Fréttir

Á ferð um Ísland komin út

Ferðahandbókin Á ferð um Ísland er nú komin út hjá Útgáfufélaginu Heimi. Bókin er á þremur tungumálum. Enska útgáfan Around Iceland hefur komið út samfellt í 31 ár, íslenska útgáfan í 16 ár en þýska útgáfan Rund um Island kemur nú út í 9 sinn. Fram kemur í frétt frá Heimi að bókin hafi aldrei verið stærri eða 224 bls. Ritunum er dreift í 90.000 eintökum á alla helstu ferðamannastaði landsins. Í bókinni er umfjöllun um hvern landshluta, þjónustulistar sem eru uppfærðir árlega í samstarfi við heimamenn, ásamt kortum þar sem gististaðir, tjaldsvæði og sundlaugar eru númeraðar á svæðum utan þéttbýlis. Sambærileg kort eru einnig frá helstu þéttbýlisstöðum landsins. Þá er einnig að finna hálendiskafla með hálendiskorti og þjónustulistum í bókinni. Fremst í bókinni er síðan að finna ýmsan fróðleik um land og þjóð, það helsta sem er á döfinni í sumar, afþreyingu og margt fleira. Fram kemur í fréttatilkynningu að sl. sumar hafi verið gerð könnun meðal erlendra ferðamanna á notkun bókanna og kom í ljós að meira en þriðjungur þeirra notaði bækurnar og 48% þýskumælandi ferðamanna notaði Rund um Island. Auk þess má geta að bækurnar eru einnig birtar í vefútgáfu á www.heimur.is/world  Ritstjóri bókanna er Ottó Schopka.
Lesa meira

Samningar um styrki til Selasetursins

Laugardaginn 29. apríl var skrifað undir samning milli Ferðamálastofu og Ferðamálafélags Vestur Húnavatnssýslu um 4 milljón króna styrk til uppbyggingar aðgengis fyrir alla að sýningarsvæði Selaseturs Íslands á Hvammstanga og 2,5 milljón króna styrk til uppbyggingar skoðunaraðstöðu við nokkur sellátur á Vatnsnesi. Framkvæmdir eru langt komnar við endurbætur á gamla verslunar húsnæði Sigurðar Pálmasonar á Hvammstaga sem mun hýsa sýningaraðstöðu Selasetursins. Reiknað er með að það verði opnað seinnipart júní í sumar. Að sögn Magnúsar Oddssonar Ferðamálastjóra, sem skrifaði undir samninginn fyrir hönd Ferðamálastofu, er einkar ánægjulegt að sjá hversu mikinn metnað heimamenn leggja í verkefnið og þarna sé á ferðinni enn ein nýjungin í íslenskri ferðaþjónustu. Þetta sé dæmi um það hvernig fléttað sé saman þeim þremur grunnþáttum sem íslensk ferðaþjónusta eigi að byggjast á samkvæmt ferðamálaáætlun 2006-2015; náttúru, menningu og fagmennsku. Á sama tíma skrifaði samgönguráðherra undir samkomulag um að ráðuneytið styrki Selasetrið um 6 milljónir króna næstu tvö árin. Á meðfylgjandi mynd má sjá húsnæði Selaseturs Íslands. Skoða fleiri myndir sem teknar voru við undirritunina.  
Lesa meira

Samþykkt að halda aðalfund Ferðamálaráðs Evrópu á Íslandi

Í febrúarmánuði heimsótti samgönguráðherra Sturla Böðvarsson, ásamt fylgdarliði, aðalskrifstofu Ferðamálaráðs Evrópu (ETC). Í framhaldi af fundi samgönguráðherra með framkvæmdastjóra ETC bauðst Ísland til að halda aðalfund ETC vorið 2007 hér á landi. Ákvörðun um fundarstað næsta árs var tekin á fundi framkvæmdastjórnar ETC í Brussel fyrir núna fyrir helgina. Samþykkt var samhljóða að aðalfundur ETC árið 2007  verði á Íslandi 27. og 28. apríl næstkomandi. Ráðstefna haldinn samhliðaMagnús Oddsson ferðamálastjóri, sem setið hefur 14 síðustu aðalfundi ETC, segir að gera megi ráð fyrir 50-70 manns á aðalfundinum og að hann muni sækja forsvarsmenn ýmissa Evrópusamtaka í ferðaþjónustu auk ferðamálstjóra aðildarríkjanna 34. Þá sé hefð fyrir að halda ráðstefnu samhliða fundinum þar sem kallaðir séu til sérfræðingar til að fjalla um málefni ferðaþjónustunnar í Evrópu frá ýmsum hliðum. Munum leggja metnað okkar í verkefniðNú fer í hönd undirbúningur fyrir fundinn þar sem m.a. verður ákveðið hvernig ráðstefna verður haldin samhliða honum. ?Það er mjög ánægjulegt að fá að halda þennan fund hér á landi næsta vor og við munum leggja okkar metnað í að hann verði eftirminnilegur þeim sem hann sækja, ásamt því að hann skili okkur og öðrum þátttakendum góðu veganesti frá þeirri faglegu umræðu sem þar verður um evrópsk ferðamál?, segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri.  
Lesa meira

