Fréttir

Gistiskýrslur 2005 komnar út

Út er komið ritið Gistiskýrslur 2005 þar sem birtar eru niðurstöður gistináttatalningar Hagstofu Íslands fyrir árið 2005. Ritið er aðgengilegt á vef Hagstofunnar og einnig er hægt að fá það í prentaðri útgáfu. Í Gistiskýrslum 2005 kemur fram að heildarfjöldi gistinátta var 2.232.911 árið 2005 sem er 4,8% aukning frá fyrra ári. Gistinóttum fjölgaði frá árinu 2004 á hótelum og gistiheimilum um 6,8%, orlofshúsabyggðum um 25,7%, í skálum í óbyggðum um 3,4% og á farfuglaheimilum um 0,2%. Gistinóttum fækkaði hins vegar á heimagististöðum um 8,2%, svefnpokagististöðum um 3,4% og á tjaldsvæðum um 2,8%.   Mismunandi eftir landshlutumGistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema tveimur. Aukningin var mest á Suðurnesjum, 10,4%, Austurlandi, 8,4% og á Suðurlandi, 8,0%. Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 6,8%, á Vesturlandi um 5,0% og á Norðurlandi vestra um 0,7%. Gistinóttum fækkaði um 4,9% á Norðurlandi eystra og um 1,2% á Vestfjörðum, en hana má nánast eingöngu rekja til samdráttar á tjaldsvæðum og á heimagististöðum. Í heftinu eru niðurstöður talningarinnar birtar í töflum, myndum og yfirlitum. Nánar um Gistiskýrslur 2005 á vef Hagstofunnar    
Lesa meira

Íslenskir fjallaleiðsögumenn fengu frumkvöðlaverðlaun Icelandair

Frumkvöðlaverðlaun Icelandair voru afhent í fyrsta sinn síðastliðinn föstudag. Þau komu í hlut fyrirtækisins Íslenskir fjallaleiðsögumenn fyrir hugmyndina Gönguferðir á ís sem á að auðvelda ferðalöngum að komast í beina snertingu við ís. Verðlaunin voru afhent í hádegisverðarhléi á Markaðstorgi SAF og nema hálfri milljón króna, auk þess sem verðlaunahafi fær tíu farseðla. Til viðbótar við það verður hugmynd Íslenskra fjallaleiðsögumanna markaðssett á vef Icelandair. Vefur Íslenskra fjallaleiðsögumanna
Lesa meira

Fjölmennur aðalfundur SAF

Jón Karl Ólafsson var endurkjörinn formaður Samtaka ferðaþjónustunnar á fjölsóttum aðalfundi samtakanna í gær. Á fundinum var m.a. ný heimasíða samtakanna opnuð. Fundurinn hófst með erindi Jóns Karls Ólafssonar en að því loknu var komið að ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Kom ráðherra víða við í erindi sínu og fjallaði m.a. um nýútkomna skýrslu Hagfræðistofnunar um áhrif raungengis á ferðaþjónustu. Hvað selur Ísland?Meginþema fundarins var spurningin ?Hvað selur Ísland??. Framsöguerindi fluttu Hermann Haraldsson, framkvæmdastjóri OMD Nordic, Danmörku og Pétur Óskarsson framkvæmdastjóri VIATOR. Þeim fylgdi pallborðsumræður, en þátttakendur í pallborði voru Ingjaldur Hannibalsson, prófessor og stjórnarformaður Ferðamálaseturs, Halla Tómasdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs; Svanhildur Konráðsdóttir, forstöðumaður Höfuðborgarstofu og Friðrik Pálsson framkvæmdastjóri Oddhóls ferðaþjónustu. Að loknum pallorðsumræðum opnaði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra nýja heimasíðu SAF og Erna Hauksdóttir framkvæmdastjóri SAF, og María Guðmundsdóttir upplýsinga-og fræðslufulltrúi SAF fóru yfir helstu nýjungar á heimasíðunni. Ný stjórnNý stjórn SAF var kosin á fundinum. Jón Karl Ólafsson var sem fyrr segir endurkjörin formaður en aðrir í stjórn eru Anna K. Sverrisdóttir, Bláa lónið; Gunnar Guðmundsson, Guðmundur Jónasson ehf; Sævar Skaptason, Ferðaþjónustu bænda; Ólafur Torfason, Reykjavíkurhótel; Lára  B. Pétursdóttir, Congress Reykjavík og Steingrímur Birgisson, Höldur - Bílaleiga Akureyrar. Eru Sævar og Lára ný í stjórninni og koma í stað Hrannar Greipsdóttur,  Radisson SAS og Stefáns Eyjólfssonar, Íslandsferðum. Erindi frá aðalfundinum munu verða aðgengileg á heimasíðu SAF í dag. Á meðfylgjandi mynd má sjá forsíðu nýrrar heimasíðu SAF - sem eins og áður er á slóðinni www.saf.is
Lesa meira

