Fréttir

Niðurstöður vetrarkönnunar Ferðamálaráðs

Niðurstöður úr vetrarkönnun Ferðamálaráðs 2004-05 eru nú aðgengilegar hér á vefnum. Könnunin fór fram í Flugstöð Leifs Eiríkssonar frá miðjum september 2004 fram til loka maí 2005 og er sambærileg eldri könnunum sem gerðar hafa verið yfir vetrartímann, síðast veturinn 2001-2002. Á könnunartímabilinu fóru um 176 þúsund gestir úr landi í gegnum Leifsstöð, 31% voru Norðurlandabúar, 21,0% Bretar, 16,7% N-Ameríkanar, 7,1% Þjóðverjar og 4,0% Frakkar. Alls tóku 2600 einstaklingar þátt í könnuninni. Notfær svör voru því 1,5 prósent úr þýðinu. Mismunandi tekjuhóparHeldur fleiri karlar en konur voru í hópi vetrargesta síðastliðinn vetur, 54,8% á móti 45,2%, en hins vegar hefur hlutfall kvenna farið vaxandi sé litið til tveggja síðustu kannana. Hlutfall tekjuhærra fólks er að aukast en athygli vekur að nokkur munur er á markaðssvæðum í því tilliti. Svo virðist að verr hafi gengið að ná til tekjuhærri einstaklinga í Mið-Evrópu heldur en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Þannig er mun stærri hluti síðartöldu gestanna í hópi tekjuhærri einstaklinga, miðað við tekjur í heimalandi viðkomandi. Eins og í fyrri könnunum nefna langflestir svarenda náttúruna og landið þegar spurt er um hvaðan hugmynd að Íslandsheimsókn hafi komið. Næstflestir nefna vini/ættingja og síðan þætti eins og viðskiptatengsl, netið og ferðabæklinga. Þá vegur náttúran sem fyrr þyngst þegar ákvörðun um Íslandsferð er tekin. Netið er langöflugasti upplýsingamiðill erlendra ferðamanna um Ísland. Ríflega helmingur svarenda sagðist nota það og er hlutfallið hæst hjá Bandaríkjamönnum og Þjóðverjum. Ánægjulegt er að um fimmtungur vetrargesta hefur komið áður til landsins. FerðahegðunÁhugavert er að skoða tölur um dvalarlengd. Gestir frá meginlandi Evrópu dvöldu hér að meðaltali í 7 nætur að vetri á meðan Bandaríkjamenn, Bretar og Norðurlandabúar dvöldu hér tæplega 5 nætur að jafnaði. Í báðum tilfellum hefur meðaldvalarlengd lengst frá árinu 2000, ólíkt því sem oft heyrist haldið fram, þ.e. að gestir séu almennt að dvelja hér í færri nætur en áður. Þegar skoðað er í hvaða landshluta er gist kemur í ljós að hærra hlutfall gesta hefur gist utan höfuðborgarsvæðisins en fram kom í síðustu könnun. Sérstaklega hefur hlutur Suðurlands vaxið. Bendir þetta til betri dreifingar gesta en áður. Meðaldvalarlengd er þó sem fyrr lengst í Reykjavík. Náttúruskoðun er líkt og í fyrri könnunum efst á blaði þegar spurt er um nýtingu á afþreyingu. Þjónustan fær hærri einkunnGestir voru sem fyrr beðnir að leggja mat á ýmsa þá þjónustu sem þeir fengu hér á landi. Er sérlega ánægjulegt að þeir eru að gefa þjónustu hærri einkunn en áður. Á þetta við um gistingu, mat og upplýsingagjöf. Niðurstöður könnunarinnar eru settar fram í gröfum en út frá þeim má síðan skoða þær nánar, m.a. eftir þjóðernum, kyni, aldri, starfsstétt, tilgangi og tegund ferðar. Vetrarkönnun Ferðamálaráðs 2004-2005 Í meðfylgjandi Powerpoint-skjali hefur síðan verið tekinn saman samanburur við eldri kannanir. Samanburður við eldri kannanir (Powerpoint 0,7 MB) Mynd: Fyrir ofan Grenivík, sér inn Eyjafjörð./Guðni Hermannsson  
Lesa meira

Iceland Express tilkynnir fjölgun áfangastaða

Frá og með næsta vori mun Iceland Express fjölga áfangastöðum sínum í úr þremur í níu. Frá þessu er greint í frétt mbl.is. Staðirnir sem við bætast eru á Norðurlöndunum og Þýskalandi. Félagið flýgur nú á milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar, London og Frankfurt-Hahn í Þýskalandi. Þeir staðir sem bætast við eru Bergen í Noregi, Stokkhólmur og Gautaborg í Svíþjóð og Hamborg, Berlín og Friedrichshafen í Þýskalandi. Til að byrja með verður flogið tvisvar til fjórum sinnum í viku á nýju áfangastaðina og mun félagið bæta einni flugvél við flugflota sinn vegna þessa.  
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs 2005

