Fréttir

ÁNING 2005 er komin út

Gistibæklingurinn Áning er nú komin út ellefta árið í röð. Hann er gefinn út í 50.000 eintökum á íslensku, ensku og þýsku. Í bæklingnum er að finna upplýsingar um nær 300 gististaði, 104 tjaldsvæði og 74 sundlaugar og staðsetningu þeirra á landinu. Í frétt frá útgefanda segir að Áning njóti sífellt meiri vinsælda meðal innlendra og erlendra ferðamanna sem kjósa að ferðast um landið á eigin vegum, sem og meðal erlendra ferðaheildsala sem eru að skipuleggja ferðir til landsins fyrir hópa ferðamanna og einstaklinga. Áningu er dreift á alla helstu ferðamannastaði innanlands, á upplýsingamiðstöðvar, hótel-og gistiheimili og víðar. Áningu er einnig dreift á meginlandi Evrópu frá skrifstofu Ferðamálaráðs í Frankfurt og frá dreifingarmiðstöð þeirra í Frakklandi. Þá er Áningu einnig dreift um borð í Norrænu. Netútgáfa bæklingsins er að finna á bæklingasíðu Heims.  
Lesa meira

Þolmörk ferðamennsku: Samanburður á upplifun ferðamanna í Landmannalaugum og Lónsöræfum

Í dag kl. 17:15 mun Anna Dóra Sæþórsdóttir, lektor við jarð- og landfræðiskor Háskóla Íslands, halda erindi sem hún nefnir "Þolmörk ferðamennsku: Samanburður á upplifun ferðamanna í Landmannalaugum og Lónsöræfum." Erindið er haldið í Öskju, Náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands, í stofu 132 og er á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags. Hugtakið þolmörk ferðamennsku hefur verið notað í rannsóknum á áhrifum ferðamennsku á umhverfi og samfélag. Í rannsóknum á þolmörkum er metinn sá fjöldi gesta sem svæði getur tekið á móti áður en neikvæðra áhrifa fer að gæta, hvort heldur sem er á náttúrulegt umhverfi eða upplifun ferðamanna. Í erindinu verður sagt frá niðurstöðum rannsóknar á þeim hluta þolmarka sem snýr að upplifun ferðamanna. Notast var við spurningalista, dagbækur og viðtöl. Bornar verða saman niðurstöður annars vegar frá Landmannalaugum, vinsælasta áfangastað öræfanna og hins vegar Lónsöræfum en þangað koma tiltölulega fáir gestir. Það var sem kunnugt er Ferðmálaráð í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands sem lét gera á þolmörkum ferðamennsku í Landmannalaugum og Lónsöræfum og þremur öðrum vinsælum ferðamannastöðum.  
Lesa meira

Skrá yfir leyfisskylda veitinga- og gististaði verður birt á lögregluvefnum

Samgönguráðuneytið fór þess nýlega á leit við dómsmálaráðuneytið að skrá yfir leyfisskylda aðila skv. lögum nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði yrði gerð aðgengileg almenningi. Dómsmálaráðuneytið hefur í framhaldinu ákveðið að skrá þessi verði aðgengileg á lögregluvefnum. Lögreglustjórar sjá nú um að umrædd skrá verði ávallt rétt uppfærð, en áætlað er að uppfærsla eigi sér stað mánaðarlega.  
Lesa meira

Heimssýningin EXPO 2005 í Japan - Tækifæri fyrir fyrirtæki á Asíumarkaði

Næsta heimssýning, EXPO 2005, verður í Aichi-fylki í Japan, nálægt borginni Nagoya, á tímabilinu 25. mars til 25. september 2005. Þar gefst íslenskum fyrirtækjum, þ.m.t. ferðaþjónustufyrirtækjum, tækifæri á að koma sér á framfæri á Asíumarkaði. Í síðasta tölublaði af Stiklum, vefriti viðskiptastofu utnaríkisráðuneytisins, kemur fram að Norðurlöndin verða þar með sameiginlegan skála og mun kynningin m.a. hafa það markmið að örva útflutning til Asíulanda og ferðalög þaðan til Íslands og annarra Norðurlanda. Íslensk fyrirtæki eiga þess m.a. kost að nýta sérstaka aðstöðu í norræna skálanum til kynningarfunda með fulltrúum asískra fyrirtækja, auk þess sem leitað er að heppilegum vörum fyrir sölubúð skálans. Kynningafundur fljótlegaStefnt er að kynningarfundi með fulltrúum íslenskra fyrirtækja sem eiga hagsmuna að gæta í Asíu. Fyrirtæki sem óska að sinna málinu eru beðin um að láta Útflutningsráð Íslands vita hið allra fyrsta. Sími 511 4000, tölvupóstfang: utflutningsrad@utflutningsrad.is Almennar upplýsingar um sýninguna fást á vef hennar og umnorrænu þátttökuna fást upplýsingar á vef Nordicatexpo
Lesa meira

