Fréttir

Ólöf Ýrr varaformaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs

Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri hefur verið skipuð varaformaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Alþingi samþykkti lög um stofnun þjógarðsins í mars í fyrra og með honum verður til stærsti þjóðgarður Evrópu, um 13 þúsund ferkílómetrar. ?Ég er afar ánægð með upphefðina, enda sé ég með henni aukna möguleika á að styrkja rödd ferðamála, og þá ekki síst grænnar ferðamennsku, í stjórn og skipulagi þjóðgarðsins. Auk þess er ákjósanlegt að Ferðamálastofa hafi með þessu verið sett í hringiðu þessa stóra máls,? segir Ólöf Ýrr. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs felur í sér sameiningu þjóðgarðanna Jökulsárgljúfra og Skaftafells og friðlýsingu alls Vatnajökuls, umfangsmikilla svæða umhverfis jökullinn og norður með Jökulsá á fjöllum, allt til strandar í Öxarfirði. Með öðrum orðum þá nær þjóðgarðurinn frá strönd til strandar. Með því móti er leitast við að sameina í einum þjóðgarði Vatnajökul og helstu áhrifasvæði hans. Mynd: Skáli Jöklarannsóknafélags Íslands á Grímsfjalli á Vatnajökli. Ljósmynd: Smári Sigurðsson
Lesa meira

Ísland viðfangsefni ?The Rough Guide?

Ísland var viðfangsefni hins vikulega ferðaþáttar ?The Rough Guide? sem sendur var út hjá Channel 5 í Bretlandi í gærkvöld. Þátturinn nýtur mikilla vinsælda og er áætlað að um 700 þúsund manns hafi séð hann. Í þættinum fær annar þáttastjórnandinn, Julia Bradbury, að kynnast ýmsum hliðum lands og þjóðar sem hún kemur til skila með líflegum hætti. Meðal annars er komið við hjá Gullfoss og Geysi, heilsað upp á íslenska hesta, farið í vélsleðaferð á Langjökli og næturlíf Reykjavíkur kannað, að ógleymdri heimsókn í Bláa lónið. Þá sá Lækjarbrekka um að elda sælkeramat úr íslensku hráefni sem fær sína umfjöllun. Ferðamálastofa skiplagði komu sjónvarpsfólksins hingað til lands og ýmis fyrirtæki lögðu hönd á plóg. ?Það er ljóst að virði svona umfjöllunar hleypur á einhverjum milljónum króna,? segir Sigrún Hlín Sigurðardóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálastofu fyrir Bretlandsmarkað. Slóð á myndband af þættinum The Rough Guide - Iceland  
Lesa meira

