Fréttir

Fréttir af aðalfundi Ferðamálasamtaka Íslands

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands var að þessu sinni haldinn á Hótel Varmahlíð daganna 25. og 26. nóvember sl. Þema fundarins voru gæði í ferðaþjónustu, þróun þeirra og væntingar. Þátttaka aðila frá hinum átta landshlutasamtökum var mjög góð frá öllum svæðum. Umgjörð fundarins var hin besta undir fundarstjórn Elíasar Bj. Gíslasonar, forstöðumanns upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs Íslands og allt framlag heimamanna, Skagfirðinga, var til mikillar fyrirmyndar. Fundurinn hófst á setningu Péturs Rafnssonar, formanns FSÍ, en hann ræddi m.a. um stöðu greinarinnar, ferðamálaáætlun til 2015 og ný lög um skipulag ferðamála, sem taka gildi 1. janúar 2006. Hann fór einnig nokkrum orðum um samstarf fyrirtækja í ferðaþjónustu og samtaka þeirra í landshlutunum. Tveir fyrirlesarar ræddu um gæði í ferðaþjónustu, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, deildarstjóri í Háskólanum á Hólum, talaði um fagmennsku almennt og þýðingu hennar fyrir framtíð greinarinnar og Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilisins í Reykjavík talaði um vinnu þeirra með gæðakerfið ?High Quality? og innri gæðavinnu í fyrirtækjum. Þær stöllur svöruðu síðan fyrirspurnum fundarmanna. Ný stjórn FSÍAlmenn aðalfundarstörf fóru fram eftir kaffihlé samkvæmt lögum FSÍ og gengu vel fyrir sig.Ný stjórn ferðamálasamtaka Íslands skipa eftirtaldir aðilar: Formaður var kosinn Pétur Rafnsson FSH og meðstjórnendur voru tilnefndir frá landshlutasamtökunum þau Marteinn Njálsson, FSVL, Sævar Pálsson, FSVF, Pétur Jónsson, FSNV, Ásbjörn Björgvinsson, FSNE, Stefán Stefánsson, FSA, Ingi Þór Jónsson, FSSL, Kristján Pálsson, FSS og Dóra Magnúsdóttir frá FSH. Fulltrúar FSÍ í nýtt Ferðamálaráð Íslands sem tekur til starfa 1. janúar 2006 skv. nýjum lögum um skipulag ferðamála verða eftirtaldir: Aðalmenn: Pétur Rafnsson og Dóra Magnúsdóttir. Varamenn: Ásbjörn Björgvinsson og Jónas Hallgrímsson. Kynning á ferðaþjónustu svæðisinsAð fundi loknum var fundarmönnum boðið að skoða handverk í Skagafirði. Undir kvöldmat bauð sveitarfélagið í móttöku að Löngumýri, þar sem bæjarstjórinn Ársæll Guðmundsson tók á móti gestum og karlakórinn Heimir söng af sinni alkunnu snilld við frábærar undirtektir. Að því loknu hófst kvöldverður í Hótel Varmahlíð undir veislustjórn Jakobs Frímanns Þorsteinssonar, forstöðumanns upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð. Skemmtiatrið voru harmónikkuleikur tveggja Skagfirðinga og að kvöldverði loknum var tekinn snúningur á dansgólfinu fram eftir kvöldi. Á laugardag var farið í skemmtilega kynnisferð um Skagafjörð og ferðaþjónusta kynnt. Komið var við í Reiðhöllinni á Sauðárkróki, þar sem kynnt voru hestaferðafyrirtækin á svæðinu og boðið upp á hestasýningu. Skíðasvæðið í Tindastól var heimsótt og að lokum voru gestir boðnir í léttan hádegisverð á Hótel Tindastóli, þar sem almenn kynning var á ferðaþjónustu í Skagafirði. Meðfylgjandi myndir voru teknar á fundinum. Pétur Rafnsson, formaður FSÍ í ræðustóli, Elías Bj. Gíslason fundarstjóri og Marín Hrafnsdóttir fundarritari. Ásbjörn Björgvinsson, Kristín Jóhannsdóttir, Ólafur Sveinn Jóhannesson, KjartanLárusson og Davíð Samúelsson. Ásborg Arnþórsdóttir og Hildur Jónsdóttir. Aðalfundargestir kynna sér starfsemi upplýsingamiðstöðvar Norðurlands vestra í Varmahlíð.
Lesa meira

