Fréttir

Málþing um verðmæti ferðaþjónustunnar

Fimmtudaginn 17. febrúar næstkomandi standa Samtök ferðaþjónustunnar fyrir málþingi um verðmæti ferðaþjónustunnar í íslenskum þjóðarbúskap og fjárfestingar í ferðaþjónustu. Málþingið verður haldið Hótel Nordica kl. 9-12. Málþingið hefst á ávarpi Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra. Að því loknu fjallar Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri, um virði ferðaþjónustunnar, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbanka Íslands, fjallar um fjárfestingar í ferðaþjónustu og síðan verða pallborðsumræður. Efnahagslegt gildi ferðaþjónustunnar var einmitt meginefni síðustu ferðamálaráðstefnu sem Ferðamálaráð gekkst fyrir í október síðastliðnum og gildi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarbúið er því augljóslega ofarlega á baugi um þessar mundir. Ljósmynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.  
Lesa meira

DINE AID - 100 veitingastaðir taka þátt

Um næstu helgi, 28.-30. janúar, taka 100 íslenskir veitingastaðir þátt í verkefni sem nefnist DINE AID. Um er að ræða söfnun sem Heimssamtök matreiðslumanna standa fyrir til stuðnings fólki á hamfarasvæðum Asíu. Markmið verkefnisins er að vinna að endurmenntun fólks í veitingagreinum á meðan enga atvinnu er að hafa. Þeir veitingastaðir sem taka þátt gefa hlutdeild af hverjum greiddum reikningi 28.-30. janúar til stuðnings söfnuninni. Með því að fara út að borða um helgina á einhvern þessara veitingastaða rétta Íslendingar fólki á hamfarasvæðunum hjálparhönd. Það eru Klúbbur matreiðslumeistara, Samtök ferðaþjónustunnar og sem MATVÍS standa fyrir söfnuninni hér á landi. Lista yfir þá veitingastaði sem tilkynnt hafa þátttöku má finna á vef SAF.  
Lesa meira

Lögfræðiálit vegna framkvæmda á ferðamannastöðum

Undanfarna áratugi hefur ferðafólki sem sækir Ísland heim fjölgað verulega og samhliða hafa Ferðamálaráð og fleiri unnið að úrbótum og ýmsum aðgerðum til að bæta aðgengi og vernda náttúruna víða um land. Í kjölfar þess hefur vaknað umræða um bótaskyldu vegna hugsanlegra slysa sem kynnu að verða á viðkomandi stöðum og hvort hugsanlegt sé að framkvæmdaaðili geti verið gerður ábyrgur vegna þess og jafnvel Ferðamálaráð vegna þeirra svæða þar sem veittir hafa verið styrkir til framkvæmda. Ferðamálaráð leitaði álits lögfræðings á málinu og meðal annars var spurt; hver er ábyrgð framkvæmdaaðila eftir að viðkomandi hefur lagfært eða bætt aðgengi að tilteknu svæði? Hvað með ef t.d. er girt fyrir hættur og hvað ef ekki er girt? Hvað með merkingar á svæðum, hvernig þurfa þær að vera orðaðar og hvað þarf að koma fram til að koma í veg fyrir að framkvæmdaraðili sé ábyrgur? Að áliti lögfræðings ber framkvæmdaaðili enga ábyrgð á slysum sem verða á slíkum stöðum nema slysið verði rakið beint til framkvæmdanna. Jafnframt þarf að vera hægt að sýna fram á, að þannig hafi verið staðið að framkvæmdinni að hún sem slík hafi skapað slysahættu. Búnaður í eigu viðkomandi aðila á ferðamannastöðum sem hugsanlega gætu orsakað bótaskylt slys yrði að öllum líkindum á ábyrgð framleiðenda búnaðarins og/eða verktaka sem annast framkvæmdina. Í reynd má fullyrða að öll slys sem kunna að verða á ferðamannastöðum séu annaðhvort óhappatilvik eða tilkominn fyrir atbeina hins slasaða sjálfs. Varðandi merkingar, tilkynningar og viðvaranir á viðkomandi stöðum þá nægja samkvæmt lögfræðiálitinu allar venjubundnar merkingar eins og tíðkast hefur. Hinsvegar getur framkvæmda- eða umsjónaaðili ekki undanþegið sig ábyrgð varðandi slys sem hlytist af framkvæmdinni eða skorti á viðhaldi. Hvað varðar önnur lögfræðileg atriði þá er það helst sem þarf að skoða að eignarhald er með mismunandi hætti á ferðamannasvæðum og að sama skapi ábyrgð þeirra sem hafa umsjón með þeim. Það kemur að sumu leyti í kjölfar þessarar niðurstöðu að Ferðamálaráð gerir meiri kröfur um að búnaður og efnisval, sem veittir eru styrkir til, sé samkvæmt stöðlum og uppfylli kröfur sem gerðar eru samkvæmt lögum. Frá Hraunfossum en þar hefur Ferðamálaráð staðið fyrir verulegum úrbótum og ýmsum aðgerðum til að bæta aðgengi og vernda náttúruna.Ljósmynd HA.  
Lesa meira

