Fréttir

50,5 milljónir króna í samstarfi um markaðssetningu innanlands

Lokið hefur verið við að fara yfir umsóknir um samstarfsverkefni Ferðamálaráðs um auglýsingar á íslenskri ferðaþjónustu sem hvetja eiga Íslendinga til ferða um eigið land. Umsóknir voru 32 talsins og hefur verið ákveðið að ganga til samstarfs við 17 umsækjendur. Í boði voru samstarfsverkefni þar sem framlag Ferðamálaráðs var annars vegar hálf milljón króna í 9 verkefni og hins vegar samstarfsverkefni þar sem framlag Ferðamálaráðs var 1,0 milljón í 8 verkefni, þ.e. samtals 12,5 milljónir króna. Skilyrði var að samstarfsaðilar legðu fram a.m.k. jafnt á við Ferðamálaráð og nutu þeir forgangs sem að öðru jöfnu voru reiðubúnir að leggja fram meira fé. Sérstaklega var litið til verkefna utan háannar og á landsvísu. Ákveðið hefur verið að ganga til samstarfs við 17 umsækjendur og er mótframlag þeirra alls 38 milljónir króna. Að viðbættum 12,5 milljónum króna frá Ferðamálaráði er heildarupphæðin sem fer til markaðssetningar innanlands í tengslum við þessi verkefni því 50,5 milljónir króna. Samstarfsaðilar um 0,5 milljóna kr. framlag frá Ferðamálaráði Hafnarfjarðarbær Sæferðir ehf Höldur ehf / Bílaleiga Akureyrar Akraneskaupstaður Radisson SAS Hótel Saga Samband sveitafélaga Suðurnesjum Kynnisferðir ehf Teitur Jónasson ehf Ísafjarðarbær Samstarfsaðilar um 1,0 milljón kr. framlag frá Ferðamálaráði: Bláa Lónið hf Höfuðborgarstofa Draugasetrið Atvinnu-og ferðamálafulltrúi Rangárþingi og Mýrrdal Iceland Excursions Allrahanda Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Bílaleiga Flugleiða ehf, /HERTZ bílaleiga Markaðsstofa Austurlands  
Lesa meira

Framtíð ferðaþjónustunnar í Skagafirði

Þriðjudaginn 7. júní verður blásið til kynningarfundar um stefnumótunarverkefnið "Ferðaþjónusta til framtíðar ? atvinnulíf og íbúar". Um er að ræða samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Skagafjarðar og ferðamáladeildar Hólaskóla. Fundurinn hefst klukkan 20.00 og er haldinn í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Húsið verður opnað klukkan 19.30 og þá gefst gestum kostur á því að njóta sýnishorna úr Matarkistunni Skagafirði. Í frétt frá þeim sem að verkefninu standa kemur fram að Sveitarfélagið Skagafjörður hefur ákveðið að vinna stefnumótun fyrir ferðaþjónustu í Skagafirði fyrir árin 2006-2010. Var samið við ferðamáladeild Hólaskóla um umsjón með og vinnu við gerð stefnumótunarinnar. Gildi ferðaþjónustu fyrir efnahags- og atvinnulíf á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og Skagfirðingar búa yfir margvíslegum auðlindum á sviði náttúru, mannlífs og menningar sem fela í sér sóknarfæri fyrir ferðaþjónustuna.  Samkeppni áfangastaða um hylli ferðamannsins fer hinsvegar sífellt harðnandi og því er mikilvægt að framtíðarsýnin um uppbyggingu skagfirskrar ferðaþjónustu sé skýr og vel mótuð. Áhersla verður lögð á virkni grasrótarinnar í stefnumótunarferlinu þannig að sem víðtækust samstaða verði um niðurstöður. Það er því óskað eftir þátttöku fyrirtækja í þjónustu við ferðafólk, hins almenna íbúa og sveitarstjórnarfólks í verkefninu. Stefnumótunarvinnunni er þannig ætlað að verða gott tækifæri til að efla umræðu og vitund um ferðaþjónustuna í Skagafirði og um framtíð hennar. Ætlunin er að stefnumótuninni ljúki í upphafi næsta árs. Vinna við undirbúning hennar er þegar hafin með víðtækri upplýsingaöflun um ferðaþjónustuna í firðinum. Það er von þeirra sem að fundinum standa að sem flestir mæti og taki frá upphafi virkan þátt í því að móta framtíðarsýn ferðaþjónustu í Skagafirði. Fólkið á bakvið tjöldin ? þeir aðilar sem unnið hafa undirbúningi fundarins.
Lesa meira

