Fréttir

Kertasníkir á jólahátíð í Rovaniemi

Í dag lagði jólasveinninn Kertasníkir af stað frá Dimmuborgum í Mývatnssveit áleiðis til Rovaniemi í Finnlandi. Þar hefst næstkomandi föstudag mikil jólahátíð og verða íslensku jólasveinarnir í hávegum hafðir. Styrkt af Norðurslóðaáætlun EvrópusambandsinsFerð Kertasníkis til Rovaniemi er liður í svonefndu Snow Magic verkefni. Um er að ræða umfangsmikið þróunarverkefni sem að koma þátttakendur frá þremur löndum, þ.e. Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi. Verkefnishugmyndin var mótuð í umsókn um fjárhagsstuðning í Northern Periphery Programme (NPP) - Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins. NPP er ætlað að stuðla að samstarfsverkefnum meðal svæða á norðlægum slóðum í Evrópu. Í íslenska hluta verkefnisins er sjónum beint að Mývatnssveit og fer Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga með verkefnisstjórn í samvinnu við heimaaðila. Markmið íslenska hlutans er að efla atvinnulíf í Mývatnssveit, sérstaklega yfir vetrartímann, með áherslu á ferðaþjónustu og menningu. Íslensku jólasveinarnir í öndvegiVerkefni Snow Magic sem tengjast Mývatnssveit eru margvísleg og er jólasveinaverkefnið eitt þeirra. Í tengslum við það verkefni hafa verið hönnuð og gefin út póstkort með íslensku jólasveinunum, bæði með enskum og íslenskum texta. Nýir jólasveinabúningar hafa verið hannaðir og saumaðir og mun Kertasníkir klæðast búningnum á leið sinni til Rovaniemi og heim aftur. Eftir heimkomuna verður Kertasníkir síðan ásamt bræðrum sínum á ferð um Mývatnssveit og nágrenni allan desember og kemur víða við. Af öðrum verkefnum sem tengjast íslenska hluta Snow Magic verkefnisins má nefna að unnið hefur verið að sögusöfnun og minningum hjá eldri Mývetningum. Þá starfaði vinnuhópur að hugmyndavinnu og hönnun með snjó og ís og framleiddi þá hin ýmsu listaverk. Sögu og teiknisamkeppni barna og unglinga þar sem efniviðurinn var "snjór og ís" var í nóvembermánuði og fleira mætti telja. Nánar má fræðast um verkefnið á vef Snow Magic. Á myndinni er Kertasníkir ásamt föruneyti sínu á Akureyrarflugvelli fyrr í dag.  
Lesa meira

Íslensk ferðaþjónusta kynnt í Kína

Í dag heldur hópur Íslendinga til Kína. Tilefnið er þátttaka í China International Travel Mart ferðasýningunni sem hefst síðar í vikunni og jafnframt halda Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Hallgerður Gunnarsdóttir eiginkona hans, ásamt fylgdarliði, í opinbera heimsókn í boði kínverskra ferðamálayfirvalda. Í ferðinni mun ráðherra hitta Hr. Shao Qiwei, stjórnarformann kínverska ferðamálaráðsins og munu þeir meðal annars ræða sérfræðingaskipti á milli landanna á sviði ferðamála. Þá mun ráðherra heimsækja China International Travel Mart og halda móttöku fyrir íslenska sýnendur og viðskiptavini. China International Travel Mart er eins og fram hefur komið stærsta ferðakaupstefna í Asíu og er haldin á hverju ári til skiptis í Shanghai og Kunming (Yunnan) í Kína. Ferðamálaráð ásamt nokkrum íslenskum fyrirtækjum taka nú þátt i sýningunni í fyrsta sinn. Fyrirtækin sem taka þátt eru Ferðaþjónusta bænda, Allrahanda, Jarðböðin við Mývatn, Icelandair og Icelandair Travel. Samvinna er við sendiráð Íslands í Peking. Um það bil 20 þúsund kaupendur og 28 þúsund almennir gestir sóttu sýninguna í fyrra.
Lesa meira

