Fréttir

Myndir frá ferðamálaráðstefnunni á Kirkjubæjarklaustri

Hér koma myndir sem teknar voru á Ferðamálaráðstefnunni á Kirkjubæjarklaustri 14.-15. október síðastliðinn. Opna myndasíðu
Lesa meira

Ráðstefna um rannsóknir í félagsvísindum

Föstudaginn 22. október verður haldin fimmta ráðstefnan um rannsóknir í félagsvísindum á vegum viðskipta- og hagfræðideildar, félagsvísindadeildar og lagadeildar Háskóla Íslands. Flutt verða yfir eitthundrað erindi þar sem kynntar verða niðurstöður nýlegra rannsókna á sviði félagsvísindanna, m.a. á sviði ferðamála. Ráðstefnan er öllum opin og erindin sem tengjast ferðamálum eru vegum viðskipta- og hagfræðideildar og fara fram í stofu 202 í Odda á milli kl. 13 og 15. Erindin eru þrjú talsins: Anna Dóra Sæþórsdóttir, lektor við HÍ:Þversagnir í upplifunum og óskum ferðamanna á víðernum Bergþóra Aradóttir, sérfræðingur við Ferðamálasetur Íslands:Uppbygging aðstöðu fyrir ferðalanga í óbyggðum. Um lífsferil ferðamannastaðanna Landmannalauga og Lónsöræfa. Helgi Gestsson, forstöðumaður Ferðamálaseturs Íslands:Mótun menningarstefnu sveitarfélaga Heildardagskrá ráðstefnunnar  
Lesa meira

Hópbílar og Hagvagnar fá alþjóðlega umhverfisvottun

Á dögunum fengu Hópbílar og Hagvagnar afhenta viðurkenningu til staðfestingar á því að umhverfisstjórnun þeirra uppfylli kröfurnar sem settar eru fram í ISO 14001 alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum. Aðeins 3 önnur fyrirtæki hérlendis hafa náð þessu markmiði og eru Hópbílar og Hagvagnar fyrstu ferðaþjónustu- og samgöngufyrirtækin. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra afhenti vottorðin við hátíðlega athöfn í starfsstöð fyrirtækjanna í Hafnarfirði. Ráðherra sagði Hópbíla og Hagvagna vel að viðurkenningunni komna því fyrirtækin væru búin að innleiða hjá sér vottunarhæft umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlega umhverfisstjórnunarstaðlinum ISO-14001 sem væri mjög kröfuharður staðall. Sturla bauð Hópbíla og Hagvagna velkomna í hóp þeirra fyrirtækja sem væru í fararbroddi í umhverfismálum og ánægjulegt að sjá þann árangur sem náðst hefur í því starfi. Sturla sagði stjórnendur Hópbíla og Hagvagna vera framsýna og að fyrirtækið og starfsmenn væru öðrum fyrirtækjum hvatning til góðra verka. Árangur af markvissu starfiÍ frétt frá fyrirtækjunum kemur fram að Hagvagnar og Hópbílar hafa unnið markvisst starf á sviði umhverfismála undanfarin ár. Fyrirtækin hafa allt frá árinu 2001 unnið að því að innleiða hjá sér vottað umhverfisstjórnunarkerfi og fengu fyrirtækjaviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn, fyrir árið 2003. ISO 14001 vottun felur í sér að fyrirtækin hafa komið á virku umhverfisstjórnunarkerfi í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 14001. Á Íslandi hafa aðeins 3 fyrirtæki náð þessum árangri hingað til, þ.e. Alcan, Borgarplast og Árvakur (Morgunblaðið). Umhverfisstjórnunarkerfi Hópbíla og Hagvagna felur í sér að í fyrirtækjunum hefur verið skilgreind umhverfisstefna sem endurskoðuð er reglulega og þegar þörf er á. Til þess að raunverulega sé unnið skv. stefnunni hefur fyrirtækið skilgreint mælanleg markmið t.d. að minnka notkun díselolíu um ákveðið magn og síðast en ekki síst hafa fyrirtækin hrint aðgerðum í framkvæmd til að ná settum markmiðum. Hópbílar og Hagvagnar hafa gefið út umhverfisskýrslu og haldið grænt bókhald þar sem tekinn er saman sá árangur sem fyrirtækin hafa náð í umhverfismálum. Innan fyrirtækjanna er öflug fræðslustarfsemi og fá starfsmenn t.d. fræðslu um umhverfismál bæði í tengslum við eigið starf en sömuleiðis almenna fræðslu um það hvernig þeir geta sýnt umhverfinu og náttúrunni tillitsemi í daglegu lífi. Hópbílar og Hagvagnar hafa tekið upp vistakstur og sent alla sína bílstjóra á námskeið í vistakstri og hefur umhverfisstjóri Hópbíla einnig tekið virkan þátt í fræðslu um umhverfismál til að hvetja önnur fyrirtæki til dáða á þessu sviði. Við uppbyggingu umhverfisstjórnunarkerfisins hafa fyrirtækin notið góðs af faglegri ráðgjöf verkfræðistofunnar Línuhönnunar hf og IMG Deloitte, segir m.a. í frétt frá fyrirtækjunum. Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Sturla Böðvarsson samgönguráðherraafhenti forsvarsmönnum fyrirtækjanna staðfestingu votunarinnar. Talið frá vinstri: Jóhann G. Bergþórsson stjórnarformaður, Gísli J. Friðjónsson forstjóri, Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og Kjartan J. Kárason framkvæmdastjóri Vottunar hf.  
Lesa meira