Afgreiðsla umsókna um styrki til úrbóta í umhverfismálum

Alls bárust Ferðamálaráði 146 umsóknir um styrki til úrbóta á ferðamannastöðum á yfirstandandi ári en auglýst var eftir umsóknum um styrki um miðjan desember síðastliðinn. Umsóknirnar voru afgreiddar á fundi Ferðamálaráðs í dag og hlutu 53 verkefni styrk að þessu sinni. Til úthlutunar voru samtals um 40 milljónir króna sem skiptist í þrjá flokka en sótt var um samtals 236.482.000 krónur. Minni verkefniÍ flokknum minni verkefni gátu styrkir að hámarki numið 500 þúsund krónum og eingöngu til efniskaupa. Að þessu sinni var tekið fram að áherslan væri á uppbyggingu gönguleiða. Alls bárust 89 umsóknir en 39 aðilar fengu styrk, samtals að upphæð 11.150.000. Af því leiðir að mörgum verðugum verkefnum varð að hafna að þessu sinni. Þetta er sama reynsla og fengist hefur á undangengnum árum þar sem fjárhæð umsókna hefur verið margföld sú upphæð sem verið hefur til ráðstöfunar. Stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðumÍ flokkinn stærri verkefni á fjölsóttum ferðamannastöðum bárust 27 umsóknir og hlutu 8 verkefni styrk, samtals að upphæð 19.200.000 krónur. Hér er um það að ræða að umsækjendur stýra framkvæmdum sjálfir og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Uppbygging á nýjum svæðumÍ þriðja flokkinn, uppbygging á nýjum svæðum, bárust 30 umsóknir. Úthlutað var 9.750.000 krónum sem skiptast á 6 verkefni. Framkvæmdir á um 300 stöðum á landinuÞess má geta að Ferðamálaráð hefur víða komið að málum þegar umhverfismál eru annars vegar. Þannig hafa á síðustu 10 árum þeir fjármunir sem Ferðamálaráð hefur varið til umhverfismála nýst til framkvæmda á rétt um 300 stöðum um allt land, bæði í formi styrkja og þar sem Ferðamálaráð hefur komið beint að framkvæmdum. Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs, segir umsóknarferlið hafa gengið vel fyrir sig í ár og greinilegt að nýtt verklag við útdeilingu þessara fjármuna, sem nú var unnið eftir í annað sinn, sé að skila tilætluðum árangri. "Almennt séð eru umsóknir betur unnar en áður. Hins vegar er ljóst að mörg verðug verkefni verða að bíða að þessu sinni og vissulega er alltaf erfitt að geta ekki orðið við góðum umsóknum," segir Valur. Meðfylgjandi er listi yfir þau verkefni sem hlutu styrk að þessu sinni.  
Lesa meira

Bláa lónið valið besta náttúrulega heilsulindin

Lesendur breska ferðatímaritsins Condé Nast Traveller völdu Bláa Lónið bestu náttúrulegu heilsulindina í könnun sem gerð var meðal þeirra. Af þessu tilefni fær Bláa lónið afhenta viðurkenningu við hátíðlega athöfn á Mandarin Oriental Hyde Park í London í dag. Bláa lónið skaut ýmsum heimþekktum heilsulindum aftur fyrir sig en á listanum má finna ýmsar aðrar þekktar heilsulindir eins og Royal Park Evian í Frakklandi og Clinique La Prairie í Sviss. Þetta er í annað skipti sem verðlaunin eru veitt en í fyrra varð Bláa Lónið í áttunda sæti. "Þetta mikla stökk er staðfesting á því að Bláa Lónið hefur unnið sér sess sem einstök heilsulind á heimsmælikvarða, en lesendur gáfu Bláa Lóninu einmitt hæstu einkunn fyrir einstaka upplifun í einstöku náttúrulegu umhverfi. Þá hefur þróun nuddmeðferða ofan í lóninu og þróun á Blue Lagoon Iceland húðvörum einnig átt sinn þátt í að auka heildarupplifun gesta á Bláa Lóninu," segir í frétt frá Bláa lóninu. Tímaritið Condé Nast Traveller er eitt virtasta ferðatímarit í heimi og tilheyrir hinni þekktu tímaritaútgáfu Condé Nast Magaine, sem gefur meðal annars út tímaritin Vogue, Glamour og Vanity Fair.  
Lesa meira

