Ferðamálastofa og Ferðaþjónusta bænda gera samkomulag um flokkun gististaða

Ferðamálastofa og Ferðaþjónusta bænda gera samkomulag um flokkun gististaða
Undirskrift við FB

Síðastliðinn föstudag undirrituðu Magnús Oddsson ferðamálastjóri og Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda, samkomulag um flokkun gististaða. Samkomulagið felur í sér að Ferðamálastofa viðurkennir flokkunarkerfi það er Félag ferðaþjónustubænda og Ferðaþjónusta bænda hf. (FB) hafa unnið til að flokka þá gististaði sem eru innan vébanda FB.

Í fyrrasumar sendi FB erindi til Ferðamálstofu þar sem farið var fram á að stofnunin myndi viðurkenna flokkunarviðmið (FB). Að sögn Elíasar Bj. Gíslasonar, forstöðumanns upplýsinga- og þróunar sviðs Ferðamálastofu, er hér á ferð ánægjuleg viðbót við þá gæðaflokkun gististaða sem fyrir er. Ferðamálastofa hefur verið að flokka gististaði frá því árið 2001 og er þar einkum um hótel og stærri gististaði að ræða en einingarnar hjá FB eru að öllu jöfnu minni sem og fjölbreyttari. Samkvæmt kerfi FB þá skiptist flokkunin í fjóra meginflokka; heimagistingu, gistihús bænda, sveitahótel og sumarhús. Þá eru tveir undirflokkar þ.e. flokkun herbergja I ? IV og Sumarhús sem flokkast í A, B, C og D.
Sjá nánar um flokkunarkerfi Ferðaþjónustu bænda (PDF-skjal)  

Aukið gæðaeftirlit
Samkvæmt samkomulaginu mun Ferðamálastofa taka út a.m.k. 10 gististaði sem eru innan vébanda FB árlega samkvæmt nýja viðmiði FB. Þá mun FB tryggja að um 70 % af öllum sveitahótelum sem eru innan vébanda FB verða flokkuð samkvæmt viðmiðum Ferðamálastofu og geta þar af leiðandi notast við stjörnuflokkun Ferðamálstofu. ?Með þessu nýja flokkunarviðmiði FB er enn verið að auka gæðaeftirlitið í Íslenskri ferðaþjónustu sem er öllum til hagsbóta ekki síst neytendum,? segir Elías.

Mynd:
Magnús Oddsson ferðamálastjóri og Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda, undirrita samkomulagið. Aftan við þá standa talið frá vinstri: Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálastofu; Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda og Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.

 


Athugasemdir