Ferðafréttir komnar út

Ferðafréttir, fréttabréf Ferðamálaráðs, eru komnar út. Þær eru að þessu sinni að nokkru leyti helgaðar þeim tímamótum að fyrr á þessu ári voru 40 ár liðin frá stofnun Ferðamálaráðs Íslands. Meðal annars eru birtar myndir úr hófi sem haldið var í tilefni afmælisins, nokkrar myndir frá fyrri árum sem eru í eigu ráðsins og rætt við Birgi Þorgilsson, fyrrverandi ferðamálastjóra og formann Ferðamálaráðs. Af öðru efni fréttabréfsins má nefna viðtal við samgönguráðherra, yfirlit um þróun og ástand á helstu markaðssvæðum og rætt er við ferðamálafulltrúa vítt um land um ferðasumarið 2004. Af þeim viðtölum að dæma virðist víðast var vera um aukningu að ræða, enda hefur ferðamönnum haldið áfram að fjölga og ferðalög Íslendinga um eigið land virðast færast í aukana. Þá er í fréttabréfinu farið yfir ýmis þau verkefni sem í gangi eru hjá Ferðamálaráði, svo sem umhverfismál, flokkun gististaða, upplýsingamál, og fleira. Ferðafréttir eru aðgengilegar sem PDF-skjal hér á vefnum. Lesa fréttabréf (pdf-576 KB)  
Lesa meira

