Fréttir

Alþjóðleg ráðstefna um ímyndir norðursins

Reykjavíkur Akademían í samstarfi við Vetrarhátíð Reykjavíkurborgar efnir til alþjóðlegrar ráðstefnu um ímyndir norðursins. Ráðstefnan verður haldin í Reykjavík dagana 24-26 febrúar næstkomandi. Ráðstefnan fer fram í miðbæ Reykjavíkur í Iðnó og nærliggjandi byggingum. Á ráðstefnunni verður fjallað um norðrið sem menningarlega orðræðu með því að kanna hina ýmsu þætti sem hverfast um ímyndarsköpun, sjálfsmyndir, framsetningu norðursins, og sambandið þar á milli. Ráðstefnan er nátengt þverfaglegu rannsóknarverkefni Ísland og ímyndir norðursins sem fjölmargir innlendir og erlendir fræðimenn og stofnannir eiga aðild að. Nánari upplýsingar um ímyndir norðursins  
Lesa meira

Verkefnastyrkir NORA 2006

Norræna Atlantsnefndin (NORA) hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til samstarfsverkefna á milli Íslands og hinna NORA landanna, þ.e. Grænlands, Færeyja og Noregs. NORA er skammstöfun sem stendur fyrir Nordisk Atlantsamarbejde sem hefur verið þýtt sem Norræna Atlantsnefndin á íslensku. Nefndin heyrir undir Norrænu ráðherranefndina og telst þar vera hluti af norrænu samstarfi á sviði byggðamála og svæðasamvinnu. Starfssvæði NORA er Ísland, Færeyjar, Grænland og strandhéruð Noregs. Nora veitir árlega styrki til verkefna sem stuðla að auknu samstarfi og yfirfærslu þekkingar í atvinnulífi á milli landanna á eftirtöldum sviðum: Auðlindir sjávar Ferðamál Upplýsingatækni Annað samstarf-verkefni sem efla fámenn byggðarlög í löndunum. Fjárstyrkir verða helst veittir fyrirtækjum, einum eða í samstarfi við rannsóknar og þróunarstofnanir. Umsóknir skulu hafa borist í síðasta lagi 3. apríl næstkomandi. Skoða auglýsingu (PDF)  
Lesa meira

Verkefnið Sjávarþorpið Suðureyri kynnt

Kynningarfundur um verkefnið Sjávarþorpið Suðureyri verður haldinn í kvöld. Margir aðilar koma að verkefninu og byggir það á samstarfi þeirra um að byggja upp sameiginlega ferðaþjónustu, segir í frétt í Bæjarins besta. Markmiðið er að bjóða ferðamönum að upplifa sjávarþorpið Suðureyri eins og það er, með þátttöku í daglegu lífi íbúanna og fræðslu um lifnaðarhætti og menningu íbúa í litlu sjávarþorpi á Íslandi. Verkefnið er nú að stórum hluta komið á framkvæmdastig en fyrirtækið Hvíldarklettur ehf. fékk viðurkenningu frá nýsköpunar- og vöruþróunarsjóð Samtaka ferðaþjónustunnar sl. haust fyrir undirbúning verkefnavinnunnar. Á fundinum mun Sævar Kristinsson frá ráðgjafafyrirtækinu Netspor kynna hvernig klasaverkefni eru að virka víðsvegar í heiminum. Elías Guðmundsson kynnir stöðu verkefnisins Sjávarþorpið Suðureyri og segir frá væntanlegri markaðsáætlun verkefnisins. Rúnar Óli Karlsson ferðamálafulltrúi Ísafjarðarbæjar kynnir þróun fjölda skemmtiferðaskipa og hvernig sú þróun getur stutt við verkefnið, og Arna Lára Jónsdóttir verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða kynnir stuðningskerfi atvinnulífsins. Kynningarfundurinn verður í kaffisal Fiskvinnslunnar Íslandssögu og hefst stundvíslega kl. 20:00 og eru áhugasamir uppbyggingarsinnar Vestfjarða hvattir til að mæta.
Lesa meira

