Fara í efni

Verkefnið Sjávarþorpið Suðureyri kynnt

Suðureyri
Suðureyri

Kynningarfundur um verkefnið Sjávarþorpið Suðureyri verður haldinn í kvöld. Margir aðilar koma að verkefninu og byggir það á samstarfi þeirra um að byggja upp sameiginlega ferðaþjónustu, segir í frétt í Bæjarins besta.

Markmiðið er að bjóða ferðamönum að upplifa sjávarþorpið Suðureyri eins og það er, með þátttöku í daglegu lífi íbúanna og fræðslu um lifnaðarhætti og menningu íbúa í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Verkefnið er nú að stórum hluta komið á framkvæmdastig en fyrirtækið Hvíldarklettur ehf. fékk viðurkenningu frá nýsköpunar- og vöruþróunarsjóð Samtaka ferðaþjónustunnar sl. haust fyrir undirbúning verkefnavinnunnar.

Á fundinum mun Sævar Kristinsson frá ráðgjafafyrirtækinu Netspor kynna hvernig klasaverkefni eru að virka víðsvegar í heiminum. Elías Guðmundsson kynnir stöðu verkefnisins Sjávarþorpið Suðureyri og segir frá væntanlegri markaðsáætlun verkefnisins. Rúnar Óli Karlsson ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar kynnir þróun fjölda skemmtiferðaskipa og hvernig sú þróun getur stutt við verkefnið, og Arna Lára Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða kynnir stuðningskerfi atvinnulífsins. Kynningarfundurinn verður í kaffisal Fiskvinnslunnar Íslandssögu og hefst stundvíslega kl. 20:00 og eru áhugasamir uppbyggingarsinnar Vestfjarða hvattir til að mæta.