Fara í efni

Gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu nær þær sömu fyrstu sex mánuði ársins og í fyrra

Solutorg
Solutorg

Samkvæmt upplýsingum Seðlabankans voru gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu fyrstu sex mánuði þessa árs 14,776 miljarðar, en sömu mánuði í fyrra voru þær 14,874 miljarðar. Þetta hljóta að teljast jákvæðar fréttir þegar litið er til styrkingar krónunnar um nálægt 10% á þessum tímabili og þeirrar umræðu sem verið hefur um áhrif hennar á tekjur í greininni.

Auknar tekjur af hverjum gesti
Þá er einnig jákvætt að gjaldeyristekjur af hverjum gesti eru hærri fyrstu sex mánuði þessa árs samanborði við árið áður í íslenskum krónum og því verulega hærri í erlendum myntum. Tekjur vegna neyslu í landinu lækka um 2,2 % á hvern gest á þessum tíma, en tekjur vegna ferðalaga hækka nokkuð þannig að í heildina eru auknar tekjur að meðaltali af hverjum gesti.

Margir jákvæðir þættir
Eins og áður sagði er þarna um að ræða fyrstu sex mánuði ársins. Ýmsar upplýsingar um nýliðna mánuði um umfang ferðaþjónustunnar hafa verið jákvæðar. Samkvæmt upplýsingum SAF hefur t.d. meðalnýting hótela í Reykjavík í ágúst hækkað þrátt fyrir aukið framboð og það sem er ekki síður ánægjulegt að meðalverð á hvert selt herbergi hefur hækkað í íslenskum krónum þrátt fyrir gengisþróun. Þá hefur gistinóttum á hótelum fjölgað undanfarna mánuði samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar.

Eins og kemur fram í annarri frétt hér þá fjölgaði erlendum ferðamönnum um 12% í nýliðnum september og aukning upp á um 25% frá Bandaríkjunum sem hlýtur að vera ánægjuefni sérstaklega þegar mið er tekið af sterkri stöðu krónunnar.