Dagskrá aðalfundar Ferðamálasamtaka Íslands

Nú liggur fyrir dagskrá aðalfundar Ferðamálasamtaka Íslands fyrir árið 2005. Fundurinn verður eins og fram hefur komið haldinn á Hótel Varmahlíð 25 og 26 nóvember næstkomandi. Í dagskránni koma jafnframt fram upplýsingar um skráningu á fundinn og gistingu. Dagskrá fundarins. Föstudagur 25. nóvember. Kl.: 12:30  Hótel Varmahlíð - Afhending fundargagna Kl.: 13:00  Aðalfundur FSÍ á Hótel VarmahlíðKl.: 13:05  Setning - Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka    Íslands Kl.: 13:20  Skipað í fastanefndir aðalfundar: Kjörnefnd      Kjörbréfanefnd-Fjárhagsnefnd. Kl.: 13:25  Fagmennska í ferðaþjónustu Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, Háskólans á Hólum Kl.: 13:50  Virkt gæðakerfi í dagsins önnSigríður Ólafsdóttir, rekstrarstj. Farfuglaheimilisins í Reykjavík Kl.: 14:15  Fyrirspurnir Kl.: 15:00  Kaffihlé Kl.: 15:30  Framhald aðalfundarstarfa skv. lögum FSÍ Kl.: 19:00  Móttaka Kl.: 20:00  Kvöldverður og kvöldvaka á Hótel Varmahlíð   Veislustjóri Jakob Frímann Þorsteinsson  Laugardagur 26. nóvember. Kl.: 10:00  Kynnisferð - Ferðaþjónusta í Skagafirði Fundarstjóri: Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður FMR á Akureyri Skráning á fundinn er í síma 898-6635 eða petur@icetourist.is og bókun herbergja er á Hótel Varmahlíð s. 464-4164 Stjórn FSÍ.  
Lesa meira

Iceland Excursions Allrahanda hlaut verðlaun Gray Line samtakanna

Iceland Excursions Allrahanda - Gray Line Iceland hlaut verðlaunin ?Blue Diamond Dedication Award? á ársfundi Gray Line Worldwide sem haldinn var í Vancover í Kanada nýlega. Verðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi kynningu á árinu þar sem lögð er áhersla á metnaðarfull markmið samtakanna. ?Þetta er okkur mikill heiður og hvatning og sýnir sig að með aðild að sterkum samtökum erum við betur í stakk búin að kynna fyrsta flokks þjónustu og koma henni á framfæri við ferðamenn víðsvegar um heiminn,? segir Þórir Garðarsson markaðsstjóri félagsins. Í tilkynningu segir jafnframt að Gray Line Worldwide séu stærstu samtök í heiminum á sviði skoðunar- og pakkaferða en meðlimir séu um 150 fyrirtæki sem þjónusta yfir 25 milljónir ferðamanna á ári. ?Ársfundurinn í Kanada var athyglisverður þar sem fram kom mikill áhugi á Íslandi, landinu, sögu þess og náttúru,? sögðu þær Erla Vignisdóttir og Guðrún Þórisdóttir sem voru fulltrúar Iceland Excursions Allrahanda - Gray Line Iceland á fundinum í Kanada.
Lesa meira

Icelandair skiptir um flugvöll í Orlando

Frá næsta vori mun Icelandair hafa Orlando Sanford International Airport sem miðstöð starfsemi sinnar í Orlando, í stað Orlando International Airport. Samningur þess efnis var undirritaður í liðinni viku. Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að Sanford flugvöllurinn hafi boðið félaginu góð kjör til að ná viðskiptum félagsins til sín. Þannig veiti hann félaginu t.d. markaðsstyrk sem nemur um 5 milljónum króna árlega, auk þess sem Icelandair greiði engin lendingargjöld fyrstu sex mánuði samningstímans. Fyrsta flug Icelandair á Sanford flugvöllinn verður 27. mars á næsta ári.
Lesa meira

