Fréttir

Kynningarfundir um markaðsrannsóknir í Asíu hefjast 8. desember næstkomandi

Ferðamálastofa boðar til kynningarfunda um markaðsrannsóknir í Asíu. Fyrsti fundurinn verður um niðurstöður rannsókna í Kína og haldinn föstudaginn 8 desember kl 9:00 á Nordica Hótel. Fyrr á árinu lét Ferðamálastofa, í samstarfi við Skrifstofu ferðamálaráðs Norðurlanda í Asíu, vinna viðamestu markaðsrannsóknir á ferðamynstri Asíubúa sem gerðar hafa verið. Rannsóknir þessar eru hluti af Ferðamálaáætlun fyrir 2006-2015 sem samþykkt var síðastliðinn vetur. Niðurstöður rannsóknanna á Kínverska markaðinum, sem eru afar áhugaverðar fyrir íslenska ferðaþjónustu, verða kynntar á fundinum. Fundurinn hefst með ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og síðan kynnir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markðassviðs Ferðamálastofu, niðurstöðurnar. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis. Skráning á fundinn. Mynd: Frá China International Travel Mart sem Ferðamálastofa og nokkur íslensk fyrirtæki hafa tekið þátt í undanfarin tvö ár. 
Lesa meira

Að éta skóna sína ? matur og ferðamennska

Félagið ?Matur- saga-menning? gengst fyrir öðrum fræðslufundi vetrarins næstkomandi fimmtudag. Í þetta sinn verður umfjöllunarefnið ?Matur og ferðamennska, íslenskur matur á borðum ferðamannsins fyrr og síð?. Sumarliði Ísleifsson, sagnfræðingur við Reykjavíkur akademíuna, ríður á vaðið þetta kvöld og fjallar um lýsingar á íslenskum mat og drykk í erlendum heimildum frá fyrri öldum, undir yfirskriftinni ?Að éta skóna sína: Íslensk matarmenning í erlendum ritum um Ísland?. Þar sýnir Sumarliði ýmis dæmi um erlenda texta þar sem greint er frá matarmenningu og drykkjusiðum Íslendinga á fyrri öldum og upplifun og lýsingum útlendinga á þeirri reynslu að vera í fæði á Íslandi. Laufey Haraldsdóttir frá Ferðamáladeild Hólaskóla lítur okkur nær í tíma í seinna erindi kvöldsins, sem hún nefnir ?Hafa ferðamenn áhuga á mat? - Staðbundinn matur, auðlind í ferðaþjónustu.? Þar kynnir hún niðurstöður kannana á viðhorfum erlendra ferðamanna til matarins og  áhuga þeirra á íslenskri matarhefð. Eins segir hún frá verkefninu  ?Matarkistan Skagafjörður?, sem er dæmi um hvernig nýta má auðlegð og menningu einstakra héraða í svæðisbundinni ferðamennsku. Að loknum erindum verður tími fyrir umræður, fyrirspurnir og spjall í bland við veitingar við hæfi. Fundurinn ?Að éta skóna sína? verður haldinn að Grandagarði 8, fimmtudaginn 30. nóvember kl 20- 21:30 og er öllum opinn meðan húsrúm leyfir.
Lesa meira