Ráðstefna um ferðamál á Suðurnesjum

Ferðamálasamtök Suðurnesja og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa boðað til ráðstefnu um aukið hlutverk ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum. Ráðstefnan verður haldin í Eldborg, Svartsengi næstkomandi föstudag, 28 apríl. Erindi á ráðstefnunni flytja Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ; Sigmar Eðvarðsson, bæjarfulltrúi í Grindavík; Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins; Geir Sveinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ og Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Þá verða pallborðsumræður þar sem þátt taka Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ; Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum; Jón Gunnarsson alþingsmaður; Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík og Sigurður Jónsson, bæjarstjóri í Garði. Allir eru velkomnir.
Lesa meira

Gagnlegar umræður um þátttöku í ferðasýningum

Í nýútkomnu fréttabréfi Samtaka ferðaþjónustunnar er meðal annars sagt frá sameiginlegum fundi ferðaskrifstofa og afþreyingarfyrirtækja á aðalfundi SAF nýlega. Á fundinum hafi orðið miklar umræður um þátttöku fyrirtækja í ferðasýningum og kaupstefnum erlendis. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálastofu, hélt framsöguerindi og sagði frá markaðsstarfi Ferðamálastofu. Auk þess héldu framsögu Pétur Óskarsson, VIATOR og Gunnar Már Sigurfinnsson, markaðsstjóri Icelandair. Að þeim loknum voru pallborðsumræður. Var mál manna að umræður hefðu verið mjög gagnlegar og var þeim ekki lokið þegar fundartími var útrunninn, segir í fréttabréfi SAF. Því var eindregin ósk fundarmanna að umræðum yrði haldið áfram með öðrum fundi fljótlega Sjá erindi Ársæls - Ferðamálastofa, markaðsmál -(Powerpoint)  
Lesa meira

Ráðstefna um ferðamál á Suðurnesjum

Ferðamálasamtök Suðurnesja og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa boðað til ráðstefnu um aukið hlutverk ferðaþjónustunnar á Suðurnesjum. Ráðstefnan verður haldin í Eldborg, Svartsengi næstkomandi föstudag, 28 apríl. Erindi á ráðstefnunni flytja Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ; Sigmar Eðvarðsson, bæjarfulltrúi í Grindavík; Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins; Geir Sveinsson, forstöðumaður Íþróttaakademíunnar í Reykjanesbæ og Kristján Pálsson, formaður Ferðamálasamtaka Suðurnesja. Þá verða pallborðsumræður þar sem þátt taka Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ; Guðjón Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Suðurnesjum; Jón Guðmundsson alþingsmaður; Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík og Sigurður Jónsson, bæjarstjóri í Garði. Allir eru velkomnir.
Lesa meira

Síldarminjasafnið á Siglufirði verður Síldarminjasafn Íslands

Á páskadag var stofnuð sjálfseignarstofnunin Síldarminjasafn Íslands. Stofnendur eru Félag áhugamanna um minjasafn og Siglufjarðarbær. Stofnframlög hvors aðila fyrir sig eru húseignir, lóðir og allir munir þeir sem fram að þessu hafa myndað Síldarminjasafnið. Tilgangurinn með þessari breytingu er að einfalda eignarhald og rekstur ásamt því að skerpa og styrkja stöðu safnsins á landsvísu, eftir því er fram kemur í frétt. Í samræmi við það var nafninu breytt úr Síldarminjasafnið á Siglufirði í Síldarminjasafn Íslands ses. Þjóðminjasafnið skipar nú fulltrúa í stjórn safnsins og er það Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður. Auk hennar voru kjörnir í þriggja manna stjórn, Runólfur Birgisson, bæjarstjóri og Hafþór Rósmundsson, formaður Félags áhugamanna um minjasafn (Fáum). Varamenn eru Ólafur Kárason, formaður bæjarráðs, Hinrik Aðalsteinsson, ritari Fáum og Ágúst Georgsson frá Þjóðminjasafninu. Þá var Örlygur Kristfinnsson ráðinn forstöðumaður Síldarminjasafnsins.
Lesa meira

