Fréttir

Framkvæmdastjórar ráðnir til Selaseturs og Grettistaks

Líkt og annars staðar er undirbúningur fyrir sumarið í fullum gangi hjá ferðaþjónustuaðilum í Húnaþingi vestra. Meðal annars hafa verið ráðnir framkvæmdastjórar til að stýra tveimur verkefnum sem eru í hraðri uppbyggingu, Selasetri Íslands og Grettistaki. Þetta kemur fram í frétt á vefnum www.northwest.is Í gamla VSP-húsinu á Hvammstanga er verið að innrétta sýningaraðstöðu og skrifstofu forstöðukonu Selaseturs Íslands, sem hefur störf nú um mánaðamótin. Í starfið var ráðin Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir. Hún hefur B.Sc próf frá Raunvísindadeild Háskóla Íslands og fjallaði lokaverkefnið hennar um menningarminjar og ferðaþjónustu á Vatnsnesi. Stefnt er að því að opna sýningu Selasetursins þann 25. júní í sumar. Einnig er búið að ráða framkvæmdastjóra Grettistaks og Grettisbóls. Hann heitir Jón  Óskar Pétursson og er að ljúka námi sínu við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Mun hann hefja störfum með vorinu. Grettisverkefnið er umfangsmikið, en næsti áfangi er opnun leikvangs á Laugarbakka, í anda Grettis sögu sterka, sem og gestamóttöku. Hönnuður Grettistaks og Grettisbóls er Jón Hámundur Marínósson. Eftir hann liggur fyrir hönnunarskýrsla, og verður farið eftir henni við uppbyggingu svæðisins. Á vegum Ferðamálafélags Vestur-Húnavatnssýslu er verið að undirbúa endurútgáfu svæðisbæklings fyrir Húnavatnssýslurnar, í samstarfi við ferðamálafulltrúa Austur-Húnavatnssýslu. Undanfarin ár var sameiginlegur bæklingur í umferð, sem mæltist mjög vel fyrir. Gengið er út frá því að nýi bæklingurinn verði tilbúinn til dreifingar í maí nk. Síðast en ekki síst er kraftur í ferðaþjónustuaðilum héraðsins. Náttúruskoðunar- og skemmtibáturinn Áki mun hefja siglingar með sumrinu á sínu öðru starfsári, þá í tengslum við væntanlegt Selasetur Íslands. Þá réðust eigendur Gauksmýrar í byggingarframkvæmdir á staðnum sl. haust. Gistirýmið eykst um 18 herbergi með baði og verður viðbótin opnuð 1. júní. Mynd: Frá Grettishátíð sem haldin var á vegum Grettistaks sl. sumar.  
Lesa meira

Skipting framlaga árið 2006 til landshluta- og landamæraupplýsingamiðstöðva

Skipting framlaga til landshluta- og landamæramiðstöðva fyrir árið 2006 liggur nú fyrir. Framlögin koma að hluta af fjárlögum af fjárlagalið sem fellur undir Ferðamálastofu og að hluta frá samgönguráðuneytinu. Styrkir þessir eru til rekstrar landshlutamiðstöðva sem ætlað er til að styrkja stoðir miðstöðvanna til þróunar faglegra vinnubragða og menntunar starfsfólks. Í listanum hér að neðan kemur fram hvernig framlögunum verður skipt á milli landshluta- og landamærastöðva. Greitt er eftir undirritun samnings með skilyrðum um meðal annars gæði, fagleg atriði og opnunartíma og að fengnum þeim gögnum sem krafist er af Ferðamálastofu í samningnum, þ.e. ársreikningi ársins 2005 og rekstraráætlun fyrir árið 2006: Upplýsingamiðstöðin í Reykjanesbær 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Reykjavík  4.0 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Borgarnes 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Ísafirði 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð 2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Akureyri 3.0 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Egilsstöðum  2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Seyðisfirði  1.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin á Höfn 1.0 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Hveragerði  2.5 millj. kr. Upplýsingamiðstöðin í Flugstöð Leifs Eiríks. 2.5 millj. kr. Mynd: Upplýsingamiðstöðin í Varmahlíð.
Lesa meira

Námstefnan "Ferðaþjónusta fyrir alla"

