Fara í efni

Niðurstöður þarfagreiningar fyrir menntun í ferðaþjónustu

Tekjukönnun SAF fyrir mars
Tekjukönnun SAF fyrir mars

Lokaskýrsla um þarfagreiningu fyrir menntun og fræðslu í ferðaþjónustu á Íslandi var kynnt á morgunverðarfundi Samtaka ferðaþjónustunnar fyrr í vikunni. Skýrslan er mikil að vöxtum enda verkefnið viðamikið.

Verkefnið var unnið að frumkvæði Samtaka ferðaþjónustunnar í samstarfi við Starfsgreinaráð um náttúrunýtingu, Starfsafl, Landsmennt og Starfsmenntasjóð verslunar- og skrifstofufólks og með styrk frá Starfsmenntasjóði félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneyti. Í skýrslunni segir að meginmarkmið rannsóknarinnar hafi verið:

  • Að varpa ljósi á hverjar þarfir ólíkra hópa, greina og sviða innan ferðaþjónustunnar eru.
  • Að varpa ljósi á efnisþætti er tengjast skipulagi og stefnumörkun varðandi uppbyggingu náms og fræðslu í ferðaþjónustu á öllum stigum.
  • Að varpa ljósi á hvort og hvernig aukin hæfni og menntun geti nýst atvinnugreininni.

Í lokaorðum um niðurstöður skýrslunnar segir m.a. að starfsmenn og stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu telji að þörf sé fyrir framboð náms og námskeiða á sviði ferðaþjónustu á framhaldsskólastigi, háskólastigi og í símenntun. Þörf sé fyrir sérhæft nám, starfsnám, alþjóðleg tengsl og sérhæfða símenntun. ?Um þessa þætti virðist ríkja almennt samkomulag þó svo að ljóst sé að tímaskortur og skortur á viðeigandi framboði komi helst í veg fyrir að fólk í greininni sæki nám eða námskeið,? segir í skýrslunni.

Fundurinn þar sem skýrslan var kynnt var vel sóttur og hófst á ávarpi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur menntamálaráðherra. Að erindi ráðherra loknu kynntu þær Sigríður Þrúður Stefánsdóttir og Arney Einarsdóttir könnunina. Á fundinum var dreift myndum sem sýna tillögur um aðgerðir, niðurstöður rýnihópa og niðurstöður viðhorfskönnunar. Í lok fundarins dró Jón Torfi Jónasson prófessor saman helstu atriði. Glærur frá fundinum og myndir, ásamt skýrslunni í heild, má nálgast á vef SAF.

Mynd: Við Seljalandsfoss /Elías Bj. Gíslason