Fara í efni

Verkefni um sjávartengda ferðaþjónustu

Hvíldarklettur
Hvíldarklettur

Verkefnið "Marine-Based Employment Opportunities (MBEO)", sem aðilar frá Íslandi, Írlandi og Noregi eiga aðild að, fékk nýlega forverkefnisstyrk frá Norðurslóðaáætluninni (NPP). Frá þessu er greint á vef Byggðastofnunar.

Verkefnið snýst um sjávartengda ferðaþjónustu og að því standa aðilar frá land- og ferðamálafræðistofu Háskóla Íslands, Háskólanum í Finnmörku í Norður-Noregi, og Teagasc-rannsóknastofnuninni á Írlandi, en síðastnefnda stofnunin leiðir verkefnið. Samstarfsaðilar í hverju landi eru allmargir og koma úr röðum fyrirtækja, atvinnuþróunarfélaga, sveitarfélaga og annarra sem láta sig varða atvinnumál og byggðaþróun í sjávarbyggðum þátttökulandanna.

Vestfirðir í brennidepli
Á Íslandi verða vestfirskar sjávarbyggðir í brennidepli, enda sjávartengd ferðaþjónusta í mikilli uppbyggingu á Vestfjörðum. Samstarfs hefur þegar verið leitað við ýmis fyrirtæki og einstaklinga  í ferðaþjónustu á svæðinu, sem hafa sýnt því mikinn áhuga. Háskólasetur Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða verða einnig aðilar að verkefninu. Í lok nóvember komu verkefnisaðilar frá aðildarlöndunum þremur saman í Háskólasetri Vestfjarða á Ísafirði til að undirbúa ítarlega umsókn til NPP um þróunarverkefni í framhaldi af forverkefninu.

Sjá nánar á www.byggdastofnun.is