Loftferðasamningur á milli Íslands og Indlands í burðarliðnum

Samkomulag hefur náðst við indversk stjórnvöld um efni loftferðasamnings milli Íslands og Indlands. Var bókun um niðurstöður samningsgerðarinnar undirrituð í Ráðherrabústaðnum í gær að viðstöddum dr. A.P.J. Abdul Kalam forseta Indlands og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra. Samningurinn ásamt viðauka og bókun felur m.a. í sér heimild fyrir tilnefnd flugfélög til að fljúga allt að 14 ferðir í viku milli landanna með tengingum við annað flug þ.e. bæði viðkomum á leiðinni og flugi áfram til annarra áfangastaða. Þá er staðfest í bókuninni heimild til að stunda fragtflug eftir þörfum svo og víðtæk heimild til að fljúga með ferðamannahópa í svonefndum pakkaferðum. Segir utanríkisráðuneytið, að um sé að ræða einn hagkvæmasta loftferðasamning sem gerður hafi verið af Íslands hálfu. Samkvæmt bókuninni sem nú var undirrituð verður samningnum fylgt hér eftir meðan lokaundirbúningur að formlegri undirritun hans stendur yfir en miðað er við að undirritunin fari fram síðar á þessu ári. Að samningsgerðinni unnu utanríkisráðuneytið, samgönguráðuneytið og Flugmálastjórn auk sendiráðsins í London. Fulltrúar flugrekenda voru til ráðgjafar við samningsgerðina. -- Í samninganefndinni voru þau Ólafur Egilsson, sendiherra, formaður, Sverrir H. Gunnlaugsson, sendiherra gagnvart Indlandi, Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri samgönguráðuneytisins, Halldór S. Kristjánsson skrifstofustjóri, Þorgeir Pálsson flugmálastjóri, Kristín Helga Markúsdóttir lögfræðingur og Ástríður S. Thorsteinsson lögfræðingur. Fulltrúar flugrekenda voru þeir Einar Björnsson og Sveinn Zoega frá Air Atlanta Icelandic, Þórarinn Kjartansson og Bjarki Sigfússon frá Bláfugli, Pétur J. Eiríksson frá Icelandair Cargo, og Gunnar Már Sigurfinnsson og Hrafn Þorgeirsson frá Icelandair.
Lesa meira

Skýrsla starfshóps um vegi og slóða í óbyggðum

Á dögunum gengust Landvernd og Umhverfisstofnun fyrir málþingi um akstur utan vega. Málþingið var ágætlega sótt og tókst að varpa ljósi á vandamál utanvegaaksturs frá ýmsum sjónarhornum og hvað sé til ráða. Á málþinginu var meðal annars kynnt skýrsla starfshóps sem umhverfisráðherra skipaði til að gera tillögur um hvaða vegir og slóðar í óbyggðum skyldu teljast til vega með hliðsjón af ákvæðum í náttúruverndarlögum um bann við akstri utan vega. Jafnframt skilaði starfshópur tillögum um hvernig skuli unnið að því að koma í veg fyrir utanvegaakstur. Meðal helstu niðurstaðna er að gera þurfi átak í kortlagningu slóða og skilgreinina hvernig og hvort þeir skuli nýttir. Einnig þurfi að setja nýja reglugerð um akstur utan vega og síðast en ekki síst þurfi að auka fræðslu og kynningu á þessu viðfangsefni. Í þessu sambandi má benda á að Ferðamálaráð leitast við að koma reglum um akstur til skila í kynningarefni sínu, bæði prentuðu efni og á vefnum. Á vefnum ferdalag.is, sem er ferðavefur fyrir Íslendinga, er t.d. rækilega farið yfir akstur í óbyggðum. Skýrsla starfshóps um vegi og slóða í óbyggðum (PDF-1 MB) Mynd: Hér er farið eftir settum reglum og ekið á veginum./Ingi Gunnar Jóhannsson  
Lesa meira