Skýrsla Hagfræðistofnunar um áhrif gengis á ferðaþjónustu

Í ljósi mikillar umræðu um gengismál og áhrif gengis á ferðaþjónustuna fól Sturla Böðvarsson samgönguráðherra Ferðamálastofu að láta meta stöðu greinarinnar. Í framhaldinu óskaði Magnús Oddsson ferðamálastjóri eftir að Hagfræðistofnun kannaði áhrif raungengis á ferðaþjónustu hér á landi, almennt og á einstaka þætti hennar. Nú liggur skýrsla Hagfræðistofnunar fyrir. Er hún viðamikil og víða komið við. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra kynnti skýrsluna á aðalfundi SAF fyrr í dag. Hér að neðan er útdráttur hvað varðar nokkrar niðurstöður. Jafnframt eru tenglar í sjálfa skýrsluna og  ræðu  ráðherra. Áhrif breytinga á raungengi á ferðamannastraumÍ skýrslunni er sjónum einkum beint að þeim áhrifum sem breytingar á raungengi hafa á ferðamannastraum til og frá landinu. Hátt raungengi getur dregið úr ásókn útlendinga til landsins, haft áhrif á eyðslu þeirra og viðveru, en jafnframt dregið úr áhuga Íslendinga á að ferðast um eigið land. Breytingar á gengi hafa einnig áhrif á afkomu þeirra fyrirtækja sem hafa tekjur og kostnað í erlendri mynt. Loks hafa breytingar á nafngengi einnig áhrif á almennt verðlag og kauplag í landinu, þótt nokkurn tíma taki fyrir þau áhrif að skila sér að fullu. Skýrir aðeins lítinn hlutaTil að kanna hvernig breytingar á raungegni koma niður á komu ferðamanna til landsins var hér notað líkan þar sem breytingar á fjölda ferðamanna voru látnar ráðast af breytingum á raungengi, olíuverði og landsframleiðslu í heimalandi útlendinganna. Niðurstöður gefa til kynna að þessar þrjár breytur ? breytingar í raungengi, olíuverði og landsframleiðslu viðkomandi ferðamanna ? skýri einungis lítinn hluta af þeim breytingum sem orðið hafa á komum erlendra ferðamanna á tímabilinu 1982-2004. Skýringarhlutfallið er 20%, en það þýðir að fjórir fimmtu hlutar af breytileika í fjölgun ferðamanna eru óskýrðir. Í skýrslunni eru nefndir sem áhrifavaldar hvað varðar hin óskýrðu 80% áhrif á fjölda erlendra gesta: almenn landkynning, markaðsvinna, aukið framboð af ódýrum flugferðum og meira gistirými. Í ljós kom að breyting á raungengi á viðkomandi ári hafði tölfræðilega ómarktæk áhrif á breytingar á fjölda ferðamanna. Aftur á móti reyndist raungengi krónunnar árið á undan hafa marktæk áhrif, sem og breyting á olíuverði og breyting á landsframleiðslu þess lands sem ferðamennirnir komu frá. Þetta kemur nokkuð á óvart því að komið hefur fram ákveða flestir útlendingar ferðir sínar hingað með tiltölulega stuttum fyrirvara. Tölfræðilegar athuganir gefa til kynna hækkun raungengis krónunnar ýti undir ferðalög Íslendinga til útlanda. Þá gefa tölfræðilíkön til kynna að hátt raungengi ýti undir eyðslu ferðamanna á Íslandi, mældri í erlendum gjaldeyri. Gengislækkun hefði áhrif á kostnaðGera má ráð fyrir að um 45% af tekjum fyrirtækja í ferðaþjónustu á Íslandi verði til í erlendri mynt, en einungis 25% kostnaðar. Misvægið nemur því um 20% af tekjum. Skýrsluhöfundar benda