Fréttir

Fjölvirkjanám í ferðaþjónustu

Í nóvember hefst ný námskeiðslota í svokölluðu fjölvirkjanámi. Að þessu sinni verður áherslan á ferðaþjónustu. Frá þessu er greint á vef Samtaka ferðaþjónustunnar. Hugmyndafræði fjölvirkjanámsins hefur vakið athygli víða og nú á vordögum þegar SAF, ásamt Starfsgreinasambandinu og öllum Símenntunarmiðstöðvum á Íslandi, komu saman til að skoða meira framboð í fræðslustarfi í ferðaþjónustu var ákveðið að þróa fjölvirkjanámið fyrir ferðaþjónustuna. SAF og Símenntunarmiðstöðvarnar hlutu styrk frá Starfsmenntaráði  til þróunar námsskrár og markaðssetningar námsins. Nú hefur Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur gefið út tvær nýjar námskrár, fjallar önnur um fjölvirkja og hin um verslunarfagnám. Námið er ætlað lykilstarfsmönnum í iðnaðar-, framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum, 20 ára eða eldri, sem hafa stutta formlega skólagöngu að baki. Náminu er ætlað að auka persónulega og faglega hæfni þessara starfsmanna. Fjölvirkjanám í ferðaþjónustu verður prufukeyrt á tveimur stöðum til að byrja með hjá SímEy (Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar) og hjá Fræðsluneti Austurlands á Egilsstöðum. Menntamálaráðuneytið hefur samþykkt að meta megi fjölvirkjanámið til styttingar náms í framhaldsskóla til allt að 13 eininga.  Nánari upplýsingar má finna vef SAF, vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og hjá ofangreindum símenntunarmiðstöðvum.
Lesa meira

Ferðamálasamtök Íslands boða til aðalfundar á Ísafirði

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands verður haldinn á Hótel Ísafirði föstudaginn 24. og laugardaginn 25. nóvember 2006. Að samtökunum standa átta landshlutasamtök og að þeim eiga aðild ferðaþjónustuaðilar og sveitarfélög á viðkomandi svæðum. Formaður samtakanna er Pétur Rafnsson. Síðasti aðlfundur Ferðamálasamtaka Íslands var haldinn í Varmahlíð fyrir ári síðan og var hann að venju vel sóttur. Dagskrá fundarins nú verður auglýst síðar hér á vefnum og í fjölmiðlum. Fulltrúar eru beðnir að skrá sig tímanlega á fundinn í síma 898-6635. Bókun herbergja er á Hótel Ísafirði og einfaldast er að ganga frá því á heimasíðu hótelsins. www.hotelisafjordur.is
Lesa meira

Ítalskur vefur bætist við

Nú hefur bæst við ítölsk útgáfa af landkynningarvef Ferðamálstofu www.visiticeland.com. Þá er hollenskur vefur einnig í vinnslu og má reikna með að hann verði opnaður innan tíðar. Eftir að ítalska útgáfa bættist við er landkynningarvefurinn orðinn á 9 tungumálum, þ.e. ensku, dönsku, þýsku, frönsku, spænsku, ítölsku, sænsku og norsku auk íslensku. Eins og áður hefur komið fram er umferð um landkynningarvefi Ferðamálastofu sívaxandi enda alkunna að mikilvægi Internetsins í öllu markaðsstarfi er alltaf aðaukast, ekki síst í ferðaþjónustu. Skoða ítalska vefinn Mynd: Forsíða ítalska vefsins.  
Lesa meira

Icelandair valið markaðsfyrirtæki ársins 2006

Tilkynnt var við hátíðlega athöfn í dag að Icelandair hefði verið valið markaðsfyrirtæki ársins 2006 en frá þessu greinir á vef ÍMARK. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn í Apótekinu í dag en þetta er í 16. sinn sem verðlaunin eru veitt. Í ræðu sinni sagði Jóhannes Ingi Davíðsson, framkvæmdastjóri ÍMARK Icelandair hafa verið í mikilli þróun á undanförnum árum, bæði hvað varðar dreifingu og söluleiðir og einnig varðandi aukningu í samkeppni á öllum mörkuðum.  Félagið hafi því verið í stöðugri endurnýjun við að finna leiðir og tækifæri til að skera sig úr frá mörgum samkeppnisaðilum á stórum og flóknum mörkuðum.  
Lesa meira

Hólaskóli í heimsókn

Í dag komu nemendur frá ferðamáladeild Hólaskóla í heimsókn á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri. Tilgangurinn var að kynna sér starfsemi stofnunarinnar og uppbyggingu stjórnsýslu ferðamála hérlendis. Þessar heimsóknir Hólaskóla hafa verið árviss viðburður í nokkur ár. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu, segir þetta afar ánægjulegt og einnig mikilvægt fyrir Ferðamálastofu að fá þetta tækifæri til að kynna sig og starfsemi sína með beinum hætti fyrir því fólki sem stundar ferðamálanám hérlendis.
Lesa meira