Líkt og undanfarin ár munu yfirvöld ferðamála veita umhverfisverðlaun á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður á á Radisson SAS Hótel Sögu í Reykjavík dagana 27.-28. október næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim aðilum sem þykja hafa skarað framúr í umhverfismálum. Tilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálaráðs að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hér með er óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna og er öllum heimilt að senda inn tilnefningar og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs fyrir 20. september nk. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Við tilnefningu til umhverfisverðlauna er vert að hafa í huga að viðkomandi hafi skýr markmið í umhverfismálum. Markmið með umhverfisvænni ferðamennsku eru:Að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi. Umhverfisvæn ferðamennska er samspil þriggja þátta; ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Frekari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með tölvupósti valur@icetourist.is Nánar um Umhverfisverðlun Ferðamálaráðs Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.
Lesa meira

Hótelgistingin of ódýr í Danmörku?

Að mati samtaka hótela og veitingahúsa í Danmörku (Horesta) er hótelgisting í Kaupmannahöfn of ódýr. Samtökin vilja beita sér fyrir hærra verði til þess að bæta hag hótela sem mörg hver eiga við fjárhagsvanda að stríða. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu. Í dag kostar næturgisting á fjögurra stjörnu hóteli að jafnaði 2.000 krónum meira í Stokkhólmi en í Kaupmannahöfn. Stóraukið framboð á gistirými telja samtökin helstu ástæðuna fyrir þessu lága verði. Einnig hafa viðskiptaferðalög minnkað eftir hryðjuverkaárásinar í New York 2001 og hár virðisaukaskattur í Danmörku kemur jafnframt niður á hótelunum.
Lesa meira

Íslendingar fjölmennir á Vestnorden

Rúmlega 100 íslenskir aðilar eru skráðir til þátttöku á Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin verður í Kaupmannahöfn 13.-14. september næstkomandi. Ferðamálaráð Íslands, Grænlands og Færeyja hafa staðið að kaupstefnunni síðastliðna tvo áratugi og er hún nú haldin í tuttugasta sinn. Rúmlega 150 sýnendurSýnendur á kaupsstefnunni koma frá vestnorrænu löndunum þremur auk þess sem fyrirtæki frá Danmörku og Settlandseyjum taka þátt. Samtals eru rúmlega 150 fyrirtæki frá þessum löndum skráð sem sýnendur að þessu sinni þannig Íslendingar eru lang fölmennastir líkt og jafnan áður. Kaupendur koma víð aðÁ Vestnorden hitta sýnendurnir ferðaheildsala hvaðanæva að úr heiminum og eiga með þeim stutta fundi sem búið er að tímasetja áður en kaupstefnan hefst. Þarna er um að ræða fyrirtæki sem eru að selja, eða hafa hug á að selja, ferðir til vestnorrænu landanna. Um 112 kaupendur frá um 20 löndum eru skráðir til þátttöku á Vestnorden að þessu sinni. Má þar nefna fyrirtæki frá Ástralíu, N.-Ameríku og Rússlandi og en flest eru fyrirtækin þó frá nágrannaríkjum okkar í V.-Evrópu. Takmarkanir á kynningumÁrsæll Harðarson forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs vill koma því á framfæri við íslenska söluaðila að þeir átti sig á þeirri takmörkun á kynningum sem felst í breytingu á fyrirkomulagi kaupstefnunnar nú. ?Að þessu sinni stendur Ferðamálaráð Grænlands fyrir Vestnorden og fer það fram í Kaupmannahöfn í fyrsta sinn. Fundirnir fara fram í húsnæði bak við Bryggjuhúsið og plássleysi gerir það að verkum að fyrirtækin geta ekki haft með sér kynningarveggi og annað áberandi sýningarefni. Þetta er ókostur en að sögn Grænlendinga óhjákvæmilegt," segir Ársæll. Vestnorden í Kaupmannahöfn í haust verður sem fyrr segir sú 20. í röðinni. Kaupstefnan hefur 10 sinnum verið haldin hér á landi, 5 sinnum í Færeyjum og nú eru Grænlendingar gestgjafar í fimmta sinn. Þetta er þó í fyrsta skipti sem Vestnorden er haldin utan landanna þriggja en ákvörðun um Kaupmannahöfn í stað Grænlands miðar að því að draga úr kostnaði fyrir þátttakendur. Heimasíða Vestnorden 2005 Mynd: Norðurbrygggja í Kaupmannahöfn.
Lesa meira