á í þessu sambandi að sumir ferðaþjónustuaðilar segist ekki hafa mikinn annan erlendan kostnað en gjöld vegna lántöku. Á undanförnum árum hefur víða í ferðaþjónustu verið ráðist í töluverðar fjárfestingar og margar þeirra eru fjármagnaðar að hluta eða öllu leyti með lántöku í erlendri mynt. Fjármagnskostnaður vegna þess mun því aukast ef gengi íslensku krónunnar lækkar. Í þessu sambandi er bent á að vegna þess hve Ísland er opið hagkerfi hafa breytingar á gengi krónunnar áhrif á almennt verðlag í landinu, en nokkur tími getur liðið þar til þau áhrif koma að fullu fram. Þess vegna mun gengislækkun hafa áhrif á öll fyrirtæki í ferðaþjónustu sem öðrum atvinnugreinum, þar sem lækkunin hefur áhrif á verð á almennri vöru og þjónustu og seinna meir einnig kauplag. Breytilegt eftir fyrirtækjumHvað varðar tekjur og gjöld í erlendum myntum er hlutfallið mjög breytilegt eftir fyrirtækjum og segir í skýrslunni að sérstök ástæða sé til að staldra við þá stöðu sem innlendar ferðaskrifstofur og flugfélög eru í. Um 90% af tekjum innlendra ferðaskrifstofa verður til við sölu á ferðum og þjónustu til erlendra aðila sem greiða oftast fyrir í evrum. Á móti kemur að einungis um þriðjungur kostnaðar þessara aðila er í erlendum gjaldeyri. Um tveir þriðju hlutar tekna íslenskra flugfélaga verður til í erlendri mynt en 35-45% af kostnaðinum. Hjá hótelum og minni þjónustuaðilum er mun betra samræmi á milli þess hluta tekna og kostnaðar sem er í erlendum gjaldmiðli, þótt vitaskuld megi ætíð finna einstaka fyrirtæki þar sem misvægið er meira. Ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni eru flest í hópi smærri fyrirtækja í þessari atvinnugrein og því er trúlegt að þau séu yfirleitt þokkalega vel varin fyrir gengisáhættu. Viðbrögð ferðaþjónustufyrirtækjaSmærri fyrirtæki virðast í auknum mæli hafa reynt að varpa gengisáhættu sinni yfir á fyrirtæki sem eru nær neytendum í sölukeðjunni. Lítil ferðaþjónustufyrirtæki hafa selt þjónustu í krónum til innlendra ferðaskrifstofa sem síðan hafa selt hana áfram í erlendum gjaldmiðli til erlendra ferðaskrifstofa eða beint til ferðamanna. Þá hafa minni fyrirtæki einnig reynt að færa verðlagningu sína úr erlendum gjaldmiðli í krónur. Slík verðstefna getur vissulega fælt viðskiptavini frá en ef breytingar á nafngengi eru miklar getur hún þó borgað sig. Sum fyrirtæki virðast einnig hafa snúið sér í auknum mæli að innlenda markaðnum. Það getur reynst varhugavert vegna þess að þá er hætta á að erlend viðskiptasambönd tapist. Þegar gengi krónunnar veikist aftur getur reynst tvíbent að hafa snúið baki við erlenda markaðnum. Fall krónunnar ekki til hagsbóta fyrir ferðaþjónustunaFerðaþjónusta á Íslandi myndi ekki njóta mikils góðs af því að krónan félli og verðlag hækkaði hér að sama skapi, segir í lokaniðurstöðum Hagfræðistofnunar í umræddri skýrslu. Skoða skýrsluna í heild - Áhrif raungengis á ferðaþjónustu (PDF) Ræða Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra á aðalfundi SAF 6. apríl 2006
Lesa meira

