Fréttir

Atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökulsþjóðgarðs

Ráðstefnan Atvinnulíf og nýsköpun við lendur Vatnajökulsþjóðgarðs verður haldin á Höfn og Smyrlabjörgum 7.-8. nóvember næstkomandi. Mörg áhugaverð erindi verða á dagskrá og sérstaklega vert fyrir þá sem búa á áhrifasvæðum Vatnajökulþjóðgarðs að mæta. Eins og sést á dagskránni hefst ráðstefnan á föstudegi í Höfn en um kvöldið flytur fólk sig um set yfir á Hótel Smyrlabjörg þar sem haldin verður Uppskeruhátíð Ríki Vatnajökuls og Ferðamálafélags A-Skaftafellssýslu. Dagskrá laugardagsins mun einnig fara fram á Smyrlabjörgum. Frítt er á ráðstefnuna en verð á uppskeruhátíðina er 4.900 kr. Tilkynna þarf um þátttöku á ráðstefnuna og uppskeruhátíðina hjá Söndru Björgu í netfang sbs@hi.is eða í síma 470-8044 í síðasta lagi mánudaginn 3. nóvember 2008. Mögulegt er að gista á Smyrlabjörgum en panta þarf herbergi þar, sími 478-1074. Flugfélagið Ernir verður með leiguflug frá Höfn til Reykjavíkur á laugardeginum kl. 16.30 en panta þarf hjá Erni í síma 562-4200 og taka fram að viðkomandi er ráðstefnugestur. Sjá:   http://www.hornafjordur.is/vidburdir/2008/11/07/eventnr/1439 Skoða dagskrá (PDF)
Lesa meira

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands verður haldinn á Hótel Höfn dagana 21.-22. nóvember næstkomandi.  Að samtökunum standa átta landshlutasamtök og að þeim eiga aðild ferðaþjónustuaðilar og sveitarfélög á viðkomandi svæðum. Formaður samtakanna er Pétur Rafnsson. Dagskrá hefst kl. 13 föstudaginn 21. nóvember og er von á spennandi fyrirlesurum. Nánari dagskrá verður auglýst síðar.
Lesa meira

Dagný nýr liðsmaður Ferðamálastofu

Dagný Fjóla Elvarsdóttir er nýjasti liðsmaður Ferðamálastofu. Dagný er kominn til starfa á skrifstofunni í Reykjavík í barnseignaleyfi Katrínar Gylfadóttur en starfaði þar raunar einnig síðastliðið sumar í sumarafleysingum. Dagný kláraði 10 bekk í Falmouth Community School  í Englandi þar sem hún var búsett í eitt ár og lauk stúdentsprófi vorið 2008 í tungumálum frá Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Hún stundar nú nám í Ferðamálaskólanum við Menntaskólann í Kópavogi.
Lesa meira

Ferðamálaþing 20. nóvember

Ferðamálastofa og iðnaðarráðuneytið gangast fyrir ferðamálaþingi á Grand Hótel þann 20. nóvember næstkomandi. Yfirskriftin er Öflug ferðaþjónusta - allra hagur, tækifæri ferðaþjónustunnar á umbrotatímum. Vert er að vekja athygli á að áður hafði verið auglýst að þingið yrði á Akureyri en því þurfti að breyta. Dagskráin hefst kl. 13:00 og stendur fram eftir degi. Meðal þeirra sem taka til máls verða Össur Skarphéðinsson, ráðherra ferðamála, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Ian Neale, framkvæmdastjóri Regent Hollidays í Bretlandi. Í lok þingsins verður boðið upp á léttar veitingar. Það er opið öllum hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu og öðrum sem áhuga hafa á greininni. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána en vert er að taka daginn strax frá. Á síðustu vikum hefur mjög verið horft til ferðaþjónustu sem lið í eflingu íslensks atvinnulífs og með því að fjölmenna á þingið gefst kjörið tækifæri til að vekja athygli á greininni þannig að eftir verði tekið.  
Lesa meira

