Fréttir

Ár hinna stóru ákvarðana í samgöngum og ferðaþjónustu

Sturla Böðvarsson samgönguráðherra flutti ávarp á ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs  í gær og  kom víða við í erindi sínu. Meðal annars fjallaði hann um nýtt ráðstefnu og tónlistarhús, tilkynnti að ráðist yrði í verkefnið Iceland Naturally í Evrópu og að hann hefði falið Hagfræðistofnun að meta áhrif sterkrar krónu á ferðaþjónustuna. Síðasta ár sagði Sturla hafa verið ár hinna stóru ákvarðana í samgöngum og ferðaþjónustu. Eigi það jafnt við um opinbera aðila sem og ekki síður fyrirtækin innan ferðaþjónustunnar. Stærsta markaðsaðgerð í íslenskri ferðaþjónustu fyrr og síðar Sturla sagði tónlistar- og ráðstefnuhús í miðborg Reykjavíkur líklega vera stærstu markaðsaðgerð í íslenskri ferðaþjónustu fyrr og síðar. ?Þarna fáum við væntanlega aðstöðu sem jafnast á við það besta sem gerist í heiminum á sviði menningar og ferðaþjónustu. Fyrirhugað tónlistar- og ráðstefnuhús hefur alla burði til að stækka markað okkar og ekki síður til að lengja ferðamannatímann á Íslandi, því að ég veit að sérstaða íslenskrar náttúru og landsbyggðar verður áfram drifkrafturinn í því að fólk velji Ísland frekar en aðra áfangastaði. Ég legg gríðarlega mikið upp úr því að þetta tækifæri verði nýtt sem allra best og hef því ákveðið að veita 10 milljónum króna aukalega á næsta ári til Ferðamálastofu svo hún geti með öflugum hætti komið að kynningu á húsinu í samstarfi við rekstraraðila hússins, Reykjavíkurborg og Ráðstefnuskrifstofu Íslands,? sagði Sturla. Hagfræðistofnun kannar áhrif sterkrar krónuAnnað sem vakri athygli í erindi Sturlu var umfjöllun hans um sterka stöðu íslensku krónunnar og áhrif hennar á ferðaþjónutuna, mál sem talvert hefur verið til umfjöllunar upp á síðkastið. ?Ég hef falið Hagfræðistofnun að meta áhrif sterkrar krónu á ferðaþjónustuna, en þær aðstæður sem hér hafa ríkt að undanförnu hafa eðlilega haft áhrif á útflutningsgreinarnar. Það er ekki á valdi stjórnvalda að grípa inn í þá þróun að öðru leyti en því að ríkisfjármálin eru notuð til þess að hafa hemil á eftirspurn á vinnumarkaði og á fjármagnsmarkaði. Engu að síður er nauðsynlegt að meta stöðuna og langtímaáhrifin sem gengisþróunin hefur á ferðaþjónustuna sem heild. Það er vissulega von mín að þróun gengis verði á þann veg að ekki komi til brotlendingar þeirra fyrirtækja sem standa berskjölduð fyrir gengisþróuninni. En það má öllum ljóst vera að sigling þeirra fyrirtækja sem starfa hér innanlands og byggja tekjur sínar á erlendum gjaldmiðlum er mjög kröpp,? sagði Sturla. Iceland Naturally í EvrópuÞá upplýsti Sturla að ráðist yrði í Iceland Naturally verkefni í Evrópu, sambærilegt því sem verið hefur í gangi í Norður-Ameríku undanfarin ár.?Iceland Naturally verkefnið í Bandaríkjunum er orðið vel þekkt hjá ferðaþjónustunni og öðrum útflutningsatvinnugreinum. Samskonar verkefni er nú verið að hrinda af stað í Evrópu. Er það gert í ljósi niðurstöðu mikillar könnunar, sem ég lét gera um ímynd landsins í þremur löndum á meginlandi Evrópu. Sú könnun leiddi í ljós að landið hefur skýra ímynd í þeim löndum sem hún fór fram í, þ.e.a.s. Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi og einnig kom í ljós að meirihluti aðspurðra, í þýsku- og frönskumælandi löndum, taldi vel koma til greina að nota slagorðið Iceland Naturally. Þegar verkefnið verður að veruleika verður því stýrt frá ráðuneytinu og skrifstofu Ferðamálaráðs í Frankfurt í góðu samstarfi við viðskiptafulltrúa í sendiráðum Íslands, en nú standa yfir viðræður á milli samgönguráðuneytis og utanríkisráðuneytis um það hvernig hátta megi þessu samstarfi svo kraftar okkar nýtist sem best,? sagði Sturla. Ræða ráðherra er aðgengileg í heild sinni á vef Samgönguráðuneytisins.  
Lesa meira

