Fréttir

750 manna ráðstefnusalur og 250 herbergja 5 stjörnu hótel

Tilkynnt hefur verið að tillaga Portus-hópsins um byggingu og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels á austurbakka Reykjavíkurhafnar hafi orðið fyrir valinu. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 12 milljarða króna. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist á næsta ári og þeim verði lokið haustið 2009. Undirbúningur vegna hússins hefur staðið í alllangan tíma. Ríki og borg gerðu með sér samkomulag í apríl 2002 um að leggjast á eitt í þessu máli og um ári seinna stofnuðu þau í sameiningu einkahlutafélagið Austurhöfn-TR ehf. sem síðan hefur unnið að undirbúningi. Ráðstefnusalur og 250 herbergja 5 stjörnu hótelNokkrir salir verða í húsinu. Tvískiptur ráðstefnusalur mun rúma allt að 750 manns og í tengslum við hann verður sýningaraðstaða. Aðaltónleikasalur mun rúma 1.800 manns í sæti, kammermúsíksalur rúmar 450 manns og þá nefna fundarherbergi o.fl. Byggingunni tengist síðan 250 herberja 5 stjörnu hótel. Útlit hússins er að mestu leyti verk Ólafs Elíassonar en Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi. Hægt er að sjá teikningar af húsinu og umhverfi á vef Morgunblaðsins. Vefur Pontus-hópsins er tonlistarhusid.is og þar er m.a. hægt að skoða myndband af húsinu. Myndband 2 MB Myndband 6 MB
Lesa meira

Íslenskum ferðaþjónustuaðilum stendur til boða þátttaka á stærstu ferðakaupstefnu Asíu

Ferðamálaráð Íslands, í samstarfi við Icelandair og sendiráð Íslands í Peking, hafa tryggt sér sýningarbás á China International Travel Mart (CITM). Um er að ræða stærstu ferðakaupstefna í Asíu og er hún haldin á hverju ári til skiptis í Shanghai og Kunming (Yunnan) í Kína. Hvað er í boði?Fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi stendur til boða að taka þátt í sýningunni, enda hafi aðilar í boði sérstakt kynningarefni á kínversku. Aðstaða fyrir einn starfsmann kostar kr. 120.000 á sameiginlegum sýningarbás. Fyrir þá sem ekki eiga tök á að vera á sýningunni er boðið uppá bæklingadreifingu og kostar það kr. 15.000 pr. bækling á kínversku. Ekki stendur til boða að dreifa efni á öðrum tungumálum. Kostnaður við að senda bæklinga á sýningarstað bætist við verðið. Að venju verða sérstök málþing og fyrirlestrar fyrir þátttakendur um þróun og stefnu í ferðaþjónustu. Að þessu sinni mun Samgönguráðherra hr. Sturla Böðvarsson heimsækja sýninguna og íslenska básinn. Hann mun bjóða til móttöku fyrir sýnendur og viðskiptavini okkar, laugardaginn 26. nóvember. Blaðamannafundir og uppákomur verða á ferðasýningunni Sýningin verður opin fagfólki í ferðaþjónustu og almenningi.  Skipuleggjendur ferðasýningarinnar:China National Tourism AdministrationYunnan Provincial People´s GovernmentGeneral Administration of Civil Aviation of China StaðsetningSýningin fer fram í Kunming International Convention & Exhibition Center Dagsetning24. nóvember (fim.) til 27. nóvember (sun.) 2005 Gert er ráð fyrir að uppsetning bása hefjist á mánudeginum 21. nóvember. Nánari upplýsingarHægt er nálgast nánari upplýsingar á heimasíðu CITM http://www.citm.com.cn/ eða hjá Ferðamálaráði. Hafið samband við Ársæl Harðarson, sími 5355500 eða með tölvupósti arsaell@icetourist.is Bóka þátttökuGanga verður frá bókun í síðasta lagi mánudaginn 3. október. Senda má bókun til Ársæls Harðarsonar á tölvupósti eða með faxi, undirritað af ábyrgðarmanni. Aðeins verður unnt að taka við 6 fyrirtækjum á básinn. arsaell@icetourist.is fax. 535-5501 Um sýningunaUm það bil 20 þús. kaupendur sóttu sýninguna á sl ári þá daga sem sýningin var aðeins opin þeim sem starfa í ferðaþjónustu og 28 þús. gestir komu þá daga sem sýningin var opin almenningi.  Samkvæmt upplýsingum frá CITM voru tæplega 1.100 stórir kaupendur frá 48 löndum á sýningunni 2004. Á síðasta ári voru 2900 seljendur  með bás á sýningunni, 1.850 kínverskir aðilar og 1.050 erlendir, þar af 64 lönd.  
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs 2005

