Fréttir

Vilt þú halda erindi á alþjólegri ráðstefnu?

Nú styttist í að renni út frestur til að skila inn útdráttum að erindum á alþjóðlega ráðstefnu sem Ferðamálasetur Íslands, í samvinnu við Nordisk Selskab for Turismeforskning, heldur á Akureyri dagana 22 til 24 september í haust. Ráðstefnan, The 14th Nordic Symposium in Tourism and Hospitality Research, er vettvangur norrænna fræðimanna sem vinna að rannsóknum um ferðamál og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Yfirskrift ráðstefnunnar er ?Menning og samfélag-Umhverfi- Efnahagslíf?.  Ráðstefnan verður að hluta til haldin samhliða ráðstefnu um byggða- og svæðaþróunarmál á vegum Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri. Virtir aðallfyrirlesararMjög virtir aðalfyrirlesarar verða með erindi á ráðstefnunni.  Simon Milne, forstöðumaður ferðamálaseturs Nýja Sjálands, mun halda erindi fimmtudaginn 22. september.  Dirk Glaesser, yfirmaður upplýsingasviðs World Tourism Organization á Spáni og Stephen Ball, formaður samtaka fræðimanna um rekstur ferðaþjónustufyrirtækja í Bretlandi, munu halda erindi sín á föstudagsmorgni og Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, klukkan tvö sama dag.  Á laugardag fjallar John Hull, fræðimaður frá Kanada, um möguleika sjálfbærrar ferðaþjónustu innan þjóðgarða. Skilafrestur til 5. júlíErindi á ráðstefnunni eru skipulögð í 30 mínútur hvert og er innan þess tímaramma gert ráð fyrir svörum við fyrirspurnum úr sal.  Yfir 60 útdrættir hafa nú þegar borist erlendis frá.  Íslenskir aðilar hafa frest til 5. júlí til að skila inn útdrætti fyrir erindi sín.  Þeir sem hafa áhuga á að vera með erindi á ráðstefnunni eða hug á að fylgjast með erindum geta haft samband við Ferðamálasetur Íslands þar sem fjöldi þeirra sem tekið geta þátt í ráðstefnunni er takmarkaður.  Skráningargjald er 34.000 krónur fyrir alla dagana og eru þá kaffiveitingar, hádegisverður og kvöldverður innifalið í gjaldinu. Hægt er að skrá sig einungis föstudag eða laugardag og er gjaldið þá 15.000 krónur fyrir daginn en kvöldverður er þar ekki innifalinn. Nánari upplýsingar er að finna á http://www.fmsi.is eða hjá Helga Gestssyni og Guðnýju Pálínu Sæmundsdóttur hjá FMSÍ í síma 460 8934.
Lesa meira

Mikilvægt að fylgjast með ástandi fjallvega

Stærstur hluti af hálendisvegum hefur nú verið opnaður fyrir umferð. Enn eru þó nokkrar leiðir ófærar vegna snjóskafla og aurbleytu og því mikilvægt fyrir starfsfólk hjá bílaleigum og aðra sem starfa í ferðaþjónustu að brýna fyrir fólki að afla sér upplýsinga áður en lagt er af stað. Allar leiðir á sunnanverðu hálendinu eru opnar, sem og meginleiðirnar þvert yfir hálendið, Kjölur og Sprengisandsleið. Hins vegar eru leiðir upp úr Skagafirði og Eyjafirði enn lokaðar, sem og Gæsavatnaleið og vegir á Arnarvatnsheiði. Þá hefur ekki verið opnað frá Hveravöllum í Þjófadali og fleiri leiðir mætti nefna. Getur reynst hættulegtVegagerðin gefur vikulega út kort með ástandi fjallvega og mikilvægt er fyrir starfsfólk hjá bílaleigum og aðra sem starfa í ferðaþjónustu að brýna fyrir fólki að kynna sér það, ekki síst nú þegar flestar leiðir eru opnar en leiðir sem af þeim liggja lokaðar. Í fyrradag reyndi til að mynda ferðafólk litlum jeppa að aka af Sprengisandsleið, sem er opin, niður í Eyjafjörð en sú leið er ófær. Fólkið festi bíl sinn í aurbleytu skammt frá Laugafelli. Eftir að hafa hafst við í bílnum yfir nótt ákvað það að freista þess í gærmorgun að ganga til byggða, um 30 km leið. Þar sem vegurinn er lokaður er engin umferð um hann og var fólkið komið langleiðina til byggða, aðframkomið af þreytu, þegar ekið var fram á það síðdegis í gær. Það varð fólkinu til happs að veður var fremur gott, annars hefði getað illa farið. Engar merkingar eru á sjálfum vegunum sem gefa til kynna að leiðir séu lokaðar og meðan svo er ríður á að starfsfólk í ferðaþjónustu sé vakandi fyrir að upplýsa viðskiptavini sína. Mynd: Smári Sig. Kort um ástand fjallvega
Lesa meira

