Fréttir

Íslandsferðir selja söluskrifstofur sínar erlendis

Íslandsferðir, dótturfélag FL Group, hafa selt svissneska ferðaheildsalanum IS-Travel, sem er í eigu Jóns Kjaranssonar, söluskrifstofur sínar á meginlandi Evrópu. Skrifstofurnar heita einu nafni Island Tours. Segja Íslandsferðir í tilkynningu, að með þessu sé félagið að gera stefnumarkandi breytingu á starfsemi sinni sem felist í því að fyrirtækið muni hverfa af almennum neytendamarkaði í viðkomandi löndum en einbeita sér að framleiðslu og sölu pakkaferða til ferðaskrifstofa um allan heim. undir vörumerkinu Iceland Travel, og skipulagningu funda og ráðstefna á Íslandi. Island Tours skrifstofurnar á meginlandi Evrópu eru í Þýskalandi, Hollandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og í Sviss. Alls starfa um 20 starfsmenn af ýmsu þjóðerni á þeim skrifstofum erlendis sem skipt hafa um eigendur. Eftir breytinguna starfa alls 50 manns hjá Íslandsferðum og fer meginhluti starfseminnar fram á Ísland
Lesa meira

Áhrif ferðaþjónustunnar á efnahagslífið

Alþjóðaferðamálaráðið hefur gefið út lýsingu á því hvernig útbúa megi hliðarreikning, eða Tourism Satellite Account, fyrir ferðaþjónustu. Markmiðið var að meta umsvif ferðaþjónustunnar í efnahagslífinu en mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu sinna jafnframt öðrum viðskiptahópum. Á vef Samgönguráðuneytisins kemur fram að Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hefur sett á laggirnar þriggja manna starfshóp til að kanna grundvöll þess að taka upp ofangreinda aðferðarfræði og hvernig best verði að því staðið. Starfshópnum er einnig ætlað að gera tillögur um það hvernig aðgengi ferðaþjónustunnar að hagtölum og könnunum verði best háttað. Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur Samtaka ferðaþjónustunnar, er formaður starfshópsins. Aðrir í hópnum eru Vilborg Júlíusdóttir, hagfræðingur, tilnefnd af Hagstofunni og Hlynur Hreinsson, hagfræðingur í samgönguráðuneytinu.
Lesa meira

Enn fjölgar flokkuðum gististöðum

Gististöðum sem þátt taka í flokkun gististaða með stjörnugjöf heldur áfram að fjölga. Þrjú ný hótel sem opnuð hafa verið á síðustu mánuðum hafa öll verið flokkuð og fleiri eru í farvatninu. Þau þrjú nýju hótel sem síðast hafa bæst við eru Radisson SAS 1919 í Reykjavík, Hótel Hamar Icelandair Hotels í Borgarnesi og Sveitahótelið Þórisstöðum á Svalbarðsströnd. Allt eru þetta glæsilegir gististaðir, tvö þau síðarnefndu þriggja stjörnu og Radisson SAS 1919 fjögurra stjörnu. Allir gististaðir geta sótt um flokkunUm 40% gistirýmis hérlendis er nú flokkuð samkvæmt flokkunarkerfinu sem Ferðamálaráð Íslands heldur utan um og hófst árið 2000. Allir gististaðir á Íslandi sem eru með tilskilin leyfi geta óskað eftir því að vera flokkaðir og í kjölfar skipulagsbreytinga á síðasta ári, þar sem m.a. tókst að lækka talsvert kostnað við flokkunina, hefur flokkuðum gististöðum fjölgað talsvert. Þá má geta þess að nýtt flokkunarviðmið tók gildi frá og með síðustu áramótum. Breytingarnar voru hliðstæðar nýjum viðmiðum sem áður höfðu tekið gildi í Danmörku og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru einnig flokkaðir eftir. Kemur bæði gestum og gististöðum til góðaÚttekt gististaðanna er í höndum Öldu Þrastardóttur, verkefnisstjóra hjá Ferðamálaráði. Hefur hún farið vítt og breitt um landið í sumar til að taka út gististaði en hver staður er heimsóttur einu sinni á ári. ?Vissulega er ánægjulegt að sjá stöðugt fleiri staði bætast við enda sífellt fleiri sem gera sér gein fyrir þeim kostum sem fylgja flokkuninni. Við getum sagt að hér sé um að ræða gæðaeftirlit sem kemur bæði gestum og gististöðum til góða. Um allan heim eru gestir vanir að hafa stjörnugjöf til viðmiðunar þegar þeir velja sér gistingu í þeim gæðaflokki sem þeir óska og fyrir gististaðina þá er flokkunin mikilvægt hjálpartæki í að bæta þjónustu,? segir Alda. Skrifstofa Ferðamálaráðs Íslands á Akureyri tekur við umsóknum um flokkun og veitir nánari upplýsingar í síma 464 9990 eða netfangið upplysingar@icetourist.is. Umsóknir þurfa að berast í pósti eða á faxi, meðfylgjandi þarf að vera rekstrarleyfi frá sýslumanni. Myndir:Efst: Sveitahótelið Þórisstöðum.Í miðið: Radisson SAS 1919 í Reykjavík.Neðst: Hótel Hamar Icelandair Hotels í Borgarnesi. Nánar um flokkun gististaða  
Lesa meira