Verkefni um menningu og ferðaþjónustu styrkt af Rannsóknarsjóði HA

Verkefninu "Menning og ferðaþjónusta á Norðurlandi 1. áfangi-Eyjafjörður" var á dögunum úthlutað styrk að upphæð 900.000 krónur úr Rannsóknarsjóði Háskólans á Akureyri. Það er Kristín Sóley Björnsdóttir, sérfræðingur hjá Ferðamálasetri Íslands, sem hefur umsjón með verkefninu og samstarfsaðili hennar er Guðrún Helgadóttir kennari og sérfræðingur á ferðamálabraut Hólaskóla . Áður hafði verkefnið hlotið styrk úr Háskólasjóði KEA en ekki síður er mikilsverður stuðningur menntamálaráðuneytisins, segir í frétt á heimasíðu Ferðamálasetursins. Ráðuneytið hefur bent á mikilvægi slíkra rannsókna og kemur það m.a. fram í skýrslu fyrrverandi menntamálaráðherra, Tómasar Inga Olrich, Menningartengd ferðaþjónusta (2001) en hann var einnig áður formaður Ferðamálaráðs. Verkefnið fór af stað fyrir nokkru en áherslan er lögð á að kanna tengsl menningar og ferðaþjónustu í Eyjafirði. Auk þess á að draga fram og greina menningarleg sérkenni svæðisins frá sjónarmiði gesta og gestgjafa. Jafnframt verða könnuð áhrif menningarferðaþjónustu á menningarstarf og framboð menningar á svæðinu. Verkefnið er þríþætt; Í fyrsta lagi eru viðhorf og væntingar ferðamanna, innlendra sem erlendra, kannaðar með spurningakönnun sem dreift er í Eyjafirði. Í öðru lagi eru viðhorf og væntingar gestgjafanna, þ.e. rekstaraðila í menningarstarfi og í menningatengdri ferðaþjónustu kannaðar með ítarlegum viðtölum. Í þriðja lagi er gerð úttekt á ímynd Eyjafjarðar sem áfangastaðar eins og hún birtist í kynningarefni fyrir ferðafólk. Reynt verður að svara spurningum á borð við: Hvert er megin aðdráttarafl menningar og menningarlegra sérkenna á Eyjafjarðarsvæðinu? Hverjar eru væntingar ferðafólks til menningartengdrar ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu? Hver er upplifun ferðafólks af menningartengdri ferðaþjónustu á Eyjafjarðarsvæðinu? Hvernig höfða menningarstofnanir og rekstaraðilar menningartengdrar ferðaþjónustu til innlendra og erlendra ferðamanna?  
Lesa meira

Framhald Iceland Naturally í Norður-Ameríku

Samgönguráðherra hefur fyrir hönd ríkissjóðs gert samning við átta íslensk útflutningsfyrirtæki og hagsmunaaðila um framhald Iceland Naturally. Heimilisfang og fjármál kynningarinnar eru á skrifstofu Ferðamálaráðs í New York. Framkvæmd verkefnisins verður í höndum framkvæmdastjóra Ferðamálaráðs í New York og viðskiptafulltrúa sendiráðs Íslands í Bandaríkjunum. Stýrihópur skipaðurIceland Naturally felst í markaðssókn og kynningu á Íslandi og íslenskum vörum í Norður-Ameríku. Áður hafði verið gerður fimm ára samningur undir sama heiti en hann rann út í lok síðasta árs. Nýi samningurinn er til fjögurra ára. Samgönguráðherra hefur skipað tíu manna stýrihóp Iceland Naturally en í honum eru tveir fulltrúar samgönguráðherra og er annar þeirra formaður hópsins, tveir fulltrúar forsætisráðherra, tveir fulltrúar utanríkisráðherra og þrír fulltrúar stærstu hagsmunaaðila að samningnum, þ.e. Icelandair, Icelandic® USA Inc (Coldwater Seafood) og Iceland Seafood Corp., og einn fulltrúi Bændasamtaka Íslands. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts er formaður stýrihópsins. Aðrir fulltrúar eru Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi, Atli Ásmundsson, ræðismaður Íslands í Winnipeg, Björn Ingi Hrafnsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood Corp., Páll Magnússon, aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Sigurgeir Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands, Steinn Logi Björnsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair sem og einn fulltrúi Iceland Seafood Corp. Gert er ráð fyrir að árlegu framlagi að upphæð einni milljón bandaríkjadala á ári til Iceland Naturally og er framlag ríkisins um það bil 70% fjárins, en fyrirtækin leggja fram 30%. Gert er ráð fyrir að þessir fjármunir standið straum af auglýsingum, fjölmiðlaherferð, viðburðum og kynningum í einstökum borgum sem og kynningu á einstökum fyrirtækjum í verslunum og á veitingahúsum. Reglubundnar markaðsrannsóknir verði síðan gerðar til að meta áhrif verkefnisins. Vefsíða Iceland Naturally  
Lesa meira

