Fréttir

Helena Þ. Karlsdóttir nýr lögfræðingur Ferðamálastofu

Helena Þ. Kalsdóttir, lögfræðingur, tók til starfa hjá Ferðamálastofu þann 2. desember síðastliðinn. Hún tók við af Auðbjörgu L. Gústafsdóttur, lögfræðingi. Starfssvið Helenu eru lögfræðileg viðfangsefni Ferðamálastofu og stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögum um skipan ferðamála nr. 73/2005. Helena lauk Cand. jur. prófi frá Háskóla Íslands 1995. Hún starfaði hjá sýslumanninum á Akureyri 1996-1997, á lögmannsstofu Ásgeirs Björnssonar 1997-1998, hjá Vinnumálastofnun 1998-2008. Helena fékk lögmannsréttindi 1999 og lauk þriggja anna rekstrar- og viðskiptafræðinámi frá HA 2005. Leyfismál til AkureyrarHelena starfar á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri þannig að þeim sem þurfa upplýsingar vegna leyfismála er bennt á að snúa sér þangað. Síminn er 464-9990 og heimilisfang Strandgata 29, 600 Akureyri. Helena er boðin velkomin til starfa.
Lesa meira

Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs í loftið

Opnuð hefur verið heimasíða fyrir Vatanjökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn var sem kunnugt er formlega stofnaður um mitt þetta ár og er einstakur á heimsvísu. Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir um 12.000 ferkílómetra svæði eða um 12 prósent af flatarmáli landsins og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni. Vatnajökulsþjóðgarður mun í fyrstu ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þess eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í  eigu ríkisins, en einnig munu nokkur landsvæði í einkaeigu verða hluti af þjóðgarðinum við stofnun hans. Auk þess mun stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taka að sér í umboði Umhverfisstofnunar rekstur nokkurra friðlýstra svæða í nágrenni þjóðgarðsins, svæða sem í framtíðinni er reiknað með að verði hluti þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður muni stækka frekar á næstu misserum og árum. Viðræður við landeigendur og sveitarfélög um önnur landsvæði en þau sem nú er ákveðið að verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hafa farið fram. Slóðin á nýja vefinn er www.vatnajokulsthjodgardur.is/
Lesa meira

Vefur Breiðafjarðarfléttunar opnaður

Breiðafjarðarfléttan er samstarfsverkefni ferðaþjónustuaðila á Snæfellsnesi, í Dölum og á sunnanverðum Vestfjörðum, með öðrum orðum við Breiðafjörð. Félagsskapurinn hefur þann tilgang að auka og styrkja samstarf á milli aðila, efla gæði þjónustunnar, auka nýsköpun í ferðaþjónustu og vinna sameiginlega að markaðssetningu á svæðinu. Rúmlega 20 ferðaþjónustuaðilar eiga í dag aðild að samstarfinu og hafa þeir nú opnað vefinn flettan.is þar sem hin fjölbreytta ferðaþjónusta á svæðinu er kynnt. Vefurinn er á íslensku fyrst í stað en ensk útgáfa er í vinnslu. Myndin er tekin af vefnum og er frá Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi.
Lesa meira

Gefum íslenska gjöf, gefum Íslandi gjöf!

Ýmis ferðaþjónustufyrirtæki eru meðal fyrirtækja um land allt sem taka þátt í átaki um kynningu og sölu gjafavöru og góðrar þjónustu. Önnur fyrirtæki eru meðal annars að bjóða matvæli, hlýjan fatnað, vandaða muni, bað- og heilsumeðferðir, svo fátt eitt sé nefnt. Átakið er kynnt á vefnum www.nattura.info. Þar segir meðal annars. "Með því að gefa ástvinum og vandamönnum trygga ávísun á sérstæða upplifun og innlendan kost, þá er ekki einungis verið að gefa góða íslenska jólagjöf, heldur jafnframt verið að gefa Íslandi sjálfu gjöf; Að gefa fjölbreytilegum sprotavexti áburð er að stuðla að þeirri sjálfbæru þróun efnahags- og atvinnuuppbyggingar landsins sem nú er aðkallandi."
Lesa meira

