Fréttir

Farþegar um Keflavíkurflugvöll í september

Í nýliðnum septembermánuði fóru rúmlega 172 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll, samkvæmt tölum frá flugvellinum, samanborið við rúmlega 187 þúsund í september í fyrra. Fækkunin nemur rúmum 15.000 farþegum eða 3,87%. Hlutfallslega meiri fækkun er meðal áfram- og skiptifarþega en þeirra sem eru á leið til og frá landinu. Frá áramótun nemur fækkun á heildarfarþegafjölda 3,87% en lítill samdráttur er þó hjá komu- og brottfararfarþegum, eða rúmt 1%. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.   Sept. 08. YTD Sept. 07. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 77.166 731.154 81.637 739.721 -5,48% -1,16% Hingað: 71.468 735.928 76.783 748.229 -6,92% -1,64% Áfram: 4.627 26.616 4.305 32.816 7,48% -18,89% Skipti. 18.825 172.650 24.707 212.660 -23,81% -18,81%   172.086 1.666.348 187.432 1.733.426 -8,19% -3,87%
Lesa meira

Ísland einn besti áfangastaður veiðimanna

Ísland er meðal bestu áfangastaða veiðimanna, að mati lesenda Blinker, útbeiddasta veiðitímarists Evrópu. Verðlaun kennd við tímaritið, Blinker Award, voru veitt í fyrsta sinn síðastliðinn föstudag í Mannheim. Þar voru einkum verðlaunaðar vörur  fyrir veiðimenn sem að mati lesenda skara fram úr um þessar mundir. Að auki voru veitt veðlaun fyrir besti ferðaheildsala á sviði ferða fyrir stangveiðimenn og besti áfangastaðurinn með tilliti til upplifunar og gæða. Ì síðarnefnda flokknum hafnaði Ísland í 3ja sæti á eftir Noregi og Spáni. Komu þessi úrslit aðstandendum blaðsins nokkuð á óvart, þar sem Ísland hefur fyrst verið merkjanlegt á þessum markaði  á síðustu ca. 3 árin. ?Þetta er skemmtileg viðurkenning á því starfi sem unnið hefur verið í uppbyggingu og markaðssetningu á þessum hluta ferðaþjónustu á Vestfjörðum síðustu misseri og hvatning til þeirra að halda áfram að vanda sig eins og kostur er,? segir Davíð Jóhannsson, forstöðumaður skrofstofu Ferðamálastofu í Mið-Evrópu. Myndin er fengin á vef Hvíldarkletts á Suðureyri, fisherman.is  
Lesa meira

Nýtt starfsfólk Ferðamálastofu

Tveir nýir starfsmenn hófu nýverið störf hjá Ferðamálastofu. Rannveig Guðmundsdóttir hefur tekið við sem verkefnisstjóri á skrifstofu Ferðamálastofu á Akureyri í barnsburðarleyfi Elínar Ingvarsdóttur og á skrifstofu Ferðamálastofu í Þýskalandi hefur Florence Favier komið til starfa og leysir af Karine Delti-Beck sem einnig er á leið í fæðingarorlof. Rannveig Guðmundsdóttir er ferðamálafræðingur frá Háskóla íslands og starfaði  áður hjá Þekkingarsetri Þingeyinga á Húsavík. Florence er frönsk að uppruna. Hún mun einkum sá um samskipti við Frakkland, Ítalíu og Spán, auk Belgíu. Florece Favier (t.v.) og Rannveig Guðmundsdóttir
Lesa meira

Nýr Staðarskáli opnaður

Í morgun var einn þekktasti söluskálinn við hringveginn, Staðarskáli í Hrútafirði, opnaður í nýju húsnæði við nýja veginn í Hrútafjarðarbotni. Með breytingu á veglínu fór gamli skálinn úr alfaraleið og því var byggður nýr þar sem mætast hringvegurinn og vegurinn norður á Hólmavík og Strandir. Veitingarekstur í Staðarskála á sér hart nær 50 ára sögu, Skálinn hefur um áraraðir gengt mikilvægu þjónustuhlutverki á þjóðleiðinni milli Norður- og Vesturlands og starfsemi fyrirtækisins hefur haft mikil áhrif á ferðamál í Húnaþingi og víðar. Hjónin Magnús Gíslason og Bára Guðmundsdóttir, ásamt Eiríki bróður Magnúsar, stofnuðu Staðarskála árið 1960. Þá hafði olíusala verið á staðnum um árabil. Það er nú N1 sem rekur Staðarskála og í nýja húsnæðinu verður líkt og í því eldra verslun, veitingastaður og bensínafgreiðsla.
Lesa meira

