Fréttir

Mikill árangur markaðsstarfs Ferðamálaráðs í samvinnu við atvinnugreinina.

-Á þriðja hundrað þúsund ferðamenn frá áramótum. Niðurstöður úr talningum Ferðamálaráðs á erlendum ferðamönnum sem fara um Leifsstöð sýna að mikill vöxtur er í komum erlendra ferðamanna til Íslands. Frá áramótum til júlíloka komu á þriðja hundrað þúsund erlendir ferðamenn til landsins, ríflega 17% fleiri en á sama tíma í fyrra. Aukning er frá öllum aðal markaðssvæðum Íslands. Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs er hér um að ræða afrakstur mikillar markaðsherferðar síðustu misserin í samvinnu stjórnvalda og atvinnugreinarinnar á öllum markaðssvæðum sem áhersla hefur verið lögð á. Norðurlandabúum fjölgar mestErlendir ferðamenn voru 201.871 fyrstu sjö mánuði yfirstandandi árs á móti 172.140 á sama tíma í fyrra. Aukningin nam tæpum 30 þúsund ferðamönnum eða 17,3%. Mest var fjölgunin meðal Norðurlandabúa. Þannig fjölgaði Dönum um 5.365 (37,5%), Norðmönnum um 2.668 (19,3%), Svíum um 2.485 (18,2%) og Finnum um 643 (16,3%). Sömuleiðis er góð aukning frá öðrum lykil markaðssvæðum. Frá Norður-Ameríku var rúm 11% fjölgun, 10,6% frá Bretlandi og tæp 10% frá Þýskalandi. Þá má einnig nefna að umferð Japana hefur aukist verulega. Ekkert land undir 10% fjölgun í júlíÍ júlí fjölgaði erlendum ferðamönnum um samtals 11.668 manns á milli ára, eða um 22,2%. Þannig komu 64.275 manns í júlí nú á móti 52.607 í fyrra. Má fullyrða að aldrei hafi fleiri ferðamenn komið til landsins í einum mánuði. Sem fyrr eru Þjóðverjar fjölmennastir ferðamanna í júlí og fjölgar um 11,6% á milli ára. Ánægjulegt er að sjá verulega aukningu í komum ferðamanna frá Norður-Ameríku, þ.e. 17,5% frá Bandaríkjunum og 175,4% frá Kanada. Svipaða sögu er að segja af öðrum markaðssvæðum og nægir að benda á að ekkert þeirra landa sem mæld eru sérstaklega í talningunni sýnir undir 10% fjölgun ferðamanna. Það hljóta að teljast góð tíðindi fyrir þennan mánuð sem árlega er sá stærsti hjá íslenskri ferðaþjónustu og að þessu sinni sá stærsti frá upphafi vega. Maí og júní með góða aukninguSé litið til maímánaðar þá fjölgaði erlendum ferðamönnum um 26,4% miðað við sama tíma í fyrra, eða um 5.373 manns. Flestir ferðamenn í maí komu frá Bandaríkjunum en Norðurlandabúum fjölgaði mest. Stærstan hluta þeirrar fjölgunar eiga Danir en þeim fjölgaði um 1.444 manns, sem er 92% hækkun. Í júní fjölgaði erlendum ferðamönnum um 10% á milli ára eða um 3.651. Þar má t.d. benda á góða fjölgun Breta (23%) og Japana (62%), sem og áframhaldandi góða aukningu frá Norðurlöndunum. Hins vegar var nokkur samdráttur í komum Frakka og Spánverja og einnig Þjóðverja. Í júlí var vöxtur frá öllum löndum. Öll markaðssvæðin í sóknAð sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálaráðs sækja öll markaðssvæðin í sig veðrið. "Við höldum úti markaðsskrifstofum í Frankfurt fyrir meginland Evrópu, New York fyrir Bandaríkin og í Kaupmannahöfn fyrir Norðurlöndin auk Bretlands sem er þjónað frá Íslandi. Í öllum tilvikum vinnum við með atvinnugreininni að fjölbreyttum markaðsverkefnum sem að stórum hluta eru fjármögnuð af opinberu fé. Stjórnvöld hafa staðið vel við bakið á þessari ungu atvinnugrein með miklu fjárframlagi í markaðssetningu, og er það lykilatriði til að halda áframhaldandi vexti í greininni" segir Ársæll. Í töflunni hér að neðan má sjá fjölda ferðamanna frá áramótum. Þá eru niðurstöður talninganna í heild sinni aðgengilegar hér á vefum undir liðnum Tölfræði. Tölurnar eru í Excel-skjali og má nálgast það með því að smella hér.   Janúar - júlí   2003 2004 Aukning % Bandaríkin 26.046 28.490 2.444 9,4% Bretland 31.704 35.054 3.350 10,6% Danmörk 14.298 19.663 5.365 37,5% Finnland 3.956 4.599 643 16,3% Frakkland 11.635 11.900 265 2,3% Holland 6.355 6.606 251 3,9% Ítalía 3.594 4.340 746 20,8% Japan 2.006 3.731 1.725 86,0% Kanada 1.313 1.919 606 46,2% Noregur 13.842 16.510 2.668 19,3% Spánn 2.339 2.419 80 3,4% Sviss 3.279 4.470 1.191 36,3% Svíþjóð 13.672 16.157 2.485 18,2% Þýskaland 19.766 21.716 1.950 9,9% Önnur þjóðerni 18.335 24.297 5.962 32,5% Samtals 172.140 201.871 29.731 17,3%           Ísland 168.464 203.871 34.606 20,5%  
Lesa meira