Aukinn réttur flugfarþega

Þriðja tölublað vefrits samgönguráðuneytisins, Samferð, er komið út. Það er að þessu sinni vera helgað kynningu á nýrri reglugerð sem kveður á um aukin réttindi flugfarþega vegna vanefnda flugfélaga. Reglugerðin tók gildi þann 21. júní sl. og innleiðir í íslenskan rétt reglugerð Evrópusambandsins. Hún hefur að geyma samevrópskar reglur um skaðabætur og aðstoð til handa farþegum sem neitað er um far og þegar flugi er aflýst eða mikil seinkun verður. Vefrit ráðuneytisins  
Lesa meira

Þjónustu- og sölunámskeið á Suðurlandi

Þriðjudaginn 21. júní verður haldið þjónustu- og sölunámskeið fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva og aðra þá sem veita upplýsingar og þjóna ferðamönnum á Suðurlandi. Námskeiðið verður haldið  í Hvoli Hvolsvelli kl 9.45 ? 16.30 . Námskeiðið miðar að því að gera þátttakendur meðvitaðri um mikilvægi þjónustu og sölu í allri ferðaþjónustu og þjálfa mikilvæg atriði því tengd. Einnig er lögð áhersla á að starfsmenn ýmissa aðila í ferðaþjónustu kynnist og geti þannig veitt betri þjónustu á svæðinu í heild. Lögð er áhersla á að þátttakendur taki virkan þátt í námskeiðinu m.a. með verkefnavinnu.Námskeiðsgjald er 1.800 kr. Á námskeiðinu verður fjallað um þætti sem að:- stuðla að endurkomu í upplýsingamiðstöð og á aðra áningastaði- vinna að árangursríkri sölu- hafa áhrif á kauphegðun- koma á viðskiptum sem skila sér í árangursríkri sölu- meðhöndla vöru- og loka sölu Leiðbeinendi á námskeiðinu er Davíð Samúelsson leiðsögumaður og ferðamála-fræðingur. Dagskrá - þriðjudagur 21. júní: kl. 9.45-10.00 Morgunhressing og létt spjallkl. 10.00-10.30 Kynningkl. 10.30-12.00 Þjónusta og sala I kl. 12.00-13.30 Hádegismatur og á vit ævintýrannakl. 14.00-16.30 Þjónusta og sala II Skráning hjá atvinnu-og ferðamálafulltrúa Rangárþings og Mýrdals í síma 487 5020 / 893 5020 eða í tölvupósti: atvinnuferda@atvinnuferda.is síðasti dagur skráningar er á hádegi mánudaginn 20.06. Myndin: Frá vélsleðaferð á Mýrdalsjökli.
Lesa meira

Opinn kynningarfundur um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til Evrópu