Vel heppnuð uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Síðastliðinn fimmtudag var blásið til uppskeruhátíðar ferðaþjónustunnar á Norðurlandi. Það voru Ferðamálasamtök Norðurlands eystra og vestra, Ferðaþjónustuklasinn/ Vaxey og Markaðsskrifstofa ferðamála á Norðurlandi sem buðu til hátíðarinnar sem tókst í alla stað vel en um 100 manns sóttu hana. Markmiðið hátíðarinnar var að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að ferðaþjónustuaðilar kynnist því sem að önnur svæði hafa upp á að bjóða. Að þessu sinni voru Þingeyingar gestgjafar og hófst dagskráin á Húsavík. Þaðan var ekið upp í Mývatnssveit með viðkomu á Narfastöðum í Reykjadal. Síðdegis var síðan ekið til baka til Húsavíkur og endaði dagurinn á hátíðarkvöldverði á veitingastaðnum Sölku. Viðurkenningar veittarÁ kvöldskemmtuninni voru m.a. ýmsar viðurkenningar veittar. Vætanlegt Selasetur Íslands á Hvammstanga fék viðurkenningu fyrir áhuagverða nýjung í ferðaþjónustu. Tveir einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir áralangt starf að ferðaþjónustu, þeir Erlingur Thoroddsen, hótelstjóri á Hótel Norðurljósi, og Jón Eiríksson "Drangeyjarjarl". Markaðsskrifstofa Ferðamála á Norðurlandi veitti viðurkenningarnar sem Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, afhenti. Þá fékk Baðfélag Mývatnssveit sem rekur Jarðböðin við Mývatn viðurkenningu Ferðamálasamtaka Íslands og hana afhenti Pétur Rafnsson, formaður samatakanna. Hádegisverður snæddur á Narfastöðum. Unnsteinn Ingason, staðarhaldari á Narfastöðum, og Hörður Sigurbjarnarson hjá Norðursiglingu. Kjartan Lársson skammtar Jóni "Drangeyjarjarli" súpuna. Í Dimmuborgum komu jólasveinar og heilsuðu upp á mannskapinn... ...og að sjálfsögðu voru allir leystir út með gjöfum.
Lesa meira

World Travel Market hefst í dag

Ferðamálaráð Íslands er líkt og undanfarin ár meðal þátttakenda á hinni árlegu ferðasýning World Travel Market í London sem í dag, mánudag. Að þessu sinni taka 15 íslensk fyrirtæki þátt. World Travel market er ein stærsta ferðasýning í heimi en hún er haldin í glæsilegri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Öll aðstaða til sýningarhalds er eins og best verður á kosið og þarna koma saman þúsundir sýnenda frá öllum heimshornum. Norðurlöndin standa saman að þátttökunni líkt og verið hefur undanfarin ár þar sem hvert landanna hefur sinn bás innan sýningarsvæðisins. ?Þetta fyrirkomulag hefur reynst ágætlega og heldur kostnaðinum niðri,? segir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs á Bretlandsmarkaði. Strangara eftirlit á ?trade? dögumAð hennar sögn verður þátttaka og framkvæmd sýningarinnar af hálfu Íslands með hefðbundnum hætti. ?Sýningarhaldarar hafa verið að bæta þjónustuna og nú verður strangara eftirlit með því að tvo fyrri sýningardagana, mánudag og þriðjudag, verði eingöngu ?trade? sem kallað er, þ.e. að einungis fagaðilum í viðskiptaerindum verði veittur aðgangur eins og reglur sýningarinnar kveða áum. Á miðvikudaginn er síðan almenningur og fagaðilar í bland en síðasti dagurinn, fimmtudagur, er eingöngu hugsaður fyrir almenning,? segir Sigrún. Móttaka fyrir fjölmiðla og ferðaþjónustufólkMarkmiðið með svona sýningu er auðvitað fyrst og fremst að skapa viðskipti fyrir íslenska ferðaþjónustu og samhliða sjálfri sýningunni er reynt að stuðla að því með ýmsum öðrum hætti. Á mánudagskvöldið verða Norðurlöndin t.d. með sameiginlega móttöku fyrir blaðamenn og ferðaþjónustuaðila og hafa vel á annað hundrað aðilar þegar skráð sig. Hlutur Íslands í veitingum á básnum kemur frá Iceland Springwater, Ölgerð Egils Skallagrímssonar og Iceland Seafood. Mynd: Frá World Travel Market 2005Ferðamálaráð/ÁH  
Lesa meira

Adrenalin.is fékk Nýsköpunarverðlaun SAF

Ein verðlaun og tvær viðurkenningar voru veittar úr Nýsköpunar- og vöruþróunarsjóði Samtaka ferðaþjónustunnar í dag, 11. nóvember, á stofndegi samtakanna. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti verðlaunin við athöfn sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík. Nýsköpunarverðlaun SAF, 250.000 krónur og skjöld, hlaut fyrirtækið Adrenalin.is. Það er afþreyingarfyrirtæki í eigu ferðaskrifstofunnar Ultima Thule og rekur m.a. Adrenalíngarðinn á Nesjavöllum. Viðurkenningar og skjöld hlutu VEG Guesthouse á Suðureyri fyrir nýsköpun hvað varðar upplifun ferðamanna með heimamönnum og Fjord Fishing á Tálknafirði, sem selur sjóstangamönnum veiðiferðir út frá Vestförðum. Nánar á vef SAF
Lesa meira

