Fréttir

Myndir frá Vestnorden 2008

Nú eru komnar hér inn á vefinn myndir sem teknar voru á Vestnorden 2008 þegar kaupstefnan stóð sem hæst síðastliðinn þriðjudag. Eins og fram hefur komið voru skráðir þátttakendur um 580 talsins, þar af ríflega 200 ferðaheildsalar frá alls 28 löndum. Vodafone-höllin að Hlíðarenda iðaði sannarlega af lífi á þriðjudaginn enda var mál manna að viðskiptin hafi verið með besta móti. Hafi einhver áhuga á að fá senda einhverra þessara mynda í betri upplausn þá er hægt að senda tölvupóst á halldor@icetourist.is Skoða myndir frá Vestnorden 2008    
Lesa meira

Vestnorden í Kaupmannahöfn að ári liðnu

Vestnorden 2009 verður haldin í Kaupmannahöfn dagana 16. og 17. september á næsta ári. Þá er komið að Grænlendingum að sjá um kaupstefnuna sem verður sú 24 í röðinni. Þetta var meðal þess sem fram kom á sameiginlegum blaðamannafundi ferðamálastjóra vestnorrænu landanna þriggja, þ.e. Íslands, Færeyja og Grænlands, og formanns NATA (Ferðamálasamtaka Norður-Atlantshafsins), sem haldinn var í tengslum við Vestnorden 2008 í Reykjavík fyrr í vikunni. Löndin þrjú stofnuðu NATA í ársbyrjun 2007 og færðust þá meðal annars þangað verkefni Vestnorræna ferðamálaráðsins, þar með talið Vestnorden. Kaupstefnan er haldin til skiptis í löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Fram kom á fundinum að löndin stefna á að treysta enn og efla samstarf sitt í gegnum NATA með ýmsum hætti. Mynd: Súsanna E. Sørensen frá SamVit (Ferðamálaráði Færeyja); Thomas Rosenkrands, ferðamálastjóri Grænlans; Bjarne Eklund formaður NATA og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.  
Lesa meira

Markaðsátak í ferðamálum í haust og vetur

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra tilkynnti í gær um að allt að 100 milljónum króna verður varið í sérstakt átak á næstu mánuðum til að markaðssetja Ísland erlendis sem áhugaverðan áfangastað í haust og vetur. Um er að ræða samstarfsverkefni iðnaðarráðuneytisins og fyrirtækja í ferðaþjónustu undir forystu Ferðamálastofu. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri á Vestnorden í gær.Samdráttur er talinn fyrirsjáanlegur í ferðaþjónustu á heimsvísu og blikur á lofti í greininni hérlendis að mati ferðaþjónustuaðila. Ríkisstjórnin hefur brugðist við óskum þeirra um aðgerðir með því að samþykkja að veita 50 milljónum króna í sérstakt markaðsátak erlendis í því skyni að hvetja til Íslandsferða í haust og í vetur ? og reyna þannig að efla greinina utan háannatímans. Ferðaþjónustufyrirtæki taka þátt í átakinu með framlögum umfram núverandi markaðsáætlanir og er áætlað að alls verði um 100 milljóna króna viðbótarfé að ræða til ráðstöfunar í þetta verkefni. Auglýsingaherferð á helstu vetrarmörkuðum Ferðamálastofa hefur umsjón með markaðsátakinu og er undirbúningur þess á lokastigi. Verður fjármununum einkum varið til auglýsingaherferða á helstu vetrarmörkuðum ferðaþjónustunnar; í Bandaríkjunum, annarsstaðar á Norðurlöndunum, Bretlandseyjum og helstu markaðssvæðum á meginlandi Evrópu. Ekki er um styrki að ræða til einstakra ferðaþjónustuaðila, heldur almennt markaðs- og landkynningarverkefni sem ætlað er að auka áhuga erlendra ferðamanna á Íslandi sem áfangastað á næstu misserum. Styrkja enn frekar rekstrargrundvöll ferðaþjónustunnar Markaðssetning á Íslandi utan háannatímans hefur verið að skila góðum árangri og hefur orðið til þess að styrkja enn frekar rekstrargrundvöll ferðaþjónustunnar innanlands. Í ljósi þess samdráttar sem blasir nú við í ferðalögum á heimsvísu er hins vegar nauðsynlegt að spýta í lófana. Vegna gjaldeyrisþróunarinnar undanfarið er jafnframt sóknarfæri á erlendum mörkuðum fyrir ferðaþjónustuna þar sem mun hagkvæmara er nú fyrir erlenda ferðamenn að ferðast til Íslands en verið hefur.
Lesa meira

