Fréttir

Hvalaskoðun Reykjavík- Elding hlaut umhverfisverðlaun Ferðamálastofu

Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu voru afhent í 14 sinn í dag. Þau komu í hlut Hvalaskoðun Reykjavík ehf. / Elding fyrir markvissa stefnu og fyrir að hafa sett sér það markmið að vinna að stöðugum úrbótum í umhverfismálum. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra afhenti verðlaunin á ferðamálaþinginu á Grand Hótel Reykjavík. Fyrirtækið Hvalaskoðun Reykjavík ehf. / Elding varð til við sameiningu hvalaskoðunarfyrirtækjanna Hafsúlan hvalskoðun ehf. og Elding hvalaskoðun ehf. Sameinað fyrirtæki er stærsta hvalaskoðunarfyrirtæki landsins með 42 starfsmenn og fjóra báta sem gerðir eru út frá Reykjavíkurhöfn. Hvalaskoðun býður upp á marga valkosti til afþreyingar á Faxaflóasvæðinu s.s. hvala- og fuglaskoðun, eyjaferðir og sjóstangveiði. Að auki býðst gestum að heimsækja fræðslu- og upplýsingasetur fyrirtækisins sem staðsett er  í gömlu loðnuskipi nálægt skrifstofu fyrirtækisins við Ægisgarð. Eigendur og starfsmenn Hvalaskoðunar Reykjavikur hafa unnið að því með markvissum hætti í nokkur ár að bæta sig í umhverfismálum. Árið 2006 fengu bátar fyrirtækisins hið alþjóðlega umhverfismerki Bláfánann. Árið 2007 gekk fyrirtækið í samstarf við Íslenska Nýorku og tók þátt í vetnisverkefninu SMART-H2. Í lok október 2008 hlaut fyrirtækið síðan fulla umhverfisvottun hjá Green Globe 21,  eftir að hafa unnið að því markmiði í tvö ár. Hvalaskoðun Reykjavík ehf. er með fyrstu hvalaskoðunarfyrirtækjum heimsins til að öðlast slíka vottun. Fyrirtækið ætlar þó ekki að láta staðar numið í umhverfismálum með þessu heldur muni það halda við vottuninni og bæta umhverfisstörf sín frá ári til árs. Umhverfimeðvitund fyrirtækisins sést best á mottói þess: ,,Mætum þörfum nútímans án þess að ganga á möguleika framtíðarinnar!? Verðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistamann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við ? til glæstrar framtíðar.  Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki.  Óunni hluti píramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem lengst. Samkvæmt lögum um ferðamál og markmiðum ferðamálaáætlunar Iðnaðarráðuneytisins ber Ferðamálastofu að sinna umhverfismálum á ýmsan hátt. Eitt af hlutverkum stofnunarinnar er að hvetja einstaklinga og fyrirtæki til ábyrgðar í umhverfismálum. Sem partur af þessari viðleitni sinni veitir Ferðamálastofa árlega umhverfisverðlaun því fyrirtæki eða stofnun sem best þykir hafa staðið sig í umhverfismálum það árið. Verðlaunin voru fyrst veitt 1994 og er þetta því 14. árið sem verðlaunin eru veitt. Á meðfylgjandi mynd eru talið frá vinstri: Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri; Grétar Sveinsson, Rannveig Grétarsdóttir og Vignir Sigursveinsson, öll frá Hvaðaskoðun Reykjavíkur - Elding, Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Sveinn Rúnar Traustason, umhverfisfulltrúi Ferðamálastofu.  
Lesa meira

Ferðamálaþing hafið

Ferðamálaþing Iðnaðarráðuneytisins og Ferðamálastofu hófst kl. 13 í dag á Grand Hótel Reykjavík. Að loknu ávarpi ferðamálaráðherra Össurar Skarphéðinssonar flutti Ian Neale, forstjóri bresku ferðaskrifstofunnar Regent Travel, inngangserindi ráðstefnunnar. Þar fjallaði hann um hvernig hægt sé að markaðssetja landið á þeim óróatímum sem nú ríkja eða ?Selling Iceland to travelers in turbulent times.? Metþátttaka er á þingið eða talsvert á fjórða hundrað manns. Að erindum loknum verða pallborðsumræður sem Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálaráðs, stýrir og loks verða umhverfisverðlaun Ferðamálastofu afhent í 14. sinn. Á myndinni er Össur Skarphéðinsson í ræðurstóli.
Lesa meira