Vel heppnuð ferðamálaráðstefna

Um 140 manns sóttu árlega ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands á Kirkjubæjarklaustri. Ráðstefnan tókst vel í alla staði og var góður rómur gerður að þeim erindum sem flutt voru. Þá voru fjórar ályktanir samþykktar. Íslendingar að ná betri árangri en margir aðrirEinar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs, setti ráðstefnuna og kom víða við. Rakti hann m.a. verulega aukið umfang ferðaþjónustunnar á síðustu misserum. Benti hann á nokkrar staðreyndir máli sínu til sönnunar, fjölgun ferðamanna, aukið sætaframboð í ferðum til landsins og fjölgun bílaleigubíla. Þá benti hann á stórkostlega fjölgun hjólhýsa og tjaldvagna sem dæmi um aukinn áhuga Íslendinga á ferðum um eigið land. "Nú vitum við það öll að það er ekki vandalaust að heyja þá samkeppni sem er í ferðaþjónustuheiminum. Mörg lönd búa yfir einstakri náttúru, eiga stórbrotna og glæsilega sögu. Engu að síður blasir það við að við Íslendingar erum að ná meiri árangri í uppbyggingu ferðaþjónustu okkar heldur en gengur og gerist um löndin í kringum okkur. Það hlýtur að segja einhverja sögu. Á sama tíma og ferðamönnum fjölgar hér á landi, mega nágrannar okkar ýmsir þola fækkun ferðamanna. Eru það þó fögur lönd og á margan hátt aðgengilegri hinum stóra heimi. Ástæðurnar eru örugglega fjölmargar en ég ætla að segja það hispurslaust og án allrar hræsni að ég held að aðal gerandinn í þeim efnum sé atvinnugreinin sjálf; íslensk ferðaþjónusta sem hefur einfaldlega staðið sig vel í þessari hörðu alþjóðlegu samkeppni," sagði Einar m.a. Samstarf mikilvægtSturla Böðvarsson ræddi í erindi sínu nokkuð um markaðsmál ferðaþjónustunnar. Á fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 150 milljónum króna í þennan lið. Til viðbótar kemur fé sem varið verður til Iceland Naturally samstarfsverkefnisins í Bandaríkjunum og þá greindi samgönguráðherra frá því að til skoðunar er að ráðast í sambærilegt verkefni fyrir Evrópumarkað. Þá benti hann á nauðsyn þess að aðilar ynnu betur saman að markaðssetningu "því að öll vitum við að sameinað átak er aflmeira en þegar hver og einn hugsar aðeins um þrönga eiginhagsmuni," sagði Sturla.Einnig fór ráðherrann í erindi sínu yfir mikilvægi umhverfismála og greindi frá vinnu sem verið hefur í gangi vegna ferðamálaáætlunar en afrakstur hennar verður senn lagður fram. Loks kom hann inn á fjölgun ferðamanna og sagði m.a.: "Eins og sjá má hefur fjölgun ferðamanna hingað til lands verið með ólíkindum. Spár sem taka mið af undanförnum 10 árum sýna að fjöldi erlendra ferðamanna gæti orðið á bilinu sjö til áttahundruð þúsund árið 2015. Þetta eru háar tölur en ég leyfi mér samt að halda því fram að miðað við þann kraft sem býr í íslenskri ferðaþjónustu geti þessi tala átt eftir að verða miklu hærri. Getur það verið! - að eftir fimm góð ár muni okkur takast að tvöfalda þann fjölda ferðamanna sem kemur til landsins í ár? Þessari spurningu þurfum við að svara í áætlunum okkar á næstunni." Ferðaþjónusta einn öruggast vaxtargeirinnYfirskrift ráðstefnunnar í ár var "Efnahagslegt gildi ferðaþjónustu" og það var heitið á meginerindi ráðstefnunnar sem Ásgeir Jónsson, hagfræðingur KB Banka og lektor við HÍ flutti. Ásgeir er annar meginhöfundur skýrslunnar "Flug- og ferðaþjónusta á Íslandi" sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið og kynnt fyrr á þessu ári. Erindi Ásgeirs var í senn yfirgripsmikið og fróðlegt og of langt mál væri að telja upp allt það sem fram kom. Meginniðurstaða Ásgeirs er að þjóðhagslegur ábati ferðaþjónustu er töluverður hérlendis í ljósi þess hve þjóðin er fámenn og þarf að tryggja samgöngunet yfir svo stórt svæði. Þá er þjóðhagslegur ábati ferðaþjónustu mun meiri úti á landsbyggðinni þar sem nýting framleiðsluþátta er verri og fjölbreytni minni vegna fólksfæðar. Jafnframt hefur mörgum án efa þótt fróðlegt að sjá yfirlit Ásgeirs um vöxt hagkerfisins síðustu 10 ár, þ.e. frá 1993-2003. Vöxturinn á þessu tímabili nemur 40% og þar af er þáttur verslunar, þjónustu veitingahúsareksturs og samgangna langstærstur, 22%, eða rúmur helmingur. Á meðan eru greinar eins og álbræðsla, sjávarútvegur og landbúnaður nánast engu að skila til aukins hagvaxtar. "Ferðaþjónustan virðist - af reynslu síðustu 40 ára að dæma - vera einn öruggast vaxtargeirinn í íslenska hagkerfinu sem miðar áfram með 6% stöðugum vexti," sagði Ásgeir m.a. Aðrir sem fluttu erindi undir þessum lið voru Friðrik Pálsson, framkvæmdastjóri Oddhóls ferðaþjónustu ehf.; Ingunn Guðmundsdóttir, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Guðrún Bergman, hótelhaldari á Hótel Hellnum. Eftir kaffihlé var síðan komið að erindi Olivier Jacquin og nefndist það "2004-2005 Hotel Industry Trend and Presentation of Rezidor SAS Hospitality". Olivier Jacquin er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Rezidor SAS, sem m.a. er með Radison SAS hótelin innan sinna vébanda, og kom sérstaklega til landsins til að flytja erindi á ráðstefnunni. Allt inn á vefnumLíkt og undanfarin ár verða öll erindi og allar umræður frá ráðstefnunni aðgengileg hér á vefnum undir liðnum "Starfsemi". Ávörp formanns Ferðamálaráðs og samgönguráðherra eru þegar komin inn, ásamt glærukynningum af flestum fyrirlestrum. Jafnframt eru komnar þar inn þær ályktanir sem samþykktar voru. Meira efni mun síðan halda áfram að bætast við á næstunni. Hlýtt á umræður. Í fremstu röð sitja frá vinstri: Olivier Jacquin, framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Rezidor SAS; Magnús Oddsson ferðamálastjóri; Einar Kr. Guðfinsson, formaður Ferðamálaráðs; Kjartan Ólafsson alþingismaður; Helga Haraldsdóttir, skrifstofustjóri ferðamála í samgönguráðuneytinu; Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri og Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra.  
Lesa meira