Gistinóttum fjölgaði um 7% á fyrri helmingi ársins

Hagstofan hefur birt tölur um fjölda gistinátta í júní síðastliðnum. Þar með liggja jafnframt fyrir tölur um gistináttafjölda á fyrri helmingi ársins. Gistinóttum á hótelum í júní fjölgaði um 11% milli áraGistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 111.656 en voru 100.570 árið 2003. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi. Aukningin var mest á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 12.511 í 14.816 milli ára og fjölgaði þar með um rúm 18%. Á Norðurlandi eystra og vestra nam aukningin tæpum 14% þegar gistinæturnar fóru úr 10.633 í 12.108. Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum 70.375 en voru 63.521 árið 2003, sem er aukning um tæp 11%. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fjölgaði gistinóttum um tæp 8%, en gistináttafjöldinn fór úr 8.948 í 9.643 milli ára. Á Austurlandi fækkaði gistinóttum um tæp 5%, fóru úr 4.957 í 4.714. Gistináttafjöldi á hótelum janúar-júní jókst um rúm 7% milli áraEf skoðaðir eru fyrstu sex mánuðir ársins miðað við árið í fyrra má sjá að gistinóttum á hótelum fjölgaði í öllum landshlutum. Heildargistináttafjöldinn fyrir allt landið var 415.060 miðað við 386.441 árið 2003. Aukningin var þó hlutfallslega mest á Austurlandi, eða rúm 26%. Á öðrum landsvæðum nam aukningin 5-8% fyrir tímabilið janúar-júní. Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega. Hlutfallsleg meiri fjölgun í gistinóttum ÍslendingaGistinóttum Íslendinga fjölgaði hlutfallslega meira en gistinóttum erlendra hótelgesta. Í júní fjölgaði gistinóttum Íslendinga á hótelum um 18% á milli ára en erlendum hótelgestum fjölgaði um 10%. Sé litið til fyrstu 6 mánaða ársins fjölgaði gistinóttum Íslendinga um tæp 11% og gistinóttum útlendinga um rúm 6%.  
Lesa meira