Íslandsáhugi á China International Travel Mart

Vel tókst til með þátttöku á China International Travel Mart, stærstu ferðakaupstefnu í Asíu, sem lauk í síðustu viku. Hún var að þessu sinnin haldin í Shanghai. Líkt og í fyrra voru það Ferðamálastofa, Icelandair og Sendiráð Íslands í Peking sem stóðu að þátttöku Íslands á sýningunni. Þá var hún haldin í Kunming en skipst er á um að halda hana þar og í Shanghai. Íslenskir þátttakendur í ár voru Ferðamálastofa, Icelandair, Iceland Excursion-Gray Line, Yu Fan Travel og Iceland Travel. Nýr sendiherra íslands, Gunnar Snorri Gunnarsson, heimsótti sýninguna. Samkvæmt upplýsingum frá sýningarhöldurum hefur sýningin vaxið hratt síðustu ár og jókst nú að umfangi um 27% á milli ára. Þátttakendur komu frá ríflega 90 löndum og sýnendur voru ríflega 4.000 talsins. Vöxtur í ferðalögum Kínverja?Þetta er stærsta ferðasýning í Asíu og mikilvægi hennar því mikið. Mitt mat er að þátttakan hafi heppnast vel og einkum var mikill áhugi á Íslandi á fagdögum sýningarinnar. Talsverður vöxtur hefur verið í ferðalögum Kínverja til Íslands og er búist við enn frekari vexti á næstu misserum,? segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, sem sá um skipulag f.h íslensku sýnendanna. Myndirnar hér að neðan tók Ársæll á sýningunni.
Lesa meira

Nýtt kynningarrit Ferðamálastofu

?Ferðamálastofa ? hlutverk og starfsemi? nefnist nýtt kynningarrit sem Ferðamálastofa var að gefa út. Eins og nafnið ber með sér er í ritinu farið yfir helstu verkefni Ferðamálastofu, þessarar nýju stofnunar sem þó byggir á traustum grunni. Ferðamálastofa hefur verið starfandi í tæpa 11 mánuði en stofnunin tók til starfa samhliða nýjum lögum um skipan ferðamála. Í inngangi Magnúsar Oddssonar ferðamálastjóra að ritinu segir meðal annars: ?Stofnunin tók við öllum skuldbindingum og verkefnum skrifstofu Ferðamálaráðs, engin verkefni féllu niður eða voru færð annað. Ferðamálastofa sinnir þannig áfram þeim verkefnum sem skrifstofur Ferðamálaráðs sinntu áður gagnvart stjórnvöldum, greininni og innlendum og erlendum ferðamönnum. Veigamiklir nýir málaflokkar bættust einnig við. Þar bar hæst leyfismál vegna ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda, svo og öll stjórnsýsla því tengd. Einnig var Ferðamálastofu falið það nýja verkefni að sjá um framkvæmd markaðrar ferðamálastefnu sem alþingi samþykkti á árinu 2005.? Ennfremur segir Magnús: ?Lykilatriði er að starfsfólk Ferðamálastofu, innan lands sem utan, munu áfram leggja sig fram um að vinna að framgangi ferðaþjónustunnar. Markmið okkar er að stuðla að frekari arðsemi fyrirtækja og þjóðarbús, þar sem íslensk náttúra, íslensk menning og aukin gæði eru þær meginstoðir starfið byggir á.? Skoða kynningarrit, Ferðamálastofa  - hlutverk og starfsemi (PDF 3 Mb)  
Lesa meira