24. febrúar næstkomandi standa samgönguráðuneytið, Samtök ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofa og Öryrkjabandalagið fyrir námstefnu sem ber yfirskriftina "Ferðaþjónusta fyrir alla".  Námstefnan verður haldin á Hótel Sögu og stefndur frá kl. 13:00-17:00. Um er að ræða verkefni sem að Nordiska Handikappspolitiska Rådet hefur stýrt fyrir þá sem starfa í greinni og einnig þá sem að bera ábyrgð á ferðamálum innan stjórnsýslunnar.  Markmið ráðsins er að hugtakið verði að mikilvægum þætti innan ferðaþjónustu og atvinnulífs bæði á norrænum vettvangi og innan hvers lands. "Ferðaþjónusta fyrir alla" snýst um að allir, óháð hvaða fötlun þeir búa við, geti ferðast þangað sem þeir óska. "Ferðaþjónusta fyrir alla" á því við allt sem snertir ferðamennsku, allt frá ferðum og flutningum, heimsóknum á áhugaverða staði, að deila upplifun, mat og húsnæði auk upplýsinga á hentugu formi. Markmiðið er að hvetja þá er starfa í og við ferðaþjónustuna til að líta á aðgengi sem eðlilegt gæðaviðmið. Jafnframt er vonast til þess að þeir sem starfa að ferðamálum, hið opinbera og samtök fatlaðra, fái tækifæri til að skiptast á skoðunum. Þá er einnig vonast til þess að ferðaþjónustan sjái hag sinn í því að hafa aðgengi sem hluta af markaðssetningu og upplýsingagjöf um norræna staði og draga þannig til sín fleiri viðskiptavini utan Norðurlanda auk þess sem allir norrænir ferðamenn, án mismununar vegna fötlunar, geti ferðast að vild innan Norðurlandanna. Meðal ræðumanna verður þýskur hagfræðingur, Dr. Peter Neumann. Dr. Neumann hefur á vegum þýskra yfirvalda gert úttekt á efnahagslegri þýðingu þess að allir hafi jafna möguleika til ferðalaga. Þess utan verður fjallað um ferðaþjónustu fyrir alla frá sjónarmiði Nordiska Handikappspolitiska Rådet auk þess sem nokkrir íslenskir ræðumenn, bæði ferðamenn og bjóðendur þjónustu, segja frá. Ekki þarf að tilkynna þátttöku. Smellið hér til að skoða dagskrá námstefnunnar.  
Lesa meira

40 ára afmælisupplyfting á Hótel Höfn

Nú standa yfir miklar framkvæmdir á Hótel Höfn en þar er nú verið að setja utan á hótelið ál og keramik flísar. Einnig er verið að skipta um alla glugga í hótelinu og setja á það nýtt þak. Verkið var boðið út í haust og voru það þrír aðilar sem buðu í framkvæmdina, var það Kristján Ragnarsson sem fékk verkið, en hann er búinn að vera með annan fótinn hér á Höfn í ýmsum framkvæmdum, m.a. setti þakið á Nýheima. Til liðs við sig hefur Kristján fengið heimamenn til að vinna verkið að mestu leiti og er stórsmiðurinn Birgir Árnason þar í fararbroddi. Að sögn Óðins Eymundssonar eins eiganda Hótels Hafnar eru þessar framkvæmdir 40 ára afmælisupplyfting á Hótelinu en það á 40 ára afmæli á þessu ári. Óðinn segir að auk framkvæmda utan á hótelinu þá sé einnig verið að gera miklar endurbætur á herbergjum, skipta um innréttingar, leggja parket og setja upp þráðlausan internetaðgang fyrir gesti á Hótelinu. Á Hótel Höfn vinna um 26 manns yfir sumartímann en 14 yfir vetrarmánuðina, búast má við að fleiri munu starfa við hótelið yfir komandi vetrarmánuðum þar sem mikil aukning er á gistingu yfir það tímabil.Reiknað er með verkslokum í byrjun maí sem er tímanlegt áður en sumarvertíðin hefst hjá hótelinu segir Óðinn að lokum.  
Lesa meira

