimsókn á skrifstofu Ferðamálastofu í Reykjavík. Með í för voru m.a. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í ráðuneytinu. Hjá Ferðamálastofu tóku á móti ráðherra þeir Magnús Oddsson ferðamálastjóri og Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs. Fóru þeir yfir hlutverk stofnunarinnar og kynntu starfið sem þar fer fram. Þá heilsaði ráðherrann upp á starfsfólk. Meðfylgjandi myndir voru teknar í heimsókninni. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri, Magnús Oddsson ferðamálastjóri, Kristján L. Möller samgönguráðherra og Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Ferðamálastjóri afhenti ráðherra bókina "Vikings Guide to Good Business"Myndir: Jóhannes Tómasson
Lesa meira

Nordica verður Hilton Nordica

Icelandair Hotels hefur gengið frá samkomulagi um að Nordica Hótel verði hluti af hinni heimsfrægu Hilton keðju. Ekki er um að ræða breytinga á eignarhaldi heldur verður Nordica hluti af þeim fjölda hótela um allan heim sem eru kynnt og markaðssett undir þessu heimsþekkta merki. Viðurkenning á gæðum?Þó Íslendingar hafi náð miklum árangri á sviði ferðaþjónustu þá er það okkur mjög mikilvægt að þekkt og viðurkennd vörumerki séu sýnileg í markaðssetningu okkar,? segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. ?Fyrir þá sem ekki hafa neina þekkingu á viðkomandi áfangastað þá er það ákveðin viðurkenning og gefur ákveðnar upplýsingar um gæði þess staðar að þar sé að finna Hilton eða annað álíka heimsþekkt merki sem stendur fyrir ákveðin gæði. Nú erum við með fjögur hótel sem hafa tengst slíkum alþjóðlegum, þekktum vörumerkjum og þeim á eftir að fjölga á næstunni, m.a. með tilkomu nýs hótels við Reykjavíkurhöfn,? bætir hann við. ?Við óskum Icelandair Group til hamnigju með að hafa náð þessari viðurkenningu á gæðum í alþjóðlegu samhengi sem er enn ein staðfestingin á að íslensk ferðaþjónusta er að byggja sig upp samkeppnishæfa í gæðum á alþjóðavísu sem er forsenda áframhaldandi árangurs?, segir Magnús að lokum.
Lesa meira