Líkt og undanfarin ár munu yfirvöld ferðamála veita umhverfisverðlaun á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður á á Radisson SAS Hótel Sögu í Reykjavík dagana 27.-28. október næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim aðilum sem þykja hafa skarað framúr í umhverfismálum. Tilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálaráðs að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hér með er óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna og er öllum heimilt að senda inn tilnefningar og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs fyrir 20. september nk. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Við tilnefningu til umhverfisverðlauna er vert að hafa í huga að viðkomandi hafi skýr markmið í umhverfismálum. Markmið með umhverfisvænni ferðamennsku eru:Að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi. Umhverfisvæn ferðamennska er samspil þriggja þátta; ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Frekari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með tölvupósti valur@icetourist.is Nánar um Umhverfisverðlun Ferðamálaráðs Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.
Lesa meira

Ísland á ný valið "Uppáhalds Evrópulandið"

Ísland komst á ný í efsta sætið í árlegri könnun bresku blaðanna Guardian og Observer á uppáhalds landi lesenda þeirra í Evrópu. Verðlaunin voru afhent síðastliðinn laugardag og veitti Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, þeim viðtöku. Ísland var í efsta sæti í þessari könnun fyrir tveimur árum og var þá að komast á listann í fyrsta sinn. Í fyrra var ísland í 2. sæti á eftir Slóveníu, sem nú fór niður í 2. sæti. Þá fer Icelandair úr 14. sæti í það 4. þegar spurt er um besta flugfélagið sem flytur farþega til og frá Bretlandi á styttri flugleiðum. Reykjavík er í 34. sæti yfir uppáhalds borgirnar en fellur úr 12. sæti árið 2004. Lesendur sjálfir sem veljaVerðlaunin byggja á niðurstöðum könnunar sem fjölmiðlarnir gera árlega á meðal lesenda sinna og voru verðlaunin í ár þau 19. í röðinni. Könnunin gengur þannig fyrir sig að lesendur eru beðnir að meta þá þjónustu sem þeir fá í ferðalögum sínum með því að gefa henni einkunn. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, veitti sem fyrr segir verðlaununum viðtöku fyrir hönd Ferðamálaráðs Íslands og segir hann þetta verulega viðurkenningu fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu. "Það góða við þessi verðlaun er að þau byggja alfarið á áliti lesenda. Það eru ferðamennirnir sjálfir sem eru að kveða upp dóm sinn byggðan á gæðum þeirrar þjónustu sem þeir fengu. Við urðum vör við verulega aukinn áhuga á Íslandi í kjölfar útnefningar Íslands fyrir tveimur árum og ég á fastlega von á að svipað geti orðið upp á teningnum nú," segir Ársæll. Hverju er þetta að þakka?Ársæll segir vissulega vert að spyrja þeirrar spurningar hverju þessi góði árangur Íslands er að þakka. ?Ég tel raunar að svarið sé margþætt og margir samverkandi þættir sem þarna spila saman. Við skulum hafa hugfast að undanfarin misseri hefur meiri fjármunum verið varið til að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland en áður hefur þekkst og þar hafa stjórnvöld og fyrirtæki í greininni sameinað krafta sína. Þetta tel ég tvímælalaust að sé að skila sér. Markaðsstarf flugfélaganna á stóran þátt í þessu, ekki síst Icelandair, eins og könnunin sýnir. Auðvitað er visst áhyggjuefni að sjá hvað Reykjavík fellur á listanum yfir borgir og það er mál sem þarf að kryfja. Einnig er Ísland að fá lægra skor nú en fyrir tveimur árum og það þurfum við einnig að skoða sérstaklega, ekki síst með tilliti til þjónustuþátta og verðlags,? segir Ársæll. Ferðaverðlaun Guardian/Oserver  
Lesa meira