Framkvæmdir hafnar við Bláa Lónið

Framkvæmdir eru hafnar Bláa Lónið-Heilsulind en um er að ræða stækkun og endurhönnun á búnings- og baðaðstöðu lónsins þar sem gert er ráð fyrir að gestir fái aukið rými. Alls verður húsnæðið stækkað um 300 fermetra, eða tvöfaldað frá því sem nú er. Þá verða gerðar breytingar á núverandi veitingasal og nýr og glæsilegur 250 manna salur tekinn í notkun auk þess sem verslun og aðstaða starfsmanna verður stóraukin. Gestir Heilsulindarinnar munu ekki verða áþreifanlega varir við breytingarnar um sinn. Framkvæmdirnar fara nú að mestu fram bakvið núverandi húsnæði, en þó hefur innisundlauginni og Hellinum vinsæla verið lokað um stundarsakir. Áætluð verklok eru vorið 2007 og er áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar 800 milljónir.  
Lesa meira

Food and Fun hátíðin haldin í fimmta sinn

Matar- og skemmtihátíðin "Food and Fun " verður haldin á Íslandi í fimmta sinn dagana 22.-26. febrúar næstkomandi. Hátíðin er haldin í samstarfi Icelandair, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila og er á sama tíma og vetrarhátíð sem borgin stendur fyrir. Borgarstjórahjón Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, þau Dianne og Anthony A. Williams, verða heiðursgestir hátíðarinnar. Samstarfsaðili "Food and Fun" hátíðiarinnar er m.a. Iceland Naturally, sem er sameiginlegur kynningarvettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Bandaríkjunum og vistað hjá skrifstofu Ferðamálastofu í Bandaríkjunum. Fyrirtækin innan þess samstarfs eru Icelandair, Icelandic® USA, íslenskur landbúnaður, Iceland Seafood, Iceland Spring Natural Water, Flugstöð Leifs Eirikssonar, 66 Norður og Bláa lónið. Með hátíðinni er stefnt að því að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku á nýstárlegan hátt, svipað og íslensk tónlist hefur verið kynnt með Iceland Airwaves tónlistarhátíð Icelandair sem haldin er árlega. Undanfarin ár hefur "Food and Fun" hátíðin vakið mikla athygli erlendis og er nú gert ráð fyrir tugum erlendra fréttamanna til að fylgjast með hátíðinni. Heimskunnir matreiðslumeistarar á veitingahúsum borgarinnarVeitingahús borgarinnar og matreiðslumeistarar þeirra verða í aðalhlutverki þessa daga. Heimskunnir matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum og Evrópu munu koma sér fyrir í eldhúsum nokkurra bestu veitingahúsa höfuðborgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir. Veitingastaðirnir eru Apótek, Einar Ben, 3 Frakkar, Hótel Holt, Grillið, La Primavera, Perlan, Sjávarkjallarinn, Siggi Hall á Óðinsvéum og Vox. Alþjóðleg matreiðslukeppni í HafnarhúsinuMeðal atriði á hátíðinni er alþjóðleg matreiðslukeppni sem fram fer í Hafnarhúsinu á laugardaginn 25. febrúar og hefst kl. 13. Þar hafa meistarakokka hátíðarinnar þrjár klukkustundir til að útbúa ýmsa rétti  sem síðan eru lagðir í mat dómnefndar. Almenningi er frjálst að koma og fylgjast með og hefur keppnin einmit dregið að sér fjölda fólks undanfarin ár. Hátíðinni lýkur með Gala kvöldverði á Nordica hótelinu laugardagskvöldið 25. febrúar. Vefsíða Food and Fun  
Lesa meira

Icelandair með frumkvöðlasamkeppni

Icelandair hefur hleypt af stokkunum samkeppni frumkvöðla í ferðaþjónustu á Íslandi um nýja vöru eða viðburð sem höfðað getur til erlendra ferðamanna. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, segir félagið með þessu vera að hvetja alla þá sem búa yfir hugmyndaauðgi og framkvæmdagleði til dáða, að því er segir í fréttatilkynningu. Besta hugmyndin hlýtur nafnbótina Frumkvöðlaverðlaun Icelandair og verður sem slík tekin undir "væng" Icelandair og markaðssett erlendis á vefsíðum félagsins. Verðlaunin eru 500.000 krónur og 10 farseðlar á leiðum Icelandair til að kynna vöruna/viðburðinn erlendis. Miðað er við að hægt verði að markaðssetja viðkomandi verðlaunatillögu frá og með næsta hausti og ber að skila inn tillögum fyrir 1. mars á frumkvodull@icelandair.is.
Lesa meira