Efnt verður til opins kynningarfundar á Hótel KEA þriðjudaginn 21. júní kl. 12.10-13.20. Þar verður kynnt verkefni sem Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri (RHA) hefur unnið að á undanförnum mánuðum undir heitinu: Millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til Evrópu. Njáll Trausti Friðbertsson, viðskiptafræðingur og flugumferðarstjóri, mun kynna verkefnið og niðurstöður þess fyrir hönd RHA, en í því var m.a. horft til möguleika á fjölgun erlendra ferðamanna til svæðisins, markaðarins í millilandaflugi fyrir heimamenn og vöruflutninga í flugi. Að loknu framsöguerindi Njáls Trausta verða pallborðsumræður þar sem taka þátt Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, Ásbjörn Björgvinsson, formaður stjórnar Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi, Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, Njáll Trausti Friðbertsson, skýrsluhöfundur, og Aðalsteinn Helgason, Samherja hf. Fundarstjóri verður Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA Mynd: Akureyrarflugvöllur, af vef Flugmálastjórnar.  
Lesa meira

Þjónustu- og sölunámskeið gerði góða lukku!

Haldið var þjónustu- og sölunámskeið í Sel-Hótel Varmahlíð 14. júní fyrir starfsfólk upplýsingamiðstöðva og aðra þá sem veita upplýsingar og þjóna ferðamönnum á Norðurlandi vestra. Ágæt þátttaka var á námskeiðið, bæði frá fyrirtækjum í greininni og þeim sem vinna hjá söfnum eða í upplýsingamiðstöðvum. Þátttakendur voru mjög virkir í verkefnavinnu og umræðum. Á námskeiðinu var unnið með efni frá ferðamálayfirvöldum í Skotlandi sem aðlagað hafði verið að íslenskum aðstæðum. Fjallað um mikilvægi þjónustu og sölu í allri ferðaþjónustu og þjálfuð mikilvæg atriði því tengd. Einnig er lögð áhersla á að starfsmenn ýmissa aðila í ferðaþjónustu kynntust og geti þannig veitt betri þjónustu á svæðinu í heild. Þátttakendur voru ánægðir með námskeiðið og fannst það bæði hagnýtt og fræðilegt í senn. Áformað er að halda síðari hluta námskeiðsins í ágúst þar sem lagt verður mat á ferðasumarið, hvað þættir sem fjallað var um á fyrri hluta námskeiðsins nýttust vel og hvað má betur fara. Það var Upplýsingamiðstöð Norðurlands vestra í Varmhlíð sem stóð fyrir námskeiðinu og leiðbeinendur á því voru Davíð Samúelsson leiðsögumaður en hann hefur kynnt sér menntun starfsfólks í ferðaþjónustu í Skotlandi og Jakob F. Þorsteinsson forstöðumaður Upplýsingarmiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð.  
Lesa meira

Ímyndarbæklingar fyrir alla landshluta

Ferðamálasamtök Íslands og átta ferðamálasamtök landshlutanna í samvinnu við útgáfufélagið Heim hafa gefið út ímyndarbæklinga í ferðaþjónustu fyrir alla landshluta.   Markmið útgáfunnar Markmið útgáfunnar er að kynna hvern landshluta í heild sinni á sem bestan hátt, samhæfa útlit allra bæklinganna jafnframt því að gera hagstæðan samning um útgáfuna og spara með því hverjum samtökum töluverðar fjárhæðir. Verkefnið snýst um að skapa heildstæða mynd með því að hafa alla bæklingana eins upp setta, áþekkan texta, samskonar upplýsingar og sérstaklega valdar myndir frá færustu ljósmyndurum landsins. Leitað var til útgáfufélagsins Heims um að vinna verkið. Samningar milli fyrirtækisins og Ferðamálasamtaka Íslands voru gerðir um síðustu áramót en samtökin höfðu verkstjórn í sínum höndum auk þess að þau styrktu verkefnið með því að taka þátt í kostnaði allra bæklingana.   Vesturland                    30.000 eintök               24 bls.              íslenska/enska Vestfirðir                      20.000 eintök               24 bls.              enska/franska Norðurland V/E            20.000 eintök               40 bls               íslenska/enska Austurland                    15.000 eintök               24 bls.              íslenska/enska Suðurland                     30.000 eintök               24 bls               íslenska/enska Suðurnes                      15.000 eintök               24 bls.              íslenska/enska Höfuðborgarsvæðið      15.000 eintök               24 bls               íslenska/enska   Alls 145.000 eintök   Útgáfufélagið Heimur mun að hluta til sjá um dreifingu bæklinganna eftir sínu dreifingarkerfi og munu þeir því einnig birtast á vefsíðu fyrirtækisins.   Aðild Ferðamálasamtaka Íslands Ferðamálasamtök Íslands, sem eru regnhlífarsamtök átta landshlutasamtaka, hafa unnið að undirbúningi þessa tímamótaverkefnis í 1-2 ár í samvinnu við Maríu Guðmundsdóttur ritstjóra hjá útgáfufélaginu Heimi með áðurnefndri niðurstöðu. Það var töluverður undirbúningur og tók tíma að ná að sameina fulltrúa átta landshluta-samtaka um eitt heildarverkefni, þar sem hver og einn landshluti hefur til þessa gefið út sinn bækling og með því lagt áherslu á sín sérkenni og sérstöðu. Undanfarið hefur þróunin verið sú að landshlutarnir hafa aukið samvinnu sína á sviði ferðaþjónustu, með það í huga að gera markaðsstarfið einbeittara, bæta upplýsingagjöf og nýtingu fjármuna, sem varið er í kynningu á hverjum landshluta. Með samvinnu og samstöðu fulltrúa þessara átta ferðamálasamtaka landshlutanna tókst að undirbúa, skipuleggja og vinna verkið sem eina heild.   Ferðamálasamtök Íslands fagna þessu framtaki af heilum hug og óska öllum viðkomandi til hamingju.   Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands.  
Lesa meira

