Fréttir

Endurskoðun ferðamálaáætlunar senn að ljúka

Stýrihópurinn sem vinnur að endurskoðuninni vinnur nú að lokagerð hennar. Hér að neðan er hlekkur þar sem skoða má markmið og leiðir hvað varðar endurskoðunaina í heild eins og hún lítur út á þessu stigi. Óskað hefur verið eftir ábendingum og athugasemdum og verður tekið við þeim til mánudagsins 9. júlí 2007.  Endurskoðun ferðamálaáætlunar.  
Lesa meira

Endurskoðun ferðamálaáætlunar

Eins og fram hefur komið stendur nú yfir endurskoðun á ferðamálaáætlun 2006-2015. Stýrihópurinn sem vinnur að endurskoðuninni hefur farið yfir næstu þrjá málaflokka áætlunarinnar, sem eru alþjóðasamstarf, rannsóknir og menntun. Hér að neðan er linkur þar sem sjá má markmið og leiðir auk aðgerða- og framkvæmdaáætlanir málaflokkana en þannig líta þeir út á þessu stigi. Óskað hefur verið eftir ábendingum og athugasemdum og verður tekið við þeim til sunnudagsins 3. júlí 2007. Endurskoðun ferðamálaáætlunar.        
Lesa meira

Beinu Kaupmannahafnarflugi Iceland Express frá Akureyri vel tekið

Beinu flugi Iceland Express frá Akureyri til Kaupmannahafnar hefur verið mjög vel tekið. Iceland Express hóf beint flug milli þessara staða í fyrrasumar og nú hefur þráðurinn verið tekinn upp aftur. Flogið er tvisvar í viku, á mánudögum og miðvikudögum, frá júníbyrjun til ágústloka. Þegar er orðið uppselt í sex brottfarir og í 15 til viðbótar hafa 90% sæta þegar verið seld. Nú er svo komið að einungis á eftir að selja um fjórðung allra miða í sumar, segir í frétt frá Iceland Express. Töluverð söluaukning er milli ára, þrátt fyrir að sætanýting hafi verið góð síðastliðið  sumar. Mest er aukningin í júlí, þar sem nær fjórðungs aukning er í seldum sætum milli ára. Seldum sætum í ágúst hefur einnig fjölgað umtalsvert frá því í fyrra, eða um rúm 14%. Enn sem komið er eru Íslendingar í meirihluta þeirra sem ferðast á þessari leið en þó hefur erlendum ferðamönnum sem nýta sér þennan möguleika farið ört fjölgandi. Sem dæmi má nefna að þegar hafa vel á annað þúsund Danir ferðast með Iceland Express til Akureyrar eða pantað sér miða á flugleiðinni í sumar. ?Iceland Express hefur ráðist í umfangsmikla kynningu á Akureyri og Norðurlandi almennt í Danmörku að undanförnu sem virðist hafa skilað sér í auknum áhuga á þessum nýja valkosti í ferðaþjónustu þar í landi;? segir m.a. í frétt Iceland Express.
Lesa meira

Veðurfarsbreytingar kalla á breytt vöruframboð yfir vetrartímann

Sumarfundur í framkvæmdastjórn Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) er nú haldinn í Brussel. Magnús Oddsson ferðamálastjóri situr fundinn en hann situr í framkvæmdastjórninni sem kjörinn fullrúi Norður-Evrópu. ?Meginverkefni þessa sumarfundar í framkvæmdastjórninni er að fara yfir aðgerða- og markaðsáætlun til ársins 2010 og hvaða breytingar þyrfti að gera á því,? segir Magnús. Hlutirnir breytast hrattHann segir ljóst að hlutirnir breytist hratt, bæði vegna breytinga á mörkuðum, breytinga í dreifileiðum og einnig vegna breytinga í vöruframboði. ?Til dæmis var umræðan í dag um hvernig aðalvetrarvara Mið-Evrópu, sem byggist á snjó og er stór hluti af ímynd þess svæðis, kallar nú á þróun og ef til vill algerlega nýja vetrarvöru á þessu svæði, þegar snjórinn er að hverfa hratt. Þetta var mikil umræða um hvernig veðurfarsbreytingar geta kallað á nauðsyn þess að endurskoða vöruframboð víða í Evrópu fyrr en okkur grunaði,? segir Magnús. Þá var umræða á fundinum um viðræður ETC og Evrópusambandsins um möguleika á mikilli 3ja ára herferð á nýjum mörkuðum í Asíu. Þær tillögur sem koma frá þessum fundi framkvæmdastjórnarinnar verða svo lagðar fyrir fund alls ráðsins í haust.
Lesa meira