Gistiheimilið Brekkukot hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands

Í hátíðarkvöldverði á ferðamálaráðstefnunni á Radisson SAS Hótel Sögu í gærkvöld var tilkynnt um úthlutun umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2005. Að þessu sinni var það Gistiheimilið Brekkukot á Sólheimum í Grímsnesi sem hlaut verðlaunin. Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna, jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum. Í ár bárust 7 tilnefningar og fram kom í máli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, þegar hann afhenti verðlaunin, að sjaldan eða aldrei hefði valið verið jafn erfitt. Í rökstuðningi með ákvörðuninni segir m.a. að ?Samfélagið á Sólheimum og öll starfsemi innan þess er í fararbroddi og til fyrirmyndar fyrir fyrirtæki og samfélög sem vilja bæta þjónustu við þann sístækkandi hóp fólks sem lætur sig umhverfismál varða.? Gistiheimilið BrekkukotBrekkukot er sjálfstætt fyrirtæki, stofnað 1997. Það býður gistingu í tveimur húsum, Brekkukoti og Veghúsum, auk þess sér það um rekstur og umsjón mötuneytis Sólheima, rekstur kaffihússins Grænu könnunnar, veitingarekstur, fundi, námskeið og ráðstefnuþjónustu í Sesseljuhúsi. Brekkukot hefur markað sér stefnu í anda grænnar ferðaþjónustu og er fyrsta gistihúsið á Íslandi sem fékk opinbera viðurkenningu þar um. Sólheimar hafa í áratugi verið í fararbroddi í lífrænni ræktun og umhverfismálum og eru síðan 1997 meðlimur í samtökunum Global Eco-village Network, en það eru samtök vistvænna samfélaga. Lögð er áhersla á sjálfbærar byggingar, eigin orkuöflun, lífræna ræktun, vinnslu afurða úr náttúrulegum efnum og endurvinnslu. Starf samfélagsins á Sólheimum tekur mið af kenningum Rudolfs Steiners. Ásamt starfi og hugsjónum Sesselju H. Sigmundsdóttir. Sesselja var frumkvöðull í lífrænni ræktun, ekki aðeins á Íslandi heldur líka á Norðurlöndum og er á meðal þeirra fyrstu á Íslandi sem létu sig umhverfismál varða. Markmið Sólheima er að skapa sjálfbært samfélag, Eco-village, byggt fólki sem leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekstur fyrirtækja að Sólheimum skal taka mið af efnahagslegum og félagslegum áhrifum á samfélagið og vera í sátt við náttúruna. Sólheimar eru fyrsti staðurinn á Íslandi sem hlýtur erlenda viðurkenningu sem sjálfbært byggðahverfi. Er í fararbroddi?Í auknu mæli gera neytendur kröfu um gæði og hreinleika vöru og þjónustu, að starfsemin sé öll í sátt við umhverfið. Samfélagið á Sólheimum og öll starfsemi innan þess er í fararbroddi og til fyrirmyndar fyrir fyrirtæki og samfélög sem vilja bæta þjónustu við þann sístækkandi hóp fólks sem lætur sig umhverfismál varð,? sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra meðal annars í ávarpi sínu. VerðlaunagripurinnVerðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við - til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti pýramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem mest. Sturla Böðvarsson samgönguráðhera, sem afhenti verðlaunin, Aðalheiður Ásta Jakobsdóttir frá Gistiheimilinu Brekkukoti og Ísólfur Gylfi Pálmason, starfandi formaður Ferðamálaráðs.
Lesa meira