Exit kaupir Ferðskrifstofu Íslands

Í dag tilkynnti FL Group að félagið hafi selt Ferðaskrifstofu Íslands, sem er eigandi Úrvals Útsýnar og Plúsferða. Kaupandi er eignarhaldsfélagið Exit, sem á Sumarferðir. Umrædd fyrirtæki hafa sem kunnugt er einbeitt sér að sölu á utanlandsferðum til Íslendinga. Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að söluhagnaður FL Group sé áætlaður einn  miljarður króna, en endanlegt söluverð ráðist af endurskoðuðu uppgjöri ársins 2005. Velta Ferðaskrifstofu Íslands á síðasta ári var 2,4 milljarðar króna.
Lesa meira

Flestir vilja óbreytt fyrirkomulag á Vestnorden

Eins og flestir muna fór Vestnorden Travel Mart (VNTM),  fram í Kaupmannahöfn í september sl. Kaupstefnan var sú 20. í röðinni en hefur ávallt áður farið fram til skiptis á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Að þessu sinni sáu Grænlendingar um kaupstefnuna og kusu að bjóða til hennar í Kaupmannahöfn. Í haust verður hún í Reykjavik. Stjórn Vestnorden ákvað í kjölfarið að efna til skoðanakönnunar meðal seljenda, kaupenda og annarra ferðaþjónustuaðila sem eru boðnir á kaupstefnuna árlega. Niðurstöður liggja nú fyrir. Sendir voru spurningalistar til 663ja fyrirtækja og bárust svör frá 231 sem er um 35% svarhlutfall. Það verður að teljast viðunandi m.v. könnun af þessu tagi. Flest svör bárust frá sýnendum (seljendum) eða 128 svör, 72 frá kaupendum og 23 frá aðilum sem töldu sig vera hvoru tveggja. Óánægja með skipulagÞegar spurt er um ánægju með síðustu kaupstefnu, svara 77% að þeir séu ánægðir í heildina. Mest ánægja er meðal Grænlendinga en minnst meðal Íslendinga og Færeyinga. Einkum voru menn óánægðir með sýningaraðstöðuna sem var í 2 húsum. Þá er kvartað undan framkvæmd fundaskipulagsins (appointments) svo og misvísandi upplýsingum um möguleika til að vera með sýnilegt kynningarefni. September er besturSpurt er um þann mánuð sem helst ætti að hafa sýninguna í framtíðinni. Flestir vilja hafa hana í september eins og nú er eða 39%, þá maí 16% og 14% vilja október. Ekki er munur á afstöðu kaupenda eða seljenda að þessu leyti. Þá er ennfremur spurt um lengd ferðakaupstefnunnar og eru flestir á því að núverandi lengd sé hæfileg eða 89%. Margir kaupendur eru þó á því að það mætti lengja hana úr einum og hálfum degi í tvo til að ná fleiri fundum.   Kaupendur vilja upplifa áfangastaðinaÍ ljósi ákvörðunar Grænlendinga að bjóða til VNTM í Kaupmannahöfn var spurt um hvar fyrirtækin vildu hafa kaupstefnuna í framtíðinni og var boðið uppá ýmsa valkosti: Eins og nú milli landanna 3ja, til skiptis í Reykjavik og Kaupmannahöfn, til skiptis í Þórshöfn og Reykjavík, árlega í Kaupmannahöfn eða þrjár sjálfstæðar kaupstefnur. Flestir kjósa fyrsta kostinn þ.e. til skiptis í Reykjavik og Kaupmannahöfn, eða 42%. Óbreytt fyrirkomulag milli landanna 3ja vilja næstflestir eða 38% Nokkur munur er milli landa hvað menn vilja og einnig milli kaupenda og seljenda. Flestir Íslendingar vilja til skiptis milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar, næstflestir óbreytt fyrirkomulag milli landanna 3ja.  Yfirgnæfandi meirihluti Færeyinga vill óbreytt fyrirkomulag en flestir Grænlendingar vilja eingöngu Kaupmannahöfn. Flestir kaupendur vilja óbreytt fyrirkomulag milli 3ja landa, en flestir seljendur vilja halda VNTM til skiptis milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Heildarniðurstöður rannsóknarinnar verða kynntar stjórn Vestnorden á næstunni, en fulltrúar Íslands í stjórninni eru Steinn Lárusson frá Icelandair og Magnús Oddsson Ferðamálastjóri en hann er formaður stjórnarinnar. Mynd: Frá Vestnorden þegar kaupstefnan var síðast haldin í Reykjavík haustið 2004.  
Lesa meira

