Fréttir

Hagvöxtur á heimaslóð fyrir höfuðborgarsvæðið

Nýtt verkefni, Hagvöxtur á heimaslóð fyrir höfuðborgarsvæðið, hefst nú í nóvember. Verkefnið er sniðið að þörfum fyrirtækja og hagsmunaðila í ferðaþjónustu með sérstaka áherslu á hagnýtt gildi fyrir alla þátttakendur. Markmiðið er að efla faglega hæfni í stefnumótun, vöruþróun og markaðssetningu með áherslu á samstarf innan og milli svæða. Hagvöxtur á heimaslóð er þróunarverkefni Útflutningsráðs Íslands í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Impru á Nýsköpunarmiðstöð, Rannsóknarsetur ferðamála og Byggðastofnun. Umsóknarfrestur er til  3. nóvember nk.   Vinnufundir og tímasetningarVinnufundir verða fjórir og standa í tvo daga hver. Fundirnir eru haldnir í stuttri fjarlægð frá Reykjavík en nánari staðsetning veltur meðal annars á þátttöku. Fyrsti fundurinn mun fara fram 05.-07. nóvember, næsti fundur fer fram 03.? 04. desember en síðan munu síðustu fundirnir verða haldnir 07.-08. janúar og 11.-12. febrúar 2009. Á vinnufundunum verða bæði fyrirlestrar og verkefnavinna enda áhersla lögð á virka þátttöku. ÞátttökugjaldÞátttökugjald er 50.000 kr. Innifalið í því eru fyrirlestrar, námsgögn, fæði og gisting auk 10 stunda þjónustu ráðgjafa fyrir hvert fyrirtæki á meðan verkefninu stendur. Þátttakendur bera sjálfir kostnað af ferðum til og frá vinnufundum. Skráning og nánari upplýsingar hjá Útflutningsráði Íslands gefa Andri Marteinsson, andri@utflutningsrad.is og Hermann Ottósson, hermann@utflutningsrad.is eða í síma 511 4000. Sjá kynningu á vef Útflutningsráð (setja þessa slóð http://www.icetrade.is/THjonusta/Fraedsla/Hagvoxtur-a-heimaslod-(HH)/)  
Lesa meira

Aðgerðir gegn aðsteðjandi vanda

Óþarfi er að fjölyrða um það erfiða ástand sem skapast hefur í þjóðfélaginu síðustu daga og vikur í kjölfar hruns á fjármála- og gjaldeyrismörkuðum. Frá því að þessi staða kom upp hefur á vegum Ferðamálastofu innanlands og utan verið unnið að ýmsum aðgerðum til að fjölga ferðamönnum og auka þar með innstreymi gjaldeyris . Blaðamannaferðir og almannatengsl Ljóst er að nú er afar mikilvægt að allir leggist á eitt við að halda á lofti jákvæðri umræðu um landið í erlendum fjölmiðlum. Þar hefur og mun Ferðamálastofa beita sér með ýmsum hætti í krafti sambanda sinna. Þær leiðir sem skila árangri strax og kosta minnst eru blaðamannaferðir til landsins og almannatengslastarf. Ferðamálastofa kynnti nýlega hugmyndir sínar um skipulegra samstarf vegna blaðamannaferða við markaðsstofur og svæðisbundin samtök ferðaþjónustuaðila. Þegar er farið að vinna eftir þeim hugmyndum m.a. á Austurlandi, þaðan sem nýverið kom beiðni um að Ferðamálastofa stæði fyrir því að bjóða blaðamönnum á svæðið í tengslum við þá vetrardagskrá sem þar mun eiga sér stað á næstu vikum og mánuðum. Önnur svæði eru hvött til að láta sitt ekki eftir liggja í þessum efnum. Ferðamálastofa fundaði nýverið með Höfuðborgarstofu vegna þess ástands sem komið hefur upp í íslensku efnahagslífi. Á þeim fundi var fólk sammála um nauðsyn þess að hrinda af stað öflugri hvatningu til ferðalaga á okkar helstu mörkuðum og var ákveðið að taka höndum saman um að bjóða til blaðamannaferða og biðla til sérhópa af ýmsu tagi, en einnig var rætt um möguleika á því m.a. að kynna Reykjavíkurborg og Íslands sem fjölskylduvænan áfangastað. Skrifstofur Ferðamálastofu erlendis hafa lagt þunga áherslu á það undanfarið að koma jákvæðri umfjöllun inn í fjölmiðla og mun verða lögð enn ríkari áhersla á það á næstum vikum og mánuðum. Sérstök fjárveiting á haustmánuðum Fjárveiting iðnaðarráðuneytisins til sérstaks átaks nú í haust er þessa dagana verið að nota í herferðum á vef- og prentmiðlum á öllum mörkuðum. Vegna þeirra atburða sem nú hafa orðið var ákveðið að gera lítilsháttar áherslubreytingu og auka vægi verslunar í kynningarefni, með hliðsjón af stöðu mála hér á landi og þess að auka þarf innstreymi gjaldeyris strax. Ýmsir stórir viðburðir framundan Meðal viðburða sem framundan eru má nefna að í vikunni verður opnuð sýningin ?A slice of Iceland? í London þar sem áherslan verður á ferðaþjónustu, íslenska tónlist, mat ofl. Þá styttist í stærstu ferðasýningu í heimi, World Travel Market í London, en fullbókað er á sýninguna. Þann 20. nóvember verða Ferðamálastofa, Ráðstefnuskrifstofa Íslands og Iceland Naturally með viðburð þar sem ráðstefnulandið Ísland verður kynnt. Unnið er að því þessa dagana að bjóða þangað fagskipuleggjendum. Athafnir innanlands Ferðamálastofa hefur á undanförnum vikum unnið að því með öðrum stofnunum iðnaðarráðuneytis að skoða með hvaða hætti þessar stofnanir geti brugðist við þeim aðstæðum sem upp eru komnar. Þar er ekki síst horft til aukins samstarfs þeirra í milli með það fyrir augum að efla stuðninginn við atvinnugreinarnar - og þar gegnir ferðaþjónustan mikilvægu hlutverki. Þau verkefni sem raðist verður í á grunni þessa samstarfs verða að sjálfsögðu kynnt hér á heimasíðu Ferðamálastofu þegar þar að kemur.
Lesa meira