Verðlaun fyrir lokaverkefni í ferðamálafræðum

Ferðamálasetur Íslands veitir nú í fyrsta sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti verðlaunin á Ferðamálaráðstefnunni í dag. Dómnefnd sem skipuð er stjórn FMSÍ mat fimm verkefni  skólaársins 2004-2005 sem góð og mjög athyglisverð: Comparing Environmental Performance, Environmental benchmarking for SMEs in the Nordic tourism industry.  MS-ritgerð Anne Mariu Sparf frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands. Fjölmenningarleg hæfni sem lykill árangursríkra samskipta. Athugun á stöðu fjölmenningarlegra mála á Íslandi. BS-ritgerð Gerðar Sveinsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands Markaðssetning Íslands á Bretlandi. Samanburður á framkvæmd markaðssetningarinnar og ferlum fræðimanna. BS-ritgerð Hjördísar Maríu Ólafsdóttur frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands Hestatengd ferðaþjónusta á Íslandi.  BS-ritgerð Ingibjargar Sigurðardóttur frá Ferðamálabraut viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri Ímyndir og ímyndarsköpun. Fósturlandsins Freyja í markaðssetningu landsins. BS-ritgerð Sunnu Þórðardóttur frá Jarð- og landfræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands Niðurstaða dómnefndar var að verðlaunin í ár hljóti Anne Maria Sparf fyrir MS-ritgerð sína Comparing Environmental Performance, Environmental benchmarking for SMEs in the Nordic tourism industry Í umsögn dómnefndar segir: Í verkefni sínu fjallaði Anne Maria Sparf um möguleika lítilla og meðalstórra ferðaþjónustufyrirtækja til að bæta frammistöðu sína í umhverfismálum með hjálp umhverfisviðmiðunar. Hún kannaði þarfir fyrirtækja á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum fyrir umhverfisstjórnun og viðhorf þeirra til umhverfismála. Niðurstöður könnunarinnar notaði hún til að móta einfalda og skýra aðferð til að finna út hversu vel hin ýmsu umhverfisstjórntæki hentuðu smærri ferðaþjónustufyrirtækjum. Greiningin leggur kerfisbundið mat á hversu skilvirk stjórntækin eru í umhverfismálum, en einnig hversu auðvelt er fyrir fyrirtæki að innleiða þau og hversu mikilla áhrifa má vænta á samkeppnisstöðu. Að því loknu bar Anne Maria saman 10 slík stjórntæki með aðferð sinni, bæði heildstæð umhverfisstjórnunarkerfi og sértækari umhverfismerki eða hrein umhverfisviðmiðunarkerfi ætluð tilteknum tegundum fyrirtækja, til dæmis gistihúsum og hótelum.Niðurstöðurnar geta nýst einstökum ferðaþjónustufyrirtækjum og samtökum ferðaþjónustunnar, jafnt hér á landi og í nágrannalöndum, við að byggja upp ferðamennsku á forsendum sjálfbærrar þróunar.Verkefni Anne Mariu er unnið af metnaði, fagmennsku og næmni og er hún verðugur handhafi verðlauna Ferðamálaseturs Íslands árið 2005.  Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri starfrækja sameiginlega Ferðamálasetur Íslands, sem er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum. Mynd:Verðlaunahafinn Anne Maria Sparf ásamt Sturlu Böðvarssyni samgönguráðherra og Helga Gestssyni, forstöðumanni Ferðamálaseturs Íslands.   
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2005 hafin