Fjölgun gesta í fyrrihluta nóvember

Erlendum gestum sem fóru um Leifsstöð fjölgaði um rúm 4% í fyrrihluta nóvember, miðað við sama tíma í fyrra. Þetta eru ánægjulegar tölur eftir að gestum fækkaði um 5% í október. Umtalsverð fækkun varð hins vegar á ferðum Íslendinga fyrstu 17 daga nóvembermánaðar, eða tæp 60%. Fjölgunin er nóvember er að mestu leyti frá Mið- og Suður-Evrópu eða tæp 24%. Einnig var fjölgun frá Bretlandi tæp 5% og 12% frá Noregi. Á móti fækkar Bandaríkjamönnum og Dönum. Fróðlegt verður að sjá tölur fyrir mánuðinn í heild. Hér að neðan má sjá nánari skiptingu.   Erlendir gestir í nóvember (1.-17. nóv.) eftir þjóðernum       Aukning/fækkun milli ára 2007/08   2007 2008 Fjöldi % Bandaríkin 1.473 1.161 -312 -21,2 Kanada 152 136 -16 -10,5 Noregur 1.355 1.519 164 12,1 Danmörk 1.374 1.185 -189 -13,8 Svíþjóð 1.219 1.286 67 5,5 Finnland 320 270 -50 -15,6 Bretland 2.922 3.064 142 4,9 Þýskaland 595 769 174 29,2 Holland 253 480 227 89,7 Frakkland 498 531 33 6,6 Sviss 56 65 9 16,1 Spánn 111 73 -38 -34,2 Ítalía 122 106 -16 -13,1 Pólland 431 561 130 30,2 Kína 262 196 -66 -25,2 Japan 184 194 10 5,4 Annað 2.029 2.317 288 14,2 Samtals 13.356 13.913 557 4,2 Ísland 23.055 9.709 -13.346 -57,9 Erlendir gestir í nóvember (1-17.nóv) - eftir markaðssvæðum       Aukning/fækkun milli ára 2007/08   2007 2008 Fjöldi % N-Ameríka 1.625 1.297 -328 -20,2 Norðurlönd 4.268 4.260 -8 -0,2 Bretland 2.922 3.064 142 4,9 Mið-/S- Evrópa 1.635 2.024 389 23,8 Annað 2.906 3.268 362 12,5 Samtals 13.356 13.913 557 4,2 Heimild: Ferðamálastofa, brottfarir um Leifsstöð.
Lesa meira

Fjölmennasta ferðamálaþing frá upphafi

Vel á fjórða hundrað þátttakendur eru skráðir á ferðamálaþing Iðnaðarráðuneytisins og Ferðamálastofu sem haldið verður á Grand Hótel Reykjavík á morgun kl 13-17. Því er ljóst að um er að ræða fjölmennasta ferðamálaþing frá upphafi. Yfirskriftin er Öflug  ferðaþjónusta ? allra hagur, tækifæri í ferðaþjónustu á umbrotatímum. Þingið hefst með ávarpi ferðamálaráðherra Össurar Skarphéðinssonar. Inngangserindið flytur Ian Neale, forstjóri bresku ferðaskrifstofunnar Regent Travel, sem er stór aðili í sölu Íslandsferða. Þar fjallar hann um hvernig hægt sé að markaðssetja landið á þeim óróatímum sem nú ríkja eða ?Selling Iceland to travelers in turbulent times.? Aðrir fyrirlesarar eru Þór Sigfússon, formaður Samtaka atvinnulífsins; Helgi Már Björgvinsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair; Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri ; Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarstjóri Akureyrar og Páll Ásgeir Ásgeirsson, blaðamaður.  Að erindum loknum verða pallborðsumræður sem Svanhildur Konráðsdóttir, formaður ferðamálaráðs, stýrir og loks verða umhverfisverðlaun Ferðamálastofu afhent í 14. sinn. Dagskrá þingsins (PDF)
Lesa meira