Jól og áramót í Reykjavík 2008-2009

Höfuðborgarstofa hefur eins og fyrri ár tekið saman ítarlegan lista um þá þjónustu og afþreyingu sem í boði er yfir jól og áramót. Ferðaþjónustuaðilum er bennt á að það er allra hagur að koma þessum upplýsingum sem best og víðast á framfæri við gesti. Að sögn Dóru Magnúsdóttur hjá Höfuðborarstofu hefur stundum  verið kvartað yfir því að ferðamönnum standi ekki næg afþreying og þjónusta til boða um jól og sérstaklega yfir áramót því þá hafa einfaldlega verið fleiri ferðamenn í borginni. "Þessi gagnrýni hefur sumpart átt rétt á sér en stundum byggst á vanþekkingu á þeirri þjónustu sem í boði er. Sem dæmi um þetta hefur verið nefnt hversu margir veitingastaðir eru lokaðar en litið framhjá þeirri staðreynd að fjölmargir gæðaveitingastaðir hótela borgarinnar hafa verið opnir undanfarin áramót," segir Dóra. Í ár horfir til betri vegar en þessi mál hafa hægt en örugglega verið að þokast í rétta átt á síðastliðnum árum.Til dæmis verða flestar sundlaugar opnar á gamlársdag til kl. 12,30,  Laugar Spa og Bláa lónið til kl. 16.00 auk nokkurra safna, Fjölskyldu- og húsdýragarðs og Skautahallarinnar. Nú verða 24 veitingastaðir opnir á gamlárskvöld sem er met. Þrjú söfn opin á nýársdag, Landnámsýningin í Aðalstræti, Þjóðmenningarhús og Listasafn Reykjavíkur - Hafnarhús. Sömuleiðis verður hægt að fara í Fjölskyldu- og húsdýragarð á Nýársdag, í Laugardalslaugina, Bláa lónið, draugagöngu (kl. 20.00) og fleira. Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Aðalstræti 2 verður opin alla dagana yfir hátíðirnar nema á jóladag, sem reyndar er eini dagurinn á árinu sem hún er lokuð. Einnig bjóða ferðaþjónustuaðilar upp á margvíslegar dagsferðir yfir hátíðirnar. Opnunar tímar um jól og áramót 2008-2008 (PDF) Listan má einnig finna undir Quick jumps á forsíðu www.VisitReykjavik.is en einfölduð útgáfa er hér fyrir neðan. Gamlársdagur: Árbæjarsafn guided tour at 1300 Reykjavík Art Museum Harbour house 10-14 Cultural House / Þjómenningarhús opið 9-12 Landnámssýning / Settlement Exhibition 10-14 Bláa lónið / Blue Lagoon10-16 Fjölskyldugarður /Family Park and Zoo  10-12 Skautahöll/Skating Hall 10:30-15:00 Thermal pools in Reykjavík: Árbæjarlaug 08:00-12:30 Breiðholtslaug 08:00-12:30 Grafarvogslaug 08:00-12:30 Kjalarneslaug 10-12:30 Laugardalslaug 08:00-12:30 Sundhöllin 08:00-12:30 Vesturbæjarlaug 08:00-12:30 Laugar Spa 08:00-16:00 Hreyfing Spa / Health Club 09:00-15:00 Tourist Info - Aðalstræti 09:00-16:00 Dinner New Years Eve / Kvöldverð á gamlárskvöld: Ban Thai Café Paris Carpe Diem Caruso Einar Ben Gullfoss Hereford Kaffi Sólon Lystin Miðgarður Grand Hotel Orange Panorama Arnarhvoll Bar 101 Brasserie Grand hotel Fjalakötturinn Loftleiðir Restaurant Reykjavík Skrúður Hótel Saga Súlnasalur Hótel Saga Vox Nordica Shalimar Silfur Sjávarbarinn Tabascos Nýársdagur - January 1st Reykjavík Art Muesum harbour house 13-17 Cultural House 14-16 Settlement Exhibition 13-17 Blue Lagoon 10-20 Reykjavik Park and Zoo 10-17 Haunted Walk of Reykjavík at 20:00 Thermal Pool Laugardalslaug 12-18 Tourist Info, Aðalstræti 11-14 Hádegi Nýársdag - Lunch - 1st of January American Style Café París Gullfoss Kaffi Sólon Miðgarður Grand Hotel 101 Bar Fjalakötturinn Hótel Holt Loftleiðir Skrúður Hótel Saga Vox Nordica Tabascos
Lesa meira

Tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi

Ferðaþjónusta á jaðrinum: Tilurð og mótun ferðaþjónustu á Íslandi er titill þriggja ára rannsóknarverkefnis sem dr. Gunnar Þór Jóhannesson, nýdoktor (post doc) við Mannfræðistofnun Háskóla Íslands, vinnur nú að. Rannsóknin er styrkt af Rannsóknasjóði Rannís en Rannsóknamiðstöð ferðamála er náinn samstarfsaðili í verkefninu. Rannsóknarverkefnið skapar þverfaglegan samstarfsvettvang í rannsóknum á ferðamálum. Því er ætlað að efla uppbyggingu nýs fræðasviðs í mannfræði ferðamála og fellur um leið að rannsóknaráætlun Rannsóknamiðstöðvar ferðamála fyrir menningartengda ferðaþjónustu. Niðurstöður verkefnisins verða einna helst birtar í ritrýndum tímaritum á alþjóðlegum vettvangi en einnig er ætlunin að Mannfræðistofnun og Rannsóknamiðstöð ferðamála vinni saman að ráðstefnuhaldi á fræðasviðinu á verkefnistímanum. Rannsóknin tekur til tímabilsins frá 1944 en leggur sérstaka áherslu á tímabilið frá 1987 til dagsins í dag. Vinna við rannsóknina hófst á vordögum 2008 með söfnun gagna um forsendur og mótun ferðaþjónustunnar. Athyglinni hefur einkum verið beint að söfnun og greiningu gagna sem snerta breytingar á samgöngum, stefnu í ferðamálum og upphafi skipulagðrar vinnu við kynningu Íslands sem ferðamannastaðar. Nánari lýsing á verkefninu, markmiðum þess og framvindu
Lesa meira

Verkefni um sjávartengda ferðaþjónustu

Verkefnið "Marine-Based Employment Opportunities (MBEO)", sem aðilar frá Íslandi, Írlandi og Noregi eiga aðild að, fékk nýlega forverkefnisstyrk frá Norðurslóðaáætluninni (NPP). Frá þessu er greint á vef Byggðastofnunar. Verkefnið snýst um sjávartengda ferðaþjónustu og að því standa aðilar frá land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands, Háskólanum í Finnmörku í Norður-Noregi, og Teagasc-rannsóknastofnuninni á Írlandi, en síðastnefnda stofnunin leiðir verkefnið. Samstarfsaðilar í hverju landi eru allmargir og koma úr röðum fyrirtækja, atvinnuþróunarfélaga, sveitarfélaga og annarra sem láta sig varða atvinnumál og byggðaþróun í sjávarbyggðum þátttökulandanna. Vestfirðir í brennidepliÁ Íslandi verða vestfirskar sjávarbyggðir í brennidepli, enda sjávartengd ferðaþjónusta í mikilli uppbyggingu á Vestfjörðum. Samstarfs hefur þegar verið leitað við ýmis fyrirtæki og einstaklinga  í ferðaþjónustu á svæðinu, sem hafa sýnt því mikinn áhuga. Háskólasetur Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða verða einnig aðilar að verkefninu. Í lok nóvember komu verkefnisaðilar frá aðildarlöndunum þremur saman í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði til að undirbúa ítarlega umsókn til NPP um þróunarverkefni í framhaldi af forverkefninu. Sjá nánar á www.byggdastofnun.is
Lesa meira