Tækifærin í ferðaþjónustunni

Í gær birtist í Morgunblaðinu grein Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra undir yfirskriftinni ?Tækifærin í ferðaþjónustunni.? Þar fjallar hún um hvernig greinin mun á komandi misserum gegna stóru hlutverki við öflun gjaldeyristekna, atvinnusköpun um allt land og kynningu út á við á landi og þjóð. ?Undanfarnir dagar hafa verið okkur Íslendingum erfiðir og við þurfum á öllu okkar að halda í uppbyggingarstarfi á næstu misserum. Ferðaþjónustan hefur um árabil verið ein okkar mikilvægustu atvinnugreina og mun á næstu misserum gegna enn stærra hlutverki en hingað til: sem atvinnuskapandi afl úti um allt land, einn af hornsteinum byggðastefnu í landinu en síðast en alls ekki síst ein stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar,? skrifar Ólöf meðal annars. Greinin í heild sinni
Lesa meira

Bjartsýni hjá All Senses á Vesturlandi

Mikil bjartsýni ríkti meðal All Senses hópsins á vinnufundi sem haldinn var á Hótel Hamri í vikunni. Í hópnum eru um 30 fulltrúar  fyrirtækja sem allir starfa við heilsárs ferðaþjónustu á Vesturlandi. Þrátt fyrir óvissu og aðsteðjandi erfiðleika telur hópurinn að við þessar aðstæður skapist áhugaverð og spennandi tækifæri sem mikilvægt er að vinna saman að. "Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem nýtir hvað best auðlindir þessa lands, náttúru, menningu og mannauð sem erfitt er að verðfella og ekki hægt að flytja úr landi. Hún nær til allra landshluta og er því raunhæfasti kosturinn sem völ er á til að renna stoðum undir búsetu í hinum deifðari byggðum. Ferðaþjónusta aflar umtalsverðra gjaldeyristekna og skapar fjölda starfa sem byggja á þekkingu og reynslu vel menntaðra einstaklinga," segir í frétt fram samtökunum. Hópurinn skorar á stjórnvöld að nýta stöðuna til að byggja upp og fjárfesta í innviðum ferðþjónustunnar og marka sér skýra stefnu um áherslur og framkvæmdir sem tryggja arðsemi fjárfesta í þessari mikilvægu grein. Þá stefnumótun þarf að vinna í náinni samvinnu við þá sem starfa í greininni og hafa þekkingu og reynslu í faginu. All Senses vill hvetja landsmenn til að líta sér nær og skoða hvað landið hefur að bjóða. Við  viljum vinna saman að velferð okkar allra, tækinfærin eru næg. Kl. 20:00 þann 1. nóvember slökkvum við á Vesturlandi rafljósin um stund og kveikjum á kertum. Það er ljós í myrkrinu.
Lesa meira