Yfir 200 kaupendur á Vestnorden

Um 560 þátttakendur eru skráðir á 23. Vestnorden ferðakaupstefnuna sem hefst formlega í kvöld og stendur fram á miðvikudag. Er þetta svipaður þátttakendafjöldi og á síðustu kaupstefnu hér á landi, haustið 2006. Sérstakar svæða- og landshlutakynningar eru nýlunda að þessu sinni á kaupstefnunni sem ferðamálayfirvöld á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum hafa staðið fyrir árlega í rúma tvo áratugi. Ferðamálasamtök Norður-Atlantshafsins (NATA), sem stofnuð voru af löndunum þremur í ársbyrjun 2007 og tóku þá m.a. við starfsemi Vestnorræna ferðamálaráðsins, standa nú fyrir Vestnorden ferðakaupstefnunni sem haldin er til skiptis í löndunum þremur, þar af annað hvert ár á Íslandi. Að þessu sinni fer kaupstefnan hér fram í Vodafone-höllinni að Hlíðarenda og eru skráðir þátttakendur um 560 talsins. Þar af eru ríflega 200 ferðaheildsalar frá alls 28 löndum, víðsvegar um heiminn og koma sumir um langan veg, t.d. frá Ástralíu, Filippseyjum og Japan. Á Vestnorden hitta þeir ferðaþjónustuaðila frá vestnorrænu löndunum þremur á stuttum fyrirframbókuðum vinnufundum, kynna sér hvað er í boði og eiga viðskipti. Landshlutakynningar nýjung á VestnordenNýjung á kaupstefnunni að þessu sinni eru sérstakar landshlutakynningar sem fara fram miðvikudaginn 17. september og segir Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri að þetta framtak sýni vel þá þróun sem eigi sér stað í markaðssetningu á ferðaþjónustunni á Íslandi og víðar. ?Það er mikill styrkur í því fyrir greinina í heild þegar einstök svæði geta tekið höndum saman og unnið að kynningar- og markaðsmálum á sínu landsvæði þó svo þessi fyrirtæki séu svo í samkeppni sín á milli um einstaka viðskiptavini,? segir Ólöf Ýrr og er bjartsýn á framtíð ferðaþjónustu í vestnorrænu löndunum. Vestnorden kaupstefnan verður sett formlega kl. 19:00 í dag í Hellisheiðarvirkjun. Óformleg dagskrá kaupstefnunnar hófst raunar strax um helgina þegar kaupendunum var boðið upp á kynnisferðir til valinna áfangastaða á Íslandi. Eftir að kaupstefnunni lýkur, á hádegi miðvikudaginn, gefst ferðaheildsölunum kostur á að fara í nokkurra daga kynnisferðir til Grænlands og Færeyja. Nánari upplýsingar um dagskrá og þátttakendur á Vestnorden 2008 er að finna á vefsíðunni: www.vestnorden.com.
Lesa meira