Nýsköpunarverðlaun SAF - óskað eftir ábendingum

Þann 11. nóvember nk. verða nýsköpunarverðlaun SAF afhent í annað sinn. Nýsköpunar- og vöruþróunarsjóður samtakanna var stofnaður á aðalfundi SAF á síðasta ári. Hlutverk hans að hvetja fyrirtæki innan SAF til nýsköpunar og vöruþróunar með því að veita verðlaun/viðurkenningar fyrir athyglisverðar nýjungar. Kveðið er á um að heimilt sé að veita verðlaun vegna nýsköpunar allt að 300.000 krónum fyrir hvert verkefni og að veita viðurkenningar fyrir vöruþróun sem stjórn sjóðsins telur að muni styrkja ferðaþjónustuna. Stjórn sjóðsins skipa Jón Karl Ólafsson, formaður SAF, Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri VIATOR og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri ferðamáladeildar á Hólum sem er fulltrúi Ferðamálaseturs Íslands. Ábendingar á að senda til skrifstofu SAF, Borgartúni 35, Reykjavík og merkja þær sjóðnum. Þetta og fleira er meðal þess sem fram kemur í nýju fréttbréfi SAF sem aðgengilegt er að vef samtakanna
Lesa meira

Rannsóknir um ferðamennsku og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja

"Menning og samfélag - Náttúra - Efnahagslíf" er yfirskrift fjölþjóðlegrar ráðstefnu um rannsóknir um ferðamennsku og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja sem Ferðamálasetur Íslands (FMSÍ) mun standa fyrir dagana 22.-25. september . Ráðstefnan er haldin á Akureyri í samvinnu við Nordisk Selskab for Turismeforskning en samtökin standa að útgáfu Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism. Sextíu og sex erindi verða flutt í fimm málstofum þar sem meginstef eru menning og samfélag,  náttúra,  efnahagslíf, stefnumótun og markaðsmál. Liðlega 80 þátttakendur eru nú þegar skráðir á ráðstefnuna. Mjög virtir aðalfyrirlesarar verða með erindi á ráðstefnunni. Simon Milne, forstöðuaður ferðamálaseturs Nýja Sjálands, mun halda erindi fimmtudaginn 22. september.  Dirk Glaesser, yfirmaður upplýsingasviðs World Tourism Organization á Spáni og Stephen Ball, formaður samtaka fræðimanna um rekstur ferðaþjónustufyrirtækja í Bretlandi, munu halda erindi sín á föstudagsmorgni og Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, klukkan tvö sama dag. Á laugardag fjallar John Hull, fræðimaður frá Kanada, um möguleika sjálfbærrar ferðaþjónustu innan þjóðgarða. Samhliða ráðstefnunni mun  Rannsóknarstofnun HA  (RHA) halda ráðstefnu um byggða- og svæðaþróunarmál, VIII Nordic-Scottish Conference on Rural and Regional Development. Þar verður m.a. sérstök málstofa um ferðamennsku og byggðamál. Búist er við um 40 þátttakendum á þá ráðstefnu (sjá http://vefir.unak.is/nsun2005/) Þátttökugjald er 34.000 kr. á ráðstefnuna alla eða 15.000 kr.á ráðstefnudag og þá án kvöldverðar. Nánari upplýsingar er að finna á vef FMSÍ, http://www.fmsi.is, á vef ráðstefnunnar, http://vefir.unak.is/14thnordic/, eða hjá Helga Gestssyni hjá FMSÍ í síma 460 8930. Dagskrá ráðstefnunnar (PDF) Heimasíða ráðstefnunnar
Lesa meira