?A Slice of Iceland? fer vel í Breta

Fjölmenni var við opnun ?A Slice of Iceland? í London í liðinni viku. Um er að ræða mánaðarlanga dagskrá í samstarfi Ferðamálastofu og bresku ferðaskrifstofunnar Black Tomato þar sem íslensk hönnun, listir, tónlist og matur verður í forgrunni. Markmiðið er að efla áhuga á ferðum til Íslands. Á opnunarkvöldinu komu fram íslenskir tónlistamenn, m.a. Hjaltalín, Hraun, Lay Low, Bloodgroup og FM Belfast. Af hönnunar og listasviðnu má nefna Hjördís Hafnfjörð, Laufey Johansen, Kristínu Andresdóttur og Ragnar Einarsson. Að sögn Tom Marchant, framkvæmdastjóra Black Tomato, var kvöldið sérlega vel heppnað. ?Gestirnir voru nokkuð á annað hundrað talsins og allir voru jafn hugfangnir af því sem fyrir augu og eyru bar. Við hjá Black Tomato eru mjög ánægð að geta lagt Íslandi lið á  þessum umbrotatímum. Öll erum við að sjálfsögðu einlægir Íslandsaðdáendur og vonumst til að vekja áhuga sem flestra á að koma í heimsókn,? segir Tom Marchant.
Lesa meira

Ferðaþjónstan mikilvægur drifkraftur

Ferðamálaráð hefur lagt eftirfarandi tillögur fyrir iðnaðarráðherra. Ferðamálaráði er m.a. ætlað að vera ráðherra til ráðgjafar um kynningarmál ferðaþjónustunnar og áætlanir í ferðamálum. Ferðaþjónustan hefur ávallt verið í fararbroddi í almennri kynningu á Íslandi og því er eðlilegt að horft verði til hennar á næstunni þegar ríður á að bæta orðspor Íslands. Ferðaþjónustan er jafnframt gríðarlega mikilvægur drifkraftur í byggðum landsins og er ein besta og hagkvæmasta leiðin til að fjölga störfum og auka gjaldeyristekjur þjóðarinnar. Fjárfesting í markaðssetningu og kynningu á Íslandi verði aukin frá því sem birtist í fjárlagafrumvarpi og horft verði til náins samstarfs við fyrirtæki í greininni við uppbyggingu á kynningar- og markaðsstarfi til lengri tíma. Vinnu nefndar, sem nú vinnur úr tillögum ímyndarnefndar forsætisráðherra, verði hraðað og Promote Iceland verkefninu verði komið í framkvæmd eigi síðar en um áramót. Tryggt verði að hagsmunir og sjónarmið ferðaþjónustunnar verði í forgrunni við undirbúning, útfærslu og framkvæmd þessa mikilvæga verkefnis. Uppbygging markaðsstofa um landið verði studd og starf þeirra eflt m.a. í samræmi við tillögur nefndar um endurskoðun ferðamála. Markmiðið sé að styrkja rekstrargrundvöll, samræma aðgerðir og stuðla að heildstæðum skilaboðum um Ísland sem áfangastað ? innanlands og utan. Í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og fleiri verði settur kraftur í að auka nýsköpun og efla vöruþróun í greininni t.d í menningar- og heilsutengdri ferðaþjónustu. Að komandi ferðamálaþing iðnaðarráðuneytisins verði nýtt til að koma þeim skilaboðum til landsmanna að í eflingu ferðaþjónustunnar felist einstök sóknarfæri fyrir íslenskt efnahagslíf.
Lesa meira