Fyrirlestrar um ferðaþjónustu

Vert er að vekja athygli á áhugaverðum ráðstefnum og fyrirlestrum um ferðaþjónustu sem fram fara á næstunni. Annars vegar er um að ræða Þjóðarspegilinn, félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands, og hins vegar fyrirlestraröðina Ísland  og ímyndir norðursins. Níunda félagsvísindaráðstefna Háskóla Íslands, þjóðarspegillinn, verður haldin af félags-og mannvísindadeild, félagsráðgjafardeild, hagfræðideild, lagadeild, sálfræðideild, stjórnmálafræðideild og viðskiptafræðideild í Lögbergi, Háskólatorgi og Odda föstudaginn 24. október frá kl 09:00 til 17:00. Fjöldi fyrirlestra er til vitnis um fjölbreytt og öflugt rannsóknarstarf á sviði félagsvísinda hér á landi og eru fyrirlesarar í fremstu röð hver á sínu sviði. Tvær málstofur viðskiptafræðideildar eru tileinkaðar ferðamálum. Sjá dagskrá. Fyrirlestraröð INOR Fyrsti fyrirlesturinn í fyrirlestraröð INOR (Ísland og ímyndir Norðursins) í samvinnu við Reykjavíkurakademíuna, Háskólann á Hólum, Rannsóknamiðstöð ferðamála við Háskólann á Akureyri og Þjóðfræðistofu á Hólmavík verður haldinn 22. október. Fyrirlestrarnir eru haldnir í Reykjavíkurakademíunni Hringbraut 121, 4. hæð kl. 20:00-22:00. Dagskrá:Miðvikudagur 22. október 2008 kl. 20:00-22:00Ímyndir Íslands og ímyndamótun stjórnvalda. Edward Huijbens, Kristrún Heimisdóttir og Sumarliði R. Ísleifsson. Aths. Hjálmar Sveinsson Fimmtudagur 6. nóvember kl. 20:00-22:00Fallvaltar ímyndir Íslands. Vald og ímyndir. Pallborðsumræður: Þátttakendur Hallfríður Þórararinsdóttir, Hjálmar Sveinsson, Silja Bára Ómarsdóttir, Jón Ólafsson, Þorfinnur Ómarsson Miðvikudagur 26. nóvember 2008 kl. 20:00-22:00Ísland og ímyndir norðursins 1750-1900: Clarence E. Glad, Gylfi GunnlaugssonAths.: Gottskálk Þór Jensson Miðvikudagur 21. janúar 2009 kl. 20:00-22:00Hversdagsvald: Matur, drykkur  og ímyndir: Hildigunnur Ólafsdóttir, Kristinn SchramAths: Ármann Jakobsson Miðvikudagur  11. febrúar 2009 kl. 20:00-22:00Mótun svæðaímynda: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, Guðrún HelgadóttirAths: Valdimar Hafstein Miðvikudagur 11. mars 2009 kl. 20:00-22:00Sjálfsmyndir Íslendinga á 20. öld: Marion Lerner, Júlíana Gottskálksdóttir, Hallfríður ÞórarinsdóttirAths: Guðmundur Hálfdanarson Miðvikudagur 15. apríl 2009 kl. 20:00-22:00Ímyndir við aldahvörf: Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, Katla Kjartansdóttir, Þorgerður Þorvaldsdóttir Aths: Guðmundur Oddur Magnússon Í apríl Joep Leerssen prófessor við Háskólann í Amsterdam Umsjón fyrirlestraraðar: Sumarliði R. ÍsleifssonFundarstjóri : Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, forstöðumaður rannsóknaþjónustu Listaháskóla Íslands.
Lesa meira

Góður liðsmaður íslenskrar ferðaþjónustu hverfur af vettvangi

Stephen A. Brown, sem starfað hefur fyrir Icelandair í Bandaríkjunum, Bretlandi og nú síðast sem svæðisstjóri í S.-Evrópu, mun láta af störfum hjá félaginu á næstu dögum. Stephen er mörgum í íslenskri ferðaþjónustu vel kunnugur. Hann hefur frá upphafi verið ástríðufullur talsmaður íslenskrar ferðaþjónustu og óþreytandi við að vinna fyrir greinina á erlendri grundu. Þekkingar hans og einstakrar hjálpsemi mun verða sárt saknað. Starfsfólk Ferðamálastofu  vill þakka honum fyrir einstaklega gott samstarf og  fyrir óeigingjarnt starf í þágu íslenskrar landkynningar á undanförnum áratugum.
Lesa meira