Styrkir til úrbóta í umhverfismálum 2009

Ferðamálastofa hefur auglýst eftir styrkjum til úrbóta í umhverfismálum fyrir árið 2009. Styrkir skiptast sem fyrr í þrjá meginflokka og sérstök áhersla verður lögð á verkefni sem stuðla að bættu aðgengi að áningastöðum. Eitt helsta aðdráttarafl Íslands í hugum ferðamanna, innlendra sem erlendra, er íslensk náttúra.  Stefna íslenskra stjórnvalda er að ferðaþjónustan í landinu starfi sem mest eftir hugmyndafræði um sjálfbæra ferðaþjónustu. Liður í því er markviss uppbygging og fyrirbyggjandi aðgerðir til verndunar á íslenskri náttúru. Styrkir skiptast  í þrjá meginflokka: 1.  Til minni verkefna:Úthlutað verður til minni verkefna í umhverfismálum. Aðallega  verða veittir styrkir til efniskaupa. Hámarksupphæð hvers styrks verður 500 þúsund krónur.  2.   Til stærri verkefna á fjölsóttum ferðamannastöðum:Veittir verða styrkir til stærri verkefna þar sem umsækjendur stýra framkvæmdum og svæðin verða í umsjón eða eigu styrkþega eftir að framkvæmdum lýkur. Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur: a) Um er að ræða svæði eða staði sem verulegur fjöldi ferðamanna sækir heim. b) Megin áhersla verður lögð á að styrkja svæði þar sem fullnaðarhönnun og framkvæmdaleyfi liggur fyrir, þó getur hluti af styrkupphæð farið til vinnu á deiliskipulagi. c) Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki. d) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum. e) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (d) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til  viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu. f) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að undangengnum skriflegum samningi milli Ferðamálastofu og styrkþega. 3.  Til uppbyggingar á nýjum svæðum:Veittir verða styrkir til uppbyggingar á nýjum svæðum sem skipulögð hafa verið þannig að ferðamönnum nýtist viðkomandi svæði.   Þegar til úthlutunar kemur verður stuðst við eftirfarandi vinnureglur: a) Styrkupphæð getur aldrei orðir hærri en sem nemur 75% af framkvæmdakostnaði. b) Megin áhersla verður lögð á að  styrkja svæði þar sem samþykkt deiliskipulag iggur fyrir,  þó getur hluti af styrkupphæð farið til vinnu á deiliskipulagi. c) Hluti af styrkupphæð Ferðamálastofu getur farið til verkhönnunar á viðkomandi svæði, þó aldrei meira en sem nemur 25% af styrkupphæð. d) Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að fara yfir hönnun á viðkomandi svæði ásamt þeim forsendum sem þar liggja að baki. e) Styrkþegi er ábyrgur fyrir eðlilegu viðhaldi svæðis og mannvirkja er tengjast viðkomandi framkvæmdum. f) Standi styrkþegi ekki við ákvæði (e) getur ekki orðið af frekari styrkveitingum til viðkomandi fyrr en að því ákvæði uppfylltu. g) Engu fé verður veitt til styrkþega fyrr en að undangengnum skriflegum samning milli Ferðamálastofu og styrkþega.Hverjir geta sótt um:Öllum sem hagsmuna eiga að gæta er frjálst að sækja um styrk að uppfylltum ofangreindum skilyrðum.  Við úthlutun verður m.a. tekið mið af ástandi og álagi svæða, og mikilvægi aðgerðanna vegna náttúruverndar. Einnig verður tekið tillit til þess hvort viðkomandi verkefni nýtur þegar fjárstuðnings opinberra aðila. Ekki verður sérstaklega litið til dreifingar verkefna eftir landshlutum.   Umsóknarfrestur:Umsóknafrestur er til 31. janúar 2009. Umsóknir sem berast eftir það eru ekki teknar gildar. Meðfylgjandi gögn:Með öllum umsóknum skal skila inn gögnum er sýna fram á mikilvægi framkvæmdarinnar sem og skriflegt samþykki hlutaðeigandi aðila s.s. landeigenda, sveitarfélags, og umhverfisyfirvalda ef með þarf. Hvar ber að sækja um:Umsóknir berist með tölvupósti (Umsóknareyðublað fyrir styrki 2009 - Excel). Einnig er hægt að skila inn skriflegum umsóknum á eyðublöðum sem fást á skrifstofu Ferðamálastofu, Strandgötu 29, 600 Akureyri. Nánari upplýsingar veitir umhverfisfulltrúi í síma 464-9990 eða með vefpósti  sveinn@icetourist.is
Lesa meira