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin í fjórða sinn þann 16. október síðastliðinn.  Markmið hátíðarinnar er að efla samkennd og samvinnu á milli ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi og að gefa fólki kost á að kynnast innbyrðis. Að þessu sinni voru Skagfirðingar gestgjafar og voru um 100 ferðaþjónustuaðilar sem tóku þátt í deginum og skemmtu sér konunglega. Farið var mjög víða og hófst dagurinn í Bátahúsinu hjá Hestasport þar sem gestir voru boðnir velkomnir og gæddu sér á góðgæti. Því næst var haldið að Hólum þar sem Guðrún Þóra og aðrir kennarar Hólaskóla héldu mjög áhugaverða kynningu á starfsemi skólans, farið var í leiki og boðið var uppá gómsætan skagfirskan silung í hádegismat. Næsta stopp var listasetrið Bær á Höfðaströnd þar sem mikil uppbygging hefur átt sér stað fyrir listamenn. Tveir ungir piltar sem kalla sig Fúsaraleg Helgi tók nokkur lög á meðan gestir skoðuðu sig um og gæddu sér á veitingum . Áfram var haldið og beinustu leið á Sauðárkrók þar sem Sveitarfélagið Skagafjörður tók á móti þátttakendum með glæsilegum veitingum í Minjasafninu. Eftir mjög ánægjulegt stopp í þesu fallega safni var brunað að Bakkaflöt þar sem gestirnir fengu enn fleiri veitingar í boði ábúenda og kynntu sér starfsemina. Síðasta stopp fyrir kvöldmat var að Varmalæk þar sem gestum var boðið uppá virkilega skemmtilega hestasýningu og heimabakaðar pönnukökur og kökur. Lagið var tekið í nýrri og glæsilegri reiðhöll, Hrímnishöllinni, áður en haldið var af stað í Varmahlíð. Kvöldmaturinn var haldinn í Héðinsminni í Akrahrepp og var fordrykkur í boði Iðnaðarráðuneytisins en maturinn var úr skagfirsku matarkistunni, virkilega glæsilegur matseðill. Kvöldið endaði á hressandi skemmtiatriðum og balli með Geirmundi. ViðurkenningarSérstakar viðurkenningar frá Markaðsskirfstofu ferðamála á Norðurlandi hlutu Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit fyrir áhugaverða nýjung í ferðaþjónustu og Gunnar Árnason leiðsögumaður fyrir áralangt starf í þágu ferðaþjónustunnar. Pétur Rafnsson, formaður Ferðamálasamtaka Íslands, veitti Byggðasafni Skagfirðinga viðurkenningu fyrir faglega uppbyggingu í þágu ferðaþjónustunnar. Þessi dagur heppnaðist í alla staði mjög vel og á næsta ári verður uppskeruhátíðina haldin í Mývatnssveit. Það von Markaðsskrifstofunnar að sem flestir sjái sér fært að mæta að ári og eiga góðan dag í samvistum við aðra ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi. Myndir frá deginum    
Lesa meira

Þjóðarspegillinn

Níunda félagsvísindaráðstefna Háskóla Íslands, þjóðarspegillinn, verður haldin af félags-og mannvísindadeild, félagsráðgjafardeild, hagfræðideild, lagadeild, sálfræðideild, stjórnmálafræðideild og viðskiptafræðideild í Lögbergi, Háskólatorgi og Odda föstudaginn 24. október frá kl 09:00 til 17:00. Fjöldi fyrirlestra er til vitnis um fjölbreytt og öflugt rannsóknarstarf á sviði félagsvísinda hér á landi og eru fyrirlesarar í fremstu röð hver á sínu sviði. Tvær málstofur viðskiptafræðideildar eru tileinkaðar ferðamálum. Sjá dagskrá.
Lesa meira

Elding Hvalaskoðun fær Green Globe vottun

Fyrr í mánuðinum fékk Elding Hvalaskoðun í Reykjavík fulla  Green Globe 21 umhverfisvottun. Unnið hafði verðið að þessu  markmiði síðastliðin tvö ár og áður var fyrirtækið búið að fá Bláfánann svokallaða. ?Við siglum í villtri náttúru og okkur hefur ávallt fundist mikilvægt að reyna að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið okkar. Umhverfisvottun snýst ekki einungis um umhverfismál, heldur tekur það ferli einnig til þátta eins og siðferðis, sanngjarnra viðskiptahátta og félagslegrar ábyrgðar og mótar fyrirtækið sér þ.a.l. heildstæða stefnu í átt til sjálfbærrar þróunar. Við teljum tvímælalaust að umhverfisvottun sé árangursríkt stýritæki fyrir fyrirtækið, bæði á sjó sem og á landi. Að okkar mati er það ávinningur fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki að tileinka sér umhverfisstefnu í rekstri sínum mati og getur það gegnt lykilhlutverki í sjálfbærri uppbyggingu til framtíðar í íslenskri ferðamennsku.  Það að tileinka sér umhverfisvottun í ferðaþjónustu getur skapað aukin sóknarfæri þar sem fyrirtæki í greininni geta styrkt ímynd sína, bætt samkeppnistöðu í því markaðsumhverfi sem þau starfa og þetta er í leiðinni ákveðinn gæðastimpill til neytandans, í okkar tilviki ferðamannsins. Við teljum því  að umhverfisvottun sé árangursríkt tæki til að vinna eftir . Í fyrsta lagi er náttúran helsta aðdráttarafl sem ferðaþjónusta á Íslandi byggist á, það hlýtur því að vera ávinningur fyrir alla að vel sé haldið utan um þá auðlind. Í öðru lagi felur umhverfisstjórnun í sér ákveðna sjálfbærni og getur því verið hvati á sitt nánasta umhverfi og rennt styrkari stoðum undir atvinnulíf á svæðinu,? segir í frétt frá Eldingu.
Lesa meira