Fyrstu ferðamennirnir á vegum Fjord Fishing

Nýtt útgerðarmynstur leit dagsins ljós á Tálknafirði fyrr í vikunni. Það byggir á því að skipstjórarnir horfa á þýska ferðamenn veiða fyrir sig kvótann á sjóstöng og borga ferðamennirnir meira að segja fyrir það, eins og komist var að orði í frétt á Vísi. Alls hafa um 900 Þjóðverjar boðað komu sína til Súðavíkur og Tálknafjarðar í sumar í þessum tilgangi á vegum Fjord Fishing en að fyrirtækinu standa sveitarfélögin Tálknafjörður, Vesturbyggð, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur, og fyrirtækin Angelreisen og Iceland Pro Travel. Ferðamennirnir róa til fiskjar á nokkrum hraðfiskibátum og veiða af kvótum þeirra, en eigendur bátanna njóta afrakstursins. Má hver veiðimaður taka tuttugu kíló af fiski með sér heim til Þýskalands. Unnið verður að því á næstu fimm árum að byggja upp þjónustueiningar í fleiri sveitarfélögum á svæðinu. Myndin er tekin við höfnina á Tálknafirði og er fengin á vef sveitarfélagsins.
Lesa meira

Radisson SAS 1919 Hótel meðal bestu viðskiptahótela Evrópu

Viðskiptatímaritið CNBC European Business Magazine birti nýverið lista yfir 20 bestu viðskiptahótel Evrópu. Í þeim hópi er Radisson SAS 1919 Hótel, sem eins og kunnugt er til húsa í gamla Eimskipafélagshúsinu við Pósthússtræti í Reykjavík. Árangur hótelsins er afar áhugaverður, ekki síst í ljósi þess að það hefur einungis verið starfrækt í tæpt ár, var opnað í júní í fyrra. Það hefur því sýnilega þegar náð að skapa sér orðspor á meðal þeirra sem ferðast í viðskiptaerindum. Þá má einnig geta þess að hótelinu hefur verið boðin þátttaka í alþjóðlegu samstarfi lúxushótela í ferðaþjónustu, Virtuoso Hotel & Resort, en hlutverk samtakanna er að upplýsa ferðaskipuleggjendur um bestu hótelin sem bjóðast. Er 1919 fyrsta hótelið innan Radisson SAS keðjunnar sem boðin er aðild. Radisson SAS 1919 Hótel er fjögurra stjörnu hótel og hefur frá upphafi tekið þátt í því flokkunarkerfi sem Ferðamálastofa hefur umsjón með. Umfjöllun CNBC European Business Magazine
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 5,5%

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í febrúar síðastliðnum. Gistinætur voru þá 56.000 talsins en voru 53.000 í sama mánuði árið 2005, sem er 5,5% aukning. Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 3.300 í 5.600 milli ára (68%).  Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 200, úr 1.000 í 1.200 (21%).   Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 1,5%, en gistináttafjöldinn fór úr 41.200 í 41.800.  Aukningin á Suðurlandi var sú sama, 1,5% en þar fóru gistinæturnar úr 4.500 í 4.600 milli ára.  Norðurland var eina landsvæðið þar sem samdráttur átti sér stað, en gistinóttum fækkaði þar um 6,4%, úr 3.100 í 2.900. Fjölgun gistinátta á hótelum í febrúar árið 2006 var bæði vegna Íslendinga (13,6%) og útlendinga (2%).  Fyrstu tvo mánuði ársins nemur fjölgun gistinátta frá fyrra ári 8,5%, en gistináttafjöldinn fór úr 89.000 í 97.000 milli ára.  Fjölgun gistinátta átti sér stað á öllum landsvæðum nema Suðurlandi. Hagstofan vekur athygli á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.  Tölur fyrir 2005 og 2006 eru bráðabirgðatölur.
Lesa meira

Fjölgun farþega 3,5% á fyrsta ársfjórðungi

Tæplega 125 þúsund farþegar fóru um Keflavíkurflugvöll í marsmánuði síðastliðnum, samkvæmt tölum frá flugvellinum. Frá áramótum, það er á fyrsta ársfjórðungi, nemur fjölgun farþega 3,5% á milli ára. Að "transit-farþegum" slepptum er fjölgunin um 8,3%. Farþegar á leið frá landinu voru 50.700 í mars síðastliðnum, fjölgaði um 1,5% á milli ára. Á leið til landsins voru 53.600 farþegar og fjölgaði þeim um 1% miðað við mars í fyrra. Áfram- og skiptifarþegum fækkar hins vegar á milli ára. Frá áramótum hafa 267.700 farþegar farið um völlinn á leið til og frá landinu sem er sem fyrr segir 8,3% fjölgun á milli ára. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu. Mars.06. YTD Mars.05. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 50.728 134.868 49.988 125.282 1,48% 7,65% Hingað: 53.592 132.872 53.071 122.018 0,98% 8,90% Áfram: 1.028 12.331 1.645 5.806 -37,51% 112,38% Skipti. 15.668 30.064 20.230 46.582 -22,55% -35,46% 121.016 310.135 124.934 299.688 -3,14% 3,49%  
Lesa meira