Staða og horfur á ferðamörkuðum viðfangsefni alþjóðlegs málþings í Pisa

Alþjóðlega markaðsrannsóknafyrirtækið IPK og Ferðamálaráð Evrópu (ETC) héldu í byrjun nóvember sitt 12. málþing í Pisa á Ítalíu. Það hefur verið vettvangur umræðu um ferðamennsku og rannsóknir á alþjóðavísu um árabil. Að þessu sinni voru meginviðfangsefnin, staða og horfur á ferðamörkuðum í Evrópu, Ameríku og Asíu og áhrif lággjaldafarþega á ákvörðunarstaði og birgja. Til málþingsins er að jafnaði boðið fulltrúum ferðamálaráða aðildarlanda Ferðamálaráðs Evrópu og nokkurra alþjóðlegra samtaka og fyrirtækja sem sinna gagnasöfnun um ferðamennsku á alþjóðavísu. Þátttakendur hafa aldrei verið jafnmargir eða 64 talsins frá 33 löndum. Oddný Þóra Óladóttir, verkefnastjóri tók þátt í þinginu fyrir hönd Ferðamálaráðs. Hlutdeild lággjaldaflugfélaga vex hrattAð sögn Oddnýjar vakti athygli hve hlutdeild lággjaldaflugfélaga vex hratt í alþjóðlegri ferðaþjónustu. ?Það að bóka ferð með skömmum fyrirvara er komið til að vera, ferðamenn eru orðnir ?verðmiðaðri?, ef svo má segja, og bíða fram á síðustu stund í von um hvað hagstæðasta ferð. Kröfurnar um aukin gæði aukast hins vegar samhliða, ferðamenn vilja það besta á markaðnum fyrir sem minnstan pening,? segir Oddný. Hryðjuverkaógnin og náttúruhamfarir virðast hafa haft lítil áhrifHún segir ennfremur áhugavert að sjá hve lítil áhrif hryðjuverkaógnin og náttúruhamfarir virðast hafa haft á ferðamennsku á árinu. Það sem af er árinu 2005 hefur ferðamönnum til Evrópu til að mynda fjölgað um 5 prósent frá fyrra ári, sem er mun meiri aukning en allar spár gerðu ráð fyrir. ?Þátttakendur voru þó sammála um að ferðaþjónusta hefur sjaldan verið jafn viðkvæm og ófyrirsjáanleg. Talið er að hátt olíuverð muni líklega hafa umtalsverð áhrif á ferðamennsku í heiminum á næstunni. Almennt séð töldu þátttakendur þó horfurnar fyrir komandi ár nokkuð bjartar og Evrópulönd mættu búast við töluverðri aukningu í komum erlendra gesta,? segir Oddný.  
Lesa meira

Tölfræðibæklingur Ferðamálaráðs 2005

Ferðamálaráð Íslands hefur gefið út tölfræðibæklinginn ,,Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum 2005?. Í honum má finna ýmis talnagögn í máli og myndum um ferðaþjónustu og erlenda ferðamenn á Íslandi. Þar má m.a. finna yfirlit yfir fjölda ferðamanna, gjaldeyristekjur af ferðamönnum, gistinætur erlendra gesta og nokkrar niðurstöður úr könnun Ferðamálaráðs sem framkvæmd var á tímabilinu júní 2004 til maí 2005. Við gerð bæklingsins var stuðst við heimildir frá Hagstofunni, Seðlabanka Íslands og Ferðamálaráði. Bæklingurinn hefur ennfremur verið gefinn út á ensku undir heitinu ,,Tourism in figures 2005?. Bæklingarnir eru aðgengilegir í pdf formi á vefnum undir liðnum Tölfræði hér á ferdamalarad.is og undir liðnum Statistic á enska hluta landkynningarvefsins www.visiticeland.com. Beinn hlekkur í bæklinginn er einnig hér að neðan. Tölfræðibæklingur Ferðamálaráðs 2005 (PDF 7,2 MB)
Lesa meira