Ferðamálaráð verðlaunar samstarfsverkefni nemenda við Listaháskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík

Föstudaginn 9. desember næstkomandi kl. 17 verður í Hafnarhúsi, Listasafni Reykjavíkur, opnuð sýningin ?Ný sýn í ferðamálum?.  Hún er afrakstur samstarfsverkefna nema úr hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands og viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Í ár veitir Ferðamálaráð Íslands peningaverðlaun til þeirra verkefna sem best þykja. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra opnar sýninguna og afhendir verðlaun Ferðamálaráðs. Áfangi af þessu tagi var nú kenndur á vegum skólanna í fjórða sinn. Að þessu sinni höfðu verkefnin öll sameiginlegt þema: Ný sýn í ferðamálum  - en þau lúta öll að nýjungum á sviði ferðaþjónustu á Íslandi. Sérstaklega var horft til þátta í menningu og sögu lands og þjóðar, og að draga það fram sem stundum gleymist í ferðamennsku á Íslandi. Nemendur unnu að hönnun nýrrar vöru eða þjónustu og útfærslu hennar með gerð viðskipta- og markaðsáætlunar. Afraksturinn er afar áhugaverður eins og getur að líta á sýningunni. Bók um kynlíf álfa og manna, veitingastaður í Botnsskála í Hvalfirði, Vala - nuddsteinn sem veitir einstaka upplifun, styttugarður á Mýrdalssandi, að vera persóna í Íslendingasögunum, Hrafnamenning, lúxushótel á fjöllum og ferðamenn sem lifa eins og útilegumenn eru dæmi um verkefni sem kynnt verða. Nánar um sýninguna.  
Lesa meira

Farþegar um Keflavíkurflugvöll orðnir fleiri en allt árið í fyrra

Samkvæmt tölum frá Keflavíkurflugvelli fóru tæplega 116 þúsund farþegar um völlinn í nýliðnum nóvembermánuði. Þetta er 8% fjölgun samanborið við nóvember í fyrra þegar 107 þúsund farþegar fóru um völlinn. Það sem af er ári, eða fyrstu 11 mánuði ársins, hafa rúmlega 1,7 milljónir farþega farið um Keflavíkurflugvöll, ýmist á leið til landsins, frá því eða þeir hafa haft hér viðkomu. Aukningin á milli ára nemur 10,6%, því fyrstu 11 mánuði ársins 2004 fóru rúmlega 1,5 milljónir farþega um völlinn. Allt árið í fyrra fóru 1.637.029 farþegar um Keflavíkurflugvöll þannig að þeirri tölu hefur þegar verið náð. Nánari skiptingu má sjá í töflunni hér fyrir neðan.   Nov.05. YTD Nov.04. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 49.577 712.266 44.879 641.039 10,47% 11,11% Hingað: 50.738 712.130 46.492 654.845 9,13% 8,75% Áfram: 354 12.641 1.134 6.512 -68,78% 94,12% Skipti. 15.243 277.602 14.769 247.589 3,21% 12,12%   115.912 1.714.639 107.274 1.549.985 8,05% 10,62%
Lesa meira

Gistinóttum á hótelum í október fjölgaði um 2,5% á milli ára

Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur og gestakomur á hótelum í október síðastliðnum. Þar kemur fram að gistinæturnar voru 86.100 samanborið við 84.000 í október í fyrra. Aukningin nemur 2,5%. Líkt og sl. 5 mánuði varð hlutfallslega mest aukning á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 4.800 í 6.700 (39,3%). Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um tæp 7%, úr 9.500 í 10.200 milli ára. Gistinætur á hótelum á Norðurlandi voru 4.000 í október sl en voru 3.800 árið 2004, sem er tæplega 5% aukning. Á höfuðborgarsvæðinu var 0,5% samdráttur gistinátta, fóru úr 63.150 í 62.850. Á Austurlandi nam samdrátturinn rúmum 13% er gistinætur fóru úr 2.700 í 2.400. Fjölgun gistinátta á hótelum í október árið 2005 er eingöngu vegna útlendinga, en þær fóru úr 63.200 í 66.100 milli ára (4,6%). Gistinóttum Íslendinga fækkaði um 4% á sama tíma, úr 20.800 í 20.000. Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann). Tölur fyrir 2005 eru bráðabirgðatölur.  
Lesa meira