Ferðamálaráðstefnan 2005 stendur nú yfir á Radisson SAS Hótel Sögu. Ráðstefnan er sú 36 í röðinni en Ferðamálaráð Íslands hélt fyrstu ráðstefnuna árið 1965 á Akureyri þannig að hún á nú 40 ára afmæli. Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar og svo er einnig nú en um 200 manns sitja hana að þessu sinni. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða. Ávörp samgönguráðherra og borgarstjóraRáðstefnan hófst með vörpum Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra og Steinunnar V. Óskarsdóttur borgarstjóra. Yfirskrift ráðstefnunnar að þessu sinni er samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu og inngangserindið flytur Hannes Smárason, forstjóri FL Group. Næst flytur erindi Anneke Dekker, framkvæmdastjóri Island Tours Hollandi, og fjallar um markaðslega samkeppnishæfni Íslands, frá sjónarhorni erlends seljanda. Menningarleg samkeppnishæfni Íslands er síðan yfirskrift næsta erindis sem Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri flytur. Að loknu hádegishléi verður kynning á nýju ráðstefnu- og tónlistarhúsi í Reykjavík sem Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar ehf., annast. Þá mun Magnús Oddsson, ferðamálastjóri fara yfir væntanlegar breytingar á Ferðamálaráði með stofnun Ferðamálastofu um næstu áramót. Afhending lokaverkefnisverðlauna Ferðamálaseturs Íslands fyrir árið 2005 fylgir í kjölfarið og þá almennar umræður og afgreiðsla ályktana. Ráðstefnuslit eru áætluð kl 16:00. Afhending umhverfisverðlauna FerðamálaráðsÍ kvöld er móttaka í boði samgönguráðherra og í kjölfarið hefst kvöldverður og skemmtun. Þar fer samkvæmt venju fram afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2005. Mynd: Lúðvík Geirsson, fundarstjóri á Ferðamálaráðstefnunni, í ræðustóli. 
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2005 - enn hægt að skrá sig