Samgönguráðherra og samgöngunefnd Alþings heimsækja Ferðamálaráð

Á síðustu dögum hafa bæði samgönguráðherra og samgöngunefnd Alþings komið í heimsókn á skrifstofu Ferðamálaráðs í Lækjargötu í þeim tilgangi að kynna sér starfsemina. Sturla Böðvarsson Samgönguráðherra kom í heimsókn á skrifstofu Ferðamálaráðs í Reykjavík miðvikudaginn 17. nóvember. Með ráðherranum komu Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri og Bergþór Ólason aðstoðarmaður ráðherra. Tilgangur heimsóknarinnar var að kynnast daglegri starfsemi stofnunarinnar. Dvaldi hann í rúmlega 2 klukkustundir og voru kynnt helstu verkefni skrifstofunnar en samgönguráðherra hefur á undanförnum mánuðum heimsótt allar fimm skrifstofur ráðsins. Í morgun kom síðan samgöngunefnd Alþingis að kynna sér hlutverk og verkefni.  
Lesa meira

Nýting hótela í október

Meðalnýting hótela í Reykjavík stóð nánast í stað í októbermánuði. Fór úr 66,95% í fyrra í 66,73% í ár. Skiptist það reyndar í tvö horn milli flokka þar sem nýting versnar í þriggja stjörnu flokknum en batnar í fjögurra stjörnu. Á landsbyggðinni er hinsvegar aukning úr 30,33% í 33,25%. Meðalverð standa nánast í stað á öllum svæðum. Nánar á vef SAF  
Lesa meira

Tveir af hverjum þremur miðum Flugfélags Íslands seldir á Netinu

Salan á Netinu hjá Flugfélagi Íslands vex enn jafnt og þétt og eru nú um 67% af farmiðum félagsins keyptir beint þar. Þetta kemur fram í frétt af vef félagsins. Í fréttinni kemur fram að nú stefnir í að heildarsala á Netinu verði ekki undir 1,3 milljörðum króna á þessu ári og hefur vaxið um rúmlega 30% frá fyrra ári. "Við stefnum enn að aukinni sölu á Netinu, þar sem þessi sala er til mikils hægðarauka, bæði fyrir viðskiptavini og félagið. Nú á næstu vikum mun Flugfélagið taka í notkun nýja uppfærslu á bókunarkerfi sínu og mun það væntanlega auka enn möguleika á sölu á Netinu," segir á vef Flugfélags Íslands.  
Lesa meira

Mývatn ehf. fékk nýsköpunarverðlaun SAF

Samtök ferðaþjónustunnar afhentu í dag í fyrsta skipti nýsköpunarverðlaun samtakanna. Verðlaunin, 250 þúsund krónur og verðlaunaskjöld, fékk fyrirtækið Mývatn ehf. sem m.a. rekur Sel-Hótel Mývatn og Sel-Hótel Varmahlíð, ásamt því að standa fyrir hinum ýmsu viðburðum. Undanfarin ár hafa Yngvi Ragnar Kristjánsson og fjölskylda hans, sem eiga og reka Mývatn ehf., beitt sér fyrir margvíslegum nýjungum á sviði ferðaþjónustu, einkum utan háannar og er í forsendum dómnefndar sérstaklega vísað til kúluskítshátíðar, snjóhúss, jólasveinsins í Dimmuborgum og íshestakeppni. Kúluskítur er hringlaga þörungur sem vex eingöngu í tveimur vötnum í heiminum. Það eru Mývatn og Akanvatn í Japan. Við Akan hefur verið haldin kúluskítshátíð frá 1950 og er ein þekktasta hátíð Japana í dag. Á Mývatni var fyrsta kúluskítshátíðin haldin árið 2003 og tókst vel. Þá fékk Hótel Aldan á Seyðisfirði sérstaka viðurkenningu fyrir að gefa gömlum húsum nýtt líf en þar hafa gömul hús, sem reist voru um aldamótin 1900, fengið nýtt líf sem hótel. Um er að ræða nýjung í menningartengdri ferðaþjónustu. Þegar hafa tvö hús verið tekin í notkun og áætlað er að taka fleiri hús í framtíðinni. Formaður dómnefndar nýsköpunarsjóðs SAF er Jón Karl Ólafsson, formaður samtakanna.     Yngvi Ragnar Kristjánsson hefur ásamt fjölskyldu sinni staðið fyrir ýmsum nýjungum.  
Lesa meira

Ómetanleg Íslandkynning í "The Amazing Race"