Þurfum að þróa þjónustu okkar að þörfum nýs markaðar

Eins og komið hefur fram í fréttum hér á vefnum fór Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ásamt fylgdarliði í opinbera heimsókn til Kína  fyrir stuttu. Magnús Oddsson ferðamálastjóri var einn þeirra sem var í fyldarliði ráðherrans í þessari átta daga ferð um Kína. ?Við fengum tækifæri til að heimsækja þrjár gjörólikar borgir í Kína þ.e. Peking, Kunming og loks Shanghaj þannig að við sáum miklar andstæður og áttum fundi með aðilum í ferðaþjónustu á svæðunum auk þess em fundur var með ferðamálayfirvöldum Kína,? segir Magnús. Hann segir ljóst að þessi risamarkaður sé að byrja að hreyfast og því miklir möguleikar þar fólgnir. Þá sé ekki síður athyglisvert hve áhugi ferðaþjónustuaðila og yfirvalda sé mikill á frekari samskiptum við Ísland. Asía verður fimmta áherlsusvæði ferðaþjónustunnar?Í fyrra var gerður svokallaður ADS samningur við Kína sem gerir alla sölu hópferða frá Kína til Íslands auðveldari. Í kjölfarið höfum við nú í tvö ár tekið þátt í stærstu ferðasýningu Asíu sem haldin er árlega í Kína. Við heimsóttum hana nú í ferðinni í Kunming. Við verðum að gera okkur ljóst að það er mikið starf fyrir höndum bæði hvað varðar að læra á dreiflleiðir og byggja upp söluleiðir í þessu stóra landi, en ekki síður að laga móttökuþátt okkar að þörfum þessa nýja markaðar. Við höfum þróað þjónstuþætti okkar í samræmi við þarfir helstu markaðssvæða Íslands en hér er þörf fyrir allt annars konar þjónustu að ýmsu leyti. Íslensk ferðaþjónusta hefur verið með aðaláherslu á fjögur meginmarkaðssvæði undanfarna áratugi, þ.e. N- Ameríku, Bretland, Norðulönd og  meginland Evrópu. Nú hlýtur á næstu árum Asía með sérstaka áherslu á Kína að verða fimmta áherlsusvæði ferðaþjónustunnar,? segir Magnús. Hann minnir jafnframt á að það sé mikil vinna framundan í báðum þessum þáttum, þ.e. markaðs- og söluþættinum og í að þróa móttökuþáttinn og breyta honum. Að hans mati sé það líklega stærra verkefni en hann hafi talið áður en farið var í þessa ferð. Mynd: Frá Shanghaj.
Lesa meira

Aðgengi fyrir alla hjá Ferðaþjónustu bænda

Við setningu Uppskeruhátíðar Ferðaþjónustu bænda á dögunum var verkefnið "Aðgengi fyrir alla innan Ferðaþjónustu bænda" kynnt formlega. Verkefnið hófst í lok sumars en frumkvæðið að því átti Þórunn Edda Bjarnadóttir. Sá hún einnig um framkvæmd í samvinnu við gæðastjóra Ferðaþjónustu bænda, Berglindi Viktorsdóttur. Markmið verkefnisins Verkefnið gekk út á að kanna aðgengi fatlaðra hjá þeim 150 ferðaþjónustuaðilum sem eru innan Ferðaþjónustu bænda og fá þar með heilstæða mynd af stöðu þessara mála.  Niðurstöður verkefnisins verða notaðar til að koma upplýsingum á framfæri við ferðafólk og einnig til að veita ferðaþjónustuaðilum upplýsingar um  hvar þeir standa með tilliti til aðgengis. Nánar má fræðast um verkefnið á vef Ferðaþjónustu bænda. Þess má geta að innan Ferðamálaráðs er einnig unnið að þessum málum. Við framkvæmdir á fjölsóttum ferðamannastöðum sem Ferðamálaráð hefur komið að hefur þess t.d. ávallt verið gætt að hugað sé að aðgengi fyrir alla sem kostur er.  
Lesa meira