Um 200 manns hafa þegar skráð sig á árleg ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands, þá 36. í röðinni, sem hefst á Radisson SAS Hótel Sögu á morgun. Gæti stefnt í metþátttöku og enn er tækifæri til að skrá sig. Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða. Ávörp samgönguráðherra og borgarstjóraRáðstefnan hefst kl. 9 með skráningu og afhendingu gagna. Að lokinni setningu flytja ávörp þau Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Steinunn V. Óskarsdóttir borgarstjóri. Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustuÞá er komið að Hannesi Smárasyni, stjórnarformanni FL Group, sem flytur inngangserindi ráðstefnunnar undir yfirskriftinni ?Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu.? Næst flytur erindi Anneke Dekker, framkvæmdastjóri Island Tours Hollandi, og fjallar um markaðslega samkeppnishæfni Íslands, frá sjónarhorni erlends seljanda. Menningarleg samkeppnishæfni Íslands er síðan yfirskrift næsta erindis sem Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri flytur. Að þessu loknu verða umræður og fyrirspurnir áður en tekið verður hádegishlé. Ráðstefnu- og tónlistarhús, ný Ferðamálastofa og lokaverkefnisverðlaun Að loknu hádegishléi verður kynning á nýju ráðstefnu- og tónlistarhúsi í Reykjavík sem Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar ehf., annast. Þá mun Magnús Oddsson, ferðamálastjóri fara yfir væntanlegar breytingar á Ferðamálaráði með stofnun Ferðamálastofu um næstu áramót. Afhending lokaverkefnisverðlauna Ferðamálaseturs Íslands fyrir árið 2005 fylgir í kjölfarið og þá almennar umræður og afgreiðsla ályktana. Ráðstefnuslit eru áætluð kl 16:00. Afhending umhverfisverðlauna FerðamálaráðsUm kvöldið er móttaka í boði samgönguráðherra og í kjölfarið hefst kvöldverður og skemmtun. Þar fer samkvæmt venju fram afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2005.   Kynning á ferðaþjónustu svæðisinsDaginn eftir, þ.e. föstudaginn 28. október, verður vettvangsferð og kynning á ferðaþjónustu svæðisins. Hefst hún kl. 10 og verður farið frá Hótel Sögu. Dagskrá skoðunarferðar PDF-skjal Skráning á ferðamálaráðstefnu 2005 - opna skráningareyðublað Dagskrá: Dags.:  27. og 28.  október 2005Staður:  Reykjavík, Radisson SAS Hótel Saga            Dagskrá: Fimmtudagur 27. októberkl. 09:00 Skráning og afhending gagnakl. 09:30 Setning kl. 09:35 Ávarp samgönguráðherra, Hr. Sturla Böðvarssonkl. 09:55 Ávarp borgarstjóra, Steinunn Valdís Óskarsdóttir kl. 10:05 Kaffihlé kl. 10:25 Samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu              Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group kl. 10:45 Markaðsleg samkeppnishæfni Íslands, frá sjónarhorni erlends seljanda              Anneke Dekker, framkvæmdastjóri Island Tours Hollandikl. 11:05 Menningarleg samkeppnishæfni Íslands               Tinna Gunnlaugsdóttir, þjóðleikhússtjóri kl. 11:25 Umræður og fyrirspurnir kl. 11:45 Hádegisverðarhlé kl. 13:00 Kynning á nýju ráðstefnu- og tónlistarhúsi í Reykjavík               Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar ehf. kl. 13:30 Ferðamálastofa  vs. Ferðamálaráð, hvers ber að vænta?               Magnús Oddsson, ferðamálastjórikl. 14:00 Fyrirspurnirkl. 14:15 Afhending lokaverkefnisverðlauna Ferðamálaseturs Íslands fyrir árið 2005 kl. 14:30 Kaffihlé kl. 14:50 Almennar umræður og afgreiðsla ályktanakl. 16:00 Ráðstefnuslit kl. 18:00 Móttaka í boði samgönguráðherra og Höfuðborgarstofu í Listasafni Reykjavíkur,                  Ath. safnið opnar kl 17:00 fyrir þá sem vilja kynna sér sýningar safnsins kl. 19:30 Strætó frá Listasafni Reykjavíkur að Hótel Sögukl. 20:00 Kvöldverður og skemmtun, skráning hjá Ferðamálaráði                 Afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2005 Dagskrá: Föstudagur 28.  októberkl. 10:00 Vettvangsferð og kynning á ferðaþjónustu svæðisins Ráðstefnustjórar:  Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar  Ragnheiður Ríkharðsdóttir bæjarstjóri Mosfellsbæjar   Dagskrá ferðamálaráðstefnu 2005 ? prentvæn útgáfa (PDF)  
Lesa meira

Ferðamálaráð auglýsir eftir lögfræðingi til starfa

Ferðamálaráð Íslands hefur auglýst eftir lögfræðingi á skrifstofu sína á Akureyri í 60% starf. Starfsmaðurinn mun sinna almennum lögfræðistörfum með sérstakri vísan til framkvæmdar laga um skipan ferðamála. Líkt og fram hefur komið taka ný lög um skipan ferðamála gildi um næstu áramót. Meðal breytinga er að Ferðamálaráð sem stofnun fær aukin stjórnsýsluleg verkefni, ásamt því sem nafni hennar verður breytt í Ferðamálastofa. Stofnunin mun áfram sinna öllum þeim verkefnum sem verið hafa á hennar könnu hingað til og við bætist umfangsmikill málaflokkur sem snýr að útgáfu ýmissa leyfa í ferðaþjónustu, skráningu á starfsemi og eftirliti með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt. Þetta tekur m.a. til ferðaskrifstofuleyfa og ferðaskipuleggjendaleyfa. Auglýsing um nýtt starf tengist ofangreindum breytingum.  Umsóknarfrestur er til 2. nóvember og umsækjendur eru beðnir að sækja um starfið á heimasíðu Mannafls-Liðsauka.
Lesa meira