Viðhorfskönnunin aðgengileg á vefnum

Vert er að benda á að ný könnun Ferðamálastofu um viðhorf Íslendinga til gæða ferðaþjónustu hérlendis er aðgengileg hér á vefnum. Könnunin var kynnt á Ferðamálaráðstefnunni í síðustu viku og vakti verðskuldaða athygli. Markmið könnunarinnar var að mæla viðhorf Íslendinga til gæða á nokkrum grunnþáttum íslenskrar ferðaþjónustu, byggja upp gagnagrunn sem nýta má til samanburðar í endurteknum könnunum og byggja upp gagnagrunn sem sértækari rannsóknir geta tekið mið af. Um var að ræða rafræna könnun á tímabilinu 17.-31. október 2006 og náði hún til fólks á aldrinum 18?70 ára af öllu landinu. Úrtakið var 1460 manns úr svokölluðum netpanel og var svarhlutfallið 75,6%. Framkvæmd og úrvinnsla var í höndum Capacent Gallup. Efnisþættir könnunarinnarÞeir þættir sem mældir voru í könnuninni voru: Veitinga- og skyndibitastaðir Gisting Afþreying Samgöngur Upplýsingagjöf Ferðamannastaðir Vegakerfið Ferðaþjónusta á Íslandi í samanburði við ferðaþjónustu erlendis Svarendur voru beðnir um að gefa nokkrum atriðum innan hvers þáttar einkunn á kvarðanum 0 til 10, en alls var spurt um ríflega 150 efnisþætti í könnuninni. Meðaleinkunn 6,6 að verðinu slepptuFerðaþjónustuþættir sem voru lagðir til grundvallar í könnuninni að verðlagningu undanskilinni fá að jafnaði 6,6 í einkunn. Af 89 þáttum voru 54 með hærra en meðaltalið en 33 með lægra. Verðlagning fær hins vegar að jafnaði 4,8 í einkunn og af 23 þáttum voru 13 með hærra en meðaltalið en 9 með lægra. Annars var meðaleinkunn einstakra þátta þessi: Afþreying 6,9 Gisting 6,8 Upplýsingagjöf 6,5 Samgöngur 6,5 Veitingastarfsemi 5,0 Vegakerfið 4,3  Glærukynning með helstu niðurstöðum (PDF 0,2 MB) Könnunnin í heild sinni (PDF 2 Mb) Mynd: Frá ferðamálaráðstefnunni 2006.
Lesa meira

Framboð á flugi eykst enn

Enn heldur valkostum í flugi til og frá landinu áfram að fjölga. Þannig hefur Iceland Express tilkynnt að á vegum félagsins verði hafið flug á milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar í vor og SAS mun bæta flugleiðinni Keflavík-Stokkhólmur við sitt leiðakerfi. Núna er í boði flug hjá SAS á milli Keflavíkur og Oslóar. Iceland Express mun bjóða ferðir tvisvar í viku á milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar og fyrir forgöngu félagsins verður því flogið til og frá þremur áfangastöðum hérlendis næsta sumar.
Lesa meira

Góðar horfur innan ferðaþjónustunnar

Horfur innan ferðaþjónustunnar eru góðar fyrir næsta sumar, samkvæmt könnun sem Vinnumálastofnun gerði meðal forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu. Könnunin var gerð seinni hluta október og var send félagsmönnum Samtaka ferðaþjónustunnar. Um helmingur aðspurðra innan ferðaþjónustunnar telur að næsta sumar muni þeir hafa fleira starfsfólk en síðasta sumar, en aðrir telja að fjöldi starfsmanna verði svipaður. Mat á því hve mikil fjölgunin yrði bendir til að búast megi við 5-10% aukningu mannafla innan þessarar atvinnugreinar frá sumri 2006 til sumars 2007. Hlutfallslega fleiri fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni búast við að fjölga starfsfólki næsta sumar, en á hinn bóginn má reikna með hlutfallslega meiri mannaflaþörf á landsbyggðinni þar sem þau fyrirtæki sem á annað borð ætla að fjölga virðast þurfa að bæta við sig það miklum fjölda starfsmanna. Þá virðist síður að vænta fjölgunar innan hótel- og veitingaþjónustu en í annarri starfsemi innan ferðaþjónustunnar.             Mynd: Frá Vestnorden 2006. Nánar á vef Vinnumálastofnunar
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan ? efni komið á vefinn

Nú er komið hér inn á vefinn megnið af efninu frá ferðamálaráðstefnunni 2006. Má þar nefna ræður og glærukynningar þeirra sem fluttu framsögu. Einnig eru komnar inn myndir frá ráðstefnunni og fréttir af afhendingu verðlauna. Þá er einnig orðin aðgengileg hér á vefnum ný könnun meðal innlendra ferðamanna á gæðum ferðaþjónustu sem Ferðamálastof lét gera og kynnt var í á ráðstefnunni. Skoða efni frá ferðamálaráðstefnunni 2006
Lesa meira