Ferðaþjónusta bænda hlýtur umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs Íslands 2004

Í hátíðarkvöldverði á ferðamálaráðstefnunni á Kirkjubæjarklaustri í fyrrakvöld var tilkynnt um úthlutun umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2004. Þau komu að þessu sinni í hlut Félags ferðaþjónustubænda og Ferðaþjónustu bænda hf. Um 35 ár eru síðan ferðaþjónustubændur stigu sín fyrstu skref í átt að þeirri skipulögðu starfsemi sem Ferðaþjónusta bænda er í dag. Allir sem eiga lögheimili á lögbýlum og stunda ferðaþjónustu geta sótt um að gerast aðilar að Félagi ferðaþjónustubænda og í dag eru 120 aðilar skráðir í félagið. Frá 1990 hefur FFB rekið eigin ferðaskrifstofu undir nafninu Ferðaþjónusta bænda hf. sem vinnur að sölu og markaðssetningu á þjónustu ferðaþjónustubænda. Allir ferðaþjónustubændur vinni eftir umhverfisstefnuFrá árinu 2002 hefur félagið og ferðaskrifstofan haft það markmið að allir ferðaþjónustubændur vinni eftir umhverfisstefnu í nánustu framtíð, byggða á Staðardagskrá 21, og vinni eftir henni í daglegum rekstri. Stefnt skuli að því að ferðaþjónustubændur verði leiðandi afl í umhverfismálum á landsbyggðinni. Til að svo megi verða hafa verið útbúnar leiðbeiningar sem eru aðlagaðar að starfsemi ferðaþjónustubænda. Þær eru byggðar á vottunarkerfi Geen Globe 21 og eru nú 21 aðili innan félagsins aðili að GG21 og aðrir í startholunum. Skrifstofa Ferðaþjónustu bænda hf. hefur sett sér markvissa umhverfisstefnu og er hún einnig innan vébanda GG21. Það voru fyrst og fremst markviss umhverfisstefna, góð eftirfylgni félagsins og starfsfólks hennar og víðtæk áhrif stefnunnar sem réðu úrslitum um val á verðlaunahafa þetta árið. Nýr verðlaunagripurVerðlaunagripurinn er skúlptúr eftir Aðalstein Svan Sigfússon, myndlistarmann. Hugmynd listamannsins að baki gripnum er að hann sé ör sem vísi upp á við - til glæstrar framtíðar. Gripurinn er unninn úr íslensku gabbrói og lerki. Óunni hluti pýramídans stendur fyrir ósnortna náttúru sem við viljum varðveita sem mest. Líkt og undanfarin ár var óskað eftir tilnefningum til umhverfisverðlauna, jafnframt því sem innan stofnunarinnar er fylgst með því sem ferðþjónustuaðilar eru að gera í umhverfismálum. Í ár bárust 10 tilnefningar. Frá afhendingu umhverfisverðlaunanna. Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda hf.; Sturla Böðvarsson samgönguráðherra; Berglind Viktorsdóttir gæðastjóri Ferðaþjónustu bænda hf.; Jóhannes Kristjánsson, formaður Ferðaþjónustu bænda hf.; Marteinn Njálsson, formaður Félags ferðaþjónustubænda og Einar Kr. Guðfinnsson, formaður Ferðamálaráðs.  
Lesa meira