Ferðaþjónustan í Eyjafirði styrkir snjóframleiðslu í Hlíðarfjalli

Fulltrúar nokkurra fyrirtækja, sem flest tengjast ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti, hafa undirritað samstarfssamning við Akureyrarbæ um að leggja fram um 20 milljónir króna til snjóframleiðslunnar í Hlíðarfjalli á næstu fimm árum. Um er að ræða eitt stærsta markaðsverkefni í vetrarferðamennsku sem ráðist hefur verið í norðan heiða. Fyrirtækin, sem kalla sig Vini Hlíðarfjalls, vilja með samningnum renna styrkari stoðum undir rekstur skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli og efla þar með ferða- og atvinnumál á Akureyri, segir í fréttatilkynningu. Samhliða gefst fyrirtækjunum kostur á að nýta sér sóknarfæri gagnvart aukinni ferðaþjónustu. Hefur verið nefnt sem dæmi að með snjóframleiðslunni sé kominn grunnur að því að skíðasvæðið geti verið opið um jól og áramót, sem séu nýir möguleikar á ferðamarkaði. Snjóframleiðslukerfið í Hlíðarfjalli var tekið í notkun fyrr í vetur og þykir þegar hafa sannað gildi sitt. Fyrirtækin sem um ræðir eru Avion Group; Baugur Group; Flugfélag Íslands; Glitnir; Greifinn; Höldur ? Bílaleiga Akureyrar; Icelandair Group; ISS Ísland; KEA; Landsbankinn ; SBA Norðurleið og Sjóvá. Meðfylgjandi mynd var tekin í Hlíðarfjalli sl. föstudag og er fengin af vef Akureyrarbæjar.
Lesa meira

Dreamliner mun opna nýja möguleika

FL Group, fyrir hönd Icelandair Group, hefur samið um kaup á tveimur Boeing 787 Dreamliner farþegaþotum fyrir Icelandair, til viðbótar þeim tveimur þotum af þessari gerð sem áður höfðu verið pantaðar. Fyrri tvær vélarnar verða afhentar árið 2010 og þær síðari árið 2012 þannig að nokkuð mun líða þar til Íslendingar geta farið að njóta þessara glæsilegu farkosta. Fyrstu Dreamliner-vélarnar verða teknar í notkun að u.þ.b. tveimur árum liðnum. Þær eru af nýrri kynslóð farþegavéla og bjóða farþegum áður óþekkt þægindi, með auknu rými, stærri gluggum og betri innréttingum. Til viðbótar eiga þær að vera sérlega hagkvæmar í rekstri enda áhuginn hjá flugrekendum meiri en Boeing hefur áður kynnst við kynningu á nýrri vél. Í fréttatilkynningu er haft eftir Jóni Karli Ólafssyni, forstjóra Icelandair, að þessar nýju vélar muni opna nýja möguleika fyrir Icelandair og íslenska ferðaþjónustu. Með þeim verður hægt að fljúga án viðkomu á milli Íslands og hvaða áfangastaðar sem er í heiminum. Verð þessara tveggja viðbótarflugvéla er um 290 milljónir bandaríkjadala þannig að um mikla fjárfestingu er að ræða. Hér að neðan má sjá tvær tölvugerðar myndir af hinni nýju vél.
Lesa meira

Áformað að stofna Landssamtök hátíða og menningaviðburða

Þann 28. apríl næstkomandi hefur verið boðað til stofnfundar Landssamtaka hátíða og menningarviðburða. Verður fundurinn haldinn í Ketilhúsinu á Akureyri. Í fréttatilkynningu kemur fram að lengi hafi verið rætt um að þeir sem standa að og skipuleggja reglulegar hátíðir og viðburði víðsvegar um landið, gætu haft gagn að meira samstarfi og því að vita hver af öðrum.  Í ljósi umræðunnar hefur nú hópur fólks lagst yfir málið og komist að niðurstöðu um að rétt sé að stofna Landssamtök hátíða og menningarviðburða. Margar góðar ástæður eru fyrir hugmyndinni, segir í tilkynningunni, og þessar meðal annars: ? Standa vörð um sameiginlega hagsmuni ? Hætta einyrkju í faginu og vinna saman á landsvísu? Miðla þekkingu, reynslu og upplýsingum? Skipuleggja sameiginlegar ráðstefnur og námskeið? Kortleggja menningarviðburði (-hátíðir) á Íslandi? Setja saman viðburðakeðjur? Eiga samstarf við Menntamálaráðuneytið með samræmdum hætti Undirbúningshópurinn er nú um það bil að ljúka fyrstu skrefum s.s. tillögum að lögum samtakanna og skipulagningu stofnfundar. Dagskrá föstudagsins 28. apríl: 08:45 Setning og kynning 09:00 Fyrirlestur Johan Morman framkvæmdastjóri Rotterdam-Festival og stjórnarmeðlimur í IFEA (Evrópusamtökum hátíða og menningaviðburða) 10:00 Kaffihlé10:20 Vinnuhópar móta markmið samtakana undir leiðsögn Sævars Kristinssonar hjá Netspor 12:30 Hádegishlé 13:30 Vinnuhópar/umræður14:30 Kaffihlé15.00 Samantekt15.30 Stofnun samtakanna og formleg aðalfundarstörf Þátttökugjald kr. 3200 innifalið í því er matur og annar fundarkostnaður. Sigrún Björnsdóttur hjá Akureyrarbæ tekur á móti skráningum í síma 460 1010 eða í netfangið thjonustuanddyri@akureyri.is.  Skráningum lýkur: þriðjudaginn 26. apríl. Stofnfundurinn er styrktur af Menntamálaráðuneytinu, Akureyrarbæ, Höfuðborgarstofu, Vaxtarsamningi Eyjafjarðar, Menningarráði Austurlands og Ísafjarðarbæ. Hótel KEA er með tilboð á gistingu fyrir gesti fundarins.
Lesa meira