Stóðsmölun og réttir í A-Húnavatnssýslu draga til sín sívaxandi fjölda ferðafólks

Dagana 17. og 18. september verður mikið fjör í Austur Húnavatnssýslu, stóðsmölun á Laxárdal og réttir í Skrapatungurétt. Heimamenn bjóða gestum og gangandi að slást í för og upplifa ósvikna gangna- og réttarstemmningu. Alvöru þjóðlegt ævintýri?Stóðréttarhelgi Skrapatunguréttar er hátíð heimamanna og ferðafólks þar sem er spilað sungið og skemmt sér að sið Íslendinga. Við bjóðum gestum að slást í för með gangnamönnum á eyðidalnum Laxárdal og upplifa alvöru þjóðlegt ævintýri. Þátttakendur geta hvort heldur sem er leigt hesta hjá heimamönnum eða mætt með sína eigin hesta,? segir Haukur Suska-Garðarsson, ferða- og atvinnumálafulltrúi, sem tekur við bókunum í stóðsmölunina. Stóðhrossin verða rekin til byggða á laugardeginum 17. september. Lagt er af stað frá Strjúgsstöðum í Langadal kl. 10. og síðan riðið sem leið liggur um Strjúgsskarð og norður Laxárdal. Haukur segist vilja benda fólki á að ekki er aðstaða til að geyma hross yfir nótt á Strjúgsstöðum að þessu sinni. Aðstaða verður til að geyma bíla og taka niður hross við sandnámu við Strjúgsstaði (ytri afleggjari). Þátttakendur eru beðnir að virða að ekki er leyfilegt að reka laus reiðhross í stóðsmöluninni. Ferðamannafjallkóngur sér um leiðsögn gestaVið Kirkjuskarðsrétt á Laxárdal hvíla hestar og menn og fá sér að eta og drekka eftir þörfum. Veitingar verða seldar á staðnum. Ráðgert er að leggja af stað kl. 16 frá Kirkjuskarði. Þaðan er riðið norður í Skrapatungrétt sem er ein myndarlegasta stóðrétt landsins og heillast gestir og heimamenn ávallt af tignarlegu stóðinu. Búið hefur verið til nýtt embætti í kringum þennan viðburð, ferðamannafjallkóngur. Sá sem ber þann titil er Valgarður Hilmarsson forseti bæjarstjórnar Blönduóss. Ferðamannafjallkóngurinn, sem er heimavanur á þessum slóðum, mun sjá um fararstjórn og leiðsögn ferðamanna í stóðsmöluninni. Þótt fjöldi gesta taki þátt í stóðsmöluninni er þó enn fleiri sem láta sér nægja að koma akandi og fylgjast með gangnamönnum og réttarstörfum. Skrapatungurétt er í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá Blönduósi en fram að Kirkjuskarðsrétt er aksturstími um 40 mínútur. Á laugardagskvöldinu kl 20 verður haldið til grillveislu í reiðhöllinni við Blönduós. Þeir sem vilja snæða í grillveislunni er beðnir að panta fyrir hádegi föstudaginn 16.september í síma 898 5695 eða 891 7863. Stemningin nær svo hámarki á dansleik síðar um kvöldið á Hótel Blönduós. Á sunnudagsmorgun hefjast réttarhöld í Skrapatungurétt um kl. 11. Bændur ganga í sundur hross sín og reka þau svo í lok dags til síns heima. Nánari upplýsingar og bókanir í stóðsmölun, í síma 891 7863 eða í netfangi haukur@ssnv.is Nánari upplýsingar um réttir á Norðurlandi vestra má finna á www.nordurland.is og hjá Upplýsingamiðstöð Norðurlands vestra Varmahlíð, s. 455 6161, upplysingar@skagafjordur.is Mynd:Ferðamenn fjölmenna á Skrapatungurétt.
Lesa meira