Ferðamálastofa með hlutfallslega lágan rekstrarkostnað við markaðssetningu

Ferðamálaráð Evrópu (ETC) hefur kannað meðal aðildarríkja sinna ýmislegt sem varðar kostnað við opinbera markaðssetningu. Nú hefur ETC tekið þessar tölur saman og samkvæmt þeim er Ferðamálastofa hlutfallsega með einn lægsta kostnað við markaðsvinnu sína. Til að fá samanburðarhæfar tölur var óskað eftir að ákveðnar og samræmdar upplýsingar væru gefnar varðandi opinbert fjármagn til almennrar landkynningar og spurt um kostnaðarliði þeim tengda, svo sem laun, húsnæðiskostnað o.fl. Aðeins Kýpur og Lithaén eru með lægra hlutfall en þetta má sjá nánar á myndinni hér að neðan. ?Á það hefur eðlilega verið lögð áhersla að nýta fjármagnið sem mest til markaðsverkefna og við erum með einungis þrjár skrifstofur á erlendum mörkuðum, þegar sum lönd eru með yfir 30 skrifstofur. Það er aðeins Búlgaría sem er með færri útstöðvar en við af þessum löndum?, segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. Magnús bendir einnig á að fjöldi skrifstofa og stöðugildi séu auðvitað ekki einu skýringarnar heldur hefur einnig að af hálfu opinberra aðila verið veitt auknum fjármunum í markaðsmál og þegar það fjármagn eykst án aukins reksturs þá eðlilega lækkar hlutfall rekstursins. ?Sem dæmi um þetta má nefna að á undanförnum árum hefur verið stofnað til verkefnisins Iceland Naturally í N.-Ameríku og Evrópu, til þeirra varið árlega af opinberra hálfu nær 100 milljónum og þessi verkefni einfaldlega vistuð á núverandi skrifstofum okkar,? segir Magnús.  
Lesa meira

Ísland kynnt í Osló sem ráðstefnuland

Síðastliðinn fimmtudag stóð Ráðstefnuskrifstofa Íslands, í samvinnu við Ferðamálastofu, Icelandair og Sendiráð Íslands í Osló, fyrir Íslandskynningu í sendiráðsbústaðnum í borginni. Kynningin var vel heppnuð en megintilgangur hennar var að kynna Ísland sem vænlegan áfangastað fyrir ráðstefnur og hvataferðir. Sambærilegar kynningar hafa á síðustu vikum og mánuðum verið haldnar í London, Kaupmannahöfn, Helsinki og Stokkhólmi. Auk Ráðstefnuskrifstofunnar, Ferðamálastofu og Icelandair tóku nokkur aðildarfyrirtæki Ráðstefnuskrifstofunnar þátt í kynningunni í Osló. Þetta voru Höfuðborgarstofa, Bláa Lónið, Highlanders, Practical, Iceland Incoming, Iceland Travel, Icelandair Hotels, Radisson SAS og Islandsfundir. Lisbeth Jensen, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Kaupmannahöfn, stjórnaði kynningunni sem hófst með ávarpi Stefáns Skjaldarsonar sendiherra. Þá voru Dóra Magnúsdóttir og María Reynisdóttir með kynningu á Reykjavíkurborg og tilvonandi ráðstefnu- og tónlistarhúsi. Anna R. Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri Ráðstefnuskrifstofunnar, kynnti að því loknu Ísland sem áfangastað fyrir ráðstefnur og hvataferðir. Jan Fredrik  sölustjóri Icelandair í Osló kynnti þjónustu fyrirtækisins og einnig var kynning á öðrum fyrirtækjum sem tóku þátt. Að lokum var íslenskur veislumatur í boði fyrir viðstadda, en maturinn var framreiddur af veitingamönnum frá Sjávarkjallaranum. Vaxandi markaðssetning á Íslandi sem ráðstefnu- og hvataferðalandÁrsæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, segir kynninguna hafa tekist vel í alla staði. “Kynningarnar í sendiráðunum undanfarna mánuði marka upphafið að vaxandi markaðssetningu á Íslandi sem ráðstefnu- og hvataferðalandi með tilkomu ráðstefnu og tónlistarhússins. Ferðamálastofa vinnur markvisst á öllum mörkuðum að þessari markaðssetningu, ýmist frá skrifstofum Ferðamálastofu erlendis, eða í samstarfi við aðra, eins og Höfuðborgarstofu, Ráðstefnuskrifstofu Íslands og sendiráðin erlendis,” segir Ársæll. Skoða myndir frá kynningunni í Osló
Lesa meira