Ferðamálaráðstefnan 2004 verður á Kirkjubæjarklaustri

Nú er komin dagsetning á hina árlegu ferðamálaráðstefnu Ferðamálaráðs Íslands. Hún verður að þessu sinni haldin á Kirkjubæjarklaustri dagana 14.-15. október næstkomandi. Leitast við að ræða það sem efst er á baugiÁ ferðamálaráðstefnum er kafað ofan í ýmis mál sem skipta miklu fyrir íslenska ferðaþjónustu og leitast við að ræða það sem efst er á baugi í umræðunni í það og það skiptið. Dagskráin verður nánar auglýst síðar en þess má þó geta undanfarin ár hafa umhverfisverðlaun Ferðamálaráðs verið afhent í tengslum við ráðstefnuna. Opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustuRáðstefnan á Klaustri verður sú 34. í röðinni en síðasta ferðamálaráðstefnan var haldin í Mývatnssveit. Ráðstefnurnar eru jafnan fjölsóttar enda er hér kjörinn vettvangur fyrir ferðaþjónustuaðila til að hittast og stilla saman strengi sína. Ráðstefnan er opin áhugafólki og hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu af öllu landinu og mikilvægi hennar fyrir ferðaþjónustuna lýsir sér á fleiri en einn hátt. Auk þess að taka fyrir tiltekin málefni er ekki síður mikilvægt að hafa þetta tækifæri til að stefna aðilum í ferðaþjónustu saman til skrafs og ráðagerða. Ráðstefnan er jafnan haldin utan suðvesturhornsins og hafa heimamenn í hvert sinn jafnframt getað notað tækifærið til að kynna svæði sitt. Ýmis mál verið ræddÁ undangengnum ferðamálaráðstefnum hafa fjölmörg mál verið tekin til umræðu. Meginefnið síðast voru markaðsmálin en af öðrum umræðuefnum á síðustu árum má nefna skýrsluna "Auðlindin Ísland", menningartengda ferðaþjónustu, tækifæri landsbyggðar í ferðaþjónustu, rannsóknir, vöruþróun og arðsemi í ferðaþjónustu, gæðamál, ferðaþjónustu utan háannar, fjárfestingar í ferðaþjónustu og umhverfismál. Hvert umræðuefnið verður á Kirkjubæjarklaustri skýrist seinna í sumar. Mynd fengin af vef Kirkjubæjarklausturs  
Lesa meira

Vefur um reiðleiðir

 Á dögunum var opnuð kynningarútgáfa af vefsíðu um reiðleiðir á Íslandi. Um er að ræða samvinnuverkefni Landssambands hestamannafélaga, Vegagerðarinnar og Landmælinga Íslands sem hafa komið sér saman um að hefja söfnun hnitsettra upplýsinga um reiðleiðir á öllu landinu og gera þau gögn aðgengileg fyrir almenning. Landssamband hestamannafélaga sér um söfnun gagna um allt land í samvinnu við hestamenn og hestamannafélögin í landinu. Landmælingar Íslands vinna úr og koma gögnum í landfræðilegt upplýsingakerfi auk þess að setja gögnin á vefinn. Vegagerðin vinnur að stöðlun skráningaratriða og sér um að veita upplýsingar um viðurkenndar reiðleiðir. Ætlunin er að byggja upp reiðleiðagagnasafn af öllu landinu sem birt verður á kortaskjá og að gagnasafnið innihaldi m.a. upplýsingar um vöð, brýr, reiðgöng, áningarstaði, beitarhólf, staði þar sem hægt er að fá hey á, skeiðvelli, réttir, hindranir á leið, hesthúsahverfi og vörður á reiðleiðum. Með samstarfi þessara aðila er ætlunin að tryggja samræmd vinnubrögð, koma í veg fyrir tvíverknað og tryggja aðgang samfélagsins að því hvar á landinu er að finna reiðleiðir og í hvaða ástandi þær eru. Útgáfan sem birtist á kortaskjá Landmælinga Íslands er kynningarútgáfa á því sem koma skal. Nánari upplýsingar má sjá hér.  
Lesa meira