Ferðamálastofa verðlaunuð annað árið í röð

Annað árið í röð fékk Ferðamálastofa viðurkenningu BMI publications sem það ferðamálaráð á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum sem veitir söluaðilum bestu þjónustuna. Verðlaunin voru veitt á World Travel Market ferðasýningunni í London í liðinni viku. BMI publications veita árlega verðlaun í nokkrum flokkum til aðila í ferðaþjónustu. Það sölufólk á ferðaskrifstofum og sjálfstæðir söluaðilar sem sendir inn tilnefningarnar og var Ferðamálastofa valin best í flokknum ?Tourist Office offering best assistance to agents for Scandinavia & and the Baltics.? Undir hatti BMI publications eru ýmsir miðlar tengdir ferðaþjónustu þar sem verðlaunin verða rækilega kynnt og er því auglýsingagildið umtalsvert. Jafnframt má Ferðamálastofa nota merki (logo) verðlaunanna. Sigríður Gróa Þórarinsdóttir, markaðsfulltrúi Ferðamálastofu fyrir Bretland, veitti verðlaununum viðtöku og á meðfylgjandi mynd er hún með viðurkenningarskjalið.
Lesa meira

Mikill Íslandsáhugi á World Travel Market

Ísland var sem fyrr meðal þátttakenda á hinni árlegu ferðasýningu World Travel Market í London, einni stærstu ferðasýningu í heimi, sem lauk í liðinni viku. Vel tókst til og íslensku fyrirtækin fundu fyrir miklum áhuga á ferðum til landsins. Sem fyrr sá Ferðamálastofa um undirbúning og skipulagningu fyrir Íslands hönd en 16 íslensk fyrirtæki auk Ferðamálastofu voru meðal þátttakenda. Líkt og fyrri ár var sýningarsvæðið sett upp í samstarfi við frændur okkar á Norðurlöndunum. Að sögn Sigríðar Gróu Þórarinsdóttur, markaðsfulltrúa fyrir Bretland, tókst framkvæmdin vel. Áhugi á Íslandi var mikill og síst minni en verið hefur. T.d. fóru um 200 fleiri Íslandsbæklingar Ferðamálastofu en á undanförnum árum sem er eitt dæmi um aukna umferð á íslenska sýningarsvæðinu. Mikil að vöxtumWorld Travel Market er mikil að vöxtum en hún er haldin í glæsilegri sýningahöll, ExCel í Docklands, austast í London. Sýningarbásarnir eru um 700 talsins og þarna koma saman um 4.900 sýnendur frá öllum heimshornum. Sýningin stendur yfir í fjóra daga. Fyrstu sýningardagana er einungis fagaðilum í viðskiptaerindum veittur aðgangur en seinni dagana er einnig opið fyrir almenning. Á myndinni hér að ofan er Clair Horwood hjá Saltmarshpr, almannatengslafyrirtæki Ferðamálastofu í Bretlandi. Mynd. Sigríður Gróa. Myndir frá sýningunni
Lesa meira

Skráningu lokið á Ferðamálaþing

Skráningu er lokið á ferðamálaþingið sem haldið verður næstkomandi fimmtudag á Grand Hótel. Skráðir þátttakendur eru nokkuð á fjórða hundrað sem er hámark þess sem salurinn tekur.
Lesa meira

Frakkar fjölmenntu og fjörugar umræður

Góð mæting var á kynningarfundinn í París síðastliðinn föstudag. Ferðasalar fjölmenntu á fundinn og að honum loknum urðu fjörlegar umræður milli íslenskra ferðaþjónustuaðila og franskra ferðasala. Í máli þeirra sem eru að selja ferðir til Íslands birtust áhyggjur af verðlagsmálum og óstöðugleika þeim sem ríkir nú um stundir en einnig kom fram að bókanir ganga mjög vel hjá þeim flestum og að greinilegur er mikill Íslandsáhugi í Frakklandi. Frakkar meta náttúru landsins mikið og sækja fyrst og fremst til landsins til að njóta einstæðrar upplifunar og útivistar. Fundinn í París var annar fundurinn í röð kynningarfunda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu. Um er að ræða samstarf Ferðamálastofu, utanríkisráðuneytis, Útflutningsráðs, Samtaka ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu sem tekið hafa höndum saman í samræmdu átaki við að kynna málstað Íslands erlendis. Í dag er fundað í Kaupmannahöfn, í Frankfurt á morgun og Osló á miðvikudaginn. Á meðfylgjandi mynd sem Þorleifur Þór Jónsson, forstöðumaður nýrra markaða hjá Útflutningsráði tók, eru þau Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri og Tómas Ingi Olrich, sendiherra í París og fyrrverandi formaður Ferðamálaráðs.
Lesa meira