Andleg áföll ef þjónusta stenst ekki væntingar

Ýmsir hafa orðið til að benda á frétt á vef Morgunblaðsins í gær. Þótt væntanlega sé hún að hluta sett fram í léttum dúr má samt segja að hún tengist umfjöllunarefni ferðamálaráðstefnunnar þann 16 nóvember næstkomandi. Á ráðstefnunni verða eins og fram hefur komið gæðamál í ferðaþjónustu tekin til umfjöllunar. Í fréttinni er einmitt fjallað er um gæði, eða e.t.v. fremur skort á gæðum í ferðaþjónustu. Greint er frá því að árlega fái þó nokkrir japanskir ferðamenn alvarleg taugaáföll vegna þeirrar þjónustu og þess viðhorfs sem þeir mæta í París höfuðborg Frakklands. Vitnað er í sálfræðing sem segir að viðkvæmir ferðamenn geti brotnað saman þegar glansmyndir þeirra af ákveðnu landi standast ekki í raunveruleikanum. Slík tilfelli verða æ algengari með auknum ferðamannastraumi og þeim hefur nú verið gefið nafnið "Parísar-einkennið?, að sögn sálfræðingsins. Japanskir ferðamenn munu vera sérstaklega viðkvæmir fyrir slíku enda eiga þeir mikilli kurteisi að venjast heima fyrir og verða því oft fyrir miklu áfalli þegar þeir kynnast ruddaskap annarra þjóða. Frétt mbl.is Myndin er tekin á ferðamálaráðstefnunni í fyrra.
Lesa meira

Nýir áfangastaðir hjá Iceand Express

Iceland Express hefur tilkynnt um fjölgun áfangastaða næsta sumar. Mun félagið bjóða flug frá 14 borgum erlendis til Keflavíkur, auk þess sem flogið verður á milli Kaupmannahafnar og Akureyrar. Nýju staðirnir eru París, Ósló, Bergen, Basel í Sviss, Billund í Danmörku og Eindhoven í Hollandi. Flogið verður einu sinni til þrisvar í viku á þessa nýju áfangastaði. Þá mun Iceland Express líkt og í fyrarsumar fljúga til og frá Alicante, Berlín, Frankfurt Hahn, Friedrichshafen, Gautaborg, Kaupmannahöfn, London og Stokkhólmi.
Lesa meira

Fjölgun erlendra ferðamanna

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 6,2% í ágúst síðastliðnum og 14,5% í september, miðað við sömu mánuði í fyrra, samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð. Fyrstu 9 mánuði ársins fóru rúmlega 325 þúsund erlendir ferðamenn um flugstöðina á sama tímabili í fyrra voru þeir rúmlega 303 þúsund talsins. Nemur aukningin 7,2%. Flestir ferðamenn koma frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Danmörku. Sé fyrst litið á ágúst þá er ágæt aukning frá öllum mörkuðum. Allir meginmarkaðir skila verulegri fjölgun. Sem fyrr segir er 14,5% aukning í september. Þar eru Norðurlöndin að skila fjölgun upp á 2.085 ferðamenn og Bretland 1.343. Er fróðlegt að líta nokkur ár aftur í tímann til að skoða þá miklu fjölgun sem orðið hefur á komum ferðamanna utan háannar. Þannig nemur fjölgunin frá september 2002, þ.e. á sl. 4 árum, 61,4% og munar um minna fyrir íslenska ferðaþjónustu. Frá áramótum, eða fyrstu níu mánuði ársins, nemur fjölgunin sem fyrr segir 7,2% á milli ára eða tæplega 22 þúsund ferðamönnum. Af þeirri aukningu eru tæplega 4 þúsund að koma frá Norðurlöndunum, 3.400 frá Bretlandi, 1.761 frá Bandaríkjunum og 1.620 frá löndum á meginlandi Evrópu sem talin eru sérstaklega. Í talningum Ferðamálastofu eru ferðamenn frá 15 löndum taldir sérstaklega en aðrir eru taldir sem ein heild. Í þessum hópi hefur orðið hlutfallslega mest fjölgun frá áramótum. Líkt og áður hefur komið fram hefur einmitt verið ákveðið að fjölga um áramót þeim löndum sem talin eru sérstaklega í Leifsstöð. Ársæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu segir ánægjulegt að sjá að aukningin í ár sé hlutfallslega meiri utan sumartíma en sumarmánuðina og sé það í samræmi við stefnumótun um að lengja ferðamannatímabilið. T.d komu fleiri ferðamenn í september í ár en í júní fyrir 2 árum. Frá áramótum til loka september   2005 2006 Mism. % Bandaríkin                     46.040 47.801 1.761 3,8% Bretland                       47.473 50.936 3.463 7,3% Danmörk                        29.466 31.030 1.564 5,3% Finnland                       6.757 7.128 371 5,5% Frakkland                      18.818 19.360 542 2,9% Holland                        9.659 9.633 -26 -0,3% Ítalía                         8.386 8.161 -225 -2,7% Japan                          4.420 4.846 426 9,6% Kanada                         2.874 3.334 460 16,0% Noregur                        20.027 22.053 2.026 10,1% Spánn                          5.958 7.348 1.390 23,3% Sviss                          6.250 5.571 -679 -10,9% Svíþjóð                        21.373 21.384 11 0,1% Þýskaland                      34.317 34.935 618 1,8% Önnur þjóðerni                 41.583 51.699 10.116 24,3% Samtals: 303.401 325.219 21.818 7,2% Heildarniðurstöður úr talningunum er að finan hér á vefnum undir liðnum Talnaefni
Lesa meira