Lokaverkefnisverðlaun afhent í annað sinn

Á ferðamálaráðstefnunni í gær voru lokaverkefnisverðlaun Ferðamálaseturs Íslands afhent. Þau hlaut Ýr Káradóttir fyrir verkefni sitt um gæði gistingar og afhendi Sturla Böðvarsson samgönguráðherra henni verðlaunin. Verðlaunin voru nú afhent annað árið í röð en þau eru veitt fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Dómnefnd er skipuð er stjórn og forstöðumanni FMSÍ og mat hún átta verkefni skólaársins 2005-2006 afar góð og/eða mjög athyglisverð. B.Sc. ritgerð Ýrar Káradóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands bar yfirskriftina: Gæði í gistingu. Gæðastefnur og aðferðir við mælingar á þjónustugæðum innan valinna hótelkeðja á Íslandi. Í umsögn dómnefnar um ritgerð Ýrar sagði: Í verkefni sínu fjallaði Ýr Káradóttir um gæðahugtakið, þá sérstaklega með tilliti til þjónustugæða á völdum íslenskum hótelkeðjum. Þannig leitaðist hún við að átta sig á stefnu hótelkeðjanna hvað varðar gæðastjórnun og hvernig henni er fylgt eftir í daglegum rekstri. Með viðtölum komst Ýr að því hvernig yfir- og milli stjórnendur hótelkeðjanna móta stefnu í þjónustugæðum fyrirtækjanna. Í ljós kemur að gæðastefna hótela er afar misjöfn milli fyrirtækja og hefur stærð þeirra þar afgerandi áhrif. Helsta niðurstaða Ýrar er að eftirfylgni og mat hótelkeðjanna á eigin þjónustugæðum er töluvert á eftir því sem gerist í fræðilegri umræðu um gæðahugtakið. Hugmyndir stjórnenda um gæði voru einskorðuð við gæði starfsfólks, þjónustu við gesti og almennan aðbúnað. Hinsvegar bendir Ýr á að þjónustugæði eins og þau eru rædd í fræðunum er mun margslungnari en svo. Til að rökstyðja mál sitt beitir hún þremur ólíkum gæðakenningum fræðimanna þar sem áherslan er á starfstengd og tæknileg gæði sem borin eru saman við væntingar og síðar upplifun viðskiptavina. Dómnefndin telur að þetta verkefni geti nýst hótelum á landinu sem stefna að því að vera alþjóðlega samkeppnishæf. Þannig leggur verkefnið til hvernig þau geta bætt gæði eigin þjónustu í samræmi við það sem er efst á baugi í málefnum ferðaþjónustunnar samanber efni ferðamálaráðstefnu nú. Önnur verkefni sem metin voru afar góð og/eða mjög athyglisverð voru: Að þekkja Ísland. B.Sc. ritgerð Sunnu Reynisdóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands. Glöggt er gests augað. Samskipti erlendra ferðamanna og Íslendinga á 19. öld. B.Sc. ritgerð Áslaugar Briem frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands. Hverjir eru möguleikar til markaðssetningar útivistar og ævintýraferða á Vestfjörðum? M.S. ritgerð Péturs S. Hilmarssonar frá Viðskipta og hagfræðideild Háskóla Íslands. Sólskinseyjan Ísland. Viðhorf Íslendinga til kynninga á Íslandi erlendis. B.Sc ritgerð Ástu Sigríðar Skúladóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands. Úttekt á jarðhita í Öxarfirði með tilliti til atvinnusköpunar. B.Sc. ritgerð Hildar Vésteinsdóttur frá Viðskipta og raunvísindadeild Háskólans á Akureyri. Viðhorf nemenda í ferðamálafræðum til námsins. B.Sc. ritgerð Lýdíu Huldar Grímsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands. Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum. Samfélagsleg áhrif viðburðaferðamennsku. B.Sc. ritgerð Selmu Harðardóttur frá Jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands.
Lesa meira