Endurbættur bæklingur um öryggi á ferðalögum

Slysavarnafélagið Landsbjörg í samvinnu við Vegagerðina, Umhverfisstofnun og Umhverfisstofu gáfu í vor út endurbætta útgáfu af bæklingi um akstur og fleira er lýtur að öryggi á ferðalögum á Íslandi. Bæklingurinn, sem á ensku nefnist "Have a safe journey", er prentaður á þremur tungumálum og er hann hugsaður fyrir ferðamenn sem hingað koma erlendis frá. Honum er m.a. dreift hjá bílaleigum sem koma honum áfram til ferðamanna sem taka bíl á leigu. Bæklingurinn er jafnframt aðgengilegur á Netinu og þar er hann á sex tungumálum, þ.e. ensku, þýsku, norsku, frönsku, ítölsku og spænsku. Meðal þess sem farið er yfir í bæklingnum er mikilvægi þess að vanda undirbúning fyrir ferðalög um landið, bennt er á síbreytileika íslensks veðurfars og farið er yfir ýmsar einfaldar öryggisreglur sem þó getur skipt sköpum að sé fylgt. Akstur og öryggisreglur sem honum tengjast fá góða umfjöllun og sérstaklega er farið yfir akstur á hálendinu. Einnig er komið inn á öryggisatriði í sambandi við gönguferðir, jöklaferðir og þegar fólk ferðast á reiðhjóli eða hestbaki. Þá er farið yfir helstu umferðarmerki og birtur listi yfir þjónustuskilti, svo nokkuð sé nefnt. Bæklingurinn er sem fyrr segir aðgengilegur á Netinu á sex tungumálum, m.a. á vef Landsbjargar.  
Lesa meira

Kínverskar ferðaskrifstofur með leyfi

Eins og fram hefur komið skrifuðu Ísland og Kína fyrr á árinu undir samkomulag um ferðamál (svonefndan ADS-samning "Approved Destination Status") sem m.a. gerir Kínverjum kleift að ferðast til Íslands í skipulögðum hópum. Utanlandserðir Kínverja hafa aukist hröðum skrefum að undanförnu og búist er við áframhaldi þar á. Nú er kominn hér inn á vefinn listi yfir kínverskar ferðaskrifstofur sem hafa leyfi til að skipuleggja ferðir til annarra landa, þar með talið Íslands. Listinn er á PDF-formi og til að opna hann þarf forritið Acrobat Reader að vera uppsett á viðkomandi tölvu. Kínverskar ferðaskrifstofur með leyfi (PDF-skrá, 2 MB)  
Lesa meira

Tekjukönnun SAF fyrir júní

Samtök ferðaþjónustunnar hafa birt niðurstöður úr tekjukönnun meðal gististða í júní. Sú breyting hefur orðið að samið hefur verið við Deloitte endurskoðendur um gagnaöflun og vinnslu á könnuninni Niðurstöður tekjukönnunar í júní 2004 eru eftirfarandi: Reykjavík:Meðalnýting 83,51% / Meðalverð kr. 11.221 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 281.132Skipt eftir stjörnugjöf:*** Meðalnýting 81,55% / Meðalverð kr. 9.429 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 230.666**** Meðalnýting 85,41% / Meðalverð kr. 12.871 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 329.779 LandsbyggðinMeðalnýting 61,07% / Meðalverð kr. 8.642 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 158.343 Landsbyggðin án Keflavíkur og Akureyrar:Meðalnýting 54,96% / Meðalverð kr. 8.455 / Tekjur á framboðið herbergi kr. 139.412 Varðandi eldri tölur er vísað á heimasíðu SAF.  
Lesa meira