Risaverkefni í Þýskalandi til kynningar á Íslandi

Í lok janúar lauk í Þýskalandi stærstu herferð sem skrifstofa Ferðamálastofu í Frankfurt hefur komið að. ?Elch und Weg? er nafn á útvarpsleik sem SWR3 útvarpsstöðin efnir til í fjórar vikur og lýkur með vinningsferð fyrir hóp hlustanda til viðkomandi lands. Fyrsta vikan var nokkurs konar upphitun þar sem leikurinn var auglýstur á stöðinni með 2-3 innslögum á klukkustund og sett voru upp um 3.400 ljósaplaköt og 500 risaplaköt (sjá mynd) með Íslandsmynd í um 100 borgum á útsendingarsvæðinu, sem er aðallega í héruðunum Baden Würtenberg og Rheinland-Pfalz.í S-Þýskalandi. Að auki var herferðin kynnt í blaði hlustendaklúbbs stöðvarinnar í 110 þúsund eintökum og opnað inn á ?Elch und Weg ? Island? hluta vefsvæðis útvarpsstöðvarinnar. Gríðarlegur áhugiÍ annarri og þriðju viku hófst svo leikurinn fyrir alvöru. Í morgun- og síðdegisútvarpi  var sent út dagskrárefni sem var uppskera þáttastjórnendanna tveggja sem sóttu Ísland heim í nóvember sl. Samanstóð dagskráin af upplifun þeirra af landinu og viðtölum við fjölmarga Íslendinga, sem var skemmtilega spunnið saman við upplýsingar um land og þjóð. Í morgunútvarpinu gafst hlustendum kostur á að hringja inn og svara spurningum um Ísland og vinna ferð til Íslands. Þegar mest lét reyndust í kringum 50.000 hlustendur vera að reyna að hringja inn í getraunina og á heimsíðu stöðvarinnar fóru heimsóknirnar upp í 1,9 milljónir dagana sem leikurinn stóð yfir. Að auki var leikurinn tengdur þremur stærstu dagblöðum svæðisins og stórum þýskum vefmiðli, þar sem nokkurs konar afleggjarar útvarpsleiksins voru birtir. Lagt upp í ÍslandsferðÞað var svo föngulegur hópur 80 spenntra vinningshafa sem lögðu í hann frá Frankfurt mánudaginn 28. janúar en deginum áður hafði 15 manna lið tækni- og dagskrárgerðarfólks lagt land undir fót og tekið sér stöðu í Reykjavik. Í hönd fóru viðburðarríkir dagar þar sem þátttakendur fengu að kynnast náttúru, tónlist, matargerð og síðast en ekki síst veðráttu landsins. Því voru það sælir ferðalangar sem sneru aftur til Frankfurt að morgni 31. janúar en þeir sem ekki höfðu heppnina með sér í þetta skipti og aðrir sem heima sátu, gátu fylgst með ferðum hópsins í útsendingum, veffrásögnum og -myndum, nokkurn vegin jafn óðum og hópurinn upplifði landið í ?misblíðum? vetrarskrúða. Á myndinni hér að neðan má sjá hópinn við Geysi. Samstarf Iceland NaturallyAðkoma Íslands var liður í Iceland Naturally verkefninu í Evrópu, sem skrifstofa Ferðamálastofu á meginlandinu er framkvæmdaaðili fyrir. Að verkefninu standa íslenska ríkið auk nokkurra íslenskra fyrirtækja og er takmark þess að auka þekkingu og áhuga fólks á landinu Davíð Jóhannsson, forstöðumaður Evrópuskrifstofunnar, segist hæstánægður með hvernig til tókst. ?Þetta verkefni var svona ?jólin og páskarnir á sama tíma? hvað varðar dreyfingu og birtingarverðmæti, miðað við það sem við leggjum til. Það sýndi sig einnig að það er sterkt fyrir landkynninguna að hafa meira bolmagn í gegnum Iceland Naturally samstarfið og geta með því tekið þátt í svona verkefnum,? segir Davíð.
Lesa meira