Markviss markaðssetning á ráðstefnu- og hvataferðamarkaði

Síðustu misseri hefur farið fram skipuleg markaðssetning á Íslandi sem áfangastað fyrir hvataferðir og ráðstefnur. Fjölmargir aðilar standa saman að þessum verkefnum undir leiðsögn og forystu Ferðamálaráðs og Ráðstefnuskrifstofu Íslands. Dæmi um þetta eru þátttaka í sýningum og beinar markaðsaðgerðir á völdum markaðssvæðum á Norðurlöndum, í Evrópu og Bandaríkjunum. Kynningar í sendiráðum í fimm löndumÁ næstunni mun Ráðstefnuskrifstofa Íslands í samvinnu við Ferðamálaráð Íslands, Icelandair og sendiráð Íslands, standa fyrir kynningum í London, Osló, Stokkhólmi, Kaupmannahöfn og Helsinki. Fyrsta kynningin verður haldinn í London þann 28. september þar sem kynnt verður hvað Ísland hefur að bjóða er varðar hvataferðir og ráðstefnur. Gestunum verður boðið að bragða íslenskan mat og hitta aðildarfélaga RSÍ sem taka þátt í kynningunni. Einnig verður kynning á fyrirhugaðri byggingu Ráðstefnu- og tónlistarhúss sem mun rísa á Miðbakkanum í Reykjavík. Samskonar kynningar verða svo haldnar í Helsinki 25. október, í Osló þann 7. nóvember, Stokkhólmi þann 8. nóvember og Kaupmannahöfn þann 9. nóvember. Samvinnan gefur aukið vægi?Tilgangurinn með þessum kynningum er að sinna því meginhlutverki Ráðstefnuskrifstofunnar að markaðssetja Ísland sem áfangastað til ráðstefnuhalds og móttöku hvataferða. Með því að halda kynningarnar erlendis næst betur til vel valdra kaupenda og samvinnan við sendiráðin, Ferðamálaráð og Icelandair gefur þeim enn aukið vægi. Norðurlöndin og Stóra-Bretland eru meðal mikilvægustu markaðssvæða Íslands þegar kemur að hvataferðum og ráðstefnuhaldi og því mikilvægt að sinna vel markaðsstarfi og kynningum þar,? segir Anna R. Valdimarsdóttir, verkefnisstjóri Ráðstefnuskrifstofunnar. Ráðstefnu-og tónlistarhús skapar nýja möguleikaAð sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs, er ráðstefnu-og hvataferðamarkaðurinn einn verðmætasti vaxtabroddurinn í íslenskri ferðaþjónustu. ?Nú hillir undir nýtt metnaðarfullt Ráðstefnu-og tónlistarhús með alþjóðlegu hóteli. Sú framkvæmd mun gerbreyta möguleikum okkar á þessum markaði og skapa ný sóknarfæri, beggja vegna Atlantshafs, fyrir ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan og opinberir aðilar vinna náið saman að markaðssetningunni enda viðurkennt að markaðssetning og gjaldeyrisöflun vegna ferðaþjónustu vinni gegn þensluáhrifum í hagkerfinu og skilar erlendu tekjustreymi inn í landið, segir Ársæll Harðarson að lokum. Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.
Lesa meira

Ferðamál og kynjuð orðræða

Næstkomandi þriðjudag, 30. ágúst, mun Annette Pritchard, prófessor við háskólann í Cardiff Wales, halda fyrirlesturinn "Ferðamál, ímyndasköpun og kynjuð orðræða". Fyrirlesturinn er haldinn í stofu 101 Odda og hefst kl. 16.15 Á ensku nefnist fyrirlesturinn "Tourism and Gendered Discourses. The Importance of Locating Gender Issues at the Heart of Tourism Education". Hann er haldinn á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum og ferðamálafræði Háskóla Íslands. Dr. Annette Pritchard er forstöðumaður Welsh Centre for Tourism Research við háskólann í Cardiff, og gestaprófessor við New Zealand Tourism Research Institute. Hún hefur bakgrunn úr félagsvísindum, fjölmiðlafræði og félagsfræði ásamt alþjóðastjórnmálafræði. Eftir hana liggja um 100 bækur og greinar í alþjóðlegum tímaritum um ímyndir, markaðssetningu í ferðamennsku og kynjafræði, um kyngervi og um stjórnmál ferðamála. Dr. Annette Pritchard er aðalfyrirlesari á heimsfundi menningarmálaráðherra úr röðum kvenna sem er haldinn í Reykjavík 29. og 30. ágúst á vegum Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders). Í fréttatilkynningu segir að dr.Pritchard hafi m.a. staðið að því að byggja upp teymi kynjafræðinga í ferðamálafræðum og sé í forsvari fyrir First International Conference on Critical Tourism Studies sem haldin var í Dubrovnik í Króatíu, í júlí 2005. Hún er ennfremur stjórnarmaður í Executive Committee of the Association for Tourism in Higher Education á Bretlandi og í ritstjórn tímaritsins Journal of Tourism and Cultural Change and Leisure Studies, ásamt því að vera reglulega með innlegg um ferðamál í útvarpi og sjónvarpi BBC.
Lesa meira