Fræðslufundur um ímynd og vörumerki

Síðastliðinn föstudag var haldinn á Hótel KEA á Akureyri fræðslufundur um mótun ímyndar og vörumerki. Um var að ræða lið í svokölluðu klasaverkefni sem tengist byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð og voru það matvæla- og ferðaþjónustuklasar sem boðuðu til fundarins. Meðal fyrirlesara var Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, sem fjallaði um ímynd Íslands. Aðrir sem fluttu erindi voru Laufey Haraldsdóttir, kennari og sérfræðingur hjá ferðamáladeild Hólaskóla, sem fjallaði um verkefnið ?Matarkistan Skagafjörður? og þau Kristinn Tryggvi Gunnarsson og Sue Mizera sem fjölluðu um ýmsa þætti sem tengjast ímynd og vörumerkjum. Nánar á klasar.is Á myndinni er Ársæll Harðarson í ræðustóli.Mynd: Ferðamálaráð/HA  
Lesa meira

Víkingar á Vestfjörðum

Þriðjudaginn 7. júní sl. voru fulltrúar Ferðamálaráðs á ferð um Vestfirði í þeim tilgangi að hitta ferðaþjónustuaðila og fara yfir stöðu mála á svæðinu. Haldnir voru formlegir fundir á Þingeyri og Ísafirði en víða komið við og púlsinn tekinn á stöðu mála. Gísla saga Súrssonar endurlífguðÁ Þingeyri var farið yfir aðstöðu fyrir ferðafólk og framtíðaráform um uppbyggingu tengda ferðaþjónustu á svæðinu. Þar eins og víða annarstaðar er sagan og náttúran samofin mannlífinu og ýmislegt í bígerð á svæðinu tengt því. Auk hefðbundinnar aðstöðu til móttöku ferðafólks, svo sem góð tjaldsvæði í grennd við íþróttamannvirki staðarins, þá hafa Vestfirðingar nýtt sér söguna og hefur hópur áhugafólks um Gísla sögu Súrssonar í Ísafjarðarbæ stofnað áhugamannafélag, sem hlotið hefur heitið ?Víkingar á Vestfjörðum?. Hyggst félagið endurlífga sögusvið Gísla sögu Súrssonar á svæðinu frá Önundarfirði til Barðastrandar. Merktir verða sögustaðir og helstu kennileiti sem tengjast sögunni, gönguleiðir sem þekktar eru úr sögunni verða merktar og ekki síst þá verði reynt að skapa alhliða þekkingarbrunn á svæðinu sem tengist lifnaðarháttum Víkinga. Félagið er aðili að EU áætluninni Northern Periphery. Um er að ræða samstarfsverkefni sem nefnt er Destination Viking Saga Land, verkefnið hefur að markmið að kynna staði sem tengjast Víkingum á einn eða annan hátt. Óhætt er að segja að verkefnið hafi farið vel og kröftuglega af stað. M.a. hefur hópur fólks unnið með Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og fleirum að hugmyndum um minjagripi og haldið hefur verið námskeið í fatasaumi á Víkingaklæðnaði með því handbragði sem notað var. Þó nokkrir hafa saumað sér fullan skrúða sem notaður verður við hin ýmsu tilefni. Styrkur frá FerðamálaráðiVíkingar á Vestfjörðum var meðal þeirra verkefna sem hlaut styrk frá Ferðamálaráði á þessu ári til