Stefnumótun fyrir ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum

Hafist hefur verið handa við gerð stefnumótunaráætlunar fyrir ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Að vinnunni standa Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga, Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi. Stefnumótunin byggir á reynslu og vinnu sérfræðinga frá Kanada og Nýja Sjálandi. Þeir sem að verkinu vinna eru; dr. John Hull, sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi, dr. Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands, Simon Milne, forstöðumaður Rannsóknarstofnunar ferðamála á Nýja Sjálandi og Carol Patterson ferðaþjónusturáðgjafi í Kanada og leiðbeinandi við háskólann í Calgary. Auk þeirra fjögurra koma að verkinu fjöldi stúdenta og starfsmenn stofnananna sem standa á bak við stefnumótunina. Úttekt á svæðinu í samvinnu við hagsmunaaðilaMarkmið stefnumótunarinnar er að greina möguleika til uppbyggingar á ferðaþjónustu til framtíðar, út frá úttekt á því sem svæðið hefur upp á að bjóða. Úttektin, sem unnin er í samvinnu við lykil hagsmunaaðila og þá sem þekkja vel til á svæðinu er síðan er borin undir aðra hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og þarfir hennar til framtíðar greindar með þeim hætti. Allir hagsmunaaðilar munu einnig koma að vinnunni á tveggja daga námskeiði og hugarflugsfundi um stefnumótun á svæðinu sem haldinn verður í byrjun maí. Úttektin er unnin af íslenskum sérfræðingum í málefnum ferðaþjónustu í samvinnu við lykilaðila en greining og kortavinna er í höndum erlendra sérfræðinga og byggir á þeirra vinnu á ýmsum svæðum hvaðanæva úr heiminum. Í sameiningu munu síðan rannsakendur og hagsmunaaðilar vinna stefnumótun til fimm ára, en áætlað er að vinnan verði endurtekinn að þeim tíma liðnum. Kort notuð við úttekt og greininguLandfræðilegum upplýsingakerfum (GIS) er beitt við úttekt og greiningu á ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Gögnum um einsstaka staði, s.s. fossa, byggðaminjar, sundlaugar, veitingastaði og vegaslóða er safnað í aðgreindar þekjur sem nýtast til að átta sig á þyrpingum ólíkra möguleika til uppbyggingar í framtíðinni. Með þessari aðferð er þáttað saman nálgunum fræðimanna og hagsmunum atvinnugreinarinnar á máta sem er auðframsetjanlegur í kortum og myndum en jafnframt nýtist til frekari greininga. Sá landfræðilegi upplýsingagrunnur sem byggður verður upp í Þingeyjarsýslum mun nýtast sem fyrirmynd í sambærilega gagnaöflunar og stefnumótunarvinnu á öðrum landssvæðum og getur að lokum orðið undirstaða landnýtingaráætlunar fyrir íslenska ferðaþjónustu. Mynd: Gunnar Jóhannesson, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga; Vilborg Arna Gissurardóttir, verkefnastjóri hjá Atvinnuþróunarfélagi Þingeyinga; Edward H. Huijbens, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands og John Hull,  sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands og Rannsóknarstofnun ferðamála á Nýja Sjálandi.  
Lesa meira

Iceland Express fimm ára

Iceland Express fagnar fimm ára afmæli á morgun, 27. febrúar, en þann dag árið 2003 var fyrsta flug á vegum félagsins til Kaupmannahafnar og London. Síðan hefur áfangastöðunum fjölgað jafnt og þétt úr tveimur í fjórtán, auk þess sem félagið flýgur frá Akureyri og Egilsstöðum til Kaupmannahafnar á sumrin. Í frétt frá félaginu kemur fram að það muni fagna afmælinu með því að gefa farþegum félagsins á afmælisdaginn sérstakan glaðning auk þess sem almenningi býðst sérstakt tilboð frá hádegi 27. febrúar þegar í boði verða 5.000 sæti á 6.995 kr. í tilefni fimm ára afmælisins. Áfangastaðir Iceland Express í sumar verða Kaupmannahöfn, London, Alicante, Basel, Berlín, Billund, Eindhoven, Frankfurt Hahn, Friedrichshafen, Gautaborg, París, Stokkhólmur, Barcelona og Varsjá. Varsjárflugið markar tímamót í íslenskri flugsögu, því þetta verður í fyrsta sinn sem flogið er í beinu áætlunarflugi milli Íslands og Póllands. Barcelona er jafnframt nýr áfangastaður í sumaráætlun Iceland Express, en félagið hóf að fljúga þangað síðastliðið haust. ?Síðustu fimm ár hefur mikil uppbygging átt sér stað hjá Iceland Express og munum við halda henni áfram af fullum krafti. Viðtökur Íslendinga og erlendra ferðamanna við þjónustu félagsins hafa verið frábærar frá upphafi og sýna svo ekki verður um villst  hversu miklu máli það skipti fyrir almenning og íslenska ferðaþjónustu að hér ríki virk samkeppni í millilandaflugi,? segir Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, í frétt frá félaginu.
Lesa meira