Fl Group boðar miklar skipulagsbreytingar og kaupir Sterling

Samningar hafa verið undirritaður um kaup FL Group á danska lággjaldaflugfélaginu Sterling fyrir fyrir um 15 milljarða íslenskra króna, sem mun þó er tengt afkomu næsta árs. Grundvallarbreytingar verða gerðar á uppbyggingu FL Group sem fela m.a. í sér aukningu hlutafjár úr 21 milljarði að markaðsvirði í 65 milljarða. Hannes Smárason verður forstjóri FL Group sem eftir breytinguna mun einbeita sér að fjárfestingarstarfsemi og verður eitt stærsta fjárfestingafélag landsins. Flug- og ferðaþjónusturekstur verður skilinn frá fjárfestingastarfsemi og honum skipt upp í 4 sjálfstæð félög í eigu FL Group þar sem Sterling verður fjórða félagið. Icelandair GroupUndir Icelandair Group, heyrir alþjóðlegur flugrekstur, þ.e. Icelandair, Flugleiðir Frakt, Loftleiðir-Icelandic, Tækniþjónustan Keflavíkurflugvelli og Flugþjónustan Keflavíkurflugvelli. Velta þessara félaga er samtals um 33 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 2000. Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, hefur verið ráðinn forstjóri Icelandair Group. FL Travel GroupÞau fyrirtæki sem annast ferðaþjónustu á Íslandi, þ.e. Flugfélag Íslands, Ferðaskrifstofa Íslands, Flugleiðahótel, Íslandsferðir, Kynnisferðir og Bílaleiga Flugleiða, munu heyra undir FL Travel Group og hefur Þorsteinn Örn Guðmundsson framkvæmdastjóri hjá FL Group verið ráðinn forstjóri þess. Velta þessara félaga er samtals um 11 milljarðar króna og starfsmannafjöldi um 500. FlugflutningarRekstur Bláfugls og Flugflutninga verður gerður að sjálfstæðu fyrirtæki og þar hefur verið mörkuð stefna um aukinn vöxt í alþjóðlegu fraktflugi. Þórarinn Kjartansson hefur verið ráðinn forstjóri þess félags og samkomulag er um að Einar Ólafsson verði stjórnarformaður. Sterling fjórða stærst í EvrópuSterling verður síðan sem fyrr segir fjórða rekstrarfélagið innan FL Group. Nýlega var Maersk Air sameinað Sterling og er sameinað félag nú fjórða stærsta lágfargjaldaflugfélag Evrópu með um 1.800 starfsmenn. Félagið rekur 30 flugvélar af gerðinni Boeing 737 og er áætlað að félagið flytji á næsta ári um 5,2 milljónir farþega til 46 áfangastaða víðsvegar um Evrópu. Félagið flýgur einkum milli borga í Skandinavíu og Evrópu. Skýr markmið um vöxt og arðsemi?Þessar breytingar eru gerðar til að framkalla skarpari áherslu á reksturinn í þessum félögum. Til verða öflug eignarhaldsfélög hvert á sínu sviði með skýr markmið um vöxt og arðsemi undir stjórn frábærra stjórnenda. Skilin eru orðin ennþá skýrari á milli rekstrarfélaga og fjárfestingastarfseminnar en verið hefur,? segir Hannes Smárason, forstjóri FL Group í fréttatilkynningu frá félaginu. Fréttatilkynning FL Group í heild
Lesa meira