Einstakur árangur MK í keppni ferðamálaskóla

Fimmta árið í röð sigraði ferðafræðinemandi úr Menntaskólanum í Kópavogi í árlegri keppni AEHT, samtaka hótel- og ferðamálaskóla í Evrópu. Keppnin fór fram á eyjunni Saareema í Eistlandi og var það Rannveig Snorradóttir sem keppti fyrir Íslands hönd. Rannveig í miðið með liðsfélögum sínum, Merije frá Hollandi og Sirli frá EistlandiKeppnin er liðakeppni þar sem dregnir eru saman þátttakendur frá ólíkum löndum sem síðan spreyta sig á verkefnum tengdum áherslusviðum þeirra í námi. Að þessu sinni var keppt í barþjónustu, ferðafræðum, framreiðslu, gestamóttöku, herbergjaþjónustu, kökugerð, matreiðslu og stjórnun. MK hefur sent nemendur í AEHT keppnina frá því árið 1998 með einstökum árangri. Níu sinnum hafa nemendur komið heim með gullverðlaun og tvisvar með silfurverðlaun. Því má segja að mikil pressa hafi verið á Rannveigu. Hún dróst í lið með keppendum frá Hollandi og Eistlandi og stóðu þær sig svo sannarlega vel og enduðu sem sigurvegarar. Þetta er sem fyrr segir fimmta árið í röð sem MK hreppir gullverðlaunin og hefur engum öðrum skóla tekist það áður. Verkefnið í ár var þrískipt. Nemendur byrjuðu á að taka einstaklingspróf og eftir það fóru þeir í skoðunarferð um nærliggjandi bæi til að afla upplýsinga fyrir verkefnið sem þeir áttu að vinna. Að því loknu fengu liðin fimm klukkutíma til að skrifa skýrslu um áfangastaðinn Saareema. Þar áttu þeir meðal annars að koma með hugmyndir að ferðaþjónustumöguleikum, tillögur til úrbóta og hvernig markaðssetja mætti staðinn betur. Eftir að skýrslunni hafði verið skilað inn fengu þau þrjá klukkutíma til að undirbúa kynningu á verkefnum sínum sem þau að lokum fluttu fyrir framan dómnefnd. Dómnefndin var skipuð 4 dómurum sem komu frá mismunandi löndum ásamt fagaðila úr ferðaþjónustu í heimalandinu. AEHT samtökin voru stofnuð árið 1988 í Strassborg í Frakklandi og fagna því tuttugu ára afmæli á þessu ári. Við stofnun voru 24 skólar frá 16 Evrópulöndum í samtökunum en í dag eru tæplega 430 skólar frá 44 aðildarlöndum. Stór ráðstefna og nemakeppni er haldin í október ár hvert og skiptast aðildarlöndin á að vera gestgjafar. Í ár voru þátttökulöndin 32 og ráðstefnugestir 660 sem skiptust í nemendur, kennara og skólastjórnendur. Heimasíða samtakanna er www.aeht.eu/, en einnig má sjá myndir og fleiri upplýsingar frá Evrópukeppninni á slóðinni www.aehtkuressaare.eu.
Lesa meira