Fara í efni

Vefur Vatnajökulsþjóðgarðs í loftið

Vefur Vatnajökulsþjóðgars
Vefur Vatnajökulsþjóðgars

Opnuð hefur verið heimasíða fyrir Vatanjökulsþjóðgarð. Þjóðgarðurinn var sem kunnugt er formlega stofnaður um mitt þetta ár og er einstakur á heimsvísu.

Vatnajökulsþjóðgarður nær yfir um 12.000 ferkílómetra svæði eða um 12 prósent af flatarmáli landsins og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu. Landssvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni er óvenjulega mikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a ósnortin víðerni.

Vatnajökulsþjóðgarður mun í fyrstu ná til alls þjóðgarðsins í Skaftafelli svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum auk nánast alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þess eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í  eigu ríkisins, en einnig munu nokkur landsvæði í einkaeigu verða hluti af þjóðgarðinum við stofnun hans. Auk þess mun stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taka að sér í umboði Umhverfisstofnunar rekstur nokkurra friðlýstra svæða í nágrenni þjóðgarðsins, svæða sem í framtíðinni er reiknað með að verði hluti þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður muni stækka frekar á næstu misserum og árum. Viðræður við landeigendur og sveitarfélög um önnur landsvæði en þau sem nú er ákveðið að verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs við stofnun hafa farið fram.

Slóðin á nýja vefinn er www.vatnajokulsthjodgardur.is/