Meistaranám í ferðamálafræðum undirbúið

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Hólaskóli ? háskólinn á Hólum undirbúa nú sameiginlega framhaldsnám í ferðamálafræði, titlað MTA (e. Master of Tourism Administration) sem er samræmt af Rannsóknarmiðstöð ferðamála. Nemendur munu geta skráð sig í gegnum alla skólana til námsins og hljóta sína prófgráðu að námi loknu frá þeim skóla sem þeir skráðu sig upprunalega. Á vef Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála (sem áður hét Ferðamálsetur Íslands) kemur fram að námið er kennt í kennslulotum fimmtudaga til laugardaga, fjórum sinnum á misseri og því hugsað fyrir fólk sem vill taka það með vinnu. Inntökuskilyrði er grunngráða BA eða B.Sc. frá viðurkenndum háskóla (e. university) á Íslandi eða erlendis. Þeir sem hafa BA/B.Sc. í greinum óskyldum ferðamálafræðum er gert að þreyta 10 ECTS lesnámskeið sem er inngangur að ferðamálafræði. Þær einingar teljast til valnámskeiða. Námið er fyrir fólk sem vill öðlast sérstaka færni, getu og skerpu til fjölbreyttra starfa í ferðaþjónustu. Meistaranáminu er þannig ætlað að veita dýpri innsýn, sem nýtist til að skilja fjölbreyttan rekstur og margbrotið rekstrarumhverfi mismunandi fyrirtækja í ferðaþjónustu, en einnig til að koma að opinberri stefnumótun greinarinnar. Stefnt er að því að bjóða námið haustið 2009.
Lesa meira

Skýrsla um þróun gistingar á Vestfjörðum

Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða hefur gefið út skýrslu sem ber heitið ?Þróun ferðamanna á Vestfjörðum?. Skýrslan er unnin upp úr gistináttatölum Hagstofu Íslands og miðast við þróun gistingar frá árinu 2002-2007. Í skýrslunni er farið yfir þróunina á landinu öllu, Vestfirðir skoðaðir í heildina og bornir saman við þróunina á landsvísu og svo er hvert svæði fyrir sig á Vestfjörðum skoðað ítarlega. Í skýrslunni kemur m.a í ljós að meðal aukning í gistingu ferðamanna á Vestfjörðum hefur verið um 8% á ári undanfarin 5 ár en á milli áranna 2006 og 2007 var 13,7% aukning.  Mesta aukningin er á erlendum ferðamönnum og er bilið milli innlendra og erlendra ferðamanna stöðugt að minnka og ef tekið er mið af þróuninni  undanfarin ár þá verða erlendir ferðamenn á Vestfjörðum orðnir í meirihluta árið 2010. Þá kemur einnig fram að á milli áranna 2006 og 2007 voru það einungis 3 landsvæði sem juku markaðhlutdeild sína í gistinóttum en það voru Höfuðborgarsvæðið, Vesturland og Vestfirðir.  Þrátt fyrir þessa aukningu var markaðshlutdeild Vestfjarða einungis 3%. Höfundur skýrslunnar er Ásgerður Þorleifsdóttir. Skoða skýrsluna Þróun ferðamanna á Vestfjörðum (PDF)
Lesa meira

Reynt að svíkja fé út úr gististöðum

Á vef SAF er greint frá því að undanfarna daga hefur borið nokkuð á hótel- og gistirýmispöntunum erlendis frá þar sem uppgefin eru erlend kortanúmer til greiðslu. Síðan er hætt við bókun og viðkomandi seljandi þjónustu beðinn að endurgreiða færslurnar beint með peningasendingu erlendis, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni. Í öllum tilfellum er þetta maður sem kynnir sig sem Kazim Abdul. Lögreglan vill benda hótel- og gistihúsaeigendum og starfsfólki þeirra á að verða ekki við slíkum beiðnum ef hinn minnsti vafi leikur á að um lögmæt viðskipti geti verið að ræða.
Lesa meira