Veruleg fjölgun erlendra ferðamanna í haust

Alls fóru tæplega 58 þúsund erlendir gestir frá landinu um Leifsstöð á tímabilinu 1. september til 13. október 2008 en á sama tímabili í fyrra voru þeir um 50 þúsund. Aukningin það sem af er hausti er því um 7300 erlendir gestir eða 14,5%. Samdráttur er hins vegar í brottförum Íslendinga, en á sama tímabili fóru 46.600 Íslendingar úr landi sem er 9,3% fækkun frá fyrra ári. Talningin er unnin á vegum Ferðamálastofu og nær yfir allar brottfarir og er vinnuafl sem fyrr inn í þeim. Ef litið er til einstakra markaðssvæða má sjá fjölgun frá þeim öllum nema N-Ameríku. Norðurlandabúum fjölgar um 11 prósent, Bretum um tæp 20 prósent og Evrópubúum um 37% og munar þá mestu um 63% aukningu Þjóðverja og 43% aukningu Frakka. Erfitt er að spá fyrir um þróunina á næstunni, en vonir manna standa til að markaðssókn á komandi vikum skili sér í auknum ferðamannafjölda. Nánari skiptingu á gestum má sjá í töflunum hér að neðan og undir liðnum Talnaefni / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum. Erlendir gestir um Leifsstöð á tímabilinu 1. september - 13. október 2007-2008   2007 2008 Aukning/ fækkun milli ára (%) N-Ameríka 6.953 6.744 -3,0 Norðurlönd 15.577 17.316 11,2 Bretland 7.315 8.748 19,6 Evrópa 9.601 13.231 37,8 Annað 10.891 11.609 6,6 Alls 50.337 57.648 14,5 Íslendingar 51.376 46.604 -9,3   2007 2008 Aukning/ fækkun milli ára (%) Bandríkin 6.215 4.873 -21,6 Kanada 738 1.871 153,5 Noregur 4.513 5.616 24,4 Danmörk 5.043 5.378 6,6 Svíþjóð 4.599 4.747 3,2 Finnland 1.422 1.575 10,8 Bretland 7.315 8.748 19,6 Þýskaland 3.711 6.060 63,3 Holland 1.772 2.148 21,2 Frakkland 1.412 2.018 42,9 Sviss 586 695 18,6 Spánn 1.239 1.297 4,7 Ítalía 881 1.013 15,0 Pólland 1.700 2.273 33,7 Kína 1.687 648 -61,6 Japan 601 774 28,8 Annað 6.903 7.914 14,6 Alls 50.337 57.648 14,5 Heimild: Ferðamálastofa. Brottfarrir gesta um Leifsstöð
Lesa meira

Nýr vefur markaðssetur Ísland meðal kylfinga

Opnaður hefur verið vefurinn www.golficeland.org sem hefur að markmiði að vinna að frekari markaðssetningu og kynningu á möguleikum Íslands fyrir kylfinga. Að vefnum standa samtökin Golf Iceland sem voru stofnað í árbyrjun. Aðilar að samtökunum í dag eru 19 talsins; 18 holu golfvellir á Íslandi, ferðaþjónustufyrirtæki svo og Golfsamband Íslands og Ferðamálastofa. Markmiðið er einnig að bæta gæði þeirrar vöru sem verið er að kynna og í þeim tilgangi hefur í sumar verið unnið að sérstöku gæðaflokkunarkerfi fyrirgolfvelli til að erlendir kylfingar geti áttað sig á þeim gæðum sem í boði eru á hverjum stað. Unnið hefur verið að gerð kynningarefnis og ýmsu fleiru og mikilvægasta kynningar- og upplýsingatækið, vefurinn, hefur verið opnaður og kynning á honum er hafin. Ferðaþjónustufyrirtæki sem aðild eiga að Golficeland eru: Icelandair Hotels, Radisson SAS Hotel Saga, Icelandair, Höldur ? Bílaleiga Akureyrar, Reykjavik Excursions og Flugfélag Íslands. Golfvellirnir eru:  Golfklúbburinn Oddur, Golfklúbburinn Hellu, Golfklúbbur Suðurnesja, Golfklúbbur Þorlákshafnar, Golfklúbbur Vestmannaeyja, Golfklúbbur Kiðjabergs, Golfklúbburinn Flúðum, Golfklúbbur Akureyrar, Golfklúbbur Reykjavíkur, Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar og Golfklúbburinn Keilir,.
Lesa meira