Nýr ferðavefur fyrir Austurland

Ferðamálasamtök Austurlands hafa opnað nýjan ferðavef á slóðinni www.east.is. Vefurinn er allur hinn glæsilegasti og þar ætti ferðafólk að finna það sem máli skiptir varðandi ferðalög um landshlutann. Auk almennra upplýsinga um Austurland, áhugaverða staði, einstök sveitarfélög o.fl. má á vefnum meðal annars finna myndasafn og atburðadagatal. Þá er á vefnum gagnagrunnur með upplýsingum um ferðaþjónustuaðila í fjórðungnum, svo sem gististaði, veitingastaði, afþreyingarfyrirtæki, söfn o.fl.
Lesa meira

Vestnorden á Íslandi að ári liðnu

Vestnorden ferðakaupstefnunni lauk í Kaupmannahöfn í síðustu viku. Að ári liðnu er komið að Íslendingum að sjá um framkvæmdina og hefur dagsetning verið ákveðin 12-13 september 2006. Kaupstefnan var nú haldin í 20. sinn og að þessu sinni var framkvæmdin í höndum Grænlendinga.Tóku þeir ákvörðun um að færa kaupstefnuna til Kaupmannahafnar en hún hafði fram að því aldrei verið haldin utan landanna þriggja sem standa að Vestnorden, þ.e. Íslands Grænlands og Færeyja. ?Almennt held ég að fólk hafi verið sátt við þessa ákvörðun. Tilgangurinn var að draga úr kostnaði fyrir þátttakendur og stytta ferðatíma. Sérstaklega á þetta við um kaupendurna, sem margir koma víða að,? segir Lisbeth Jensen, forstöðumaður markaðsskrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn. Íslendingar samstilltirKaupstefnan var haldin í húsnæði á bakvið Bryggjuhúsið. ?Ég vil sérstaklega hrósa íslensku sýnendunum fyrir hvað þeir voru jákvæðir og samstilltir. Fólk snéri bökum saman og einbeitti sér að því að ná árangri í viðskiptunum,? segir Lisbeth. Líkt og vanaleg var nokkuð um að kaupendur mættu ekki í fyrirfram bókaða tíma. Lisbeth segir þetta viðvarandi vandamál sem erfitt virðist aðráða bót á. Hún bætti jafnframt við að gala-kvöldið hafi tekist einstaklega vel og allir skemmti sér konunglega. Hér að neðan eru nokkrar myndir sem Anders Jørgensen, starfsmaður markaðsskrifstofu Ferðamálaráðs Íslands í Kaupmannahöfn, tók á Vestnorden í liðinni viku. Bás Ferðamálaráðs Íslands. Vinna í fullum gangi. Vestnorden var haldin í húsnæði á bakvið Bryggjuhúsið þar sem Ferðamálaráð og sendiráð Íslands eru m.a til húsa. Sér yfir innganginn í sýningarhúsið.
Lesa meira