Milljónir sjónvarpsáhorfenda í Bandaríkjunum fengu Ísland inn á stofugólf hjá sér í gærkvöld þegar sjötti hluti "The Amazing Race" þáttaraðarinnar hófst á CBS sjónvarpsstöðinni. Þættirnir eru Íslendingum einnig að góðu kunnir en þeir eru sýndir á Stöð 2. "The Amazing Race" hefst sem sagt á Íslandi að þessu sinni en um er að ræða sérstakan tveggja klukkustunda "upphitunarþátt" áður en sjálf keppnin hefst. Seinna í þáttaröðinni verður síðan aftur sýnt frá Íslandi. Þættirnir voru teknir upp hérlendis síðastliðið sumar, bæði í Reykjavík og víðar um land. Ljóst er að hér er um gríðarlega öfluga landkynningu að ræða enda þættirnir eitt vinsælasta sjónvarpsefni veraldar í dag og unnu m.a. til Emmy verðlaunanna. Mikill sigur að Ísland skyldi verða fyrir valinuSkrifstofa Ferðamálaráðs Íslands í New York, Iceland Naturally, Icelandair og fleiri aðilar áttu stærstan þátt í því að gera Íslandsferð "The Amazing Race" að veruleika og Einar Gústavsson, forstöðumaður skrifstofu Ferðamálaráðs, segir menn hreinlega í skýjunum með árangurinn. "Staðreyndin er sú að CBS var búin að taka upp 4 eða 5 þætti en valdi þáttinn um Ísland til að byrja þáttaröðina. Markmið þeirra er að ná sem mestu áhorfi og mestri athygli strax í byrjun og að Ísland skuli verða fyrir valinu segir meira en mörg orð um það álit sem menn hafa á landinu. Það er mikill sigur fyrir okkur að verða fyrir valinu sem fyrsti þáttur. Í þáttunum er dregin upp mjög jákvæð mynd af landi og þjóð og þetta hefur hreint út sagt ómetanlegt auglýsingagildi," segir Einar. Stöðugt vaxandi fjölmiðlaumfjöllunTalað er að um 15 milljónir Bandaríkjamanna hafi séð þennan fyrsta þátt og hann verður síðan sýndur í um 30 öðrum löndum á næstu vikum og mánuðum. "Staðreyndin er sú að fjölmiðaumfjöllun um Íslend hér í Bandaríkjunum hefur að undanförnu verið meiri en ég hef áður séð. Fyrir svona einu og hálfu ári hélt ég að toppnum hlyti að vera náð en síðan hefur þetta stöðugt haldið áfram að vaxa. Vonandi leiðir þetta til þess að fleiri heimsækja landið og það er alveg á hreinu að bara þáttur eins og "The Amazing Race" verður þess valdandi að Ísland kemst á lista hjá þúsundum fólks sem óskalandið til að heimsækja," segir Einar. Hann bætir því við að það sé fyrirtaks jólagjöf fyrir íslenska ferðaþjónustu að fá kynningu á borð við þá sem Ísland fékk í gærkvöld. "Það er sannarlega gaman að vera til þegar svona vel gengur og þetta minnir mann bara á aflahroturnar á Sigló í gamla daga," segir Einar og hlær. Nánar um The Amazing Race á Íslandi  
Lesa meira

Áframhald fjölgunar ferðamanna í október

Erlendum ferðamönnum sem fóru um Leifsstöð fjölgaði um 12,45% í október síðastliðnum miðað við sama tímabil í fyrra. Þá voru þeir 22.532 en fjölgaði um 2.806 í ár og voru 25.388. Frá áramótum hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um ríflega 40 þúsund á milli ára eða um 14,2%. Bretar voru sem fyrr fjölmennastir þeirra gesta sem sóttu landið heim í október og í þeirra hópi var einnig mesta fjölgunin. Þeim fjölgaði um ríflega 2.200 mans eða 53,4% á milli ára. Sömu leiðis er góð fjölgun frá Norðurlöndunum. Sé litið á þróunina frá áramótum kemur í ljós að ágæt fjölgun er frá öllum megin markaðssvæðum íslenskrar ferðaþjónustu sem bendir klárlega í þá átt að öflugt markaðsstarf síðustu missera sé að skila tilætluðum árangri. Talningar Ferðamálaráðs hafa nú staðið yfir frá því í febrúar 2002 og frá þeim tíma hafa allir mánuðir sýnt aukningu á milli ára, eða í 21 mánuð samfleytt. Nánari samanburð á milli mánaða má sjá í töflunum hér að neðan. Heildarniðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs eru aðgengilegar hér inn á vefnum undir liðnum "Tölfræði". Fjöldi ferðamanna í október* Þjóðerni 2002 2003 2004 Mism. 03-04 % Bandaríkin 3.089 3.528 3.605 77 2,18% Bretland 5.086 4.143 6.356 2.213 53,42% Danmörk 1.475 2.031 2.799 768 37,81% Finnland 465 951 550 -401 -42,17% Frakkland 408 532 749 217 40,79% Holland 563 640 530 -110 -17,19% Ítalía 109 166 209 43 25,90% Japan 162 875 237 -638 -72,91% Kanada 157 221 183 -38 -17,19% Noregur 1.624 2.631 2.981 350 13,30% Spánn 69 134 141 7 5,22% Sviss 89 125 148 23 18,40% Svíþjóð 1.820 2.602 2.636 34 1,31% Þýskaland 811 1.251 1.132 -119 -9,51% Önnur þjóðerni 1.844 2.702 3.082 380 14,06% Samtals: 17.771 22.532 25.338 2.806 12,45%             Ísland 22.771 29.532 21.206 -7.919 -27,19%             Heimild:  Ferðamálaráð Íslands, brottfariar erlendra farþega í Leifsstöð. *Hér eru ekki taldir með farþegar sem fara um aðra millilandaflugvelli en Keflavík.  
Lesa meira