Food and Fun hátíðin haldin í fjórða sinn

Matar- og skemmtihátíðin "Food and Fun " verður haldin á Íslandi í fjórða sinn dagana 16.-20. febrúar næstkomandi. Hátíðin er haldin í samstarfi Icelandair, Reykjavíkurborgar og fleiri aðila og er á sama tíma og vetrarhátíð sem borgin stendur fyrir. Samstarfsaðili "Food and Fun" hátíðiarinnar er m.a. Iceland Naturally, sem er sameiginlegur kynningarvettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Bandaríkjunum og stýrt af skrifstofu Ferðamálaráðs í Bandaríkjunum. Fyrirtækin innan þess samstarfs eru Icelandair, Icelandic® USA (Coldwater Seafood), íslenskur landbúnaður, Iceland Seafood, Iceland Spring Natural Water og Flugstöð Leifs Eirikssonar og taka þau öll þátt. Með hátíðinni er stefnt að því að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku á nýstárlegan hátt, svipað og íslensk tónlist hefur verið kynnt með Iceland Airwaves tónlistarhátíð Icelandair sem haldin er árlega. Undanfarin ár hefur "Food and Fun" hátíðin vakið mikla athygli erlendis og er nú gert ráð fyrir tugum erlendra fréttamanna til að fylgjast með hátíðinni. Veitingahús borgarinnar og matreiðslumeistarar þeirra verða í aðalhlutverki þessa daga. Heimskunnir matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum og Evrópu munu koma sér fyrir í eldhúsum nokkurra bestu veitingahúsa höfuðborgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir. Veitingastaðirnir eru Grillið, Siggi Hall, Rauðará, 3 Frakkar, Hótel Holt, La Primavera, Einar Ben, Argentína, Apótekið, Sjávarkjallarinn og Vox. Á hátíðinni verður haldin alþjóðleg keppni matreiðslumeistara í Smáralind og einnig keppni íslenskra áhugamanna um matreiðslu líkt og undanfarin ár. Opnunarhátíð "Food and Fun" verður að vanda haldin í Hótel-og matvælaskólanum í Kópavogi, þar sem nemendur elda af mikilli kúnst, en hápunktur hátíðarinnar verður Gala kvöldverður á Nordica hótelinu laugardagskvöldið 19. febrúar. Vefsíða Food and Fun  
Lesa meira

Nýtt á vefnum!

Styrkir til úrbórta á ferðamannastöðum
Lesa meira

Auglýst eftir umsóknum um Skandinavian Travel Award 2005

Líkt og undanfarin ár verða ferðaverðlaunin Skandinavian Travel Award veitt á ITB ferðasýningunni í Berlín þann 14. mars. Að verðlaununum stendur tímaritið Nordis-Magazin í samvinnu við Ferðamálaráð Norðurlandanna. Umsóknarfrestur um verðlaunin er til 31. janúar næstkomandi. Markmið Skandinavian Travel Award er að verðlauna framúrskarandi nýjungar, góða þjónustu og árangursríka markaðssetningu í ferðaþjónustu Norður-Evrópu. Verðlaunin veita jafnframt verðlaunahöfum aukna athygli fjölmiðla og staðfesta gildi þess að gera vel. Verðlaunahafarnir geta nýtt sér þennan heiður í markaðssetningu jafnframt því að styrkja stöðu sína á Þýsklandsmarkaði. Dómnegndina skipa ferðablaðamenn, markaðssérfræðingar og f ferðasérfræðingar. Almennt eru umsjækendir um verðlaunin metnir eftir gæðum, nýjungum og dreifingu vörunnar. Þó þarf ekki að uppfylla öll þrjú skilyrðin heldur er leitað að framúrskarandi eiginátaki sem hefur fordæmisgildi fyrir ferðaþjónustuna í heild. Þó nokkur íslensk fyrirtæki hafa hlotið verðlaunin. Þrír flokkarVeitt eru verðlaun í þremur flokkum, þrjú í hverjum flokki. Besti áfangastaður/ besta landsvæði/sveitarfélag Besta ferðavara í skandinavíu (sumardvalastaðir, afþreyging, tjaldstæði o.fl.) Besta fólksflutningstæki (lest, rúta, flugvél, skip/ferja) Besti ferðaheildsali Besta vara ferðaheildsala Nánari upplýsingar um verðlaunin, þau skilyrði sem þarf að uppfylla og umsóknareyðublað eru í meðfylgjandi PDF-skjali. Upplýsingar um Skandinavian Travel Award (PowerPoint-0,1 MB)  
Lesa meira