Tilkynning frá SAF vegna frétta um ástand brunavarna á gististöðum

Samtök Ferðaþjónustunnar sendu í dag frá sér fréttatilkynningu vegna umfjöllunar í fjölmiðlum á dögunum um ástand brunavarna á gististöðum. Þar er m.a. ákveðnum spurningum beint til brunayfirvalda í landinu. Gististaðir með óviðunandi brunavarnir eiga ekki að hafa starfsleyfi Vegna umfjöllunar um ástand brunavarna á gististöðum og viðtals við brunamálastjóra í fjölmiðlum um helgina vilja Samtök ferðaþjónustunnar taka fram eftirfarandi: Það er óþolandi fyrir ferðaþjónustuna í landinu að Brunamálastofnun skuli ítrekað birta skýrslur um að tiltekinn hluti gististaða í landinu, hvort sem það eru veiðihús, heimavistaskólar eða aðrir gististaðir, séu með slæmt eða óviðunandi ástand á brunavörnum sínum. Allir þessir gististaðir þurfa starfsleyfi skv. lögum um veitinga- og gististaði og eru þau ekki veitt nema viðkomandi eldvarnareftirlit gefi jákvæða umsögn til sýslumanns. Skýring á þessu ástandi getur því aðeins verið sú að brunamálayfirvöld eða sýslumenn á viðkomandi svæðum veiti leyfi án þess að uppfylla ákvæði laga og reglugerða. Spurning samtakanna til brunamálayfirvalda hlýtur að vera sú: Hvers vegna hafa gististaðir sem fá einkunnina "óviðunandi" eða "slæmt" fengið starfsleyfi? Öryggismál eru mikilvægt viðfangsefni Samtaka ferðaþjónustunnar sem hafa oft gengið á fund brunamálastjóra í gegnum tíðina og óskað eftir samstarfi og gerðu m.a. sömu athugasemdir við skýrslu sem kom út árið 2000 og nú eru gerðar. Nánari upplýsingar gefurErna Hauksdóttir, framkvæmdastjóriSamtök ferðaþjónustunnarGsm: 822-0057  
Lesa meira

Myndir úr 40 ára afmælishófi Ferðamálaráðs Íslands

Þann  7. júlí síðastliðinn var þess minnst að  40 ár voru liðin frá fyrsta fundi Ferðamálaráðs Íslands en hann var haldinn 7. júlí 1964. Af þessu tilefni var efnt til móttöku og þangað boðið m.a. öllum sem setið hafa í ráðinu á þessum tíma, sem og öllum samgönguráðherrum á þessu tímabili. Var því margt um manninn og glatt á hjalla, enda mörg skemmtileg atvik frá liðnum árum rifjuð upp. Skoða myndir voru teknar í afmælishófinu. 
Lesa meira

Flokkuðum gististöðum fjölgar

Að undanförnu hefur fjölgað þeim gististöðum sem taka þátt í flokkun gististaða með stjörnugjöf. M.a. hafa nú öll KEA hótelin verið flokkuð, einnig Hótel Þórshamar í Vestmannaeyjum og fleiri bíða eftir úttekt. Eins og greint var frá fyrr á árinu hefur sú breyting orðið á framkvæmd flokkunarinnar að gististaðir eru heimsóttir og skoðaðir af starfsmanni Ferðamálaráðs en ekki utanaðkomandi verktaka eins og verið hefur. Öldu Þrastardóttur verkefnisstjóra hjá Ferðamálaráði var falið verkefnið og hefur hún farið vítt og breitt um landið síðustu vikur til að taka út gististaði. Með þessari breytingu, ásamt öðrum skipulagsbreytingum, var hægt að lækka kostnað við flokkunina um 20% og tók ný gjaldskrá gildi fyrr á árinu. M.a. er nú ódýrara fyrir minni gististaði að taka þátt. Nýtt flokkunarviðmiðÞá má geta þess að nýtt flokkunarviðmið hefur verið samþykkt og verða gististaðir flokkaðir eftir þessu nýja viðmiði frá og með 1. janúar 2005. Breytingar þær sem nú hafa verið samþykktar eru hliðstæðar nýjum viðmiðum er tóku gildi í Danmörku um sl. áramót og gististaðir í Svíþjóð, Grænlandi og Færeyjum eru flokkaðir eftir. Nánar um flokkun gististaða  
Lesa meira