Metaðsókn að World Travel Market 2005

Tölur um aðsókn að World Travel Market í London liggja nú fyrir. Alls voru 49.000 þúsund manns sem sóttu sýninguna  eða rúmlega 5% fleiri en í fyrra, þannig að um metaðsókn er að ræða. Þá er líklegt að af hinum  13.193 Meridian Club gestum, en það eru kaupendur sem eru boðnir ?  hafi aukningin verið 2% milli ára og í heild voru það 11% fleiri erlendir (overseas) gestir sem þáðu Meridian Club boðið. Áhugi fjölmiðla  jókst einnig og voru þeir gestir 2.909 talsins sem samsvarar 7% aukningu á milli ára.  Sérstök dagskrá var í boði fyrir ráðherra ferðamála  sýningarlandanna og rúmlega 60 ráðherrar mættu. Þeir voru viðstaddir opnunarhátíð í ExCel sýningarhöllinni og síðan boðnir í sérstaka móttöku í House of Lords ásamt sendiherrum landa sinna. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sótti sýninguna eins og fram hefur komið og einnig Sendiherra Íslands í Bretlandi, Sverrir Haukur Gunnlaugsson. Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands á Bretlandsmarkaði, sá líkt og undanfarin ár um undirbúning og framkvæmd á þátttöku Íslands. Hún hefur sótt World Travel Market til fjölda ára og segir ánægjulegt að sjá hversu sýningin sé að vaxa.  ?Stærsta breytingin varð árið 2002 þegar sýningin var flutt í hina nýju og glæsilegu sýningarhöll ExCel í Docklands þar sem öll aðstaða er alveg frábær. Með þessari breytingu gafst kostur á að þróa sýninguna áfram. World Travel Market er mikilvæg fyrir íslenska ferðaþjónustu og markmiðið með þátttökunni er auðvitað fyrst og fremst að skapa aukin viðskipti. Ég heyri ekki annað á íslensku þátttakendunum en að þeir séu ánægðir með árangurinn enda var nóg að gera á íslenska sýningarsvæðinu alla dagana,? segir Sigrún. Þau íslensku fyrirtæki sem tóku þátt í WTM í ár voru: Icelandair; Icelandair holidays; Iceland Travel; Hertz; Icelandair Hotels; Reykjavik Excursions; Hotel Borg / Keahotels; Iceland Excursions ? Gray Line; Bláa lónið; Visit Reykjavik; Snæland Grimsson; Iceland Express; Ferðaþjónusta bænda; Guðmundur Jónasson og Flugfélag Íslands. Starfsfólk fyrirtækjanna gerði sér glaðan dag eftir ánægjuleg viðskipti á þriðjudeginum og eru meðfylgjandir mynd tekin við það tækifæri. Nánar má lesa um aðsókn á WTM í frétt á vef sýningarinnar Inga Birna Ragnarsdóttir hjá Flugfélagi Íslands og mæðginin Signý Guðmundsdóttir hjá Guðmundi Jónassyni Travel og Árni Gunnarsson hjá Flugfélagi Íslands. Strákarnir á Borginni og Arnar, gæti þessi mynd heitið. Páll Jónsson, KEA Hótels; Arnar Már Arnþórsson, Hertz og Ólafur Þorgeirsson, Hótel Borg.
Lesa meira