Ferðamálastofa hefur ráðið nýjan forstöðumann á meginlandi Evrópu

Davíð Jóhannsson hefur verið ráðinn sem nýr forstöðumaður skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt í Þýskalandi. Davíð er 41 árs gamall rekstrarhagfræðingur og lætur af störfum sem framkvæmdastjóri ITD Island Tours í Frankfurt. Starfssvið skrifstofu Ferðamálastofu í Frankfurt nær yfir meginland Evrópu auk þess að frá áramótum hefur skrifstofan yfirumsjón með markaðsverkefninu Iceland Naturally í Evrópu, en það verkefni nær einnig yfir Bretland. Davíð hefur störf um miðjan mars nk. Fráfarandi forstöðumaður er Haukur Birgisson sem verið hefur forstöðumaður skrifstofunnar síðastliðin. fimm ár. Haukur hefur starfað tæp 10 ár hjá Ferðamálaráði/Ferðamálastofu og lætur nú af störfum að eigin ósk. Haukur mun flytjast til Íslands og hefur ákveðið að reka eigið fyrirtæki í samstarfi við fjárfesta.
Lesa meira

Nýr forstöðumaður Markaðsstofu Vestfjarða

Stjórn Markaðsstofu Vestfjarða ákveðið að ráða Jón Pál Hreinsson, Ísafirði,  til að taka við starfi forstöðumanns Markaðsstofu Vestfjarða.  Jón Páll er með MSc gráðu í alþjóðaviðskiptum og starfaði síðast sem svæðisstjóri Eimskips fyrir Vestfirði.   Í fréttatilkynningu kemur fram að Jón Páll er með víðtæka starfsreynslu á sviði markaðsmála og þekkir vel til aðstæðna á Vestfjörðum.  Jón Páll hefur komið að ferða- og félagsmálum m.a. með setu í framkvæmdaráði Skíðavikunnar, stjórn HSV og er einn af aðalhvatamönnum Mýrarboltafélags Íslands.  Stjórn Markaðstofu lýsir ánægju sinni með ráðningu Jóns Páls og horfir bjartsýnum augum til öflugrar starfsemi Markaðsstofu Vestfjarða.   
Lesa meira

Heri Niclasen ferðamálastjóri Færeyja látinn

Ferðamálastjóri Færeyja Heri Niclasen lést í morgun eftir stutt en erfið veikindi. Heri hefur verið ferðamálastjóri Færeyinga í mörg ár og unnið í ferðaþjónustu í áratugi. Hann var mörgum kunnur hér á landi  vegna starfa sinna í greininni og ekki síst þar sem hann sótti nær allar Vestnorden ferðakaupstefnur frá upphafi og hefur setið lengi í stjórn Ferðamálaráðs Vestnorden. Heri bjó á Suðurey í Færeyjum og lést þar á sjúkrahúsinu. Hann lætur eftir sig eiginkonu og tvö uppkomin börn. Magnús Oddsson ferðamálastjóri hefur þekkt Hera í nær 20 ár. ?Heri var mjög þægilegur og traustur maður og við áttum mikið og gott samstarf. Við komum til með að sakna hans innan Vestnorræna samstarfsins og ekki síður sem vinar. Heri varð sextugur nú seinni hluta janúar og í samtali okkar þá varð honum tíðrætt um hve jákvæð samskipti hefðu alltaf verið á milli íslenskra ferðaþjónustuaðila og færeyskra og hve hann mæti þau mikils. Við vottum fjölskyldu hans okkar innilegstu samúð.?  
Lesa meira