Fjöldi ferðamanna í ágúst

hhh
Lesa meira

Verkefnastyrkir NORA 2008

Norræna Atlantsnefndin (NORA) styrkir samstarfsverkefni á Norður-Atlantssvæðinu í þeim tilgangi að byggja upp sterkt norrænt svæði og efla sjálfbæra þróun. Ein af leiðunum að þessu markmiði er að veita styrki tvisvar á ári til samstarfsverkefna. Þátttakendur skulu vera frá a.m.k tveimur af fjórum NORA-löndum (Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og strandsvæðum Noregs). Hér með er auglýst eftir umsóknum og er þetta síðari umsóknarfrestur árið 2008. Að þessu sinni er sérstök áhersla lögð á verkefni á sviði UPPLÝSINGATÆKNI og SAMGANGNA. Einnig má sækja um styrki til verkefna sem falla undir eftirtalin svið: AUÐLINDIR SJÁVAR FERÐAÞJÓNUSTA Verkefni sem falla utan þessa ramma geta komið til greina undir yfirskriftinni ANNAÐ SVÆÐASAMTARF, ef þau falla að öðru leyti undir markmið NORA. Umsóknareyðublaðið má finna á heimasíðu NORA, www.nora.fo og útfyllist á dönsku, norsku eða sænsku og skilist í tölvutæku formi til: NORA, NORDISK ATLANTSAMARBEJDE Bryggjubakki 12 - Box 259 - FO-110 Tórshavn - Sími: +298 353110 - Fax: +298 353101 Umsóknir skulu berast NORA í síðasta lagi föstudaginn 6. október 2008. Frekari upplýsingar veitir Sigríður K. Þorgrímsdóttir, Byggðastofnun, Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki, sími 455 5400,  netfang sigga@byggdastofnun.is  Jafnframt er að finna upplýsingar á heimasíðu Byggðastofnunar, www.byggdastofnun.is og heimasíðu NORA. www.nora.fo Norræna Atlantsnefndin (NORA) er norrænt verkefnasamstarf milli Færeyja, Grænlands, Íslands og strandhéraða Noregs og heyrir undir norrænu ráðherranefndina, sem fjármagnar starfsemina ásamt fjárframlagi þátttökulandanna. Byggðastofnun rekur skrifstofu NORA á Íslandi og Sigríður K. Þorgrímsdóttir er tengiliður.  
Lesa meira

Skráningarfrestur á World Travel Market 2008

Líkt og undanfarin ár tekur Ferðamálastofa þátt í World Travel Market ferðasýningunni í London. Íslenskum ferðaþjónustuaðilum býðst að fá aðstöðu í bás ráðsins gegn föstu gjaldi og hér að neðan er skráningarblað fyrir sýninguna. World Travel Market er ein stærsta ferðasýning í heimi og haldin árlega. Að þessu sinni fer hún fram dagana 10.-13. nóvember og er í ExCel sýningarhöllinni í London líkt og undanfarin ár. Sýningin er opin 2 daga fyrir ferðaþjónustuaðila ( trade) og 2 daga fyrir almenning. Ferðamálastofa sér um að útbúa básana og skapa mönnum aðstöðu til að hitta viðskiptavini sína en síðan er undir hverjum og einum komið að nýta tækifærið sem best. Skráningu lýkur 10 septemberHér fyrir neðan er tengill á eyðublað til skráningar í íslenska sýningarbásinn á World Travel Market 2008 en vakin er athygli á því að skráningu lýkur 10. september næstkomandi. Einnig er tengill á heimasíðu sýningarinnar. Skráning á WTM 2008 (PDF-skjal) Heimasíða sýningarinnar Nánari upplýsingar um sýningar í Bretlandi veitir Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi,  siggagroa@icetourist.is Sími: 535 5500  
Lesa meira