Notkun erlendra ferðamanna á ferðaritum

Út er komin samatekt á notun erlendra ferðamanna á nokkrum ferðaritum sumarið 2008. Könnun var gerð meðal erlendra brottfararfarþega í Leifsstöð og unnin af Rannsóknum og ráðgjöf ferðaþjónustunnar ehf. Könnunin var unnin fyrir Heim, Iceland Travel Mart, Markaðsnetið, Reykjavík Grapevine og Samband Íslenskra Auglýsingastofa (SÍA). Þar var kannað hvort viðkomandi hefðu nýtt sér eftirtalin ferðarit og hvað þeim þætti um gæði þeirra:Around Iceland / Rund um IslandThe Reykjavík GrapevineVisitor´s Guide / Visitor´s Guide DeluxeWhat´s on in ReykjavíkReykjavik City Guide Flestir notuðu Around Iceland og Rund um IslandMeðal helstu niðurstaðna er að 60% þátttakenda í könnuninni nýttu sér eitthvert af þeim ferðaritum sem spurt var um og allmargir þeirra nýttu sér tvö þeirra eða fleiri. Flestir, eða 35% þátttakenda, nýttu sér Around Iceland / Rund um Island, 27% notuðu Visitor´s Guide / Visitor´s Guide Deluxe, 14% What´s on in Reykjavík, 12% The Reykjavík Grapevine og 9% nýttu sér Reykjavik City Guide. Ferðaritin fengu meðaleinkunn á bilinu 7,1 til 7,7 þegar spurt var um gæði þeirra. Við spurningunum um notkun á ferðaritunum fengust 736 svör og voru 704 þeirra nothæf. Við úrvinnslu niðurstaðna eru ferðamenn sem þátt tóku í könnuninni fyrst skoðaðir sem heild en síðan m.t.t. kyns, aldurshópa, menntunar og búsetu (markaðssvæða). Jafnframt eru þeir greindir eftir tilgangi ferðar, eftir því hvort þeir höfðu komið áður til Íslands eða ekki, eftir dvalarlengd á Íslandi, ferðamáta (á eigin vegum eða hópferð) og föruneyti, eftir flugfélagi sem þeir nýttu til landsins, gistimáta og útgjöldum á Íslandi. Erlendu ferðamennirnir eru flokkaðir eftir sex markaðssvæðum hvað búsetu varðar. Gestir með búsetu utan þeirra svæða eru hafðir saman undir önnur svæði. Skoða skýrsluna í heild: Notkun erlendra ferðamanna á nokkrum ferðaritum sumarið 2008
Lesa meira

Góður fundur í Stokkhólmi

Fyrsti fundurinn af fimm í röð kynningarfunda á helstu mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu í Evrópu var í Stokkhólmi í gær og tókst afar vel. Um er að ræða samstarf Ferðamálastofu, utanríkisráðuneytis, Útflutningsráðs, Samtaka ferðaþjónustunnar og Höfuðborgarstofu sem tekið hafa höndum saman í samræmdu átaki við að kynna málstað Íslands erlendis. Fulltrúar allra helstu fjölmiðla mættu, sem og yfir 15 fulltrúar ferðaþjónustufyrirtækja og gerðu þeir afar góðan róm að málfutningi Guðmundar Árna Stefánssonar sendiherra, Árna Gunnarssonar formanns SAF og Ólafar Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra. Var talað um að það væri mikils vert að komið væri á staðinn og fólk í atvinnugreininni fengi milliliðalaust að vita að allt væri að ganga sinn vanagang í íslenskri ferðaþjónustu og sóknarfæri væru þar, þrátt fyrir áföll á öðrum sviðum á Íslandi. Í dag er komið að fundi í París, á mánudaginn er fundað í Kaupmannahöfn, þá Frankfurt og endað í Osló. Á myndinni er Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra á fundinum í Stokkhólmi í gær. Mynd: Þorleifur Þór Jónsson
Lesa meira