Metfjöldi erlendra ferðamanna árið 2005

-Tæplega 375 þúsund erlendir ferðamenn komu til landsins í fyrra   Erlendum ferðamönnum sem komu hingað til lands fjölgað um 14.000 á nýliðnu ári, eða sem nemur 3,9%. Á árinu 2004 voru þeir rúmlega 360.000 en fjölgaði í um 374.400 á árinu 2005. Á síðustu þremur árum hefur fjöldi ferðamanna aukist um 30%. Sé horft yfir lengra tímabil má meðal annars sjá að árleg fjölgun síðastliðin áratug er að meðaltali 11%. Mest aukning frá Bandaríkjunum og AsíuÁrsæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs segir að það sé athyglisvert að nærmarkaðirnir sem hafi verið í hvað mestum vexti undanfarin misseri séu nú að hægja á vexti en á móti vegi að fjærmarkaðir eins og Bandaríkin og Asía séu í meiri vexti en áður. Ennþá er ferðamönnum að fjölga yfir veturinn og sem dæmi má taka að fjöldi ferðamanna í október sl. hafi verið jafn og í júní fyrir 4 árum. Í talningum Ferðamálastofu í Leifsstöð er hægt að skoða skiptingu ferðamanna eftir þjóðernum. Bretar eru sem fyrr fjölmennastir þeirra sem hingað koma og voru 58.500 á árinu 2005. Bandaríkjamenn voru 54.600 og Þjóðverjar 37.400. Sé horft á skiptingu eftir markaðssvæðum eru Norðurlandabúar fjölmennastir, 94.000. Í talningum Ferðamálastofu eru íbúar 14 landa taldir sérstaklega en aðrir eru taldir saman. Verulega fjölgaði í þeim hópi í fyrra, m.a. frá Kína. Af einstökum löndum er langmest aukning frá Bandaríkjunum, 6.200 manns eða rúm 11%. Langflestir ferðamenn sem hingað koma fara um Keflavíkurflugvöll. Alls voru þeir 361.187í fyrra, samanborið við 348.533 árið 2004. Með Norrænu komu rúmlega 8.000 gestir á árinu 2005, sem er fjölgun um 2,8% og með öðrum skipum og öðrum millilandaflugvöllum en Keflavík er áætlað að 5.200 erlendir ferðamenn hafi komið. Alls gerir þetta 369.400 gesti sem fyrr segir. Þessu til viðbótar komu um 56.000 gestir með skemmtiskipum til landsins í fyrra. Heildarfjöldi ferðamanna 2004 og 2005 skiptist þá þannig:   2004 2005 Mism. % Leifsstöð 348533 361187 7619 2,19% Norræna 7859 8079 220 2,80% Aðrir 4000 5200 1200 30,0%   360392 374466 14074 3,9%  Í töflunni hér að neðan má sjá skiptingu ferðamanna sem fóru um Leifsstöð í fyrra eftir þjóðernum. Nánari skiptingu má finna hér á vefnum undir liðnum Tölfræði. Allt árið 2004 og 2005   2004 2005 Mism. % Bandaríkin                     48.366 54.631 6.265 13,0% Bretland                       59.856 58.560 -1.296 -2,2% Danmörk                        32.845 34.952 2.107 6,4% Finnland                       7.460 8.373 913 12,2% Frakkland                      21.482 20.516 -966 -4,5% Holland                        11.014 11.158 144 1,3% Ítalía                         9.470 8.972 -498 -5,3% Japan                          6.525 6.119 -406 -6,2% Kanada                         3.481 3.446 -35 -1,0% Noregur                        26.746 24.541 -2.205 -8,2% Spánn                          5.613 6.436 823 14,7% Sviss                          6.964 6.600 -364 -5,2% Svíþjóð                        27.045 26.602 -443 -1,6% Þýskaland                      38.539 37.387 -1.152 -3,0% Önnur þjóðerni                 43.127 52.894 9.767 22,6% Samtals: 348.533 361.187 12.654 3,6%
Lesa meira