Styttist í opnun sameiginlegs Evrópuvefs

Eins og kom fram í frétt hér á vefnum fyrr í vikunni var aðalfundur Ferðamálaráðs Evrópu haldinn í Vín fyrri hluta vikunnar og þar samþykkt sérstök yfirlýsing um ferðamál. Magnús Oddsson ferðamálastjóri sat fundinn af hálfu Íslands ásamt ferðamálastjórum þeirra rúmlega þrjátíu landa sem eiga aðild að ráðinu. Samkeppnishæfnin efst á baugiAð þessu sinni stóð fundurinn í þrjá daga, sem er óvanalegt, en ástæða þess var að til hans var boðið fjölda sérfræðinga í ferðaþjónustu í Evrópu til að fjalla um stöðu og horfur í greininni. ?Mér þótti tvennt standa upp úr í þessari umræðu,? segir Magnús. ?Í fyrsta lagi hve allir eru uppteknir af umræðunni um samkeppnishæfni og þá í þessu tilliti samkeppnishæfni Evrópu. Þar sem allar spár gera ráð fyrir að umfang í ferðaþjónustu í heiminum muni tvöfaldast á næstu 15 árum og Evrópa hefur verið að tapa markaðshlutdeild þá er ekki óeðlilegt að þetta sé meginumræðuefnið þegar rætt er um stöðu og horfur. Gunther Verheugen, einn af framkvæmdastjórum EU, sagði að ljóst væri að Asía væri að fara fram úr Evrópu hvað varðaði gæði og því væri stærsta verkefni Evrópu í ferðamálum að bæta samkeppnishæfni í ljósi þess að við hefðum dregist aftur úr,? segir Magnús. En þess má geta hér að það er einmitt samkeppnishæfni sem verður meginumræðuefni ferðamálaráðstefnunnar sem hefst á fimmtudaginn í Reykjavík. Metnaðarfullt verkefniHitt sem Magnúsi fannst standa upp úr frá aðalfundinum var umræðan um rafræna kynningu og markaðssetningu. ?Það er búið á okkar vegum að vinna í tvö ár að gerð sameiginlegs vefs Evrópu og hefur verkefnið kostað um 300 milljónir íslenskra króna. Þetta tæki til kynningar og markaðssetningar er mjög metnaðarfullt og gefur öllum aðildarþjóðunum mörg tækifæri sem nauðsynlegt er að nýta. Kerfið og möguleikar þess verða eðlilega kynnt nánar fyrir greininni á næstu mánuðum, en gert er ráð fyrir fyrstu opnun 15. janúar gagnvart Bandaríkjamarkaði,? segir Magnús.  
Lesa meira

Skráning hafin á ITB í Berlín

 Skráning er nú hafin á ITB í Berlín, eða Internationale Tourismus-Börse, sem er ein stærsta ferðasýning í heimi Að þessu sinni stendur sýningin yfir dagana 8.-12. mars 2006. Skráningarfrestur er til 1. desember næstkomandi. Sýningin hefur verið haldin árlega í á þriðja áratug. Ferðamálaráð Íslands hefur tekið þátt í henni frá upphafi og kynnt þar Ísland og íslenska ferðaþjónustu. Líkt og á öðrum ferðasýningum erlendis býðst íslenskum ferðaþjónustuaðilum að fá aðstöðu í bás Ferðamálaráðs gegn föstu gjaldi. Ferðamálaráð sér um að útbúa básana og skapa mönnum aðstöðu til að hitta viðskiptavini sína en síðan er undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið sem best. Sýningarstandar Ferðamálaráðs á þessum sýningum standa einnig opnir erlendum fyrirtækjum er koma að sölu Íslandsferða. Sýningarbás Ferðamálaráðs Íslands á ITB er hluti af sameiginlegu sýningarsvæði Norðurlandanna. Smellið hér fyrir nánari upplýsingar og skráningu á ITB Mynd: Frá ITB ferðasýningunni í Berlín.  
Lesa meira

Skoðunarferð á Ferðamálaráðstefnunni

Í tengslum við Ferðamálaráðstefnuna 2005 bjóða Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins ráðstefnugestum upp á skoðunarferð að morgni föstudagsins 28. október. Þar verða kynntar helstu nýjungar í ferðaþjónustu svæðisins. Ferðin hefst kl. 10 við Radisson SAS Hótel Sögu og lýkur um kl. 12:30 eftir að léttur hádegisverður hefur verið snæddur í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík. Hægt er að tilkynna þátttöku í skoðunarferðina um leið og fólk skráir sig á ráðstefnuna eða á móttökuborði á ráðstefnunni sjálfri á fimmtudeginum. Dagskrá skoðunarferðar PDF-skjal  
Lesa meira