Sjö íslensk fyrirtæki tilnefnd til Scandinavian Travel Award

Tilnefningar bárust um sjö íslensk fyrirtæki til Scandinavian Travel Award ferðaverðlaunanna sem afhent verða á ITB-ferðasýningunni í Berlín í mars næstkomandi. Auglýst var eftir tilnefningum í janúar síðastliðnum og geta fyrirtæki stungið upp á bæði sjálfum sér og öðrum. Gjaldgeng í valinu eru fyrirtæki á Norðurlöndunum en í dómnefnd sitja m.a. forstöðumenn norrænu ferðamálaráðanna í Þýskalandi, blaðamenn, markaðsfólk o.fl. Í flokknum ?nýsköpun? (Innovation) bárust tilnefningar um fimm íslensk fyrirtæki:- Borea Adventures- Fosshotel- Ísafold Travel- Island Pro Travel- Viator Í flokknum ?árangur? (success) eru tvö íslensk fyrirtæki tilnefnd:- Iceland Excursions-Grayline- Viator Tilkynnt verður um hverjir hljóta verðlaunin að kvöldi 5. mars í sérstöku hófi í samkomusal norrænu sendiráðanna í Berlin en þann dag hefst ITB ferðakaupstefnan. Mynd: Frá ITB í fyrra.  
Lesa meira

Boðað til stofnfundar ?Beint frá býli? - Samtök heimavinnsluaðila

Boðað hefur verið til stofnfundar félags um verkefnið ?Beint frá býli?. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 29. febrúar næstkomandi að Fjallakaffi á Möðrudal á Fjöllum klukkan 11 árdegis. Verkefninu Beint frá býli var hleypt af stokkunum í apríl 2005. Markmið þess er að stuðla að framleiðslu matvæla á sveitabýlum og milliliðalausri sölu þeirra til neytenda. Að verkefninu standa Bændasamtök Íslands, Ferðaþjónusta bænda, Hólaskóli, Háskólinn á Hólum, IMPRA nýsköpunarmiðstöð, Landbúnaðarháskóli Íslands og Lifandi landbúnaður. Stýrihópur var skipaður um mitt síðasta ár og er það hann sem boðar til stofnfundar formlegs félags um verkefnið. Dagskrá fundar: 1. Kynning á störfum stýrihóps Beint frá býli.2. Umræður um verkefnið.3. Tillögur að stofnsamþykktum kynntar.4. Kosning stjórnar, varastjórnar og skoðunarmanna.5. Ályktanir fundar og önnur mál.6. Fundarslit áætluð kl. 15.30 Nánar á heimasíðu Beint frá býli
Lesa meira

Styrkir til þróunarverkefna og nefnd um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun í ferðaþjónustu

