Opið hús hjá ferðaþjónustubændum

Opið hús hjá ferðaþjónustubændum
Upp í sveit 2012

Líf og fjör verður hjá stórum hluta ferðaþjónustubænda um allt land á opnu húsi þann 10. júní kl. 13.00-17.00 í boði Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og Opins landbúnaðar. Á opnu húsi gefst almenningi tækifæri til að kynna sér starfsemina á ferðaþjónustubæjum, fá nýja bæklinginn „Upp í sveit“ og njóta veitinga og afþreyingar í boði bænda.

Í tilefni útgáfu bæklings Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og Opins landbúnaðar, „Upp í sveit“ ætla yfir 100 bæir innan þessarra samtaka að hafa opið hús þann 10. júní kl. 13.00-17.00. Gestir munu geta skoðað gistiaðstöðuna á bæjunum, sótt nýja bæklinginn, fengið kaffisopa, spjallað við bændur og upplifað einstaka sveitastemningu.

Það verður glatt á hjalla á ferðaþjónustubæjum um allt land þennan dag og fjölmargt í boði fyrir alla aldurshópa. Til dæmis verður hægt að fylgjast með mjöltum, skoða fjárhús, fjós og eggjabú, klappa lömbum, kálfum og folöldum, skella sér á kajak eða í golf, skoða fluguhnýtingar, taka þátt í heimatilbúinni sælgætisgerð, fara á hestbak og gæða sér á ljúffengum heimabakstri og fleiri forvitnilegum afurðum úr sveitinni svo eitthvað sé nefnt.

 Nánari upplýsingar og listi yfir þá bæi sem bjóða heim þann 10. júní í hverjum landshluta má finna á vefsíðu Ferðaþjónustu bænda www.sveit.is.

Um Ferðaþjónustu bænda, Beint frá býli og Opinn landbúnað

Ferðaþjónusta bænda hf. er ferðaskrifstofa í eigu bænda sem býður upp á fjölbreytta gistingu hjá 180 ferðaþjónustuaðilum um allt land; á sveitahótelum, í gistihúsum, sumarhúsum, heimagistingu, svefnpokaplássi og á tjaldsvæðum. Boðið er upp á mikið úrval afþreyingar og áhersla er lögð á mat heima úr héraði, með sjálfbærni og persónulega þjónustu að leiðarljósi. Nánar á www.sveit.is.

Beint frá býli telur rúmlega 100 félagsaðila sem eru að framleiða eða hyggjast framleiða íslenskar matvörur og handverk. Víða er hægt að nálgast vörurnar heima hjá viðkomandi, en annars í gegnum fjarsölu. Nánar á www.beintfrabyli.is

Með Opnum landbúnaði gefst almenningi tækifæri á að heimsækja bóndabæi og kynna sér þau störf sem unnin eru í sveitum landsins. Öll býlin í Opnum landbúnaði eru í samstarfi við Bændasamtök Íslands. Nánar á www.bondi.is

Nánari upplýsingar veita Oddný Björg Halldórsdóttir, sölustjóri innanlandsdeildar hjá Ferðaþjónustu bænda, s. 570 2700, netfang: oddny@farmholidays.is og María Reynisdóttir, s. 570 2700, netfang: mariar@farmholidays.is.

 

 


Athugasemdir