Krásir - þróunarverkefni í svæðisbundinni matargerð

Impra á Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálastofa óska eftir umsóknum um þátttöku í verkefninu Krásir sem er fræðslu og þróunarverkefni í svæðisbundinni matargerð. Í verkefnin verður boðið upp á fræðslu auk faglegs og fjárhagslegs stuðnings við þróun og sölu matvæla. Þátttaka í verkefninu er opin einstaklingum og litlum fyrirtækjum á landsbyggðinni, eða samstarfshópum einstaklinga og lítilla fyrirtækja, sem óska eftir að vinna saman við þróun á matvörum. Matvörurnar þurfa að vera ákveðin nýjung, en hafa um leið sterka skírskotun til viðkomandi svæða eða menningar. Verkefnin þurfa einnig að vera í sterkum tengslum við ferðaþjónustu, t.d. með sölu beint til ferðamanna, á sveitahótelum, gististöðum eða í veitingahúsum á landsbyggðinni. Umsóknarfrestur er til og með 12. janúar 2009. Tilgangur verkefnisinsTilgangur verkefnisins er að styrkja þróun í svæðisbundinni matargerð og efla ferðaþjónustu með því að framleiða og selja matvörur sem byggja á hráefni, sögu og þekkingu á ákveðnum svæðum. Ennfremur er markmiðið að auka samstarf milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og lítilla fyrirtækja sem framleiða matvörur og auðvelda þeim sameiginlega markaðssetningu á svæðinu. Þeir sem taka þátt í verkefninu taka þátt í fræðslu um í þróun, vinnslu og meðferð matvæla og fá auk þess fjárhagslegan og faglegan stuðning við þróun á nýjum afurðum. Með verkefninu er verið að auka þekkingu á gæðum og faglegri vinnu við þróun nýjum matvörum. Markmið Að auka framboð á matvörum sem hafa sterka skírskotun til svæðis eða sögu og menningar á viðkomandi svæði.  Að koma nýrri vöru á markað.  Að vinna að faglegum úrlausnum við þróun á viðkomandi vöru.  Að verkefnin skili fyrirtækjunum það miklum ávinningi að kostnaðurinn við vöruþróunina skili sér til baka innan 2 - 3 ára frá því að sala hefst.  Að auka þekkingu á þróun, framleiðslu og markaðssetningu.  Að auka og efla samstarf milli fyrirtækja í ferðaþjónustu og maltvælaframleiðslu. FramkvæmdVerkefnið hefst með 2 daga námskeiði þar sem þátttakendur fá fræðslu um þróun, vinnslu, meðferð og öryggi matvæla. Kennt verður í janúar 2009 á 3-4 stöðum á landinu, en staðirnir verða valdir með hliðsjón af búsetu þátttakenda. Kennarar koma frá Matís, Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra og Hólaskóla Háskólanum á Hólum. Að námskeiðinu loknu hefst hin eiginlega þróunarvinna þar sem þátttakendur munu vinna að sínum verkefnum með aðstoð frá Impru auk sérfræðinga á tilteknum sviðum. Þjónusta Impru á Nýsköpunarmiðstöð er án endurgjalds, en styrknum er ætlað að standa undir hluta af öðrum kostnaði, t.d. ráðgjöf sérfræðinga, prófunum, mælingum eða öðrum þáttum við þróunina. ForsendurForsendur þess að verkefni geti fengið stuðning eru m.a. eftirfarandi: Einhver nýung, þróun eða nýbreytni frá þeim vörum sem eru í boði í dag Tenging við ferðaþjónustu á svæðinu Sala sé líkleg til að skila þróunarkostnaði til baka á innan við 2-3 árum Verkefnið raski ekki samkeppni á viðkomandi svæði Umsóknarfrestur er til og með 12. janúar 2009 Krásir umsóknareyðublað- þróunarverkefni í svæðisbundinni matargerð (Excel skjal)-Byrjið á að vista eyðublaðið á eiginn tölvu með því að smella á hlekkinn hér fyrir ofan og velja "Save" Í umsóknum þurfa að koma fram upplýsingar um umsækjendur og verkefnishugmyndir þeirra, nýnæmi, tengsl við ferðaþjónustu og markað. Nánari upplýsingar veitir Sigurður Steingrímsson, verkefnisstjóri í s: 460 7972
Lesa meira

Hinn upplýsandi ferðalangur

Rannsóknamiðstöð ferðamála, ásamt kennaradeild háskólans í Jyväskylä, hefur gefið út bókina The Illuminating Traveler - Expressions of the Ineffability of the Sublime. Í henni eru 15 greinar um ferðamál og fyrirbærafræði en titill bókarinnar gæti útlagst: ?Hinn upplýsandi ferðalangur - birting tjáningar þess sem ekki verður tjáð?. Greinarnar fjalla um ferðalög um áfangastaði víða um heim þar sem höfundar lýsa upplifunum á oft ljóðræðan hátt. Í henni er ein grein um Ísland, nánar tiltekið Goðafoss og hvernig ferðalangar upplifa hann.  Rannsóknamiðstöð ferðamála veitir nánari upplýsingar um hvernig hægt er að nálgast bókina edward@unak.is
Lesa meira