Vel sóttur fundur hjá Cruise Iceland

Síðastliðinn föstudag stóðu  samtökin Cruise Iceland fyrir fundi um skemmtiferðaskip ? þróun og horfur í nútíð og framtíð. Fundurinn var vel sóttur og var fólk almennt ánægt með hvernig til tókst, að sögn Öldu Þrastardóttur, verkefnisstjóra hjá Ferðamálastofu, sem vann að skipulagningu fundarins fyrir Cruise Iceland. Ört vaxandi ferðamátiGestur fundarins og aðal ræðumaður var Christopher Hayman, ritstjóri og útgefandi tímaritsins Seatrade í Englandi. Christopher hefur víðtæka þekkingu á öllu því sem snertir þróun og uppbyggingu þessa ferðamáta og hefur hann undanfarin 20 ár stofnað til og stjórnað ráðstefnum um málefni skemmtiferðaskipa víða um heim.Fjallaði hann  um þróun þessa ferðamáta í Evrópu og spáði í framtíðina þar. Í erindi hans kom m.a. fram að um 13 milljónir manna hvaðanæva að úr heiminum ferðuðust með skemmtiferðaskipum árið 2005, langflestir frá Bandaríkjunum eða um 9 milljónir. Er þetta aukning frá árinu áður. Framtíðarspár fyrir greinina sýna að það eru vænlegir tímar framundan og er áætlað að árið 2010 verði talan komin í um 18 milljónir og árið 2015 verði skemmtiskipaferðamenn komnir upp í tæplega 24 milljónir. Tvöföldun á 5 árumÁstæðurnar fyrir svo örum vexti í farþegafjölda eru m.a. þær að ánægjustuðull farþega er fara í skemmtiferðasiglingu er mjög hár, áfangastaðirnir fjölbreyttir og þetta er þægilegur ferðamáti þar sem nánast allt er innifalið og allt vel þess virði. Karabíska svæðið er langstærsta markaðssvæðið þar á eftir kemur Miðjarðarhafssvæðið, svo Alaska, Mexíkó West (Riviera) og svo Evrópa / Skandinavía. Norður Evrópusvæðið hefur þó farið vaxandi með hverju ári. Sem dæmi má nefna að árið 2000 komu um 2,5 milljón manna með skemmtiferðaskipum á þetta svæði. Í fyrra árið 2005 voru farþegarnir rúmlega 5 milljónir. Skipakomur voru 2500 árið 2000 en rúmlega 5000 í fyrra. Þannig að bæði farþegafjöldi svo og skipakomur hafa tvöfaldast á þessum fimm árum. Ýmsir þættir  hafa áhrif á dreifingu á markaðina. T.d. hagnaðarmöguleikar, veðurfar og landfræðilega, skipastærð og samsetning ferðaiðnaðarins  á hverju svæði fyrir sig og fl. Afþreyingarþátturinn er einnig mjög mikilvægur. Árið 1996 var að meðaltali boðið upp á 3-5 ferðir frá hverri höfn. Í dag er þessi meðaltalstala komin upp í 10-15 ferðir frá stóru höfnunum á stærri mörkuðunum. Áhugaverð könnun kynntÁ fundinum kynnti einnig Anna Karlsdóttir niðurstöður könnunar sem Cruise Iceland lét gera á meðal skemmtiskipafarþega sem hingað komu s.l. sumar. Skemmtiskipaferðamennska er vaxandi þáttur innan ferðaþjónustunnar hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Samkvæmt þeim svarendum sem tóku þátt í könnuninni í sumar ber land og þjóð af sér góðan þokka og náttúran er okkar helsta aðdráttarafl. Könnunin var lögð fyrir farþegana á tímabilinu frá 14. júlí ? 9. ágúst og voru svarendur 1042 talsins aðallega Þjóðverjar og Bretar. Farþegar eru almennt mjög jákvæðir hvað varðar ferðalagið til Íslands og langflestir gefa Íslandi sem áfangastað hæstu einkunn. 78% svarenda eru að koma í fyrsta skiptið til Íslands og um 80% fannst mikilvægt að Ísland var í leiðaáætlun þegar kom að því að velja ferð. Þó fannst sumum sem viðkoma hér á landi væri helst til of stutt. 44% svarenda hefði viljað vera 3 dögum lengur, 32% 3 dögum lengur og 24% 1 degi lengur. Farþegarnir eru m.a. að fá upplýsingar um landið hjá skipafélögunum, úr bókum og á netinu. Langflestir gefa afþreyingu í landi hæstu einkunn en þeim finnst verðlag of hátt. Langflestir Þjóðverjar eða um 59% eyða sínum peningum í minjagripi á meðan einungis 13% Bretar eyðir í sama. Þegar spurt var hvað yrði efst á óskalistanum við endurkomu svöruðu flestir gönguferð (hiking) því næst komu skoðunarferðir hverskonar og svo upplifun á  náttúru og menningu. Náttúran er það sem ber hæst hjá ferðamönnunum og þegar spurt er hvað sé minnisstæðast úr ferðinni eru svörin flest tengd náttúrunni og upplifun á henni s.s. eins og landslag, náttúruundur, hraun, eldvirkni jarðhiti, Bláa Lónið, fossar og fl.  
Lesa meira