Starf lögfræðings hjá Ferðamálastofu

Ferðamálastofa óskar eftir að ráða lögfræðing í 100% starf. Lögfræðingur starfar innan stjórnsýslu- og gæðasviðs  stofnunarinnar og heyrir undir forstöðumann sviðsins, en starfið getur verið staðsett á  Akureyri eða í Reykjavík.  Laun eru samkvæmt kjarasamningum opinberra starfsmanna. Meðal verkefna lögfræðings eru: Umsjón með útgáfu leyfa til ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda, skráningu á starfsemi upplýsingamiðstöðva og bókunarþjónustu, ásamt eftirliti með að skilyrðum fyrir þeim sé fullnægt. Lögfræðileg úrlausn mála er hafa íþyngjandi áhrif í för með sér. Undirbúningur reglugerða, umsagnir um þingmál, umsagnir um stjórnsýslukærur auk leiðbeininga og ráðgjafar um önnur lögfræðileg málefni er varða starfsemi stofnunarinnar. Menntunar- og hæfniskröfur Háskólapróf í lögfræði Embættis- eða meistarapróf í lögfræði æskilegt Þekking og starfsreynsla á opinberri stjórnsýslu æskileg Góð íslensku- og enskukunnátta auk Norðurlandamáls Þekking á sviði stefnumótunar og áætlanagerðar er kostur Þekking á ferðamálum er kostur Sjálfstæði, frumkvæði og skipulögð vinnubrögð Sveigjanleiki og áhugi á að takast á við ný viðfangsefni Nánari upplýsingar um starfið veitir Auðbjörg L. Gústafsdóttir, forstöðumaður stjórnsýslu- og gæðasviðs (audbjorg@icetourist.is), en upplýsingar um starfsemi Ferðamálastofu er að finna hér á vefnum. Umsóknarfrestur er til 21. september 2008 og er óskað eftir því að viðkomandi einstaklingur geti hafið störf sem fyrst. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil skulu berast með tölvupósti til forstöðumanns stjórnsýslu- og gæðasviðs (audbjorg@icetourist.is) eða á skrifstofu Ferðamálastofu, Lækjargötu 3, 101 Reykjavík og vera merktar starfinu. Ekki er um sérstök umsóknareyðublöð að ræða, en öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um starfið hefur verið tekin.
Lesa meira

Gistinóttum fjölgaði um rúm 2% í júlí

Talning Hagstofunnar sýnir að gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 201.500 en voru 196.800 í sama mánuði árið 2007. Gistinóttum fjölgaði því um rúm 2% milli ára. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu, þar sem gistinætur stóðu í stað á  milli ára. Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Austurlandi, um 10% og á Suðurlandi um 8%. Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum úr 11.400 í 12.600 og á Suðurlandi úr 30.400 í 32.800 á milli ára. 3% fjölgun  fyrstu sjö mánuði ársinsGistinætur á hótelum fyrstu sjö mánuði ársins voru 786.000 en voru 766.000 á sama tímabili árið 2007. Fjölgun varð á Suðurlandi um 13% og á höfuðborgarsvæðinu um rúm 2% milli ára. Gistinætur stóðu í stað eða fækkaði á öðrum landsvæðum, mest var fækkunin á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða eða um 2%. Fjölgun gistinátta fyrstu sjö mánuði ársins má aðallega rekja til Íslendinga, 9%. Gistinóttum útlendinga fjölgar um tæpt 1% á milli ára. Hagstofan vekur athygli á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Tölur fyrir árið 2008 eru bráðabirgðatölur.
Lesa meira

Fækkun farþega um Keflavíkurflugvöll

Í ágústmánuði síðastliðnum fóru 271.501 farþegi um Keflavíkurflugvöll og fækkaði þeim um 7,6% á milli ára. Þetta kemur fram í tölum frá flugvellinum sem birtar voru í dag. Fækkun farþega það sem af er þessu ári nemur 3,35%. Að stærri hluta eru það reyndar viðkomufarþegar. Farþegum á leið til og frá landinu hefur fækkað um 11 þúsund á árinu eða 0,83%. Nánari skiptingu má sjá í meðfylgjandi töflu.   Ágúst. 08. YTD Ágúst. 07. YTD Mán. % breyting YTD % Breyting Héðan: 120.021 653.988 126.484 658.084 -5,11% -0,62% Hingað: 115.906 664.460 124.408 671.446 -6,83% -1,04% Áfram: 1.970 21.989 5.586 28.511 -64,73% -22,88% Skipti. 33.604 153.825 37.312 187.953 -9,94% -18,16%   271.501 1.494.262 293.790 1.545.994 -7,59% -3,35%
Lesa meira