Svanhildur Konráðsdóttir skipuð formaður Ferðamálaráðs

Kristján L. Möller samgönguráðherra hefur skipað Svanhildi Konráðsdóttur formann Ferðamálaráðs. Ráðherra hefur einnig skipað Einar Karl Haraldsson, aðstoðarmann iðnaðarráðherra, sem varaformann ráðsins. Ferðamálaráði var fengið nýtt hlutverk með lögum um skipan ferðamála sem tóku gildi í ársbyrjun 2006. Helstu verkefni þess eru að gera, einu sinni á ári eða oftar, tillögu til ráðherra um markaðs- og kynningarmál ferðaþjónustunnar. Jafnframt er það ráðherra til ráðgjafar um áætlanir í ferðamálum og veitir umsagnir um breytingar á lögum og reglum er varða ferðamál. Í Ferðamálaráði eiga sæti tíu fulltrúar. Formaður og varaformaður eru skipaðir af samgönguráðherra án tilnefningar en aðra fulltrúa skipar ráðherra eftir tilnefningu eftirtalinna: Samtaka ferðaþjónustunnar sem tilnefna þrjá fulltrúa, Sambands íslenskra sveitarfélaga sem tilnefnir tvo fulltrúa, Ferðamálasamtaka Íslands sem tilnefna tvo fulltrúa og Útflutningsráðs Íslands sem tilnefnir einn. Skipunartími ferðamálaráðs skal vera fjögur ár en skipunartími formanns og varaformanns skal þó takmarkaður við embættistíma ráðherra. Ferðamálastjóri og fulltrúi ráðuneytisins sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt. Nýr formaður Ferðamálaráðs, Svanhildur Konráðsdóttir, er sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar. Hún situr meðal annars í stjórn Austurhafnar er stendur fyrir byggingu tónlistar- og ráðstefnumiðstöðvar í Reykjavík og í stjórn Ráðstefnuskrifstofu Íslands.
Lesa meira

Ljósmyndasamkeppni og hvatningarherferð Ferðamálastofu og Umferðarstofu

Hafin er hvatningarherferð Ferðamálastofu um ferðalög innanlands. Eins og áður er herferðin hvatning til Íslendinga að ferðist sem mest um eigið land og flýta sér hægt. Í ár hefur Ferðamálastofa fengið til samstarfs Umferðastofu og munu auglýsingar taka nokkuð mið af því samstarfi. ?Með þessu átaki erum við að hvetja íslenskar fjölskyldur til að staldra við, og skoða fagra staði sem eru hvarvetna í íslenskri náttúru. Ferðaþjónustan hefur þróast hratt síðustu árin og það er í boði ógrynni af þjónustu og aðstöðu á öllu landinu. Afþreying er í ríkum mæli miðuð bæði fyrir Íslendinga sem og erlenda ferðamenn. Svo erum við að kynna ferdalag.is sem er stærsti gagnagrunnur íslenskrar ferðaþjónustu á vefnum,? segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu. Ný leið til að fá fólk til að endurskoða afstöðu sína til hraðaksturs?Þegar Umferðarstofu bauðst að vera með í þessari auglýsingaherferð sáum við ákveðið tækifæri á að nálgast viðfangsefni okkar á ögn jákvæðari nótum en við höfum gert fram að þessu. Hingað til hefur Umferðarstofa beitt nokkuð hörðum aðferðum til að fá fólk til að endurskoða afstöðu sína til hraðaksturs, sem vissulega hefur reynst vel, en það er líka gaman að fá að nálgast þetta frá öðru sjónarhorni. Langflest alvarleg umferðarslys verða á þjóðvegum landsins og oftast þegar aðstæður til aksturs eru hvað bestar. Það sem Umferðarstofa er fyrst og fremst að leggja áherslu á með þessari auglýsingarherferð er að ferðamenn njóti íslenskrar náttúru en komi jafnframt heilir heim.Það er ljóst að upplifun okkar af landinu og ferðalaginu öllu hlýtur að vera sterkari og ánægjulegri því minni hættu sem sköpum sjálfum okkur og samferðafólki. Með því að stilla hraðanum í hóf og aka samkvæmt aðstæðum minkar stressið og ánægjan eykst um leið og við aukum líkurnar á því að komast heil heim,? segir Birgir Hákonarson, framkvæmdastjóri umferðaröryggsviðs Umferðarstofu LjósmyndasamkeppniSamtímis átakinu fer fram ljósmyndasamkeppni, þar sem senda má ljósmyndir til okkar og í boði verða vegleg ferðaverðlaun. Allar myndir þurfa að vera teknar í sumar. Taka þátt í ljósmyndasamkeppnni á ferdalag.is  
Lesa meira

Icelandair kynnir nýtt fargjaldakerfi

Icelandair hefur kynnt nýtt fyrirkomulag á fargjöldum félagsins. Samkvæmt fyrstu fréttum felur felur það meðal annars í sér að mögulegt verður að kaupa farmiða aðra leið. Ennfremur er gert ráð fyrir meiri sveigjanleika í fargjöldum félagsins á viðskiptafarrými.  
Lesa meira