Virtir fyrirlesarar á fjölþjóðlegri ráðstefnu

Í gær hófst á Akureyri fjölþjóðleg ráðstefna um rannsóknir um ferðamennsku og rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Það er Ferðamálasetur Íslands sem gengst fyrir ráðstefnunni. Hún er haldin í samvinnu við Nordisk Selskab for Turismeforskning en samtökin standa að útgáfu Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism. Sextíu og sex erindi verða flutt í fimm málstofum þar sem meginstef eru menning og samfélag,  náttúra,  efnahagslíf, stefnumótun og markaðsmál. Þátttakendur eru okkuð á annað hundrað. Mjög virtir aðalfyrirlesarar verða með erindi á ráðstefnunni og Simon Milne, forstöðuaður ferðamálaseturs Nýja Sjálands, reið á vaðið í gær. Dirk Glaesser, yfirmaður upplýsingasviðs World Tourism Organization á Spáni, Stephen Ball, formaður samtaka fræðimanna um rekstur ferðaþjónustufyrirtækja í Bretlandi og Ragnhildur Geirsdóttir, forstjóri FL Group, munu halda erindi sín á í dag. Á laugardag fjallar John Hull, fræðimaður frá Kanada, um möguleika sjálfbærrar ferðaþjónustu innan þjóðgarða. Ráðstefna um byggða- og svæðaþróunarmál Samhliða ráðstefnunni mun Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri halda ráðstefnu um byggða- og svæðaþróunarmál, VIII Nordic-Scottish Conference on Rural and Regional Development. Þar verður m.a. sérstök málstofa um ferðamennsku og byggðamál. Um 40 þátttakendum eru á þeirri ráðstefnu. Frá setningu ráðstefnunnar í gær. Ingjaldur Hannibalsson ráðstefnustjóri í ræðustóli.Ferðamálaráð/HA
Lesa meira

750 manna ráðstefnusalur og 250 herbergja 5 stjörnu hótel

Tilkynnt hefur verið að tillaga Portus-hópsins um byggingu og rekstur tónlistarhúss, ráðstefnumiðstöðvar og hótels á austurbakka Reykjavíkurhafnar hafi orðið fyrir valinu. Kostnaðaráætlun hljóðar uppá 12 milljarða króna. Reiknað er með að framkvæmdir geti hafist á næsta ári og þeim verði lokið haustið 2009. Undirbúningur vegna hússins hefur staðið í alllangan tíma. Ríki og borg gerðu með sér samkomulag í apríl 2002 um að leggjast á eitt í þessu máli og um ári seinna stofnuðu þau í sameiningu einkahlutafélagið Austurhöfn-TR ehf. sem síðan hefur unnið að undirbúningi. Ráðstefnusalur og 250 herbergja 5 stjörnu hótelNokkrir salir verða í húsinu. Tvískiptur ráðstefnusalur mun rúma allt að 750 manns og í tengslum við hann verður sýningaraðstaða. Aðaltónleikasalur mun rúma 1.800 manns í sæti, kammermúsíksalur rúmar 450 manns og þá nefna fundarherbergi o.fl. Byggingunni tengist síðan 250 herberja 5 stjörnu hótel. Útlit hússins er að mestu leyti verk Ólafs Elíassonar en Vladimir Ashkenazy er sérlegur listrænn ráðgjafi. Hægt er að sjá teikningar af húsinu og umhverfi á vef Morgunblaðsins. Vefur Pontus-hópsins er tonlistarhusid.is og þar er m.a. hægt að skoða myndband af húsinu. Myndband 2 MB Myndband 6 MB
Lesa meira

Íslenskum ferðaþjónustuaðilum stendur til boða þátttaka á stærstu ferðakaupstefnu Asíu