Á fundi fyrr í dag kynnti Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tvö stór mál er tengjast ferðaþjónustu. Einnig kynnti Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri á fundinum helstu niðurstöður gæðakönnunar Ferðamálastofu. Ráðherra greindi frá skipan nefndar um aðkomu ríkisins að skipulagi og fjármögnun í greininni. Nefndin er undir formennsku Svanhildar Konráðsdóttur, formanns ferðamálaráðs. Hlutverk hennar er að gera tillögur til undirbúnings ákvarðana í tengslum við endurskoðun á ferðmálaáætlun til 2015. Nefndinni er ætlað að skila tillögum í vor sem lúta að því með hvaða hætti opinberum fjárstuðningi við einstaka þætti ferðamála sé best skipað; á hvern hátt stjórnvöld geti stuðlað að árangursríku skipulagi í ferðamálum innanlands og hvernig þau geti tryggt samstarf og sem besta nýtingu fjármuna í markaðsmálum ferðaþjónustunnar og almennri landkynningu. Nánar má fræðast um málið á vef Iðnaðarráðuneytisins. Styrkir til þróunarverkefna í ferðaþjónustuÞá greindi Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra frá því að hann hefði ákveðið að ráðstafa 100 milljónum króna af fé Byggðaáætlunar 2007 ? 2009 til þriggja þróunarverkefna í ferðaþjónustu. Í öllum tilfellum verður auglýst eftir hópum fyrirtækja og einstaklinga í ferðaþjónustu sem vilja taka þátt í þróunarverkefnum á skilgreindum svæðum. Verkefnin snúa að þremur sviðum; í fyrsta lagi þróun í menningartengdri ferðaþjónustu; í öðru lagi auknun gæðum og vöruþróun í ferðaþjónustu og í þriðja lagi að matföngum úr héraði og áframhaldandi þróun viðfangsefnisins ?Beint frá býli?. Ferðamálastofa mun hafa umsjón með þróunarverkefnunum í samvinnu við IMPRU á Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Um nánari útfærslu má fræðast á vef Iðnaðarráðuneytisins. Samhljómur við gæðakönnun FerðamálastofuÓlöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri bendir á að þróunarstyrkir ráðherra kallist vel á við ýmislegt sem vekur athygli í gæðakönnun Ferðamálastofu. ?Þannig nefna 40% ferðamanna menningu og sögu sem áhrifavald á komu sína ? nokkuð sem vísar til öflugrar landkynningar listamanna okkar og mikilvægis íslenskrar menningar og sögu í ferðaþjónustu hérlendis. Afþreying af hvers kyns toga fær háa einkunn og er í samræmi við miklar væntingar ferðamanna til þessa geira íslenskrar ferðaþjónustu. Hins vegar skora veitingar lægra og þar er svigrúm til úrbóta. Í því samhengi er hins vegar athyglivert að það sem vegur þyngst í einkunnagjöf eru gæði og fjölbreytni frekar en verð. Umræddir styrkir beinast eins og kemur fram í kynningu á þróunarverkefnum ráðherra einmitt að menningartengdri ferðaþjónustu, gæðum ferðaþjónustu og eflingu matarmenningar,? segir Ólöf Ýrr.
Lesa meira

Ný gæðakönnun meðal erlendra ferðamanna

Ný könnun Ferðamálastofu um viðhorf erlendra gesta til gæðamála í íslenskri ferðaþjónustu er nú aðgengileg hér á vefnum. Um er að ræða fyrstu rafrænu könnunina sem Ferðamálastofa gerir meðal erlendra gesta. Könnunin er unnin í framhaldi af sambærilegri viðhorfskönnun meðal Íslendinga sem gerð var á árinu 2006.
Lesa meira

Food and Fun í sjöunda sinn

Matar- og skemmtihátíðin "Food and Fun" hófst í gær en hún stendur  fram á sunnudag.  Hátíðin er nú haldin í sjöunda sinn á fimmtán veitingastöðum höfuðborgarinnar. Með hátíðinni er stefnt að því að kynna gæði íslenskra matvæla og veitingamennsku, ásamt því að kynna Ísland sem ákjósanlegan áfangastað. Gert er ráð fyrir um sjötíu erlendum fréttamönnum til landsins. Kunnir matreiðslumeistarar frá Bandaríkjunum og Evrópu verða í eldhúsum nokkurra bestu veitingastaða borgarinnar og elda með íslenskum starfsbræðrum sælkeramáltíðir fyrir gesti þá daga sem hátíðin stendur yfir. Sérstakt þema í ár er "ný norræn matargerðarlist" og er í samstarfi við Norðurlandaráð. Samstarfsaðili "Food and Fun" hátíðiarinnar líkt og undanfarin ár er Iceland Naturally, sem er sameiginlegur kynningarvettvangur íslenskra stjórnvalda og fyrirtækja í Bandaríkjunum og Evrópu. Verkefnið er sem kunnugt er vistað hjá Ferðamálastofu. Vert er að benda á matreiðslukeppnina í Listasafni Reykjavíkur, Hafnarhúsnu, sem hefst kl. 13:00 á laugardag. Þar reyna meistarakokkarnir með sér og er keppnin opin fyrir áhorfendur. Heimasíða Food and Fun.  
Lesa meira