Breytingar á ferðaþjónustuhluta FL Group

Breytingar eru enn á döfinni á ferðaþjónustuhluta FL Group. Félög sem áður höfðu verið gerð að  sérstökum rekstrareiningum verða sameinuð undir merkjum Icelandair Group og félagið skráð í Kauphöll Íslands. Í október síðastliðnum var tilkynnt um miklar breytingar þar sem ferðaþjónustuhluta Fl Group var skipt upp í fjögur félög, þ.e. Icelandair Group, FL Travel Group, fraktflutninga og Sterling. Síðan þetta var hafa hafa nokkrar rekstrareiningar verið seldar, nú síðast bílaleigan Herts til Magnúsar Kristinssonar. Þá eru Kynnisferðir einnig í söluferli. Nú er boðað að félögin fjögur að Sterling undanskyldu verði sameinuð undir merkjum Icelandair Group og það skráð í Kauphöll Íslands. Icelandair Group mun því eftir þessar skipulagsbreytingar verða samstæða félaganna Icelandair, Icelandair Cargo, Loftleiða Icelandic, Icelandair Technical Services (ITS), Icelandair Ground Services (IGS), Bláfugls, Flugflutninga, Fjárvakurs, Flugfélags Íslands, Icelandair Hotels og Íslandsferða. FL Group hyggst áfram verða kjölfestueigandi í  Icelandair Group eftir skráningu í Kauphöllina. Stefnt er að því að útfærsla á söluferlinu og skráningu Icelandair Group liggi fyrir á vormánuðum.  
Lesa meira

Hagvöxtur á heimaslóð - 18 norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki í markaðsverkefni

Átján norðlensk ferðaþjónustufyrirtæki eru að hefja þátttöku í verkefni Útflutningsráðs, Hagvexti á heimaslóð. Verkefnið, sem stendur í tvo mánuði, er sniðið að þörfum aðila í ferðaþjónustu með sérstaka áherslu á hagnýtt gildi.   Markmiðið er að efla faglega hæfni í stefnumótun, vöruþróun, verðlagningu og markaðssetningu með áherslu á samstarf innan og milli svæða.  Útflutningsráð hefur þróað verkefnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Impru nýsköpunarmiðstöð, Landsmennt, Mími-símenntun, Ferðamálasetur Íslands og Byggðastofnun og að auki styður Landsbanki Íslands við verkefnið.   Fyrsta verkefnið var á Vesturlandi í fyrra og upp úr því spratt svæðisbundið samstarf ferðaþjónustuaðila í erlendri markaðssetningu undir kjörorðunum All Senses Awoken. Nú eru tvö verkefni að hefjast; á Norðurlandi og á Vestfjörðum.   Sérstakir samstarfsaðilar verkefnisins á Norðurlandi eru Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi og Ferðaþjónustuklasi Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Metþátttaka er meðal norðlenskra ferðaþjónustuaðila og komust færri að en vildu.     Verkefnið á Norðurlandi er byggt upp af fjórum tveggja daga vinnufundum þar sem farið er yfir nokkur megin viðfangsefnið með fyrirlestrum og verkefnavinnu auk þess sem aðilar fá verkaefni til úrlausnar milli funda og 10 tíma sérfræðiráðgjöf til eftirfylgni verkefninu. Áhersla er lögð á leita til hæfustu aðila til að stýra hverjum þætti verkefnisins. Farið er yfir stefnumótun og markmiðssetningu, vöruþróun og verðlagningu, ímyndarmótun og markaðsmál, markaðssetningu á netinu auk þess sem sérstök áhersla er lögð á tengslanet og svæðisbundna samvinnu.  Fyrsti vinnufundurinn fer fram í Hótel Varmahlíð 8. og 9. febrúar. Aðrir vinnufundir fara fram á Sveitahótelinu Þórisstöðum á Svalbarðsströnd, Hótel KEA/Hörpu á Akureyri og Hótel Reynihlíð við Mývatn.   Verkefnisstjóri Hagvaxtar á heimaslóð  Norðurlandi 2006 er Arnar Guðmundsson, Útflutningsráði Íslands.
Lesa meira