SAMIK auglýsir eftir umsóknum um styrki

Vert er að minna á að þann 1. september næstkomandi rennur út frestur til að sækja um styrk til SAMIK. Hægt er að sækja um styrki til verkefna sem aukið geta samstarf Íslands og Grænlands á sviði ferðamála. Styrkirnir geta aldrei numið nema 50% af heildarkostnaði viðkomandi verkefnis. Umsóknir skulu sendar samgönguráðuneytinu, merktar SAMIK, fyrir 1. september næstkomandi eyðublöðum sem þar fást. Eyðublöðin er einnig að finna á heimasíðu ráðuneytisins. (Sækja eyðublað) Allar upplýsingar þurfa að vera á dönsku eða ensku. Nauðsynlegt er að leggja fram kostnaðaráætlun þess verkefnis sem sótt er um styrk til auk nákvæmra upplýsinga um umsækjendur, verkefnið og tilgang þess. Stefnt er að því að ákvörðun um úthlutun styrkjanna liggi fyrir í lok september. Fyrri helmingur styrksins er að jafnaði greiddur út þegar ákvörðun um styrkveitingu liggur fyrir og seinni helmingur þegar viðkomandi verkefni er lokið. Rétt er að benda á að eldri umsóknir er nauðsynlegt að endurnýja. Nánari upplýsingar veitir Birgir Þorgilsson, stjórnarmaður SAMIK, í síma 553 9799. Mynd: Á Jöklusárlóni/Ingi Gunnar Jóhannsson  
Lesa meira

Nýr stigi upp úr Ásbyrgi og bætt aðstaða fyrir ferðamenn við Dettifoss

Síðastliðinn föstudag var formlega tekinn í notkun nýr stigi upp úr Tófugjá í Ásbyrgi. Jafnframt var opnuð ný og gjörbreytt snyrtiaðstaða fyrir ferðamenn við Dettifoss að austan. Stiginn upp úr Tófugjá bætir aðstöðu allra náttúruunnenda, innlendra sem erlendra, á vinsælli gönguleið milli Vesturdals og Ásbyrgis. Áður voru margir sem treystu sér ekki til að fara um Tófugjá og þurftu að fara um lengri veg í Ásbyrgi. Vatnssalernið við Dettifoss kemur í stað þurrsalernis sem hefur staðið ferðamönnum til boða í nokkur ár. Hér er um verulega framkvæmd að ræða þar sem bora þurfti sérstaklega fyrir vatni til að geta boðið gestum þjóðgarðsins upp á viðunandi hreinlætisaðstöðu á þessum vinsæla ferðamannastað. Ferðamálaráð Íslands styrkti verkefnið um 3 milljónir króna en einnig fékk Umhverfisstofnun, sem Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum heyrir undir, styrki vegna þessara verkefna frá Pokasjóði og ÁTVR. Klippt á borða við formlega opnun á nýju salernishúsi við Dettifoss. Talið frá vinstri. Davíð Egilson, forstjóri Umhverfisstofnunar; Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi Ferðamálaráðs Íslands og Þórey I. Guðmundsdóttir, forstöðumaður  fjárhags- og rekstrarsviðs Umhverfisstofnun.  
Lesa meira

Metfjöldi farþega hjá Icelandair

Farþegar Icelandair í júlí síðastliðnum voru rúmlega 214 þúsund og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði í sögu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallar Íslands. Farþegum fjölgaði um 16,2% frá því í júlí í fyrra en þá voru farþegarnir 184 þúsund. Farþegafjöldinn í júlí í ár samsvarar því að félagið hafi flutt um 70% íslensku þjóðarinnar í mánuðinum, en sú er ekki raunin, því mikill meirihluti farþeganna eru erlendir, segir í frétt félagsins. Icelandair flutti tæplega sjö þúsund farþega að jafnaði daglega í júlí. Framboðið í júlí, var 23% meira en á síðasta ári og sætanýting var 86,6% eða 0,1 prósentustigi betri en í júlí í fyrra. Frá áramótum hefur farþegum Icelandair fjölgað um 13,5% og eru 882 þúsund. Sætanýting hefur batnað um 2,3 prósentustig og er það sem af er árs 76,9%. Í fréttinni kemur einnig fram að fartímum (block-hours) í leiguflugi Loftleiða-Icelandic hefur fjölgað um 42,6% í júlí og um 21,7% frá áramótum. Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fækkaði um 3% í júlí og voru tæplega 29 þúsund. Þeim hefur hins vegar fjölgað frá áramótum um 4,6%.
Lesa meira