Nýtt hótel við Lækjargötu í Reykjavík

Nýtt hótel mun eftir tvö ár bætast við í hóp Icelandair-hótelanna. Það verður til húsa við Lækjargötu 12, þar sem lengst af voru höfuðstöðvar gamla Iðnaðarbankans og hýsir nú eitt af útibúum Glitnis. Gengið hefur verið frá samningum þessa efnis í gær á milli Icelandair Hotels Group og Rivulus ehf., sem er í eigu Glitnis. Um fjögurra stjörnu hótel verður að ræða með 133 herbergjum, líkamsræktaraðstöðu og veitingasal á efstu hæð hússins. Byggt verður talsvert við það á óbyggðum lóðum sín hvorum megin við húsið. Nýja hótelið á að hefja rekstur í maí árið 2009.
Lesa meira

Annar áfangi Selaseturs Íslands opnaður

Annar áfangi Selaseturs Íslands var opnaður fyrr í mánuðinum. Um er að ræða sýningu í nýuppgerðu rými á jarðhæð setursins. Á sýningunni er leitast við að virkja sem flest skilningarvit sýningargesta, bæði með hljóði og mynd, segir í frétt frá Selasetrinu. Þar má m.a. finna neðansjávarherbergi, uppstillingar úr sellátri og fuglabjargi auk sýningar á grænlenskum selskinnsklæðnaði frá Narsaq safninu á Suður Grænlandi. Aðstandendur setursins vonast til að heildar gestafjöldi  á þessu ári verði á bilinu 4000 - 5000 manns. Selaetur Íslands rekur einnig upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Setrið er opið frá 9 - 18 alla daga yfir sumarmánuðina.  
Lesa meira

Veruleg fjölgun ferðamanna fyrstu 5 mánuði ársins

Erlendum ferðamönnum sem fóru um Leifsstöð fjölgaði um tæp 17% fyrstu fimm mánuði ársins, miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þeir voru rúmlega 122 þúsund í ár en rúmlega 104 þúsund í fyrra. Sé litið á tölur síðustu tveggja mánaða  þá fjölgaði ferðamönnum um rúm 9% í apríl og rúm 10% í maí. Í apríl, líkt og fyrri mánuði ársins, var fjölgunin mest meðal Breta. Í maí eru hins vegar íbúar á meginlandi Evrópu (Þýskalandi, Frakklandi Hollandi og Spáni) að koma sterkt inn, ásamt Norðmönnum. Nefna má að í maí í ár voru erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð 34.256 talsins, sem er álíka fjöldi og í júní fyrir fjórum árum síðan. Yfir 40% fjölgun á fjórum árumFrá áramótum hefur verið góður vöxtur frá flestum mörkuðum að N.-Ameríku undanskyldri. Þar var búist við fækkun vegna breyttar vetraráætlunar í flugi. Sé litið fjögur ár aftur í tímann, til ársins 2003, þá kemur í ljós að erlendum ferðamönnum á þessu tímabili hefur fjölgað um rúmlega 43%. Árið 2003 fóru 85 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð en voru rúmlega 122 í ár, sem fyrr segir.  Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálsstofu er afar ánægjulegt að sjá slíka aukningu yfir veturinn. "Aukin áhersla hefur verið lögð á markaðssetningu á vetrarferðir undanfarið og verður svo áfram. Það munar auðvitað mest um aukningu á framboði flugsæta til landsins sem hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Því hefur fylgt mikil fjárfesting í gistirými og afþreyingu," segir Ársæll. Í töflunni hér að neðan má sjá földa ferðamanna fyrstu 5 mánuði ársins 2006 og 2007. Heildarniðurstöður talninganan eru aðgengilegar hér  á vefnum undir liðnum "Talnaefni/Fjöldi Ferðamanna". Frá áramótum   2006 2007 Mism. % Bandaríkin                     17.505 13.958 -3.547 -20,3% Bretland                       21.819 27.661 5.842 26,8% Danmörk                        11.139 12.421 1.282 11,5% Finnland                       2.275 2.534 259 11,4% Frakkland                      4.463 4.870 407 9,1% Holland                        3.043 3.525 482 15,8% Ítalía                         1.183 1.563 380 32,1% Japan                          2.206 2.340 134 6,1% Kanada                         994 1.222 228 22,9% Kína 0 742     Noregur                        9.231 11.418 2.187 23,7% Pólland 0 3.440     Rússland 0 143     Spánn                          806 1.225 419 52,0% Sviss                          680 863 183 26,9% Svíþjóð                        7.865 9.270 1.405 17,9% Þýskaland                      6.491 7.013 522 8,0% Önnur þjóðerni                 14.841 17.896 3.055 20,6% Samtals: 104.541 122.104 17.563 16,8%
Lesa meira