Samgönguráðherra á fundum með kínverskum ferðamálayfirvöldum

Nú er lokið opinberri heimsókn Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra til Kína. Í ferðinni hitti ráðherrann bæði ferðamálaráðherra Kína og formann ferðamálaráðs Shanghai, auk þess að sækja stærstu ferðasýningu Asíu. Á fundi með ferðamálaráðherra Kína, Hr. Shao Qiwei, lögðu ráðherrarnir áherslu á að efla þyrfti frekar grunn að samskiptum þjóðanna á sviði ferðamála. Þá ræddu ráðherrarnir möguleg skipti sérfræðinga í ferðaþjónustu á milli landanna. Ferðaþjónustu á Íslandi stæði þannig til boða að fá kynningu frá kínverskum ferðamálasérfræðingum um hvernig best skuli staðið að móttöku ferðamanna frá Kína. Hr. Shao Qiwei sagði gríðarleg tækifæri felast í auknum fjölda ferðamanna frá Kína fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi. Fundurinn fór fram í Kunming þar sem samtímis var haldin stærsta ferðasýning Asíu, China International Travel Mart. Fjögur íslensk ferðaþjónustufyrirtæki tóku þátt í sýningunni (Ferðaþjónusta bænda, Allrahanda, Jarðböðin við Mývatn, Icelandair og Icelandair Travel) auk Ferðamálaráðs og sendiráðs Íslands í Peking. Í Shanghai átti samgönguráðherra fund með Jin Fang, formanni ferðamálaráðs Shanghai. Þar kom m.a. fram að til að auka ferðalög Kínverja til Íslands er mikilvægt að koma á beinu flugi á milli landanna. Hvað aukin tækifæri varðar má geta þess að ef spá Alþjóða ferðamálasamtakanna, World Tourism Organization, gengur eftir mun kínverskum ferðamönnum fjölga um helming frá því sem nú er á næstu 15 árum, eða úr 20 milljónum árið 2005 í 40 milljónir árið 2020. Aðeins lítið brot þeirra kemur nú hingað til lands og því um óplægðan akur að ræða að mestu leyti. Á myndinni, sem fengin er af vef Samgönguráðuneytisins, er Sturla Böðvarsson á fundi með ferðamálaráðherra Kína, Hr. Shao Qiwei,  
Lesa meira

Skýrsla um niðurstöður Pisa-fundarins aðgengileg á vefnum

Á dögunum sögðum við hér á vefnum frá árlegu málþingi alþjóðlega markaðsrannsóknafyrirtækisins IPK og Ferðamálaráðs Evrópu (ETC) sem haldið var í Pisa á Ítalíu. Skýrsla þar sem helstu niðurstöður fundarins eru teknar saman var birt á World Travel Market og er nú jafnframt aðgengileg hér á vefnum. Byggt er á gögnum frá WTO (World Tourism Organization, IPK, IATA (International Air Transport Association), SYTA (Student Youth Travel Association) ofl. Eins og fram hefur komið var meginviðfangsefni þingsins að meta stöðu og horfur á ferðamörkuðum í Evrópu Ameríku og Asíu. Til málþingsins var boðið fulltrúum ferðamálaráða aðildarlanda Ferðamálaráðs Evrópu og nokkurra alþjóðlegra samtaka og fyrirtækja sem sinna gagnasöfnun um ferðamennsku á alþjóðavísu. Skoða skýrslu (PDF-0,4 MB)
Lesa meira

World Travel Market gekk vel

World Travel Market ferðasýningunni lauk í London sl. fimmtudag. Sýnigin var sú stærsta frá upphafi og þótti takast vel. Að þessu sinni tóku 15 íslensk fyrirtæki þátt. “Hvað varðar þátttöku Íslands þá get ég sagt að þetta var að mínu mati besta World Travel Market sýning sem ég hef tekið þátt í. Það var mikið líf í íslenska básnum og fólk að gera góð viðskipti,” segir Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands.  “Ég held að þáttur í því hversu vel okkar þátttaka gekk sé að bróðurpartur íslensku sýnendanna eru beinir söluaðilar í ferðaþjónustu, þ.e. flugfélög, hótel, bílaleigur o.s.frv. Það eru þessir aðilar fyrst og fremst sem kaupendurnir koma til að hitta og eiga viðskipti við,” segir Ársæll. Hann sagði alla íslensku sýnendurna hafa merkt aukin áhuga á ferðalögum til landsins. “Það voru fjölmargir nýir aðilar að koma til okkar og vildu komast í hóp þeirra sem selja ferðir til Íslands. Ég varð líka var við að fyrirhugað flug British Airways hingað til lands, sem hefst í vor, hefur vakið athygli og skapað aukinn áhuga, segir Ársæll. Um 5.200 sýnendur tóku þátt í World Travel Market að þessu sinni og um 45 þúsund manns komu í heimsókn, bæði sérhæfðir kaupendur í ferðaþjónustu og almenningur. Er áætlað að gerð hafi verið viðskipti sem samsvara um 33 milljörðum punda þá fjóra daga sem sýningin stóð yfir. Þess má geta að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra var meðal þeirra sem heimsóttu íslenska sýningarsvæðið. Skoða myndir frá sýningunni  
Lesa meira