Ferðamálaráð Íslands, í samstarfi við Icelandair og sendiráð Íslands í Peking, hafa tryggt sér sýningarbás á China International Travel Mart (CITM). Um er að ræða stærstu ferðakaupstefna í Asíu og er hún haldin á hverju ári til skiptis í Shanghai og Kunming (Yunnan) í Kína. Hvað er í boði?Fyrir ferðaþjónustuaðila á Íslandi stendur til boða að taka þátt í sýningunni, enda hafi aðilar í boði sérstakt kynningarefni á kínversku. Aðstaða fyrir einn starfsmann kostar kr. 120.000 á sameiginlegum sýningarbás. Fyrir þá sem ekki eiga tök á að vera á sýningunni er boðið uppá bæklingadreifingu og kostar það kr. 15.000 pr. bækling á kínversku. Ekki stendur til boða að dreifa efni á öðrum tungumálum. Kostnaður við að senda bæklinga á sýningarstað bætist við verðið. Að venju verða sérstök málþing og fyrirlestrar fyrir þátttakendur um þróun og stefnu í ferðaþjónustu. Að þessu sinni mun Samgönguráðherra hr. Sturla Böðvarsson heimsækja sýninguna og íslenska básinn. Hann mun bjóða til móttöku fyrir sýnendur og viðskiptavini okkar, laugardaginn 26. nóvember. Blaðamannafundir og uppákomur verða á ferðasýningunni Sýningin verður opin fagfólki í ferðaþjónustu og almenningi.  Skipuleggjendur ferðasýningarinnar:China National Tourism AdministrationYunnan Provincial People´s GovernmentGeneral Administration of Civil Aviation of China StaðsetningSýningin fer fram í Kunming International Convention & Exhibition Center Dagsetning24. nóvember (fim.) til 27. nóvember (sun.) 2005 Gert er ráð fyrir að uppsetning bása hefjist á mánudeginum 21. nóvember. Nánari upplýsingarHægt er nálgast nánari upplýsingar á heimasíðu CITM http://www.citm.com.cn/ eða hjá Ferðamálaráði. Hafið samband við Ársæl Harðarson, sími 5355500 eða með tölvupósti arsaell@icetourist.is Bóka þátttökuGanga verður frá bókun í síðasta lagi mánudaginn 3. október. Senda má bókun til Ársæls Harðarsonar á tölvupósti eða með faxi, undirritað af ábyrgðarmanni. Aðeins verður unnt að taka við 6 fyrirtækjum á básinn. arsaell@icetourist.is fax. 535-5501 Um sýningunaUm það bil 20 þús. kaupendur sóttu sýninguna á sl ári þá daga sem sýningin var aðeins opin þeim sem starfa í ferðaþjónustu og 28 þús. gestir komu þá daga sem sýningin var opin almenningi.  Samkvæmt upplýsingum frá CITM voru tæplega 1.100 stórir kaupendur frá 48 löndum á sýningunni 2004. Á síðasta ári voru 2900 seljendur  með bás á sýningunni, 1.850 kínverskir aðilar og 1.050 erlendir, þar af 64 lönd.  
Lesa meira

Óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs 2005

Líkt og undanfarin ár munu yfirvöld ferðamála veita umhverfisverðlaun á Ferðamálaráðstefnunni sem haldin verður á á Radisson SAS Hótel Sögu í Reykjavík dagana 27.-28. október næstkomandi. Verðlaunin eru veitt þeim aðilum sem þykja hafa skarað framúr í umhverfismálum. Tilgangur verðlauna sem þessara er að hvetja ferðaþjónustuaðila til að gera sér grein fyrir mikilvægi þess að huga að þeirri auðlind sem þeir nýta og hvetja þá til ábyrgðar á eigin athöfnum. Ferðaþjónustan byggir afkomu sína að miklu leyti á umhverfislegum gæðum og er það trú Ferðamálaráðs að verðlaunin geti orðið hvatning til ferðaþjónustuaðila og viðskiptavina þeirra um að huga betur að umhverfinu og styrkja þannig framtíð greinarinnar. Hér með er óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna og er öllum heimilt að senda inn tilnefningar og þurfa þær að hafa borist umhverfisfulltrúa Ferðamálaráðs fyrir 20. september nk. Tilnefningar má senda með tölvupósti á netfangið valur@icetourist.is eða til Ferðamálaráðs Íslands, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Við tilnefningu til umhverfisverðlauna er vert að hafa í huga að viðkomandi hafi skýr markmið í umhverfismálum. Markmið með umhverfisvænni ferðamennsku eru:Að vernda bæði menningar- og náttúrulegt umhverfi. Umhverfisvæn ferðamennska er samspil þriggja þátta; ferðamannsins, heimamanna og umhverfisins. Frekari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með tölvupósti valur@icetourist.is Nánar um Umhverfisverðlun Ferðamálaráðs Mynd: Ingi Gunnar Jóhannsson.
Lesa meira

Ísland á ný valið "Uppáhalds Evrópulandið"

Ísland komst á ný í efsta sætið í árlegri könnun bresku blaðanna Guardian og Observer á uppáhalds landi lesenda þeirra í Evrópu. Verðlaunin voru afhent síðastliðinn laugardag og veitti Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, þeim viðtöku. Ísland var í efsta sæti í þessari könnun fyrir tveimur árum og var þá að komast á listann í fyrsta sinn. Í fyrra var ísland í 2. sæti á eftir Slóveníu, sem nú fór niður í 2. sæti. Þá fer Icelandair úr 14. sæti í það 4. þegar spurt er um besta flugfélagið sem flytur farþega til og frá Bretlandi á styttri flugleiðum. Reykjavík er í 34. sæti yfir uppáhalds borgirnar en fellur úr 12. sæti árið 2004. Lesendur sjálfir sem veljaVerðlaunin byggja á niðurstöðum könnunar sem fjölmiðlarnir gera árlega á meðal lesenda sinna og voru verðlaunin í ár þau 19. í röðinni. Könnunin gengur þannig fyrir sig að lesendur eru beðnir að meta þá þjónustu sem þeir fá í ferðalögum sínum með því að gefa henni einkunn. Ársæll Harðarson, forstöðumaður markaðssviðs Ferðamálaráðs Íslands, veitti sem fyrr segir verðlaununum viðtöku fyrir hönd Ferðamálaráðs Íslands og segir hann þetta verulega viðurkenningu fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu. "Það góða við þessi verðlaun er að þau byggja alfarið á áliti lesenda. Það eru ferðamennirnir sjálfir sem eru að kveða upp dóm sinn byggðan á gæðum þeirrar þjónustu sem þeir fengu. Við urðum vör við verulega aukinn áhuga á Íslandi í kjölfar útnefningar Íslands fyrir tveimur árum og ég á fastlega von á að svipað geti orðið upp á teningnum nú," segir Ársæll. Hverju er þetta að þakka?Ársæll segir vissulega vert að spyrja þeirrar spurningar hverju þessi góði árangur Íslands er að þakka. ?Ég tel raunar að svarið sé margþætt og margir samverkandi þættir sem þarna spila saman. Við skulum hafa hugfast að undanfarin misseri hefur meiri fjármunum verið varið til að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland en áður hefur þekkst og þar hafa stjórnvöld og fyrirtæki í greininni sameinað krafta sína. Þetta tel ég tvímælalaust að sé að skila sér. Markaðsstarf flugfélaganna á stóran þátt í þessu, ekki síst Icelandair, eins og könnunin sýnir. Auðvitað er visst áhyggjuefni að sjá hvað Reykjavík fellur á listanum yfir borgir og það er mál sem þarf að kryfja. Einnig er Ísland að fá lægra skor nú en fyrir tveimur árum og það þurfum við einnig að skoða sérstaklega, ekki síst með tilliti til þjónustuþátta og verðlags,? segir Ársæll. Ferðaverðlaun Guardian/Oserver  
Lesa meira