Ferðaþjónustureikningar 2000-2006

Hagstofa Íslands hefur í fyrsta sinn birt ferðaþjónustureikninga fyrir Ísland samkvæmt alþjóðlegum stöðlum (Tourism Satellite Accounts). Niðurstöður þessara reikninga sýna meðal annars að árin 2000-2006 var hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu að meðaltali 4,6%.  Ferðamálastofa fagnar mög að þetta skref hafi verið stigið. Ljóst era ð ferðaþjónustan sem atvinnugrein hefur lengi beðið eftir að sjá þessar tölur sem gefa henna í frysta sinn tækifæri til að bera sig saman við aðrar atvinnu greinar. Forsaga málsins er sú að í september 2005 skipaði samgönguráðuneytið starfshóp til að kanna grundvöll þess að útbúa hliðarreikninga, eða Tourism Satellite Accounts (TSA), fyrir ferðaþjónustu hér á landi. Ein meginniðurstaða þess starfshóps var að slíkir hliðarreikningar væru vel gerlegir og að brýnt væri að bæta uppgjör á ferðaþjónustu hér á landi. Í framhaldi af skýrslugjöf hópsins fór samgönguráðuneytið þess á leit við Hagstofu Íslands að hún hæfi undirbúning að gerð slíkra reikninga og var gerður samningur þar að lútandi árið 2006. Meginniðurstöður þeirra reikninga liggja nú fyrir og eru birtar í þessu riti.* Heildarkaup á ferðaþjónustu 11,5% af landsframleiðsluMeðal helstu niðurstaðna era ð árið 2006 námu heildarkaup á ferðaþjónustu innanlands tæplega 135 milljörðum króna, eða sem svarar til 11,5% af landsframleiðslu. Kaupin skiptust þannig að kaup erlendra ferðamanna voru 70,6 milljarðar króna eða 6% af landsframleiðslu, neysla heimilanna var um 56 milljarðar eða 4,8% af landsframleiðslu og kaup fyrirtækja og opinberra aðila voru 8,2 milljarðar króna eða 0,7% af landsframleiðslu. Af heildarneyslu ferðamanna innanlands árið 2006 námu kaup á flugþjónustu um 50 milljörðum króna, eða 37% af heildarneyslu ferðamanna. Kaup ferðamanna á gisti- og veitingaþjónustu voru um 26 milljarðar króna eða 19,3% af heildarferðaneyslu innanlands og skiptist hún nánast til helminga milli þessara tveggja atvinnugreina. Þjónusta ferðaskrifstofa við ferðamenn innanlands og á leið til annarra landa nam 7,7 milljörðum króna 2006 eða um 5,7% af heildarneyslu á ferðaþjónustu. Sala á bensíni, viðgerðum og viðhaldi bifreiða nam 7,3 milljörðum króna og önnur þjónusta tengd farþegaflutningum 12,4 milljörðum króna. Útgjöld ferðamanna til menningar og afþreyingar námu 5,2 milljörðum króna árið 2006. Loks mælist hlutur ferðaþjónustu í verslun og ýmissi annarri starfsemi 16,7 milljarðar króna. Mynd: Kaup og framleiðsla á ferðaþjónustu innanlands 2006 Fjöldi erlendra ferðamanna sem sótti landið heim 2007 var samtals 485 þúsund samanborið við 303 þúsund árið 2000 og er vöxturinn því 60% á þessu árabili. Stöðugur vöxtur hefur verið í fjölda gistinátta erlendra ferðamanna á þessu tímabili, en frá 2000 hefur vöxturinn verið rúmlega 51%. Ferðaþjónustureikningar 2000-2006 -  Hagtíðindi *) Ath. Í myndum með þessari frétt er notað orðið "ferðaiðnaður" en skoðun Ferðamálastofu er sú að það orð eigi ekki að nota í íslensku máli heldur í öllum tilfellum að tala um "ferðaþjónustu" eins og jafnan er gert í umræddri skýrslu. En þar sem umræddar myndir með fréttinni eru teknar beit úr skýrslunni var oðið "ferðaiðnaður" látið standa óbreytt.
Lesa meira

Nýr umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu

Sveinn Rúnar Traustason hefur verið ráðinn umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu. Sveinn Rúnar er landslagsarkitekt og hefur undanfarið starfað hjá Ístak. Auk menntunar sem landslagsarkitekt er Sveinn löggiltur mannvirkjahönnuður og á að baki fleira nám og námskeið tengt umhverfismálum og ferðamálum. Hann hefur fjölþætta starfsreynslu á sviði skipulagsmála, landslagshönnunar, umhverfismála o.fl. Sveinn Rúnar mun koma til starfa hjá Ferðamálastofu um næstu mánaðamót.
Lesa meira