Nám í svæðisleiðsögn á Norðurlandi eystra og Skagafirði

Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar (Símey) mun í haust bjóða uppá nám í svæðisleiðsögn á Norðurlandi eystra og Skagafirði. Námið fer fram samkvæmt námsskrá Menntamálaráðuneytis og er því 204 klukkustundir sem samsvarar 17 einingum. Í frétt frá Símey kemur fram að kennt verður frá Akureyri en einnig verður boðið upp á námið, að hluta til, í gegnum fjarfundabúnað til Sauðárkróks og Húsavíkur fáist næg þátttaka frá þeim stöðum. Umsækjendur þurfa að vera 21 árs, hafa stúdentspróf, sambærilega menntun  eða reynslu.  Þeir verða að hafa gott vald á íslensku og auk þess a.m.k. einu erlendu tungumáli. Inntökupróf er munnlegt á því tungumáli sem viðkomandi ætlar að leiðsegja á og verður þreytt næsta haust í byrjun september. Kennsla mun fara fram á laugardögum og hefst um miðjan september næstkomandi. Vefur Símey Mynd: Við hverasvæðið austan Námaskarðs í Mývatnssveit/Ferðamálaráð
Lesa meira

Ferðamálafulltrúar í heimsókn

Í gærdag kom hópur ferðamálafulltrúa af öllu landinu í heimsókn á skrifstofu upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri. Tilgangurinn var að fræðast um starfsemi ráðsins og stilla saman strengi. Í heimsókninni fóru Elías B. Gíslason forstöðumaður og annað starfsfólk upplýsinga- og þróunarsviðs yfir helstu verkefni sviðsins og Ferðamálaráðs almennt. Þá var ferðamálafulltrúum kynnt ný þingsályktunartillaga um ferðamál og væntanleg lög um skipan ferðamála sem taka gildi um næstu áramót. Frá Akureyri fór hópurinn í kynnisferð í Mývatnssveit og Húsavík. Ferðamálafulltrúar ásamt starfsfólki upplýsinga og þróunarsviðs Ferðamálaráðs.Mynd: Ferðamálaráð
Lesa meira

Skráning á World Travel Market 2005

Líkt og undanfarin ár tekur Ferðamálaráð þátt í World Travel Market ferðasýningunni í London. Íslenskum ferðaþjónustuaðilum býðst að fá aðstöðu í bás ráðsins gegn föstu gjaldi og nú er komið hér inn á vefinn skráningarblað fyrir sýninguna. World Travel Market er ein stærsta ferðasýning í heimi og haldin árlega. Að þessu sinni fer hún fram dagana 14.-17. nóvember og er í ExCel sýningarhöllinni í London líkt og undanfarin ár. Sýningin er opin 2 daga fyrir ferðaþjónustuaðila ( trade) og 2 daga fyrir almenning. Ferðamálaráð sér um að útbúa básana og skapa mönnum aðstöðu til að hitta viðskiptavini sína en síðan er undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið sem best. Skráningu lýkur 13. júní.Hér fyrir neðan er tengill á eyðublað til skráningar í íslenska sýningarbásinn á World Travel Market 2005 en vakin er athygli á því að skráningu lýkur 13. júní. Einnig er tengill á heimasíðu sýningarinnar og mynd af íslenska básnum 2004. Skráning á WTM 2005 (PDF-skjal) Heimasíða sýningarinnar Mynd af íslenska sýningarbásnum á WTM 2004 (PDF-skjal) Nánari upplýsingar um sýningar í Bretlandi veitir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi sigrunh@icetourist.is Sími: 535 5500  
Lesa meira

Námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva haldið á menntabrúnni

Ferðamálaráð heldur námskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva þriðjudaginn 7. júní næstkomandi kl. 12:45-15:15. Í fyrra var bryddað upp á þeirri nýbreytni að halda námskeiðið á menntabrúnni og verður svo einnig nú. Móttökustaðir verða í símenntunarmiðstöðvunum á Egilsstöðum, Höfn, Selfossi, Reykjavík, Ísafirði, Borgarnesi, Sauðárkróki og Akureyri. Fyrirlesarar á námskeiðinu verða Elías Bj. Gíslason forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri, Drífa Magnúsdóttir, verkefnastjóri upplýsingamiðstöðvar Höfuðborgarstofu og Erla Björg Guðmundsdóttir rekstrar- og viðskiptafræðingur. Mikilvægt er að a.m.k. nýtt starfsfólk komi á námskeiðið. Þýðingarmikið er að skapa tengsl á milli stöðva auk þess sem yfirbragð stöðvanna verður líkara innbyrðis ef sem flestir starfsmenn hafa setið námskeið. Þátttökugjald er 2.900 og skráning fer fram í gegnum netfangið: upplysingar@icetourist.is eða í síma: 464-9990. Áhugasamir eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig fyrir 3. júní næstkomandi. Lágmarks fjöldi þátttakenda á hverjum stað er fjórir. Dagskrá:: 12:45 ? 13:00 Skráning þátttakenda og afhending gagna. 13:00 ? 13:10 Af hverju upplýsingamiðstöðvar og fyrir hverja?   Elías Bj. Gíslason,  forstöðumaður Ferðamálaráði Íslands        13:10 ? 13:50 Daglegt starf á upplýsingamiðstöð.    Drífa Magnúsdóttir,  verkefnastjóri upplýsingamiðstöðvar Höfuðborgarstofu    13:50 ? 14:00 Kaffi 14:00 ? 15:00 Gæðavíddir þjónustu.    Erla Björg Guðmundsdóttir, rekstrar- og viðskiptafræðingur       15:15   Námskeiðslok  Þátttaka tilkynnist í síma 464 9990 eða á netfangið: upplysingar@icetourist.is fyrir 3. júní næstkomandi. Mynd: Frá Neðstakaupstað á Ísafirði/Ingi Gunnar Jóhannsson. 
Lesa meira

Beint flug á milli Egilsstaða og Kaupmannahafnar

Í gærkvöld lenti á Egilsstaðaflugvelli 120 sæta vél Aurela Air í Litháen. Hún verður í sumar í vikulegum ferðum á milli Kaupmannahafnar og Egilsstaða á vegum ferðaskrifstofunnar Trans-Atlantic á Akureyri. Í fréttum RÚV var haft eftir forsvarsmönnum Trans-Atlantic að stærsti einstaki notandi þessarar þjónustu verði til að byrja með ítalska verktakafyrirtækið Impregilo. Þá kom fram að framtíðaráform varðandi flugið felist í að markaðssetja Austur og Norðausturland fyrir skandinavískum ferðamönnum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem beint flug erlendis frá er á Egilsstaðaflugvöll því þýska flugfélagið LTU flaug þangað í tvö sumur, árin 2002 og 2003. Þar var þó raunar um millilendingu að ræða á leið til Keflavíkur.  Ferðaskrifstofa Austurlands á Egilsstöðum sér um sölu og bókanir í tenglum við umrætt flug til og frá Kaupmannahöfn. Má geta þess að bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti fyrr í vor að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við Ferðaskrifstofu Austurlands um að sveitarfélagið tryggi sölu á allt að 100 farmiðum í beinu flugi til Kaupmannahafnar á þessu ári. Á myndinni er vél Aurela Air á Egisstaðaflugvelli.Mynd: Ferðaskrifstofa Austurlands
Lesa meira

Iceland Express hefur flug til Þýskalands

Á morgun bætist þriðji áfangastaðurinn við leiðakerfi Iceland Express þegar félagið hefur reglubundið áætlanaflug á milli Frankfurt Hahn flugvallar í Þýskalandi og Keflavíkur. Fyrir er félagið sem kunnugt er með London og Kaupmannahöfn í áætlun sinni. Iceland Express mun fljúga til Frankfurt Hahn þrisvar í viku til 17. september, á þriðjudögum, miðvikudögum og laugardögum. Flugið tekur um 3 klst og 25 mínútur. Flugvöllurinn Frankfurt Hahn er staðsettur í miðju Hunsrück héraði í vestanverðu Þýskalandi, á milli fljótanna Mósel, Rínar, Nahe og Saar. Flugvöllurinn er ekki fjarri því að vera miðja vegu á milli Frankfurt og Luxemburgar en um 130 km er til Frankfurt og 100 km til Luxemborgar. Þá eru um 70 km til Trier, 290 km til Brussel og 470 km til Parísar, svo nokkrir vel þekktir staðir séu nefndir. Við Frankfurt Hahn var áður herstöð Bandaríkjamanna en völlurinn á nú að baki rúmlega áratugs sögu sem alþjóðlegur flugvöllur og er þekktur áfangastaður lággjaldaflugfélaga.
Lesa meira