Áframhaldandi fjölgun erlendra ferðamanna í janúar

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 10% í janúar síðastliðnum miðað við janúar í fyrra. Þetta er niðurstaða talninga Ferðamálastofu á ferðamönnum sem fara um Leifsstöð. Í ár fóru 15.377 erlendir ferðamenn um flugstöðina í janúar en voru 14.014 í fyrra. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, segir ánægjulegt að sjá að helstu markaðssvæði eru að skila góðri aukningu. ?Við fáum áfram góða aukningu frá Bandaríkjunum og Asíu og ánægjulegt að sjá aukningu frá Bretlandi á ný í vetur. Frá Norðurlöndunum er samdráttur í heild en þó er aukning frá Danmörku og Finnlandi. Ennfremur aukning frá Þýskalandi og Frakklandi. Því má segja að árið hefjist vel þó of snemmt sé að spá fyrir um framhaldið,? segir Ársæll. Athyglisverðar upplýsingar um umfang í ferðaþjónustuÞegar talningar Ferðamálastofu í Leifsstöð er skoðaðar liggur fyrir að erlendum gestum sem hingað hafa komið sl. fimm mánuði, þ.e. september til janúar, hefur fjölgað um 10,1% miðað við sama tíma ári fyrr. Þá hafa gistináttatölur Hagstofunnar fyrir árið 2005 hvað varðar hótelgistingar sýnt hlutfallslega meiri aukningu á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum en á höfuðborgarsvæðinu. Heildaraukning á landinu  er 6% en Suðurnes, Vesturland og Vestfirðir eru með 21% aukningu og höfuðborgarsvæðið 7%. Magnús Oddsson ferðamálastjóri segir að þetta hljóti að teljast ánægjulegt þar sem lengi hafi verið rætt um það sem meginmarkmið í allri vöruþróun okkar og markaðsvinnu að ná  annars vegar hlutfallslega meiri aukningu utan háannar, þ.e. draga úr árstíðarsveiflunni, og hins vegar að draga úr ?landshlutasveiflunni?. ?Þegar mælt er á þessa tvo mælikvarða á undanförnum mánuðum þá er greinin þannig áfram að ná árangri hvað varðar þessi tvö atriði sem lengi hefur verið lögð mikil áhersla á í allri vinnu hennar. Þetta er langtímaverkefni og má minna á að það var loks árið 1999 sem sá árangur náðist að hingað komu fleiri gestir að vetri en háannarmánuðina þrjá að sumri. Árstíðarsveifla í komu erlendra gesta nálgast það að vera með því minnsta sem við þekkjum í okkar nágrannalöndum. Enn meiri jöfnun hennar er auðvitað lykilatriði í því að ferðaþjónusta verði enn frekari heilsársatvinnugrein en nú er, sem skapi atvinnu sem víðast um land allt árið. Hér hefur auðvitað orðið algjör bylting hvað þetta varðar á undanförnum 15 árum og tölur síðustu mánaða staðfesta að áfram er unnið að þessari jákvæðu þróun enda verkinu aldrei lokið?, segir Magnús. Hér að neðan má sjá niðurstöður úr talningum Ferðamálastofu í janúar. Heildarniðurstöður eru aðgengilegar á vefnum undir liðnum ?Talnaefni?   Jan.2005 Jan.2006 Mism. % Bandaríkin 2.445 2.891 446 18,24% Bretland 3.112 3.437 325 10,44% Danmörk 1.255 1.374 119 9,48% Finnland 153 221 68 44,44% Frakkland 577 650 73 12,65% Holland 376 392 16 4,26% Ítalía 229 160 -69 -30,13% Japan 592 794 202 34,12% Kanada 130 130 0 0,00% Noregur 1.139 967 -172 -15,10% Spánn 106 188 82 77,36% Sviss 318 118 -200 -62,89% Svíþjóð 1.090 837 -253 -23,21% Þýskaland 986 1.207 221 22,41% Önnur lönd 1.506 2.011 505 33,53% Samatals 14.014 15.377 1.363 9,73%
Lesa meira