Ísland kynnt í Kanda

Ísland var í sviðsljósinu í Tórontó í Kanada á dögunum. Þrjár íslenskar kvikmyndir voru þá sýndar á árlegri kvikmyndahátíð þar í borg og var tækifærið nýtt til að kynna Ísland sem ákjósanlegan stað til töku kvikmynda. Samhliða var haldin almenn Íslandskynning undir merkjum "Iceland Naturally", sem skrifstofa Ferðamálaráðs í New York heldur utan um. Frétt um þennan viðburð má nálgast í Stiklum, vefriti viðskiptastofu utanríkisráðuneytisins. Lesa frétt (PDF-skrá)  
Lesa meira

Ísland í forystusveit sjálfbærrar þróunar ferðaþjónustu á heimsvísu

Dagana 17.-20. október næstkomandi stendur Alþjóðaferðamálaráðið fyrir ráðstefnu í Tékklandi þar sem fjallað verður um samstarf opinberra aðila og einkageirans í vottun á sjálfbærri ferðaþjónustu. Fyrir forgöngu Ferðamálaráðs Íslands verður þar sérstök kynning á vottun Snæfellsness samkvæmt viðmiðum Green Globe 21. Markmið ráðstefnunnar er að fjalla um vottun á vöru, fyrirtækjum og áfangastöðum (samfélögum), kanna hvaða kerfi hafa náð árangri og hvort hægt sé að stefna að samþjöppun á markaðnum svo vottunarmerkjum fækki. Þegar hún var fyrst auglýst kallaði Alþjóðaferðamálaráðið eftir umsóknum um kynningu á vottunarverkefnum sem hafa gefið góðan árangur. Ferðamálaráð Íslands, sem stutt hefur undirbúning að vottun GREEN GLOBE 21 á Snæfellsnesi, sendi inn umsókn til ráðsins. Lagði ferðamálastjóri til að verkefnið, sem er stærsta frumherjaverkefni í sjálfbærri ferðaþjónustu á Íslandi, yrði kynnt á ráðstefnunni í samvinnu við vottunarsamtökin GREEN GLOBE 21. Stykkishólmshöfn hefur hlotið hinn eftirsótta Bláfána frá Landvernd. Ísland er ekki aðili að Alþjóðaferðamálaráðinu og því var það mikill heiður að verkefni þess skyldi vera valið til kynningar á ráðstefnunni. Samfélagið á Snæfellsnesi samanstendur af sveitarfélögunum fimm, Eyja- og Miklaholtshreppi, Grundarfirði, Helgafellssveit, Snæfellsbæ og Stykkishólmi og Þjóðgarðinum Snæfellsjökli. Svæðið hefur nú mætt viðmiðum GREEN GLOBE 21 sem gefur því leyfi til að nota merki GREEN GLOBE 21 á allt kynningarefni sitt. Guðrún G. Bergmann, ein þeirra sem unnið hefur að vottunarverkefninu, mun kynna það á ráðstefnu Alþjóðaferðamálaráðsins ásamt Cathy Parsons alþjóðaforstjóra GREEN GLOBE 21. Ferðamálaráð lítur svo á að með þessu verkefni sé Ísland að skipa sér í forystusveit sjálfbærrar þróunar í ferðaþjónustu á heimsvísu. Elías Bj. Gíslason, forstöðumaður upplýsinga- og þróunarsviðs Ferðamálaráðs, og Valur Þór Hilmarsson, umhverfisfulltrúi stofnunarinnar, sitja einnig ráðstefnuna og nýta tækifærið til að koma kynningarefni um landið á framfæri.  
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2004 nálgast