Úttekt á deiliskipulagi á ferðamannastöðum

Eins og áður hefur komið fram er nú innan Ferðamálastofu unnið að fjölmörgum verkefnum í samræmi við samþykkta Ferðamálaáætlun fyrir árin 2006-2015. Á næstu vikum mun nokkrum þeirra ljúka. Eitt þeirra verkefna sem er lokið er úttekt á stöðu deiliskipulags á ferðamannastöðum. Þegar unnið er að framkvæmdum á ferðamannastöðum hvort sem um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila þá verður að liggja fyrir samþykkt deiliskipulag. Sé það ekki til þarf að vinna það áður en hægt er að ráðast í framkvæmdir eða úrbætur á svæðinu. Nú er í úttekt Ferðamálastofu hægt að sjá hver staðan er varðandi einstaka staði. Í framhaldi af úttektinni er nú unnið innan stofnunarinnar að forgangsröðum fyrir þá staði sem ekki hafa verið deiliskipulagðir. Skoða úttekt Ferðamálastofu á deiliskipulagi á ferðamannastöðum (PDF)
Lesa meira

Iceland Naturally kynnt í London

Iceland Naturally verkefnið fyrir Bretlandsmarkað hófst með formlegum hætti í London í byrjun vikunnar. Að Iceland Naturally í Evrópu standa Icelandair, Bláa lónið, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Iceland Spring water, auk íslenska ríkisins. Skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt stýrir verkefninu.   Athöfnin fór fram í glæsilegum salarkynnum á St.Martin?s Lane hotel að viðstöddum um 150 gestum úr ferðaþjónustu og viðskiptalífi í London. Stephen Brown, svæðisstjóri Icelandair á Bretlandi, bauð gesti velkomna, sem voru meðal annars Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Sverrir Haukur Gunnlaugsson sendiherra í London, sem báðir fluttu ávörp. Samgönguráðherra sagði meðal annars í ávarpinu: ,,Eftir þá reynslu sem fengist hefur vestan hafs var ákveðið að hefja sams konar starf í Evrópu í þeirri bjargföstu trú að samstarf þessara aðila sé mun öflugri leið til markaðssetningar og hún verði mun víðtækari. Þannig er ekki aðeins verið að fjalla um náttúru Íslands og allt sem hún hefur uppá að bjóða heldur líka framleiðslu og þjónustu og ekki síður menningu sem við erum líka rík af.? Einnig sagði hann mikilvægt að fá fleiri fyrirtæki til samstarfs undir merkjum Iceland Naturally svo slagkrafturinn verði enn meiri.? Líkt og fram hefur komið snýr Iceland Naturally í Evrópu að Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi.   Boðið var uppá léttar veitingar og létta tónlist sem leikin var af Gitar Islancio. Að sögn Daviðs Jóhannssonar forstöðumanns Ferðamálastofu í Frankfurt, sem hefur umsjón með framkvæmd Iceland Naturally, þótti viðburðurinn takast vel og er þetta annar af þremur viðburðum sem marka upphaf Iceland Naturally í Evrópu. Þriðji viðburðurinn í fer fram í París í byrjun Nóvember. Formaður Iceland Naturally er Ingimundur Sigurpálsson.   Meðfylgjandi myndir voru teknar á St.Martin?s Lane hotel sl. mánudag.   Fulltrúar aðstandenda Iceland Naturally verkefnisins við glæsilegt íslistaverk sem gert var sérstaklega fyrir þetta tilefni.   Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flytur ávarp sitt. Edda Sólveig Gísladóttir, markaðsstjóri Bláa lónsins og Stephen Brown, svæðisstjóri Icelandair. Rob Bates, sem sér um kynningarmál fyrir Icelandair UK, ásamt starfsmönnum frá Discover the World ferðaskrifstofunni. Séð yfir salinn.
Lesa meira