úrbóta á ferðamannastöðum í flokknum uppbygging nýrra svæða. Á fundi sem haldin var með heimafólki á þriðjudaginn var formlega skrifað undir samning um stuðning Ferðamálaráðs Íslands við verkefnið til áframhaldandi uppbyggingar á sölubúðum og samkomusvæði á Þingeyrarodda. Vinna við svæðið hófst á síðasta ári og er óhætt að segja að mikið hafi verið gert fyrir takmarkað fé en samtakamáttur heimafólks skipti þar sköpum hversu vel tókst til. Á meðfylgjandi mynd skrifa undir samkomulagið þeir Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs; Magnús Oddsson ferðamálastjóri og Þórhallur Arason, formaður Áhugamannafélagsins Víkingar á Vestfjörðum.Mynd: Ferðamálaráð/VÞH  
Lesa meira

Kraftur í ferðamálum á Vestfjörðum

Á þriðjudagskvöldið boðaði Ferðamálaráð til fundar á Ísafirði um starfsemi Ferðamálaráðs og ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Mjög góð mæting var á fundinn og líflegar umræður sem sýnir að mati formanns Ferðamálaráðs þann kraft sem er í ferðaþjónustu á svæðinu. Einar Kristinn Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, setti fundinn og ræddi almennt um ferðaþjónustu og vægi hennar. Þá fór Magnús Oddsson ferðamálastjóri yfir starfsemi stofnunarinnar og hvernig ferðþjónustuaðilar og aðrir hagsmunaðilar á Vestfjörðum geti nýtt Ferðamálráð sér til framdráttar og Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs, fjallaði um niðurstöður markaðskannana, greininga og rannsókna sem Ferðamálaráð hefur látið vinna. Þá fjallaði Aðalsteinn Óskarsson framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða um markaðsgreiningar AtVest, Markaðsáætlun og framtíð markaðsstarfs. Miklir vaxtarmöguleikar?Þetta var að mínu mati mjög góður fundur, vel sóttur og endurspeglaði þann áhuga Vestfirðingar hafa á atvinnugreininni. Menn sjá augljóslega mikla möguleika í ferðaþjónustu á svæðinu,? segir Einar K. Guðfinnsson. Hann bætir við að e.t.v. megi segja að svæðið hafi farið seinna af stað en önnur landssvæði í þróun ferðamennsku en einmitt þess vegna séu vaxtarmöguleikar fyrir vestan meiri en víðast annars staðar. ?Þá er spennandi að sjá hvernig menn eru að stilla saman strengi í markaðsmálum með stofnun Markaðsstofu Vestfjarða enda má segja að á þeim vettvangi sé heilmikið starf óunnið. Kannanir Ferðamálaráðs hafa t.d. sýnt að Vestfirðir eru það svæði sem Íslendingar eru spenntastir fyrir að heimsækja og því þarf bæði að auka þekkingu á svæðinu og því hversu auðvelt í raun er að komast þangað. Þannig blasa bæði tækifæri og áskoranir við vestfirskum ferðaþjónustuaðilum,? segir Einar. Á myndinni eru þeir Ársæll Harðarson, Einar Kristinn Guðfinnsson og Magnús Oddsson.©Ferðamálaráð/VÞH 
Lesa meira