Ferðamálaráðstefnan 2004 nálgast óðum en nú er rétt vika í að hún hefjist. Ráðstefnan verður haldin í félagsheimilinu Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri dagana 14. og 15. október. Inngangserindi ráðstefnunnar flytur Ásgeir Jónsson, hagfræðingur KB Banka og lektor við HÍ, með yfirskriftinni "Efnahagslegt gildi ferðaþjónustu". Ásgeir er annar meginhöfundur skýrslunnar "Flug- og ferðaþjónusta á Íslandi" sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið og kynnt fyrr á þessu ári. Auk innlendra fyrirlesara flytur Olivier Jacquin erindi og nefnist það "2004-2005 Hotel Industry Trend and Presentation of Rezidor SAS Hospitality". Olivier Jacquin er framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Rezidor SAS, sem m.a. er með Radison SAS hótelin innan sinna vébanda. Afhending umhverfisverðlauna FerðamálaráðsUm kvöldið er móttaka í boði samgönguráðherra og í kjölfarið hefst kvöldverður og skemmtun. Þar fer samkvæmt venju fram afhending umhverfisverðlauna Ferðamálaráðs Íslands fyrir árið 2004. Daginn eftir, föstudaginn 15. október, verður kynning á ferðaþjónustu svæðisins. Skráningar komnar vel af staðÚtlit er fyrir ágæta þátttöku í ráðstefnunni og eru skráningar komnar vel af stað. Á ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Ráðstefnan á Kirkjubæjarklaustri verður sú 34. í röðinni. Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða. Boðið upp á rútuferðirBoðið er upp á rútuferð frá BSÍ í Reykjavík kl. 7:30 fimmtudaginn 14. október og til baka frá Kirkjubæjarklaustri kl. 13:00 föstudaginn 15. október. Verð pr. mann er 3.500 kr. sem greiðist á staðnum. Vinsamlega takið fram við skráningu á ráðstefnuna hvort ætlunin er að nota rútuferðina.  
Lesa meira

Icelandair með reglubundið áætlanaflug til San Fransisco

Icelandair tilkynnti nú í dag að félagið myndi hefja reglubundið áætlanaflug til San Fransisco á vesturströnd Bandaríkjanna í maí á næsta ári. Fagnaðarefni fyrir íslenska ferðaþjónustu"Við hljótum að fagna mjög þessari ákvörðun Icelandair sem eykur mjög möguleika íslenskrar ferðaþjónustu til útrásar í nýjum heimshluta. Hér er um er að ræða verulega breytingu á því samgöngukerfi sem verið hefur til og frá landinu. Í áratugi hafa beinar flugsamgöngur til landsins verið tengdar fjórum svæðum, þ.e. Norðurlöndunum, Bretlandi, meginlandi Evrópu og austurströnd Norður-Ameríku. Með þessari ákvörðun opnast algerlega nýir möguleikar til útrásar í kynningar- og markaðsstarfi þegar reglubundið áætlanaflug hefst á milli íslands og vesturstrandar Bandaríkjanna," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. Þá bendir hann á að í áratugi hefur verið unnið mikið markaðsstarf í allri Norður-Ameríku og nú síðustu árin hefur átakið Iceland Naturally m.a. verið þar í gangi til að kynna íslenskar vörur og þjónustu. "Það er von mín að það mikla starf sem nú þegar hefur verið unnið til að kynna Ísland í Norður-Ameríku og sá aukni kraftur sem nú verður settur í kynningarstarf á vesturströnd Bandaríkjanna muni skapa þau umsvif sem tryggi þetta áætlunarflug vel í sessi og leggi grunn að frekari útrás og samgöngum við þennan hluta Bandaríkjanna," segir Magnús að lokum.  
Lesa meira