Vel heppnaðri ferðamálaráðstefnu lokið

Góður rómur var gerður að Ferðamálaráðstefnunni 2006, þeirri 36. í röðinni, sem fram fór á Hótel Loftleiðum í dag. Að þessu sinni voru gæðamálin í brennidepli. Við setninguna í morgun sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra meðal annars að fjölgun ferðamanna með auknu álagi á náttúru landsins ætti ekki að vera markmið heldur að auka tekjur og hagnað ferðaþjónustunnar. Magnús Oddsson ferðamálastjóri sagði í ávarpi sínu að stjórnvöld hefðu undanfarin ár skapað atvinnugreininni það umhverfi sem hún hefur nýtt sér til framfara. Á dagskrá ferðamálaráðstefnunnar var meðal annars kynning á könnunum meðal innlendra og erlendra ferðamanna á viðhorfum til hinna ýmsu þátta ferðaþjónustunnar. Einnig er rætt hvort gæði íslenskrar ferðaþjónustu stæðust væntingar og farið verður yfir framkvæmd ferðamálaáætlunar fyrir árin 2006 til 2015. Sturla Böðvarsson sagði í ræðu sinni að vitað væri eftir kannanir að það sem erlendir ferðamenn upplifðu jákvæðast við Ísland væri landið sjálft og náttúran og í öðru sæti fólkið og gestrisnin. ,,En það þýðir ekki að við getum lagt hendur í skaut og sagt að þetta sé allt harla gott og ekki megi gera betur. Við eigum að leita framfara og nýjunga í þjónustunni við gesti okkar. Við eigum að skilja þannig við þá að eftir fyrstu heimsókn hingað hafi þeir áhuga á annarri heimsókn. Og ef upplifunin hér er þeim einhvers virði er meira en líklegt að þeir taki fleiri með sér.? Samgönguráðherra minnti á að 1. mars myndi virðisaukaskattur verða lækkaður á matvælum, veitingaþjónustu og hótelgistingu. Sagði hann að fylgst yrði með því að lækkunin skilað sér í verðlaginu og mikilvægt væri fyrir ferðaþjónustuna að nýta þetta til markaðssetningar. Ráðherra sagði framlög til samgöngumála, fjarskipta og ferðamála hafa vaxið hröðum skrefum síðustu ár. Hann kvaðst hafa sett af stað vinnu til að meta þá tillögu ferðamálaráðs að auknum fjármunum verði af hálfu stjórnvalda varið til markaðssóknar í ferðaþjónustu. Einnig að skilgreindar verði að nýju markaðsaðgerðir stjórnvalda og atvinnugreinarinnar. ,,Þær eiga að vera í stöðugri endurskoðun með árangursmat í huga.? Þá upplýsti samgönguráðherra að ráðuneytið hefði nýverið samið við Hagstofu Íslands um gerð svonefndar hliðarreikninga fyrir ferðaþjónustuna. Með því fengist skýrari og betri mynd af stöðu og mikilvægi greinarinnar sem muni nýtast stjórnvöldum og einkaaðilum til markvissari ákvarðanatöku. Einnig sagði hann ráðuneytið nú hafa til meðferðar drög að nýjum lögum sem einfalda eiga allt ferli leyfisveitinga fyrir gisti- og veitingastaði. Kvaðst hann binda vonir við að afgreiða megi frumvarpið á Alþingi fyrir vorið. Undir lok ræðu sinnar greindi samgönguráðherra frá skammtímasamningi við Flugfélag Íslands um styrk vegna áætlunarflugs milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Sagði hann kostnaðinn vera um 58 milljónir króna. ,,Með þessari ákvörðun hefur verið aukið enn við styrki ríkisins við almenningssamgöngur. Munu þessir styrkir nema nærri 750 milljónum króna vegna sérleyfa, ferja og áætlunarflugs,? sagði ráðherra og benti jafnframt á að slíkur stuðningur væri stuðningur við ferðaþjónustuna í landinu. Skoða myndir frá ráðstefnunni.  
Lesa meira