Icelandair með beint áætlunarflug til Manchester

Áfangastöðum íslenskra flugfélaga heldur  áfram að fjölga. Nú síðast tilkynnti Icelandair að félagið muni hefja beint áætlanaflug á milli Manchester í Englandi og Keflavíkur í byrjun apríl á næsta ári. Flogið verður tvisvar í viku, á föstudögum og mánudögum, með Boeing 757 þotum félagsins. Í tilkynningu segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, að félagið sé með þessu að sækja af auknum krafti inn á ferðamannamarkaðinn í Bretlandi, ásamt því að opna Íslendingum nýja leið inn á mjög spennandi svæði. Manchester sé miðpunktur í mjög þéttbýlu svæði með álíka marga íbúa og Danmörk, Noregur og Svíþjóð samanlagt, og flugtíminn til Íslands sé aðeins tvær og hálf klukkustund. Markaðsrannsóknir gefi félaginu væntingar um að Manchesterflugið verði góð viðbót við London og Glasgow.  
Lesa meira

Íslandsbæklingurinn 2006 að koma úr prentun

Vinna við Íslandsbækling Ferðamálaráðs fyrir árið 2006 er nú á lokastigi. Verður honum dreift á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem hefst í Kaupmannahöfn á morgun. Íslandsbæklingurinn er mikilvægur liður í markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands. Hann er sem fyrr gefinn út á 10 tungumálum, þ.e. ensku, dönsku, sænsku, norsku, finnsku, hollensku, ítölsku og spænsku, auk sérútgáfu fyrir þýskumælandi lönd, Frakkland og Norður-Ameríku. Upplag bæklingsins er 500 þúsund eintök. Skrifstofur FMR erlendis, sem og ferðaheildsalar í viðkomandi löndum, annast dreifingu bæklingsins, auk þess sem hann er kynntur á ferðasýningum víðsvegar um heim og sendur til íslenskra sendiráða og ræðismanna. Einnig er hægt að nálgast bæklinginn í PDF-formi á landkynningarvef Ferðamálaráðs www.visiticeland.com ásamt því sem fólk erlendis getur þar pantað hann í prentaðri útgáfu sér að kostnaðarlausu. Leitað er eftir þátttöku aðila í ferðaþjónustu í kostnaði við gerð bæklingsins og aftast í honum er að finna upplýsingasíður þar sem þeim gefst kostur á að fá birtar upplýsingar um fyrirtæki sitt gegn gjaldi. Skoða Íslandsbækling 2006 (PDF 5 MB)  
Lesa meira

Þúsund manna frístundaþorp á Hellnum

Framkvæmdir eru hafnar við þúsund manna frístundaþorp á Hellnum á Snæfellsnesi. Verður það reist í samvinnu Íslendinga og Norðmanna. Mbl.is greinir frá þessu í dag. Þorpið mun heita á Plássið undir Jökli, líkt og gamla fiskiþorpið þar hét forðum daga þegar útræði var stundað frá Hellnum. Fyrir framkvæmdum stendur einkahlutafélagið Hellisvellir sem keypti um 30 hektara spildu undir þorpið fyrir ofan kirkjuna og Menningarmiðstöðina á Hellnum í landi Brekkubæjar. Ráðgert er að reisa allt að 200 íbúðarhús auk verslana, lista- og handverksgallería, hótels o.fl. Húsunum, sem öll verða flutt inn frá Noregi, svipar til svokallaðra katalóghúsa sem Íslendingar fluttu inn til Íslands frá Noregi á 19. öld og enn setja svip á ýmsa kaupstaði landsins. Húsin sem hönnuð eru í níu grunngerðum, frá 50 fermetrar upp í 150 fermetra og eru flest hæð og ris. Þau verða ýmist seld eða leigð. Hellisvellir ehf.er í eigu Þorsteins Jónssonar og Jörn Wagenius. Þeir reistu Menningarmiðstöðina á Hellnum fyrir tveimur árum og er stækkun hennar fyrirhuguð í vor í tengslum við þorpið. Jörn er byggingarverktaki frá Bergen í Noregi og hefur samkvæmt frétt Morgunblaðsins meðal annars byggt upp frístundaþorp í Noregi.
Lesa meira