Fara í efni

Ísland kynnt á Norðurlöndunum sem áfangastaður fyrir ráðstefnur, viðburði og hvataferðir

Stokkhólmur
Stokkhólmur

Ráðstefnuskrifstofa Íslands og Ferðamálaráð, í samvinnu við Icelandair og Sendiráð Íslands í Stokkhólmi og Kaupamannahöfn standa nú fyrir kynningum þar sem kynnt er hvað Ísland hefur upp á að bjóða fyrir ráðstefnu- og hvataferðagesti. Í gær var kynning í Stokkhólmi en áður er lokið sambærilegum kynningum í Helsinki og London.

Gestirnir sem boðnir eru, eru fulltrúar sérhæfðra fyrirtækja sem skipuleggja ráðstefnuferðir, fyrirtækjaviðburði og hvataferðir. Kynningin í Stokkhólmi fór fram á veitingastaðnum Sturehof. Lisbeth Jensen, forstöðumaður Ferðamálaráðs á norðurlöndunum, kynnti þjónustu Ferðamálaráðs, og Ráðstefnuskrifstofu Íslands sem og þá aðstöðu og möguleika sem landið hefur upp á að bjóða. Einnig hélt Dóra Magnúsdóttir, markaðsstjóri Reykjavíkurborgar, kynningu á borginni og fyrirhuguðu ráðstefnu- og tónlistarhúsi sem mun rísa í Reykjavík. Boðið var upp á íslenskan mat og mæltist hann sérstaklega vel fyrir hjá gestunum. Auk þess flutti fulltrúi sendiherra Íslands, Helga Haraldsdóttir, erindi og fjallaði um samskipti Íslands og Svíþjóðar.

Samskonar kynning fer fram í Kaupmannahöfn í sendiráðinu á Norðurbryggju í kvöld 9. nóvember. Haldnar verða kynningar sem og boðið upp á íslenskan mat. Friðrik Jónsson, fulltrúi sendiherra býður alla velkomna og síðan fara fram kynningar með sama hætti og í Stokkhólmi.

Að sögn Ársæls Harðarsonar, forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs, felst styrkurinn í kynningum af þessu tagi ekki síst í að fyrirtækin sem boðið er, eru sérvalin með tilliti til mögulegra viðskipta í framtíðinni svo og því samstarfi sem felst í því að með í för eru íslensk fyrirtæki sem sérhæfa sig í móttöku á ráðstefnu- og hvataferðamönnum. Að þessu sinni eru með í för 10 íslensk fyrirtæki.

Norðurlöndin eru sem fyrr einn af mikilvægustu mörkuðum Íslands þegar kemur að ráðstefnu- og hvataferðum.

Mynd: Frá Stokkhólmi.