Myndir frá Vestnorden 2008

Nú eru komnar hér inn á vefinn myndir sem teknar voru á Vestnorden 2008 þegar kaupstefnan stóð sem hæst síðastliðinn þriðjudag. Eins og fram hefur komið voru skráðir þátttakendur um 580 talsins, þar af ríflega 200 ferðaheildsalar frá alls 28 löndum. Vodafone-höllin að Hlíðarenda iðaði sannarlega af lífi á þriðjudaginn enda var mál manna að viðskiptin hafi verið með besta móti. Hafi einhver áhuga á að fá senda einhverra þessara mynda í betri upplausn þá er hægt að senda tölvupóst á halldor@icetourist.is Skoða myndir frá Vestnorden 2008    
Lesa meira

Vestnorden í Kaupmannahöfn að ári liðnu

Vestnorden 2009 verður haldin í Kaupmannahöfn dagana 16. og 17. september á næsta ári. Þá er komið að Grænlendingum að sjá um kaupstefnuna sem verður sú 24 í röðinni. Þetta var meðal þess sem fram kom á sameiginlegum blaðamannafundi ferðamálastjóra vestnorrænu landanna þriggja, þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands, og formanns NATA (Ferðamálasamtaka Norður-Atlantshafsins), sem haldinn var í tengslum við Vestnorden 2008 í Reykjavík fyrr í vikunni. Löndin þrjú stofnuðu NATA í ársbyrjun 2007 og færðust þá meðal annars þangað verkefni Vestnorræna ferðamálaráðsins, þar með talið Vestnorden. Kaupstefnan er haldin til skiptis í löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Fram kom á fundinum að löndin stefna á að treysta enn og efla samstarf sitt í gegnum NATA með ýmsum hætti. Mynd: Súsanna E. Sørensen frá SamVit (Ferðamálaráði Færeyja); Thomas Rosenkrands, ferðamálastjóri Grænlans; Bjarne Eklund formaður NATA og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.  
Lesa meira

Markaðsátak í ferðamálum í haust og vetur

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tilkynnti í gær um að allt að 100 milljónum króna verður varið í sérstakt átak á næstu mánuðum til að markaðssetja Ísland erlendis sem áhugaverðan áfangastað í haust og vetur. Um er að ræða samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og fyrirtækja í ferðaþjónustu undir forystu Ferðamálastofu. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri á Vestnorden í gær.Samdráttur er talinn fyrirsjáanlegur í ferðaþjónustu á heimsvísu og blikur á lofti í greininni hérlendis að mati ferðaþjónustuaðila. Ríkisstjórnin hefur brugðist við óskum þeirra um aðgerðir með því að samþykkja að veita 50 milljónum króna í sérstakt markaðsátak erlendis í því skyni að hvetja til Íslandsferða í haust og í vetur ? og reyna þannig að efla greinina utan háannatímans. Ferðaþjónustufyrirtæki taka þátt í átakinu með framlögum umfram núverandi markaðsáætlanir og er áætlað að alls verði um 100 milljóna króna viðbótarfé að ræða til ráðstöfunar í þetta verkefni. Auglýsingaherferð á helstu vetrarmörkuðum Ferðamálastofa hefur umsjón með markaðsátakinu og er undirbúningur þess á lokastigi. Verður fjármununum einkum varið til auglýsingaherferða á helstu vetrarmörkuðum ferðaþjónustunnar; í Bandaríkjunum, annarsstaðar á Norðurlöndunum, Bretlandseyjum og helstu markaðssvæðum á meginlandi Evrópu. Ekki er um styrki að ræða til einstakra ferðaþjónustuaðila, heldur almennt markaðs- og landkynningarverkefni sem ætlað er að auka áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi sem áfangastað á næstu misserum. Styrkja enn frekar rekstrargrundvöll ferðaþjónustunnar Markaðssetning á Íslandi utan háannatímans hefur verið að skila góðum árangri og hefur orðið til þess að styrkja enn frekar rekstrargrundvöll ferðaþjónustunnar innanlands. Í ljósi þess samdráttar sem blasir nú við í ferðalögum á heimsvísu er hins vegar nauðsynlegt að spýta í lófana. Vegna gjaldeyrisþróunarinnar undanfarið er jafnframt sóknarfæri á erlendum mörkuðum fyrir ferðaþjónustuna þar sem mun hagkvæmara er nú fyrir erlenda ferðamenn að ferðast til Íslands en verið hefur.
Lesa meira